Utanríkisráðuneyti

297/1964

Reglugerð fyrir Keflavíkurflugvöll, um umferð, öryggi o.fl. - Brottfallin

REGLUGERÐ

fyrir Keflavíkurflugvöll, um umferð, öryggi o. fl.

1. gr.

Almenn ákvæði.

Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli fer með umboð flugmálastjórnarinnar (ráðherra, sem fer með flugmál og flugráð) á flugvellinum varðandi umráð og rekstur flugvallarins, skv. samningi við Bandaríki Norður Ameríku frá 8. maí 1951.

2. gr.

Almennar reglur um aðflug.

Allar leiðbeiningar til loftfara á umráðasvæði hinna íslenzku flugumferðarstjórnar, sem eru að fara inn á aðflugsstjórnarsvæði Keflavíkurflugvallar, skulu samræmdar milli flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík og aðflugsstórnarinnar á Keflavíkurflugvelli í samræmi við:

a.        Reglur tilgreindar í þessari reglugerð.

b.       Nákvæmlega sundurliðaðar reglur, sem fylgt er, bæði af flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og aðflugsstjórninni á Keflavíkurflugvelli. Slíkar reglur skulu kveða á um takmörk aðflugssvæðis Keflavíkurflugvallar.

Öllum loftförum á leið til Keflavíkurflugvallar skal stjórnað af flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík samkvæmt alþjóða flugreglum (ICAO), þar til þau koma að takmörkum aðflugsstjórnarsvæðis Keflavíkurflugvallar.

Við þessi takmörk skal flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík fyrirskipa loftfarinu að skipta um radíótíðni og nota þá tíðni, sem ætluð er fyrir aðflug. Síðan skal loftfarið fá frá aðflugsstjórn Keflavíkurflugvallar allar leiðbeiningar og fyrirskipanir varaðndi aðflug, biðflug og flug úr skýjum, þar til venjulegum sjónflugskilyrðum er náð, en þá skal breytt um tíðni og haft samband við flugturninn á Keflavíkurflugvelli á fyrirskipuðum tíðnum, og gefur hann loftfarinu allar frekari leiðbeiningar og fyrirskipanir. Loftför mega ekki fara inn á umferðarstjórnarsvæði Kefalvíkurflugvallar án þess að hafa áður fengið til þess leyfi í radíó eða sérstakt leyfi í síma, áður en loftfarið hefur hafið flug frá öðrum stað.

Fyrir loftför, er fara frá Keflavíkurflugvelli, skal gera flugáætlanir, sem skulu afhentar umferðarstjórn flugvallarins fyrir brottför þeirra. Loftför þessi skulu fá akstursleiðbeiningar frá Keflavíkurflugturni í radíó, nema leyfi hafi áður verið veitt loftförum, sem ekki hafa radíótæki, og skal þeim þá leiðbeint með sérstökum ljósmerkjum. Aðflugsstjórn Keflavíkurflugvallar skal í blindflugsskilyrðum gefa leiðbeiningar um brottflugið, og skal hún þá einnig senda loftfarinu hverjar þær leiðbeiningar varðandi flugið yfir hafið, sem flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík óskar. Þegar loftfar kemur að takmörkum aðflugsstjórnarsvæðis Keflavíkurflugvallar, skal það tilkynna aðflugsstjórninni stöðu sína, og fyrirskipar hún þá loftfarinu að nota radíótíðni flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík og fylgja síðan fyrirskipunum hennar. Öll loftför, sem fara án viðkomu um aðflugsstjórnarsvæði Keflavíkurflugvallar, skulu, ef slíkt er talið nauðsynlegt annað hvort af aðflugsstjórn eða flugstjórnarmiðstöðinni, nota radíótíðnir aðflugsstjórnar Keflavíkurflugavallar, og skulu loftförin taka við öllum nauðsynlegum fyrirmælum frá henni varðandi flugið um aðflugsstjórnarsvæðið.

Ef um neyðarástand er að ræða, skal loftfar haga fluginu haga fluginu samkvæmt alþjóðareglum um neyðarástand, og skal þá tekið fullt tillit til öryggis mannslífa og verðmæta, án þess að binda sig við ákvæði þessarar reglugerðar. Þegar svo stendur á, skal formanni flugráðs send bráðabirgðaskýrlsa um málið innan 48 klukkastunda og fullkomin skrifleg skýrsla, eins fljótt og auðið er.

3. gr.

Reglur um aðflugsstjórn og biðflug.

Aðflugstjórn Keflavíkurflugvallar gefur fyrirmæli um, hvaða aðferð skal nota við biðflug eða flug niður úr skýjum. Nota skal aðflugsreglur þær, sem flugöryggisþjónustan gefur út fyrir flugleiðsögutæki flugvallarins.

4. gr.

Reglur um aðflug í sjónflugsskilyrðum.

Loftför, sem koma til eða frá umferðarstjórnarsvæði Keflavíkurflugvallar í sjónflugsskilyrðum, skulu hafa samband við Keflavíkurflugturninn og fá þaðan fyrirmæli um lendingu og flugtak.

5. gr.

Öryggis á flugvellinum.

Slökkvibifreið, sem fær fyrirskipanir frá flugturninum, skal vera staðsett á mótum flugbrautanna, áður en loftför lenda eða hefja flug frá flugvellinum.

Mönnum eða ökutækjum er óheimilt að fara út á flugbrautir eða akbrautir flugvallarins, nema nauðsyn beri til vegna öryggis flugsins eða vegna viðhalds og endurbóta. Ökutæki þessi skulu, áður en þau fara út á flugbraut eða akbraut, hafa fengið leyfi frá turninum, og enn fremur skulu þau fylgjast með ljósmerkjum, sem turninn kann að gefa þeim.

Slysaboðakerfi skal stjórnað úr flugturninum, til þess að öruggt samband sé við björgunarsveit, aðalslökkvistöð, sjúkrahús og aðrar slíkar stöðvar vallarins. Verði flugslys eða annað neyðarástand á flugvellinum, skal flugturninn senda út slysaboð, og skal hver stöð gera það, sem fyrir hana er lagt samkvæmt þeim reglum, sem ákveðnar eru fyrir neyðarástand.

Flugturninum er óheimilt að veita öðrum en þeim aðilum, sem málið beinlínis varðar, upplýsingar um slys. Berist flugturninum tilkynning um flugslys í síma, skal hann leitast við að fá upplýsingar um nafn þess, er tilkynninguna gaf, símanúmer hans, hvenær og hvar slysið skeði, hvers konar slys sé um að ræða, hvers konar neyðarhjálp sé nauðsynleg og aðrar nauðsynlegar upplýsingar. Síðan skal hann strax tilkynna hlutaðeigandi aðilum um slysið.

Nánari fyrirmælum um öryggi á Keflavíkurflugvelli skulu sett í samræmi við almennar reglur.

6. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, allt að 10000.00 krónum, varðahaldi eða fangelsi, ef ekki liggur þyngri refsing við samkvæmt hegningarlögum.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 34 21. maí 1964, um loftferðir, og lögum nr. 110 frá 8. maí 1951.

Öðlast reglugerðin þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Reglugerð fyrir Keflavíkurflugvöll, um umferð, öryggi o. fl. nr. 117 frá 9. október 1948 fellur hér niður.

Utanríkisráðuneytið, 11. nóvember 1964.

Guðm. Í. Guðmundsson.

______________

Hörður Helgason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica