Umhverfisráðuneyti

231/1996

Reglugerð um breyting á byggingarreglugerð nr. 177/1992, með síðari breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

 1. gr.

Í staðinn fyrir gr. 3.4.9. komi eftirfarandi:

 

3.4.9.       Byggingareiningar og hús byggð utan lóðar.

 

3.4.9.1.

Byggingareining (húseining, húshluti, byggingarhluti) sem framleidd er í verksmiðju eða á verkstæði og ætlað er ákveðið sérhæft hlutverk í byggingu skal ávallt bera vottun skv. ákvæðum í gr. 7.0.3.

Löggiltur hönnuður sem notar byggingareiningar skal sannprófa að vottun þeirra sé í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar og síðan ber hann ábyrgð á að notkun þeirra sé í samræmi við vottaða eiginleika. Byggingarmeistari sá er annast uppsetningu eininganna undirritar yfirlýsingu sbr gr. 3.4.3. og 4.2. um að hann ábyrgist að uppsetning, ísetning og samsetning sé í samræmi við hönnunargögn.

Hús sem hannað er og/eða framleitt án þess að tiltekinn kaupandi eða byggingarlóð sé fyrir hendi skal bera vottun skv. gr. 7.0.3., eða fá meðferð skv. gr. 3.4.9.2. Átt er við hús sem getur verið framleitt í verksmiðju eða á verkstæði og er flutt á lóð í heilu lagi eða í einingum, tilbúnum til uppsetningar. Vottun þeirra húsa skal ná til eininga þeirra ef um byggingareiningar er að ræða og til heildarinnar eins og hún er boðin fram á markaði.

Löggiltur hönnuður, sá er leggur inn byggingarnefndarteikningar, og þolhönnuður skulu sannprófa að vottun hússins sé í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar og síðan bera þeir ábyrgð á staðfærslu þess hvor á sínu sviði.

 

3.4.9.2.

Sumarbústað eða sambærilegu húsi sem byggt er utan endanlegrar lóðar á hefðbundinn hátt skal fylgja vottorð frá byggingarfulltrúa þess svæðis sem hann er byggður á og skal þar koma fram hverjir eru hönnuðir, hver ábyrgur meistari, stærðir hússins, úttekt á burðargrind, festingum, einangrun og rakavarnarlagi. Hús þannig byggð skal einkenna með brennimarki eða á annan hátt sem byggingarfulltrúi viðurkennir.

Vottorð skal hafa borist til þess byggingarfulltrúa sem veitir endanlegt byggingarleyfi áður en leyfið er gefið út og flutningur hússins fer fram. Áritaðar burðarþolsteikningar skulu fylgja vottorði. Viðurkenndur húsasmíðameistari skal rita sig á verkið samkvæmt almennri reglu og bera ábyrgð á því að þær úttektir sem fram þurfa að fara eigi sér stað, þannig að fullnægjandi vottorð verði gefið út.

 

2. gr.

Breytt er tveimur gr. í kafla 6.10. og nýrri gr. bætt við með svofelldum hætti:

 

6.10.7.10. orðist svo:

Ekki mega hjólhýsi, tjaldvagnar eða hliðstæðar vistarverur standa lengur á sömu lóð en einn mánuð án sérstaks stöðuleyfis byggingarnefndar. Á lögbýlum getur byggingarnefnd veitt leyfi fyrir eitt hjólhýsi í allt að eitt ár í senn. Byggingarnefnd getur í sérstökum tilfellum t.d. vegna byggingarframkvæmda á lóð, veitt tímabundið leyfi fyrir hjólhýsi enda verði það fjarlægt þegar byggingarframkvæmdum er lokið.

Áður en byggingarnefnd veitir leyfi fyrir hjólhýsi skal sýnt fram á hvernig aflað verði vatns og frárennslismál leyst, sbr. ákvæði heilbrigðisreglugerðar og mengunarvarnareglugerðar.

Um gjaldtöku vegna úttektar og eftirlits byggingarfulltrúa vegna stöðuleyfis hjólhýsa fer skv. 9.2.4.

 

Ný gr. 6.10.7.11. bætist við:

Vöruflutningagámar skulu ekki standa utan skipulagðra gámasvæða lengur en einn mánuð í senn nema með sérstöku stöðuleyfi byggingarnefndar. Byggingarnefnd getur í sérstökum tilfellum, svo sem vegna byggingarframkvæmda, þjónustu eða sorpsöfnunar veitt tímabundið leyfi allt að eitt ár í senn. Gámar sem veitt er leyfi fyrir, utan þéttbýlis, skulu vera dökkgrænir að lit, sbr. staðlaðan felulit Náttúruverndarráðs.

Um gjaldtöku vegna úttektar og eftirlits byggingarfulltrúa vegna stöðuleyfis á gámum fer skv. gr. 9.2.4.

 

6.10.8.2. orðist svo:

Byggingarnefnd getur veitt stöðuleyfi fyrir hjólhýsi og húsvagna til eins árs á almennum tjald- eða hjólhýsasvæðum þar sem slíkt er ákveðið í skipulagi. Ef ekki er annað tekið fram í deiliskipulagi skulu reitir undir hvert hjólhýsi og húsvagn vera a.m.k. 130 m2 að stærð og fjarlægð milli hjólhýsa og fortjalda við þau a.m.k. 10 m.

Byggingarnefnd setur reglur um slík leyfi m.a. varðandi frágang, öryggismál og árstíðarbundinn notkunartíma. Slík leyfi jafngilda ekki byggingarleyfi, heldur veita þau einungis rétt til að tiltekið hjólhýsi standi á tilteknu stæði að uppfylltum kröfum byggingarnefndar. Óheimilt er að byggja við hjólhýsi. Hjólhýsið getur ekki talist bygging nema að uppfyllt séu ákvæði gr. 3.4.9.1 og 7.0.3.

Um gjaldtöku vegna úttektar og eftirlits byggingarfulltrúa vegna stöðuleyfis hjólhýsa fer skv. 9.2.4.

 

3. gr.

7.0.3. orðist svo:

Byggingarvörur á markaði skulu uppfylla ákvæði reglugerðar um viðskipti með byggingarvörur nr. 431/1994 og bera merki og vottorð í samræmi við kröfur hennar. Ábyrgðaraðila (framleiðanda eða innflytjanda) er skylt að halda skrá yfir öll efni, tæki og byggingarhluta er hann hefur á boðstólum og hafa tiltæk afrit af vottorðum eða prófunarskýrslum frá prófunarstofu með faggildingu á viðkomandi byggingarsviði, svo m.a. sé unnt á fullnægjandi hátt að meta notkunarsvið vörunnar.

Á meðan ekki eru starfandi faggiltar prófunarstofur hér á landi skal krafist vottorða frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Brunamálastofnun eða öðrum þar til bærum aðilum eftir því sem við á og umhverfisráðuneytið viðurkennir.

Telji byggingarfulltrúi ósannað að vara uppfylli kröfur byggingarreglugerðar getur hann krafið ábyrgðaraðila um vottorð er sýni fram á viðurkennt notkunarsvið vörunnar á fullnægjandi hátt.

 

4. gr.

Ný grein 8.2.4. komi um svalaskýli og orðist svo:

 

8.2.4.       Sérstakar kröfur vegna svalaskýla.

 

8.2.4.1.                   

Í húsi sem er allt að fjögurra hæða hátt og hæð upp í neðri brún björgunaropa efstu hæðar er mest 10,8 m yfir jörð, getur byggingarnefnd heimilað húseiganda að setja skýli á svalir ef húsið fullnægir kröfum um brunavarnir í samræmi við ákvæði brunamálareglugerðar.

Byggingarnefnd er heimilt að veita leyfi fyrir svalaskýlum í húsum allt að átta hæða háum, á þeim stöðum sem slökkvilið hefur yfir að ráða stigabíl sem nær að svölunum frá björgunarsvæðum sbr. gr. 7.6. í reglugerð um brunavarnir og brunamál.

Með svalaskýli er átt við að byggður sé opnanlegur skjólveggur utan um svalirnar, en svölunum ekki breytt að öðru leyti. Rýmið sem þannig myndast skal vera óupphitað og frágangur á því þ.m.t. gólfniðurfall, í samræmi við gr. 8.2.3.1.

 

8.2.4.2.                   

Bygging svalaskýlis er háð leyfi byggingarnefndar, sbr. gr. 3.1.1.

Í fjöleignarhúsum skal sækja um byggingarleyfi fyrir svalaskýlum sem gildir fyrir allt húsið samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús. Með umsókninni skal fylgja skriflegt samþykki allra eigenda, sbr. 41. gr. í lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús.

Með umsókn skal fylgja ítarleg úttektarskýrsla hönnuðar á núverandi brunavörnum hússins og hvaða endurbætur verði gerðar á þeim. Úttektin skal m.a. taka til milligólfa, veggja og allra hurða að sameign (íbúðir, geymslur o.þ.h.), frágangs við lagnir þ.m.t. útsogskerfi frá eldhúsum og böðum, aðkomu slökkviliðs o.fl.

Með umsókn skulu fylgja nákvæmar teikningar, efnis- og verklýsingar sem sýna m.a. opnunarbúnað sem skal vera samþykktur af Brunamálastofnun ríkisins.

Sjá skal fyrir fullnægjandi loftræstingu í þeim herbergjum sem lokast af vegna svalaskýlisins.

 

8.2.4.3.                   

Loka skal milli stigagangs og annarra rýma en íbúða, svo sem geymslna og þvottahúss, með hurð A60, sjálflokandi og reykþéttri. Þegar svo háttar til, að gluggar sem geta nýst til reyklosunar eru á þessum rýmum, eða þau eru minni en 10 m2 má nota B30 hurð, sjálflokandi og reykþétta.

Í opnum stigahúsum, þar sem gengið er beint úr stigahúsi inn í íbúð, skal komið fyrir a.m.k. 1 m2 reyklúgu sem stýrð er af reykskynjara í stigahúsinu auk handopnunar sbr. gr. 5.1.3. í brunamálareglugerð.

Hurðar að íbúðum skulu vera B30, eða B60 þar sem þess er krafist í brunamálareglugerð, og reykþéttar (heitur og kaldur reykur) sbr. gr. 10.4.1. í brunamálareglugerð.

Milli svalaskýlis og íbúðar skal vera reykþéttur byggingarhluti, (útveggurinn) og er óheimilt að fjarlægja hann eða opna á annan hátt á milli íbúðar og svalaskýlis.

Í svalaskýlið skal að jafnaði nota einfalt gler. Óheimilt er að nota plast eða önnur efni sem erfitt er að brjóta.

Eingöngu skal nota renniglugga eða hliðarhengda glugga. Lágmarksstærð ops skal ekki vera minni en 1,8 m2 og minnsta kantmál 1,0 m. Hæð upp í neðri brún ops skal uppfylla ákvæði í gr. 8.2.1.38 um hæð handriða á veggsvölum.

Greiðfært skal vera með létta stiga að þeim húshliðum þar sem svalaskýlin eru. Við allt að fjögurra hæða hús getur slökkviliðsstjóri gert kröfu um björgunarsvæði í samræmi við gr. 7.6.2. í brunamálareglugerð meðfram þeirri húshlið þar sem svalaskýlin eru. Sleppa má björgunarsvæðinu þeim megin, þegar hægt er að ná til viðkomandi íbúðar frá gagnstæðri húshlið með stigabíl (t.d. frá bílastæðum) enda séu björgunarop á öllum herbergjum þeim megin.

 

8.2.4.4.                   

Bygging svalaskýla er úttektarskyld, sbr. gr. 4.11.

Byggingarfulltrúi skal staðfesta með úttektarvottorði, að þeim breytingum sem gera þarf á húsinu sé lokið áður en hafist er handa við byggingu svalaskýlis.

 

5. gr.

Gr. 9.2. og 9.3. verði svohljóðandi:

 

9.2.          Gjöld fyrir byggingarleyfi, mælingar, úttektir og vottorð.

 

9.2.1.      

Fyrir leyfi til að reisa hús eða annað mannvirki getur sveitarstjórn innheimt gjald allt að kr. 2.250, að auki fyrir nýbyggingar allt að kr. 22,50 fyrir hvern teningsmetra af rúmmáli byggingarinnar. Botnplata skal ekki reiknuð með í rúmmáli.

Fyrir leyfi til að breyta húsi eða notkun þess, að rífa hús eða önnur mannvirki, gera bifreiðastæði eða önnur þau mannvirki, sem áhrif hafa á útlit umhverfisins, sbr. gr. 3.1.1. getur sveitarfélagið innheimt allt að kr. 2.250.

 

9.2.2.      

Fyrir stakar byggingar utan þéttbýlis á svæði sem ekki hefur verið samþykkt deiliskipulag fyrir getur sveitarstjórn, auk fastagjaldsins sem er kr. 2.250, innheimt allt að kr. 112,50 fyrir hvern teningsmetra byggingarinnar. Þessar byggingar eru sumarbústaðir, veiðihús, fjallaskálar, skíðaskálar, sæluhús o.fl.

 

9.2.3.      

Sveitarstjórn getur innheimt fyrir mælingar á staðsetningu húsa og útsetningar lóðarpunkta húss allt að kr. 20.000 í eitt skipti.

 

9.2.4.      

Fyrir eftirlit og úttekt byggingarfulltrúa sem leiðir af veitingu stöðuleyfis byggingarnefndar fyrir hjólhýsi eða gáma getur sveitarstjórn innheimt allt að kr. 3.750 hverju sinni.

 

9.2.5.                      

Ef byggingarfulltrúi er að óþörfu kvaddur til eftirlits getur sveitarstjórn innheimt allt að kr. 3.750.

 

9.2.6.

Gjöld verða ekki endurgreidd þótt leyfi falli úr gildi vegna þess að það hefur ekki verið notað innan árs, eða hefur fallið úr gildi. Verði leyfið endurnýjað óbreytt getur sveitarstjórn innheimt fyrir það allt að kr. 2.250.

 

9.2.7.

Þegar byggingarfulltrúi gerir úttekt á húsi getur hann krafist þess að hlutaðeigandi meistarar séu viðstaddir og hafi samþykkta uppdrætti í höndunum. Jafnan á meistari rétt á að vera viðstaddur er skoðun fer fram.

Fyrir úttektir, samanber gr. 4.11, liðir 1-12 í reglugerð þessari, getur sveitarstjórn innheimt allt að kr. 2.250 fyrir hverja úttekt. Úttektargjöld samkvæmt þessari málsgrein má innheimta með byggingarleyfisgjaldi samkvæmt áætlun um fjölda úttekta.

 

9.2.8.

Þegar smíði húss er að fullu lokið, skal byggingarfulltrúi gera lokaúttekt og láta í té vottorð um það þegar þess er óskað. Slík vottorð má ekki gefa út nema að gengið sé úr skugga um að fullnægt hafi verið öllum tilskildum ákvæðum um gerð og búnað sem krafist er fyrir íbúðarhúsnæði og starfsemi, sé um atvinnuhúsnæði að ræða.

Sveitarstjórn getur innheimt fyrir hvert vottorð sem byggingarfulltrúi gefur út skv. beiðni allt að kr. 5.000.

 

9.2.9.

Ekki má flytja inn í ófullgert húsnæði eða hefja starfsemi í því nema ákvæðum varðandi hollustuhætti og öryggi sé fullnægt.

 

9.2.10.

Gjöld samkvæmt þessum kafla miðast við vísitölu byggingarkostnaðar 1. janúar 1996, sem var 205.5 og breytast eftir henni. Ber í því efni að miða við vísitölu byggingarkostnaðar 1. janúar ár hvert.

 

9.2.11.

Byggingarfulltrúi innheimtir öll gjöld samkvæmt þessum kafla fyrir hönd sveitarstjórnar. Skulu leyfi eigi veitt fyrr en tilskilin gjöld hafa verið greidd. Öll gjöld samkvæmt þessum kafla má innheimta með fjárnámi.

 

6. gr.

Gr. 9.4. verði 9. 3.

 

7. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 4. gr. og VII. kafla byggingarlaga nr. 54/1978, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

 

Umhverfisráðuneytinu, 15. apríl 1996.

Guðmundur Bjarnason.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica