Menntamálaráðuneyti

333/1997

Reglugerð um endurinnritunargjald í framhaldsskólum. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um endurinnritunargjald í framhaldsskólum.

 

1. gr.

            Reglugerð þessi tekur til innheimtu sérstaks gjalds, endurinnritunargjalds, vegna endurinnritunar í bekkjardeild eða námsáfanga. Reglugerð þessi nær ekki til nemenda í öldungadeildum. Óheimilt er að innheimta gjald skv. reglugerð þessari vegna endurtöku- eða sjúkraprófa.

 

2. gr.

            Framhaldsskólum er heimilt að innheimta sérstakt endurinnritunargjald af nemendum við endurinnritun í bekkjardeild eða námsáfanga. Nemandi telst hafa verið innritaður í bekkjardeild eða námsáfanga hafi hann skráð sig og ekki sagt sig úr bekkjardeild eða námsáfanga 5 virkum dögum eftir afhendingu stundatöflu.

            Endurinnriti nemandi sig í bekkjardeild eða námsáfanga og greiði endurinnritunargjald, ber að endurgreiða gjaldið ef nemandinn segir sig úr bekkjardeild eða námsáfanga innan 5 virkra daga eftir afhendingu stundatöflu.

            Skylda til greiðslu endurinnritunargjalds fellur ekki niður þótt nemandi flytjist milli framhaldsskóla eða úr áfangakerfi yfir í bekkjarkerfi og öfugt. Enda þótt nemandi geri hlé á námi hvílir gjaldskylda vegna endurinnritunargjalda á honum í allt að fjögur ár frá lokum síðasta námsáfanga.

 

3. gr.

            Fjárhæð endurinnritunargjaldsins skal vera 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu frá undangenginni önn, sbr. þó 4. gr. Fjöldi ólokinna eininga er samanlagður einingafjöldi þeirra námsáfanga sem nemandi var innritaður í á undangenginni önn að frádregnum samanlögðum einingafjölda þeirra námsáfanga sem nemandi stóðst próf í á sömu önn.

            Í skólum sem starfa eftir bekkjarkerfi skal meta skólaárið til 36 eininga eða 18 eininga á önn.

 

4. gr.

            Í skólum sem starfa eftir áfangakerfi eru 12 einingar á önn undanþegnar gjaldskyldu skv. 3. gr. vegna endurinnritunar. Ef einingar sem nemandi stóðst próf í eru færri en 12 þá skal gjaldstofninn þannig vera mismunurinn á 12 og samanlögðum einingafjölda þeirra námsáfanga sem nemandi var skráður í.

            Í skólum sem starfa eftir bekkjarkerfi skulu 15 einingar á önn undanþegnar gjaldskyldu, eða 30 einingar á skólaári. Gjaldsstofn fyrir nemanda sem endurinnritar sig í bekkjardeild eða sambærilegt nám í skólum sem starfa eftir bekkjarkerfi er því 6 einingar.

 

5. gr.

            Endurinnritunargjöld skal öllu jafnan innheimta um leið og innritunargjöld í framhaldsskólum og skulu þau renna til þess skóla þar sem innritun fer fram. Tekjur sem framhaldsskóli hefur af innheimtu endurinnritunargjalda teljast til sértekna hans og skulu bókfærðar í samræmi við það.

 

6. gr.

            Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. gr. laga nr. 80/1996, sbr. 2. gr. laga nr. 140/1996 og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytinu, 3. júní 1997.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica