Samgönguráðuneyti

175/1983

Reglugerð um eftirlit með hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni - Brottfallin

1. gr.

Ferðamálaráð Íslands skal, eftir því sem unnt er, fylgjast með áætlunum erlendra aðila um sölu á hópferðum til Íslands í atvinnuskyni. Skal Ferðamálaráð kynna þeim með nægilegum fyrirvara ákvæði þessarar reglugerðar og sjá um að framfylgja þeim. Ferðamálaráð skal einnig eftir föngum kynna þeim aðrar þær reglur, sem gilda um komu og dvöl erlendra ferðamanna á Íslandi.

2. gr.

Ferðamálaráð skal hafa samþykkt leiðsögumann hópsins á ferð hans um Ísland.

Skal við það miðað, að leiðsögumaðurinn hafi að mati Ferðamálaráðs nægilega þjálfun og þekkingu til leiðsagnarinnar. Jafnframt skal ráðið ganga úr skugga um að viðkomandi leiðsögumaður hafi tilskilin atvinnuleyfi á Íslandi.

Ferðamálaráð getur gert kröfu um að ferðamannahópurinn sé með leiðsögumann, sem nýtur réttinda samkvæmt reglugerð um starfsmenntun leiðsögumanna ferðafólks, nr. 130/ 1981.

3. gr.

Ferðamálaráð setur það skilyrði fyrir komu ofangreindra ferðahópa til landsins að fyrir liggi sambærilegar tryggingar og innlendum ferðaskrifstofum er gert að setja.

Heimilt er að krefjast af tryggingarfénu endurgreiðslu á kostnaði, sem hljótast kynni af leit eða björgun farþega í hópnum, skaðabóta vegna skemmda, sem þeir kynnu að valda, svo og kostnaður sem hljótast kynni af dvöl þeirra og flutningi og viðkomandi ferðaskrifstofa ekki greiðir.

4. gr.

Hafi erlendur ferðamannahópur ökutæki meðferðis við komuna til landsins til eigin nota skal það fylgja hópnum við brottför úr landi.

5. gr.

Standi innlendur aðili með tilskilið ferðaskrifstofuleyfi að ferð viðkomandi hóps ásamt hinum erlenda aðila telst nægilegt að innlendi aðilinn fullnægi ákvæðum þessarar reglugerðar.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 60 31. maí 1976, um skipulag ferðamála, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 25. mars 1983.

Steingrímur Hermannsson.

Ólafur S. Valdimarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica