Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 30. júlí 2004

303/2003

Reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Til að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans, sbr. ákvæði laga um grunnskóla, nr. 66/1995, með síðari breytingum, skal árlegu lögbundnu framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga á árunum 2003–2006 varið til að styrkja stofnframkvæmdir við grunnskólabyggingar. Skal verja til þessa verkefnis 200 milljónum króna á ári fyrstu þrjú árin en 135 milljónum króna árið 2006.

2. gr.

Ráðstöfunarfé skv. 1. gr. skal varið til að greiða allt að 20% af normkostnaði við grunnskólabyggingar í sveitarfélögum með 2.000 íbúa og yfir, enda hafi sveitarfélag fengið frest til að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lög um grunnskóla nr. 66/1995, samanber lög nr. 104/1999. Við ákvörðun framlaga við upphaf og lok tímabilsins skal miða við byggingarstig framkvæmda 1. janúar 1997 og 1. september 2004.

3. gr.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gerir tillögur til ráðherra um úthlutun framlaga.

Heimilt er að færa til fjármuni sem sveitarfélögin nýta ekki á viðkomandi ári vegna framkvæmda skv. 1. eða 2. málsl. 2. gr. Að öðrum kosti skal sá hluti sem ekki nýtist færður á milli ára innan tímabils skv. 1. gr.

4. gr.

Umsóknum um stofnframlög samkvæmt reglugerð þessari skal skila til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir 1. nóvember 2003 vegna áætlaðra framkvæmda 2004 á eyðublöðum sem sjóðurinn lætur í té. Umsóknunum skulu fylgja málsettar grunnmyndateikningar í stærð A3, sundurliðuð kostnaðaráætlun, greinargerð um framkvæmdina og aðrar nauðsynlegar upplýsingar og fylgigögn.

5. gr.

Úthlutuð framlög hvers árs skulu greidd sveitarfélögum í tvennu eða þrennu lagi eftir framkvæmdahraða, umfangi framkvæmdar og fjárhagsstöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Áður en til greiðslu kemur skulu liggja fyrir gögn frá sveitarfélagi um framkvæmdastig og framkvæmdakostnað, sem staðfest eru af löggiltum endurskoðanda sveitarfélagsins. Skal greiðsla framlags ekki fara fram fyrr en búið er að framkvæma fyrir jafnvirði þess hluta sem koma á til útborgunar, enda hafi jafnframt verið framkvæmt fyrir mótframlag sveitarfélags. Beiðnir sveitarfélaga um greiðslu úthlutaðra stofnframlaga skal senda sjóðnum á eyðublöðum sem hann lætur í té.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett á grundvelli 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 493/1996, um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stofnframkvæmda í grunnskólum sveitarfélaga með 2.000 íbúa og þar yfir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.