Menntamálaráðuneyti

166/1991

Reglugerð um breyting á reglugerð um Menningarsjóð útvarpsstöðva nr. 69/1989. - Brottfallin

1. gr.

1. gr. orðist svo:

Hlutverk Menningarsjóðs útvarpsstöðva er að veita íslenskum útvarpsstöðvum eða innlendum framleiðendum dagskrárefnis framlög til eflingar innlendri dagskrárgerð, þeirri er verða má til menningarauka og fræðslu. Það telst innlend dagskrárgerð ef íslenskur aðili hefur forræði á gerð dagskrár er gerð er til flutnings í útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, hér á landi.

2. gr.

3. mgr. 5. gr. orðist svo:

Framlög úr Menningarsjóði útvarpsstöðva skulu veitt útvarpsstöðvum eða framleiðendum dagskrárefnis. Framlög má bæði veita vegna dagskrárgerðar og vegna kaupa útvarpsstöðva á efni til flutnings frá öðrum innlendum aðilum sem annast dagskrárgerð.

3. gr.

5. mgr. 5. gr. orðist svo:

Nú lýkur útvarpsstöð eða framleiðandi innlends dagskrárefnis ekki við gerð dagskrár innan hæfilegs tíma að mati sjóðsstjórnar og er þá styrkhafa skylt að kröfu stjórnarinnar að endurgreiða styrk sem honum hefur verið veittur ásamt venjulegum vöxtum sem verða skulu jafnháir og almennir sparisjóðsvextir á hverjum tíma við Landsbanka Íslands. Sama á við þegar styrkur hefur verið veittur til kaupa á dagskrárefni.

4. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 9. apríl 1991.

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica