Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 1998

219/1978

Reglugerð um stimpilgjald af vátryggingarskjölum

1. gr.

Vátryggingarskjöl skulu stimpluð samkvæmt reglugerð þessari.

3. gr.

Skírteini fyrir brunatryggingar á lausafé, innbústryggingar, heimilistryggingar, glertryggingar, vatnstjónstryggingar á lausafé, innbrots- og þjófnaðartryggingar, vélstöðvunartryggingar, lekatryggingar, byggingatryggingar, (CAR-tryggingar, "construction"-tryggingar), altjónstryggingar ("allrisk"-tryggingar), rekstrarstöðvunartryggingar og aðrar skaðatryggingar á fasteignum eða lausafé en þær er um getur í 4., 5., 6., 7. og 10. gr. r eglugerðar þessarar skulu stimplaðar með 0.60 kr. af þúsundi eða brot úr þúsundi af vátryggingarfjárhæðinni.

4. gr.

Skírteini fyrir húseigandatryggingar, jarðskjálftatryggingar og vatnstjónstryggingar á fasteignum skulu stimpluð með 8% af iðgjaldi.

5. gr.

Bifreiðatryggingarskírteini, þ. á m. húftryggingarskírteini, brunatryggingarskírteini bifreiða, takmörkuð húftryggingarskírteini og skírteini fyrir hálf-húftryggingu (hálf-kasko), stimplast með 0.60 kr. af þúsundi eða broti úr þúsundi af vátryggingarfjárhæðinni.

6. gr.

Skipatryggingarskírteini stimplast með 0.24 kr. af þúsundi eða broti úr þúsundi af vátryggingarfjárhæðinni.

Sjóvátryggingar á varningi, tryggingar á varningi fluttum með flugvélum eða landfarartækjum og farangurstryggingar, stimplast með krónum 0,24 af þúsundi eða broti úr þúsundi vátryggingarfjárhæðar sbr. þó 7. tl. 1. mgr. 10. gr.

Vátryggingarskírteini fyrir peningasendingar í flutningi milli staða stimplast með 8% af iðgjaldi.

7. gr.

Gripatryggingarskírteini skulu stimpluð með 0.24 kr. af þúsundi eða broti úr þúsundi vátryggingarfjárhæðar.

8. gr.

Skírteini fyrir slysatryggingar, ferðaslysatryggingar og sjúkratryggingar skulu stimpluð með 4% af iðgjaldi.

9. gr.

Ábyrgðartryggingarskírteini skulu stimpluð með 8% af iðgjaldi.

10. gr.

Eftirtaldar vátryggingar eru undanþegnar stimpilgjaldi:

1. Brunatryggingar á fasteignum.

2. Ábyrgðartryggingar sem eigendum skráðra vélknúinna ökutækja er skylt samkvæmt umferðarlögum að kaupa vegna ökutækjanna.

3. Ábyrgðartryggingar sem eiganda loftfars er skylt að kaupa skv. 137. gr, laga nr. 34 21. maí 1964.

4. Vátryggingarskírteini sem bátaábyrgðarfélög og Samábyrgð Íslands á fiskiskipum gefa út.

5. Atvinnuslysatryggingar launþega, þar með taldar atvinnuslysatryggingar sjómanna.

6. Vátryggingar á afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar.

7. Farmtryggingar vegna flutnings milli Íslands og annarra landa.

8. Líftryggingar sbr. III. kafla laga um vátryggingasamninga.

11. gr.

Ef hækkuð er vátryggingarfjárhæð vátryggingar, sem þegar hefur verið greitt stimpilgjald af, skal stimpilgjald einungis greitt af viðbótarfjárhæðinni.

Fjármálaráðherra er heimilt að undanþiggja stimpilgjaldi almenna hækkun á vátryggingarfjárhæðum tiltekinna tegunda trygginga sem stafar af almennum verðlagshækkunum.

12. gr.

Nú er einhver þeirra vátrygginga sem um ræðir í 3., 5., 6. og 7. gr. reglugerðar þessarar tekin án þess að tilgreind sé vátryggingarfjárhæð og skal stimpilgjaldið þá reiknað af verðmæti hins tryggða eða áætluðu meðalverði tryggðra fjármuna í viðkomandi iðgjaldaflokki.

13. gr.

Stimpilgjald af hverju einstöku vátryggingarskjali skal aldrei vera lægra en 100 kr.

Standi reiknað stimpilgjald ekki á heilum tug króna skal það fært niður f næsta heilan tug.

14. gr.

Stimpilgjald samkvæmt reglugerð þessari skal greitt með því að líma stimpilmerki á hið stimpilskylda skjal eða greiðsla þess staðfest með ástimplun stimpilmerkjavélar. Sé vátryggingarskírteini gefið út fyrir stimpilskyldri vátryggingu skal það stimplað, ella vátryggingarsamningur, fyrsta greiðslukvittun eða annað skjal er vátrygginguna varðar.

Þau vátryggingarfélög sem fá til þess sérstaka heimild ráðuneytisins geta þó fengið undanþágu frá stimplun samkvæmt ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar enda sé þá gætt reglna 15. gr.

15. gr.

Félög sem fengið hafa undanþágu frá stimplun samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skulu tilgreina sérstaklega reiknað stimpilgjald á vátryggingarskírteini, fyrstu greiðslukvittun eða öðru skjali er vátrygginguna varðar. Félög þessi skulu haga bókhaldi sínu þannig að eftirlitsmenn með stimpilgjaldi geti ávallt gengið úr skugga um réttmæti stimpilgjaldsskýrslna. Félögin skulu annað hvort hafa í aðalbókhaldi sínu sérstaka reikninga fyrir þær fjárhæðir er færa skal á stimpilgjaldsskýrslu eða færa þær í sérstakar undirbækur eða yfirlit sem byggð eru á aðalbókhaldinu. Færslum skal þannig hagað að rekja megi einstakar fjárhæðir á stimpilgjaldsskýrslu til þeirra gagna sem á er byggt.

Félög sem heimild hafa til greiðslu stimpilgjalds samkvæmt þessari grein skulu ótilkvödd greiða fyrir 10. hvers mánaðar til ríkisféhirðis stimpilgjald það er þau hafa innheimt í næstliðnum mánuði. Greiðslunni skal fylgja skýrsla á þar til gerðum eyðublöðum um stofn til útreiknings stimpilgjalds.

16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 30. gr. laga nr. 36 10. maí 1978 um stimpilgjald, öðlast gildi 1. júlí 1978. .jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 255 21. ágúst 1974.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.