Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

347/2007

Reglugerð um menntun fangavarða.

1. gr.

Fangavarðaskólinn, sem rekinn er í samvinnu við Lögregluskóla ríkisins, heyrir undir Fangelsismálastofnun ríkisins.

Hlutverk skólans er fyrst og fremst að veita nemum menntun í almennum fangavarðafræðum og starfandi fangavörðum endur- og símenntun.

2. gr.

Fangelsismálastofnun ræður skólastjóra fangavarðaskólans sem sér um fagleg málefni skólans og umsjónarmann til að annast daglega stjórn hans.

Dómsmálaráðherra skipar fjóra menn í skólanefnd fangavarðaskólans. Nefndin skal skipuð forstjóra fangelsismálastofnunar eða fulltrúa hans, skólastjóra fangavarðaskólans, einum tilnefndum af Fangavarðafélagi Íslands og einum án tilnefningar. Hlutverk skólanefndar er að vera fangelsismálastofnun til ráðgjafar um fagleg málefni skólans, innra skipulag hans og inntöku nemenda.

3. gr.

Fangelsismálastofnun, í samráði við skólanefnd, ákveður hverjir skuli stunda nám í fangavarðaskólanum. Skólanefnd hefur samráð við Lögregluskóla ríkisins um fyrirkomulag náms og kennslu við skólann.

Umsækjendur skulu sækja um skólavist á þar til gerðum eyðublöðum sem skila ber til fangelsismálastofnunar. Áður en umsækjandi fær skólavist skal skólanefnd meta hvort hann fullnægir eftirfarandi skilyrðum til þess að fá inngöngu í fangavarðaskólann:

  1. Vera á aldrinum 20-45 ára.
  2. Hafa ekki gerst brotlegur við refsilög; þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt um liðið frá því það var framið.
  3. Vera andlega og líkamlega heilbrigður samkvæmt læknisskoðun trúnaðarlæknis.
  4. Hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri og hafa gott vald á íslensku auk kunnáttu í ensku eða einu Norðurlandamáli.

Heimilt er að víkja frá ofangreindum skilyrðum um aldur og menntun ef sérstaklega stendur á.

Við mat á umsækjendum skal einkum horft til þeirra eiginleika sem sérstaklega þykja eftirsóknarverðir s.s. heiðarleika, mannúðar, samskiptahæfni og hversu vel umsækjendur eru að öðru leyti til starfsins fallnir.

4. gr.

Fangavarðanám skal vera þrískipt, þ.e. grunnnám, starfsþjálfun í fangelsi að lágmarki í 2 mánuði og framhaldsnám, samtals allt að 9 mánuðum.

Grunnnám skal miða að því að veita haldgóða þekkingu í almennum fangavarðafræðum, starfsemi fangelsa, starfi fangavarða og fullnustu refsinga.

Starfsþjálfun fer fram undir eftirliti forstöðumanns viðkomandi fangelsis og skal henni hagað í samræmi við reglur sem fangelsismálastofnun setur. Í lok starfsnáms skulu viðkomandi varðstjórar skila skýrslu um frammistöðu nemanda til forstöðumanns sem metur hæfi nemanda og sendir skólanefnd umsögn sína. Teljist nemandi, að mati forstöðumanns, óhæfur til að gegna fangavarðastöðu skal skólanefnd meta hvort hann eigi rétt á að halda áfram námi.

Framhaldsnám, sem fer fram eftir að starfsþjálfun lýkur, miðast við að nemendur leysi raunhæft verkefni sem tengist starfinu. Skal nemendum skipt í hópa sem vinni hópverkefni sem skilað er innan ákveðinna tímamarka.

Hafi nemandi starfað sem fangavörður lengur en 6 mánuði samtals er hann undanþeginn starfsþjálfun. Hins vegar skal skólanefnd óska eftir skýrslu forstöðumanns fangelsis um starfshæfni í upphafi skólavistar.

5. gr.

Í lok grunnnámsannar skulu nemendur prófaðir í námsgreinum og þeim gefnar einkunnir fyrir frammistöðu í hverri námsgrein í heilum og hálfum tölum á einkunnastiganum 0 til 10. Til þess að standast próf í námsgrein þarf lágmarkseinkunnina 5,0. Heimilt er, í einstaka greinum, að gefa umsögnina staðist/ekki staðist í stað tölulegrar einkunnar. Nemanda er heimilt að endurtaka próf í tveimur námsgreinum hljóti hann ekki tilskilda lágmarkseinkunn. Standist hann ekki próf í þremur námsgreinum telst hann ekki hafa staðist önnina. Vilji nemandi eigi una mati kennara skal kvaddur til prófdómari. Prófdómari metur viðkomandi úrlausn og skilar áliti sínu til skólanefndar sem tekur ákvörðun um endanlega einkunn nemandans.

Við munnleg próf skal kvaddur til prófdómari.

6. gr.

Fangelsismálastofnun ákveður, í samráði við skólanefnd, námsgreinar í fangavarðanámi og markmið þeirra. Við það skal hafa sérstaka hliðsjón af markmiðum fangelsismálastofnunar varðandi tilgang fullnustu refsinga og rekstur fangelsa sem eru þessi helst:

  1. Að afplánunin fari fram með öruggum hætti þannig að réttaröryggi almennings sé tryggt.
  2. Að draga úr líkum á endurkomu fangans í fangelsi vegna nýrra afbrota.
  3. Að föngum sé tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti séu höfð í fyrirrúmi og að fyrir hendi séu aðstæður og umhverfi sem hvetja fanga til að takast á við vandamál sín.

Veita ber nauðsynlega þjálfun í tæknilegum atriðum sem tengjast starfinu. Leggja skal áherslu á fræðslu í lögum um fullnustu refsinga, reglugerðum þeim tengdum, stjórnsýslulögum, evrópskum fangelsisreglum auk almennrar fræðslu um mannréttindi og þjálfun við að annast fólk af virðingu. Sérstakt námsefni skal miða að reglulegri endurmenntun allra aðila í fangelsiskerfinu.

Fangelsismálastofnun skal setja sérstaka námskrá yfir það sem kenna skal í fangavarðaskólanum. Skráin skal endurskoðuð reglulega.

7. gr.

Fangavörðum ber að viðhalda þekkingu sinni svo sem með þátttöku í námskeiðum sem haldin eru og varða starf þeirra. Þeir skulu ávallt vera vel á sig komnir hvað varðar líkamlegt atgervi. Trúnaðarlæknir fangelsismálastofnunar getur, að beiðni stofnunarinnar, skoðað og metið fangaverði að því er snertir líkamlegt eða andlegt ástand.

8. gr.

Fangavarðaskólinn skal hlutast til um að reglubundið verði haldin námskeið fyrir fangaverði til að stuðla að stöðugri endurmenntun þeirra og sérhæfingu.

9. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 80. gr. laga nr. 49 17. maí 2005 um fullnustu refsinga öðlast þegar gildi.

Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 304 frá 10. apríl 2000.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 29. mars 2007.

Björn Bjarnason.

Anna Sigríður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.