Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

293/2002

Reglugerð um umferð og dvöl manna á varnarsvæðum.

I. KAFLI Skilgreiningar og almenn ákvæði.

1. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:

  1. Varnarsamningurinn: Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbætir við hann um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra frá 8. maí 1951 sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951.
  2. Varnarsvæði: Landsvæði það sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til varna landsins og lýst hefur verið samningssvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins og utanríkisráðherra fer með yfirstjórn á, sbr. ákvæði laga nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. og ákvæði 10. tölul. 14. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969.
  3. Varnarstöð: Varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli, þ.e. svæði Flotastöðvar Bandaríkjanna innan öryggisgirðingar Atlantshafsbandalagsins auk þess hluta flugstöðvar sem er utan girðingar, samanber fylgiskjal með reglugerð þessari.
  4. Varnarliðið: Liðsmenn í varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli úr herliði Bandaríkjanna og starfslið sem herliðinu fylgir og er í þjónustu þess, enda hafi menn þessir hvorki ríkisfang né fasta búsetu á Íslandi, heldur dveljist þar vegna framkvæmdar varnarsamningsins, og skyldulið þeirra. Til varnarliðsins teljast einnig liðsmenn herafla annarra aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins sem uppfylla sömu skilyrði.
  5. Leyfishafar: Íslenskir ríkisborgarar og aðrir þeir, sem ekki eru á ábyrgð varnarliðsins, sem hafa fengið útgefna aðgangsheimild að varnarstöðinni af sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli.

2. gr. Afmörkun gildissviðs.

Reglugerð þessi gildir einvörðungu um íslenska borgara og aðra þá sem ekki eru á ábyrgð varnarliðsins. Ekkert ákvæði reglugerðar þessarar skal túlka þannig að það haggi við skuldbindingum íslenska ríkisins eða takmarki heimildir varnarliðsins til aðgangs, umferðar og löggæslu á varnarsvæðunum samkvæmt varnarsamningnum, einkum 10. tölul. 2. gr. viðbætis við hann og afleiddum samningum, einkum samningi um löggæslu á varnarsvæðunum frá 25. febrúar 1988.

Ekkert ákvæði reglugerðar þessarar skal túlka á þann veg að það torveldi að varnarsvæðin séu nýtt til varna landsins og Norður-Atlantshafssvæðisins í samræmi við ákvæði varnarsamningsins og Norður-Atlantshafssamningsins.

Ekkert ákvæði reglugerðar þessarar skal túlka á þann veg að það takmarki heimildir sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli til að grípa til nauðsynlegra aðgerða, þegar aðrir en varnarliðsmenn og þeir sem varnarliðið ber ábyrgð á eiga í hlut, til að takmarka aðgang að varnarsvæðunum eða umferð um þau vegna hlutverks varnarsvæðanna, öryggissjónarmiða eða ef allsherjarregla krefst þess.

3. gr. Almenn ákvæði um aðgang og dvöl á varnarsvæðum.

Íslenskum starfsmönnum og öðrum, sem eru ekki á ábyrgð varnarliðsins, er því aðeins heimilt að ferðast um og dvelja á varnarsvæðunum að þeir eigi þangað lögmæt erindi. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli úrskurðar um hvort aðgangur skuli heimilaður.

Ákvæðum reglugerðar þessarar um aðgangsheimildir verður ekki beitt gagnvart flugliðum og flugfarþegum á eðlilegri leið þeirra til og frá loftfari á Keflavíkurflugvelli, enda beri þeir á sér gildar ferðaheimildir sem umráðamaður loftfars eða umboðsmaður hans gefur út.

Skylt er að hlíta boðum og bönnum íslenskra yfirvalda og varnarliðsins innan varnarsvæðanna, eftir því sem við á, sbr. 10. tölul. 2. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra og ákvæði samnings um löggæslu á varnarsvæðunum frá 25. febrúar 1988.

Skylt er, að því er varðar umferð og umgengni um varnarsvæðin, að virða sérstöðu svæðanna sem varnarsvæða og hlíta fyrirmælum sem lúta að öryggismálum.

Óheimilt er að valda ónæði eða háreysti á varnarsvæðunum, sem raskar næturró manna, eða hafa í frammi ósæmilega háttsemi. Þá er óheimilt að áreita aðra á almannafæri eða láta falla niðrandi orð um þjóðerni, kynþátt, trúarbrögð, hörundslit eða kynferði.

Uppþot, áflog eða önnur háttsemi, sem raskar allsherjarreglu, má ekki eiga sér stað á almannafæri á varnarsvæðunum og mönnum er óheimilt að þyrpast þar saman eða viðhafa háttsemi sem truflar umferð eða veldur öðrum óþægindum.

II. KAFLI Aðgangsheimildir að varnarstöðinni.

4. gr. Aðgangstakmarkanir og flokkun aðgangsheimilda.

Íslenskum starfsmönnum og öðrum sem eru ekki á ábyrgð varnarliðsins er því aðeins heimilt að ferðast um eða dvelja á svæði varnarstöðvarinnar að þeir eigi þangað lögmæt erindi og hafi gilda aðgangsheimild sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli gefur út.

Aðgangsheimildir greinast í almenn leyfi og skammtímaleyfi. Almenn leyfi eru veitt mönnum sem eiga reglubundin erindi á svæði varnarstöðvarinnar um lengri tíma. Skammtímaleyfi eru veitt einstaklingum og hópum sem eiga afmörkuð erindi inn á svæðið.

5. gr. Útgáfa, takmörkun og afturköllun leyfa og skyldur leyfishafa.

Almenn leyfi skal gefa út til tiltekins tíma. Takmarka má leyfi við tiltekna vikudaga og tilgreindan hluta sólarhringsins. Almennt leyfi skal bundið ákveðnu starfi eða starfsemi og er leyfishafa einungis heimilt að nýta leyfið í þeim tilgangi. Láti leyfishafi af því starfi eða leggi niður þá starfsemi fellur leyfið úr gildi.

Leyfishafar skulu kynna sér ákvæði reglugerðar þessarar áður en aðgangsheimild er útgefin, undirrita yfirlýsingu þar að lútandi og skuldbinda sig til að hlíta ákvæðum reglugerðarinnar.

Heimilt er að afturkalla leyfi tímabundið eða að fullu og öllu fyrirvaralaust ef brýna nauðsyn ber til að vernda öryggishagsmuni ríkisins, grundvallaröryggi í starfsemi varnarliðsins eða liðsmanna þess, almannahagsmuni eða allsherjarreglu á svæði varnarstöðvarinnar með þeim hætti, svo og ef grunur leikur á um að leyfishafi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi.

III. KAFLI Flokkun, útgáfa og notkun aðgangsskírteina að varnarstöðinni.

6. gr. Afmörkun varnarstöðvarinnar.

Aðgangsheimildir að varnarstöðinni flokkast eftir svæðum sem hér segir, samanber fylgiskjal með reglugerð þessari:

Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt þjónustusvæði (svæði 1):

1a Áningarsvæði, landgangshús og landgangur í flugstöð.
1b Farangursskáli og flughlöð.
1c Önnur athafna- og þjónustusvæði innan öryggis- og tollsvæðis með aðkomuleið um öryggishlið á þjónustusvæði.
1d Flugbrautir og flugvélaakbrautir samkvæmt nánari ákvörðun flugvallarstjóra.

Flotastöð varnarliðsins (svæði 2):

Athafnasvæði varnarliðsins, verktaka þess og annarra stofnana með starfsemi þar og íbúðasvæði varnarliðsins.

Bannsvæði (svæði 3):

3a Bannsvæði af öryggisástæðum.
3b Bannsvæði af öryggisástæðum sem varnarliðið skilgreinir sérstaklega.

7. gr. Útgáfa aðgangsskírteina.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli gefur út skírteini því til sönnunar að aðgangsheimild hafi verið veitt að svæði varnarstöðvarinnar fyrir íslenska ríkisborgara og aðra þá sem ekki eru á ábyrgð varnarliðsins.

8. gr. Útgáfa skammtímaskírteina.

Sýslumaður gefur út skammtímaskírteini, sem veita aðgang að svæði 1a, svæði 2 og svæði 3a, fyrir einstaka menn eða hópa sem eiga afmörkuð erindi inn á viðkomandi svæði. Flugvallarstjóri gefur úr skammtímaskírteini sem veita aðgang að svæði 1b, 1c og 1d. Sýslumanni er einnig heimilt að gefa út skammtímaskírteini fyrir starfsmenn í vinnuflokkum sem er ætlað að vinna í skamman tíma innan varnarstöðvarinnar. Flokkstjóri slíks vinnuflokks skal þó jafnan vera með almennt aðgangsskírteini og bera ábyrgð á starfsmönnum sínum.

9. gr. Útgáfa almennra skírteina.

Sýslumaður gefur út skírteini, sem veita aðgang að svæðum 1, 2 eða 3a, til lengri tíma fyrir þá menn sem fá almenn aðgangsleyfi. Um er að ræða íslenska starfsmenn varnarliðsins, starfsmenn fyrirtækja, sem hafa með höndum starfsemi innan varnarstöðvarinnar, og aðra þá sem eiga reglubundin erindi inn á svæði varnarstöðvarinnar. Gildistími slíkra skírteina fyrir fastráðna starfsmenn skal vera þrjú ár. Skírteini fyrir aðra starfsmenn skulu gilda út ráðningartíma viðkomandi starfsmanns, en í öllu falli ekki lengur en eitt ár.

10. gr. Gerð almennra skírteina fyrir svæði 1.

Í skírteinum sem veita aðgang að svæði 1, samkvæmt reglum þessum, skulu vera nafn leyfishafa, ljósmynd af honum, kennitala hans, nafn vinnuveitanda, gildistími og stimpill og undirritun sýslumanns og áletrunin "Keflavíkurflugvöllur".

Gildissvæði skírteinanna eru auðkennd með mismunandi grunnlitum og litatáknum sem hér segir:

Grunnlitir:

a) Hvítur. Fyrir starfsmenn sem starfa í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
b) Grænn. Fyrir þá erlenda stjórnarerindreka og þá starfsmenn skrifstofu forseta Íslands, forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, sem þurfa starfs síns vegna að hafa aðgang að áningarsvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, og fyrir framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Gestir geta verið í fylgd handhafa þessara skírteina án sérstakrar aðgangsheimildar, að fengnu leyfi vakthafandi löggæslufulltrúa, en skulu bera sérstök bráðabirgðaaðgangsskírteini sé þess óskað. Leyfishafi er ávallt ábyrgur fyrir fylgdarmönnum sínum.
c) Dökkblár. Fyrir þá starfsmenn utanríkisráðuneytisins, sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og flugvallarstjóra sem stjórna öryggismálum á varnarsvæðunum. Aðgangur handhafa þeirra er ótakmarkaður og er þeim heimilt að hafa með sér gesti án sérstakrar aðgangsheimildar.

Litatákn:
Á skírteininu skal vera ferningur sem greinist í fernt með línum sem dregnar eru horna á milli. Hver þríhyrndur flötur innan ferningsins táknar tiltekin svæði í eða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sbr. 6. gr. hér að framan.

a) Gulur: Svæði 1a.
b) Rauður: Svæði 1b.
c) Grænn: Svæði 1c.
d) Brúnn: Svæði 1d.

11. gr. Gerð almennra skírteina fyrir svæði 2 og svæði 3a.

Skírteini, sem veita aðgang að svæði 2 og svæði 3a, skulu auðkennd með orðunum "Keflavíkurflugvöllur – varnarstöð". Á skírteinunum skal vera merki varnarstöðvarinnar á framhlið, nafn og kennitala leyfishafa, nafn vinnuveitanda hans og gildistími skírteinisins. Á bakhlið skal vera stimpill og undirritun sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.

Varnarliðið gefur út sams konar skírteini fyrir liðsmenn varnarliðsins og þá, sem eru á ábyrgð þess, sbr. ákvæði 4. gr., þar sem stimpill og undirritun yfirmanns varnarstöðvarinnar eru á bakhlið skírteinisins.

Í samræmi við samninga milli Íslands og Bandaríkjanna getur sýslumaður ákveðið, án fyrirvara, að skírteini, sem veita aðgang að svæðum 2 og 3a, veiti einnig aðgang að svæði 1.

12. gr. Umsókn um skírteini.

Umsókn um skírteini skal vera á þar til gerðu eyðublaði sem skal liggja frammi á skrifstofum sýslumannsembættisins og flugvallarstjóra. Vinnuveitendur skulu sækja um skírteini fyrir starfsmenn sína.

Til að fá útgefin hvít skírteini fyrir svæði 1 skal afla samþykkis flugvallarstjóra. Leita skal álits flugvallarstjóra vegna útgáfu grænna skírteina fyrir svæði 1.

13. gr. Gjaldtaka fyrir útgáfu skírteina.

Umsækjandi um skírteini skal greiða gjald til sýslumanns til að standa straum af kostnaði við útgáfu skírteinisins og umsýslu tengdri skírteinaútgáfu. Ákvæði um flokkun og fjárhæð gjaldtöku skulu sett í sérstakri gjaldskrá.

14. gr. Skil skírteina.

Skírteini er eign sýslumannsembættisins og skal því skilað þegar gildistími þess er útrunninn, það hefur verið afturkallað eða leyfishafi er hættur þeim störfum eða hefur lagt niður þá starfsemi sem var ástæða útgáfu skírteinisins. Notkun útrunninna skírteina er bönnuð.

Glatist skírteini skal það þegar tilkynnt sýslumanni og umsókn fyllt út að nýju, ef gefa þarf út nýtt skírteini.

15. gr. Notkun skírteina.

Leyfishafa ber ávallt að bera á sér skírteini um aðgangsheimild innan varnarstöðvarinnar og framvísa því sé þess krafist af lögbærum fulltrúum yfirvalda eða varnarliðsins svo og af eftirlitsmönnum mannvirkja. Sýslumaður getur ákveðið að tilteknum hópum leyfishafa eða þeim öllum sé, á tilteknum svæðum eða tilteknum tímum, skylt að bera skírteini á sér þannig að þau séu sýnileg. Ákvörðun um slíkt skal kynna með greinilegum hætti. Notkun skírteina í blóra við ákvæði reglugerðarinnar skal sæta viðurlögum.

IV. KAFLI Viðurlög.

16. gr. Viðurlög.

Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, 141. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1988 um lögreglusamþykktir skal brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum og allt að þrefaldri sektarupphæð við ítrekað brot. Samhliða er sýslumanni heimilt að ákveða að svipta leyfishafa aðgangsheimild að varnarstöð tímabundið, eða að fullu og öllu við ítrekað brot. Sýslumanni er heimilt að skilorðsbinda sviptingu á þann veg að framkvæmd hennar frestast haldi leyfishafi skilorð í tvö ár og falli niður að þeim tíma liðnum. Sérlega alvarleg brot sæta frekari sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Séu skilyrði fyrir veitingu aðgangsheimildar ekki lengur fyrir hendi eða ef leyfishafi hefur brotið gegn ákvæðum reglugerðar þessarar getur sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli svipt leyfishafa aðgangsheimild tímabundið, eða að fullu og öllu við ítrekað brot. Ákvörðun um sviptingu skal rökstödd og leyfishafa skal gefinn kostur á að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun er tekin. Sýslumaður getur, ef þörf er á eðli máls samkvæmt, afturkallað tímabundið aðgangsheimild leyfishafa að svæði varnarstöðvarinnar meðan á meðferð máls stendur.

Kæra má ákvörðun um sviptingu leyfis til utanríkisráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun er tekin.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

17. gr. Gildistaka og brottfall.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 10. gr. laga nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, 1. mgr. 70. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, sbr. reglugerð fyrir Keflavíkurflugvöll nr. 254/1973 um umferð, öryggi o.fl. og lögum nr. 36/1988 um lögreglusamþykktir, sbr. einnig lög nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. og ákvæði 10. tölul. 14. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 81/1990 um takmörkun umferðar og dvalar á svæði Keflavíkurflugvallar og reglur frá 27. febrúar 1990 settar á grundvelli hennar.

Ákvæði til bráðabirgða.

Aðgangsskírteini, sem eru gefin út með heimild í reglugerð nr. 81/1990 og veita aðgang að svæðum 2 og 3a, skulu halda gildi sínu til 1. ágúst 2002. Önnur aðgangsskírteini, sem gefin hafa verið út með heimild í eldri reglugerð, skulu gilda til 1. desember 2002.

Utanríkisráðuneytinu, 5. apríl 2002.

Halldór Ásgrímsson.

Sverrir H. Gunnlaugsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.