Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

227/1992

Reglugerð um málaskrár og gerðabækur fyrir nauðungarsölur

I. KAFLI Málaskrár sýslumannsembætta.

1. gr.

Við hvert sýslumannsembætti skal haldin málaskrá um nauðungarsölur, eftir atvikum tölvufærð.

Í málaskrá skal greint milli eigna, sem er krafist nauðungarsölu á, og upplýsingar færðar í hana eftir því um hvaða eign er að ræða hverju sinni. Ef nauðungarsala tekur til tveggja eða fleiri eigna í sameiningu skulu upplýsingar þó færðar í málaskrá í einu lagi um þær báðar eða allar.

Nauðungarsala á hverri eign skal auðkennd með sjö tölustafa númeri í málaskrá eftir því sem beiðni berst fyrst um hana. Skulu fyrstu tvær tölur í málanúmeri vera ártal og síðan fimm tölustafir úr óslitinni númeraröð innan hvers árs.

2. gr.

Þegar beiðni berst sýslumanni um nauðungarsölu skulu upplýsingar færðar um hana í málaskrá svo fljótt sem verða má.

Ef eldri beiðni um nauðungarsölu á sömu eign er ekki til meðferðar skulu upplýsingar færðar um eftirfarandi í málaskrá:

  1. Heiti eignar með auðkennum af þeirri nákvæmni sem er kostur hverju sinni.
  2. Málanúmer skv. 3. mgr. 1. gr.
  3. Nafn gerðarþola, kennitala og heimilisfang.
  4. Nafn gerðarbeiðanda og eftir atvikum umboðsmanns hans ásamt kennitölu og heimilisfangi þess/þeirra, sem tilkynningum verður beint til.
  5. Hvaða dag beiðni er móttekin.
  6. Á grundvelli hvers konar heimildar nauðungarsölu er krafist.
  7. Á hvaða heildarfjárhæð er leitað fullnustu með nauðungarsölu ef því er að skipta.

Ef beiðni varðar eign, sem nauðungarsölu hefur þegar verið krafist á, og farið verður með nýju beiðnina í sameiningu við þá eldri skulu færðar í málaskrá upplýsingar um nýju beiðnina skv. 4. - 7. tölul. 2. mgr. til viðbótar við það sem hefur áður verið fært vegna eldri beiðni.

Eftir því sem nauðungarsölu á eign vindur fram og á við hverju sinni skal eftirfarandi fært í málaskrá:

  1. Hvenær nauðungarsalan er tekin fyrst fyrir af sýslumanni.
  2. Hvenær uppboð er haldið ef eign er ráðstafað með þeim hætti.
  3. Hvenær sala á almennum markaði hefur verið ákveðin ef sú leið er farin til að ráðstafa eign, hvenær nauðungarsalan er tekin fyrir í því skyni og hverjum er falið að leita boða í eignina.
  4. Afdrif einstaka beiðna um nauðungarsöluna sem eru afturkallaðar, felldar niður eða vísað á bug.
  5. Hvenær nauðungarsölunni lýkur og hvernig.

3. gr.

Ef málaskrá er tölvufærð skal hún eftir atvikum gerð þannig úr garði að unnt sé að færa í hana atriði skv. 3., 4., 6. og 7. tölul. 2. mgr. 2. gr. af tölvudisklingum sem gerðarbeiðendur láta í té ásamt beiðnum sínum.

Afrit af tölvufærðri málaskrá skal tekið minnst vikulega, enda hafi þá sýslumanni borist ekki færri en tuttugu beiðnir um nauðungarsölu frá því síðasta afrit var tekið.

Upplýsingar í tölvufærðri málaskrá skulu varðveittar fram yfir næstu áramót eftir að nauðungarsölu lýkur.

4. gr.

Aðilar að nauðungarsölu eiga rétt á að fá upplýsingar úr málaskrá um mál sem varða þá. Sá sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta á einnig rétt á upplýsingum úr málaskrá.

II. KAFLI Varðveisla gagna við sýslumannsembætti.

5. gr.

Framlögð gögn skulu varðveitt í skjalasafni hlutaðeigandi sýslumannsembættis þar til þau verða afhent Þjóðskjalasafni.

Öðrum en aðila að nauðungarsölu verður ekki afhent gagn sem hann lagði fram nema með samþykki hans.

6. gr.

Sýslumanni er skylt að láta þeim, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, í té staðfest eftirrit af framlögðu skjali og endurrit úr gerðabók eftir því sem þess er beiðst.

III. KAFLI Gerðabækur sýslumanna.

7. gr.

Sýslumaður skal halda gerðabók fyrir nauðungarsölur og skal form hennar vera annaðhvort:

  1. Handrituð bók með tölusettum blaðsíðum þar sem sýslumaður hefur ritað á titilsíðu að um gerðabók sé að ræða til þessara nota.
  2. Vélrit eða útprentun úr tölvu á laus blöð sem eru þá undirrituð af þeim sem framkvæmir aðgerð við nauðungarsölu, en slík blöð skulu varðveitt í lausblaðabókum eða öskjum þar sem þeim er raðað eftir dagsetningu aðgerða.

IV. KAFLI Málaskrár héraðsdómstóla.

8. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal haldin skrá um ágreiningsmál sem eru rekin skv. 4. þætti laga um nauðungarsölu og skal færa þar eftirfarandi atriði:

  1. Móttökudag kröfu um úrlausn ágreinings.
  2. Nafn sóknaraðila, varnaraðila og umboðsmanna þeirra.
  3. Hver eignin er sem mál um nauðungarsölu varðar.
  4. Hvert ágreiningsefnið er.
  5. Hver annast afgreiðslu máls við dómstólinn. 6. Hvernig og hvaða dag máli lýkur.

V. KAFLI Gildistaka o.fl.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 4. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90 23. desember 1991 öðlast gildi 1. júlí 1992.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 19. júní 1992.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn Geirsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.