Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

280/2005

Reglugerð um slysatryggingar við heimilisstörf. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um slysatryggingu við heimilisstörf samkvæmt 25. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993.

Sá sem fyllir út viðeigandi reit á skattframtali í byrjun árs telst slysatryggður við heimilisstörf frá 1. ágúst það ár til 31. júlí árið eftir, enda hafi skattframtalinu verið skilað til skattyfirvalda innan lögbundins frests.

Ekki er unnt að óska eftir slysatryggingu við heimilisstörf eftir að skattyfirvöld hafa móttekið skattskýrslu.


2. gr.

Slysatryggingin nær til heimilisstarfa, sbr. 3. gr., sem innt eru af hendi hér á landi sem hér segir:

1. Á heimili hins tryggða.
2. Í bílskúr og geymslum við heimili hins tryggða.
3. Í afmörkuðum garði umhverfis heimili hins tryggða.
4. Í sumarbústað þar sem hinn tryggði dvelur.


3. gr.

Til heimilisstarfa í reglugerð þessari teljast eftirtalin störf, séu þau ekki liður í atvinnustarfsemi hins tryggða:

1. Hefðbundin heimilisstörf, svo sem matseld og þrif.
2. Umönnun sjúkra, aldraðra og barna.
3. Almenn viðhaldsverkefni, svo sem málning innanhúss og minni háttar viðgerðir. Með minni háttar viðgerðum er átt við einfaldar viðgerðir með einföldum og hættulitlum verkfærum sem almennt má gera ráð fyrir að séu til á flestum heimilum og viðgerðirnar séu á færi flestra að sinna.
4. Hefðbundin garðyrkjustörf.


4. gr.

Undanskilin slysatryggingu við heimilisstörf eru m.a.:

1. Slys sem hinn tryggði verður fyrir við aðrar viðhaldsframkvæmdir en taldar eru í 3. tl. 3. gr., svo sem múrbrot, uppsetningu innréttinga, lagningu gólfefna, málningu utanhúss, bílaviðgerðir og aðrar viðhaldsframkvæmdir þar sem notuð eru verkfæri sem stafað getur hætta af, svo sem rafknúnar sagir.
2. Slys sem hinn tryggði verður fyrir við ýmsar daglegar athafnir sem ekki teljast til hefðbundinna heimilisstarfa, svo sem að klæða sig og baða, borða, svara í síma og sækja póst.
3. Slys sem hinn tryggði verður fyrir á ferðalögum, svo sem í tjaldi, hjólhýsi og á hóteli.


5. gr.

Reglugerð þessi sem sett með stoð í 66. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 15. mars 2005. Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma reglur nr. 527/1995 um slysatryggingar við heimilisstörf.

Trygging þeirra sem hafa slysatryggt sig við heimilisstörf á skattframtali 2004 framlengist sjálfkrafa til 31. júlí 2005, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 527/1995.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 14. mars 2005.

Jón Kristjánsson.
Ragnheiður Haraldsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica