Fara beint í efnið

Prentað þann 16. apríl 2024

Stofnreglugerð

185/1997

Reglugerð um leiguflug til og frá Íslandi.

1. gr.

Með hugtakinu leiguflug er átt við annað flug en reglubundið áætlunarflug til flutnings á farþegum og/eða vörum með loftförum til og frá Íslandi, þegar aðili þ.m.t. ferðaskrifstofa hefur tekið farrými loftfars að hluta eða öllu leyti á leigu hjá flugrekanda.

2. gr.

Um leiguflug flugrekenda, sem starfa á grundvelli flugrekstrarleyfis, útgefins í aðildarríki á hinu evrópska efnahagssvæði skv. ákvæðum reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2407/92, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 439/1994, skulu gilda ákvæði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2408/92, sbr. sömu auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Einnig gilda ákvæði reglugerðar nr. 20/1985 um flug loftfara í millilandaflugi um íslenska lofthelgi um leiguflug, auk ákvæða reglugerðar þessarar, sem gilda skulu um allt leiguflug til og frá Íslandi.

3. gr.

Flugrekendum ber að sækja um leyfi til leiguflugs til Flugmálastjórnar Íslands, sem veitir þau að uppfylltum þeim skilyrðum sem gilda. Slík leyfi eru óframseljanleg. Eintak af leyfisbréfi til leiguflugs skal vera um borð í hlutaðeigandi loftfari.

Skilyrði fyrir veitingu leyfis skal vera, að í starfsemi þess flugrekanda sem sækir um leyfi, sé farið eftir stöðlum um öryggi, sem Flugmálastjórn metur samsvarandi þeim, sem íslensk stjórnvöld áskilja.

Jafnframt er skilyrði leyfisveitingar, að umsóknin samrýmist viðteknum viðhorfum í millilandaflugi skv. ríkjandi venjum og gildandi þjóðréttarskuldbindingum.

4. gr.

Ef flugrekandi annast ekki sjálfur samningsgerð við farþega og/eða eigendur vörufarms, skal sölustarfsemi hér á landi og markaðssetning á farþegasætum í farrými fara fram í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar um ferðaskrifstofur og starfsemi þeirra.

5. gr.

Ef fara á leiguferð með loftfari, sem ekki er eign hlutaðeigandi flugrekanda, hann hefur ekki leiguumráð yfir sem fela í sér hliðstæðar heimildir og eignaumráð eða hann hefur ekki á eignarleigu, þarf að sækja um sérstaka heimild til þess. Þannig skal flugrekanda, sem fengið hefur leyfi til leiguflugs, óheimilt að leigja loftfar með áhöfn frá öðrum flugrekanda til slíks flugs, nema að fenginni sérstakri heimild Flugmálastjórnar, sem metur hvort farið sé eftir stöðlum um öryggi, er séu samsvarandi þeim sem íslensk sjórnvöld áskilja.

6. gr.

Flugrekendur í leiguflugi til og frá Íslandi skulu hafa vátryggingar vegna slysa á farþegum og tjóns á farangri sem fluttur er svo og tjóns sem utanaðkomandi aðilar kunna að verða fyrir af völdum loftfarsins, skv. gildandi reglum.

7. gr.

Flugmálastjórn getur áskilið að umsóknir um leyfi til leiguflugs séu á þar til gerðum eyðublöðum.

Í umsókn skulu eftirtalin atriði koma fram eða fylgja henni:

  1. Nafn, auðkennisnúmer eða kennitala flugrekstraraðila og heimilisfang hans.
  2. Staðfesting hlutaðeigandi yfirvalda á flugrekstrarleyfi.
  3. Þjóðerni, skrásetningarmerki og tegund þess loftfars sem fljúga skal.
  4. Staðfesting hlutaðeigandi yfirvalds á lofthæfi loftfars.
  5. Flugnúmer, dagsetning og áætlaður komu- og brottfarartími til og frá íslenskum flugvelli.
  6. Staðfesting á vátryggingum flugrekanda sbr. 6. gr.
  7. Nafn, auðkennisnúmer eða kennitala þess sem tekið hefur loftfarið eða hluta þess á leigu eða samið um afnot með öðrum hætti.

Flugmálastjórn getur krafist frekari upplýsinga eftir því sem nauðsynlegt þykir, þ.m.t. upplýsingar um samningsskilmála, hvernig staðið er að markaðssetningu sæta í farrými og afrits af leigusamningnum.

8. gr.

Umsókn skal að jafnaði berast til Flugmálastjórnar eigi síðar en 3 virkum dögum fyrir brottför, sé um eina staka ferð að ræða en 10 virkum dögum fyrir brottför í fyrstu ferð sé um fleiri ferðir að ræða.

Flugmálastjórn er heimilt að samþykkja umsókn þótt hún berist ekki innan greindra tímamarka.

Leiguflug með loftförum sem hafa 10 tonna hámarksflugtaksþunga og/eða færri en 20 farþegasæti er undanþegið ákvæðum þessarar greinar.

9. gr.

Við brottför skal farþegalista skilað til Flugmálastjórnar og skal hann innihalda þessar upplýsingar:

a) Nafn, auðkennisnúmer eða kennitölu flugrekanda.

b) Brottfarar- og ákvörðunarstað flugsins.

d) Nafn og auðkennisnúmer eða kennitölu leigutaka loftfarsins, eða þess sem samið hefur við flugrekstraraðila og stendur fyrir fluginu.

e) Nöfn farþega sem hefja ferð frá íslenskum flugvelli, kennitölur þeirra og heimili.

Flugmálastjórn getur áskilið frekari upplýsingar ef hún telur þess þörf.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 188. gr. laga um loftferðir nr. 34/1964, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 21 frá 7. janúar 1985.

Samgönguráðuneytinu, 3. mars 1997.

Halldór Blöndal.

Halldór S. Kristjánsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.