Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 25. júní 2022

180/2016

Reglugerð um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til vatnsveitna á lögbýlum.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Heimilt er að greiða árlega framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna stofnkostnaðar við vatnsveitur á vegum eigenda lögbýla þar sem svo háttar til að hagkvæmara er að mati sveitarstjórnar að leggja vatnsveitu að einstökum bæjum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004.

Heildarfjárhæð framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga samkvæmt reglugerð þessari á hverju ári skal ekki fara yfir 31,6 m.kr. sem tekur árlegum breytingum í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar mælda í janúar ár hvert, í samanburði við vísitölu byggingarkostnaðar mælda í maí 2022.

Ákvæði reglugerðar þessarar ná til allra lögbýla í landinu þar sem landbúnaður er stundaður í þeim mæli að talist getur búrekstur eða þáttur í búrekstri, að undanskildum þeim jörðum og jarðarhlutum sem liggja innan skipulagðra þéttbýlissvæða sveitarfélaga. Umsækjandi skal, ef óskað er eftir, leggja fram gögn um að hann hafi ÍSAT-númer í búnaðargjaldsskyldri búgrein og virðisaukaskattsnúmer.

Framlög eru ekki veitt til framkvæmda á lögbýlum sem eigi hafa verið setin í tvö ár eða lengur næst á undan framkvæmdaári eða eru nytjuð frá öðrum lögbýlum nema byggingar á jörðinni séu nytjaðar til búrekstrar sem krefst aðgangs að vatni eða fyrir liggi heimild til stofnunar lögbýlis þar samkvæmt jarðalögum, nr. 81/2004 með síðari breytingum.

Heimilt er að veita framlög, þar sem svo háttar til að vatnsveita þjónar bæði lögbýli og fasteignum sem ekki falla undir reglugerð þessa, í réttu hlutfalli við eignarhald.

2. gr.

Umsóknum um framlög til vatnsveituframkvæmda skal skilað rafrænt til Matvælastofnunar fyrir 1. mars á framkvæmdaári. Umsókn skal fylgja mat úttektaraðila, sem Matvælastofnun tilnefnir, á þörf býlisins fyrir viðkomandi framkvæmd og staðfest kostnaðar- og framkvæmdaáætlun. Sé um byggingar að ræða skulu fylgja teikningar. Þá skal umsókn fylgja umsögn viðkomandi sveitarstjórnar um að skilyrði 1. mgr. 1. gr. sé uppfyllt.

Ef ráðast þarf tafarlaust í vatnsveituframkvæmd, s.s. vegna þess að vatnsból þornar í náttúruhamförum eða af öðrum ástæðum, skal meta umsókn sem gilda ef hún berst fyrir 15. nóvember á framkvæmdaári, enda fylgi staðfesting úttektaraðila Matvælastofnunar á að framkvæmd hafi verið nauðsynleg og kostnaður er ekki umfram það sem eðlilegt getur talist.

3. gr.

Matvælastofnun skal fyrir 1. maí ljúka yfirferð umsókna og leggja mat á hvort þær uppfylli skilyrði þess að vera styrkhæfar. Matvælastofnun tilkynnir umsækjendum um niðurstöðu matsins og setur jafnframt þau skilyrði um tæknilegan frágang vatnsveitu sem hún telur nauðsynleg.

Að loknu mati skv. 1. mgr. sendir Matvælastofnun ráðuneytinu yfirlit yfir styrkhæfar umsóknir sem borist hafa.

4. gr.

Úttektir á framkvæmdum umsækjenda, staðfestar af úttektaraðila Matvælastofnunar, skulu berast Matvælastofnun fyrir 20. nóvember á framkvæmdaári. Framkvæmdum skal lokið áður en úttekt fer fram.

Vatnsveituframkvæmdum telst lokið er pípur hafa verið grafnar í jörðu og einangraðar eins og fyrir er mælt í verklýsingu og gengið hefur verið frá vatnsbóli þannig að yfirborðsvatn komist ekki í það eða viðeigandi hreinsibúnaði hefur verið komið fyrir, sé þörf á að nota yfirborðsvatn.

Úttektarmaður skal, með samanburði við lýsingu og/eða teikningar sem fylgdu umsókn, fullvissa sig um að verkið sé unnið í samræmi við það sem lýst var í umsókn og þau skilyrði sem sett eru af Matvælastofnun í samræmi við reglugerð þessa, sbr. 2. mgr. 4. gr.

Ef óskað er eftir framlagi vegna framkvæmda sem ekki hafa verið teknar út fyrir 20. nóvember skal sótt um það að nýju vegna framkvæmda næsta árs. Hafi framkvæmdum verið frestað milli ára verður að sækja um framlag á ný.

5. gr.

Matvælastofnun gerir í lok hvers árs tillögur til ráðherra um úthlutun framlaga vegna einstakra framkvæmda á því ári. Ráðgjafarnefnd ráðherra skal gefa ráðherra umsögn um tillögur Matvælastofnunar áður en tekin er ákvörðun um úthlutun.

Hámarksframlag vegna einstakra framkvæmda má nema allt að 44% stofnkostnaðar við vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa, þ.e. kostnaðar við vatnsupptöku, þar með talin borun eftir vatni og dælur, vatnsgeyma og leiðslu frá vatnsbóli að bæjarvegg. Ennfremur telst til stofnkostnaðar þóknun fyrir úttekt, sbr. 5. gr.

Ef Matvælastofnun telur að framkvæmdakostnaður eða einstakir kostnaðarliðir hafi farið fram úr því sem eðlilegt getur talist skal hún miða við lægri fjárhæð í tillögum sínum til ráðherra. Matvælastofnun skal tilkynna framkvæmdaaðila um allar slíkar breytingar og gefa honum hæfilegan frest til að veita skýringar.

Matvælastofnun annast greiðslur framlaga til framkvæmdaaðila. Framlög vegna framkvæmda á næstliðnu ári skulu greidd eigi síðar en 15. febrúar ár hvert.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, sbr. c-lið 11. gr. sömu laga, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 973/2000, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.