Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

158/1990

Reglugerð um sérfræðileyfi sálfræðinga - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig sérfræðing á sérsviði innan sálfræði hafa þeir sálfræðingar einir, er til þess hafa fengið leyfi menntamálaráðuneytisins.

 

2. gr.

Til þess að sálfræðingur geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi, skal hann hafa fullnægt þeim kröfum, er hér greinir.

Hann skal hafa:

a)       hlotið leyfi menntamálaráðuneytisins til að kalla sig sálfræðing, sbr. 1. gr, laga nr. 40/1976, um sálfræðinga,

b)      hlotið starfsþjálfun skv. 3. og 5. gr.,

c)       hlotið handleiðslu skv. 6. gr.,

d)      lokið fræðilegu námi skv. 7. gr.,

e)       samið ritgerð skv. 8, gr. ,

f)        sótt námskeið Sálfræðingafélags Íslands skv. 9. gr.

 

3. gr.

Starfsþjálfun í sérnámi samkvæmt 4. gr. má einungis fara fram á þeim stofnunum, sem viðurkenndar eru til slíks sérnáms. Menntamálaráðuneytið veitir stofnunum hér á landi slíka viðurkenningu samkvæmt tillögum sérfræðinefndar (sbr. 13. gr.), sem metur starfsemi stofnananna. Nefndin endurskoðar mat sitt á tveggja ára fresti.

Sálfræðingar þeir, sem sérnám stunda, skulu að jafnaði vera í fullu starfi á þeim stofnunum, þar sem þeir nema, en þó aldrei minna en í 50°l° starfi, og lengist þá starfsþjálfunartíminn til samræmis. Nám á sérfræðinámskeiði má viðurkenna í stað takmark­aðs hluta tilskilins starfstíma á stofnun.

Heimilt er að veita sérfræðileyfi sálfræðingum, sem hafa fengið sérfræðileyfi eða lokið sérfræðiprófi í löndum, sem gera sambærilegar kröfur um sérfræðinám, enda þótt námstilhög­un sé frábrugðin ákvæðum 5. greinar, Sérnámið má þó ekki standa skemur en 4 ár.

 

4. gr.

Sálfræðingur getur sótt um sérfræðiviðurkenningu á einu af fjórum sérsviðum sálfræði:

a)      Klínísk sálfræði.

b)      Fötlunarsálfræði.

c)      Uppeldissálfræði.

d)      Félags- og skipulagssálfræði.

Auk þess er heimilt að veita sérfræðiviðurkenningu í undirgrein skv. 5. gr., og fer það eftir mati sérfræðinefndar hvað telja megi undirgrein.

 

5. gr.

Sérfræðileyfi má veita að lokinni starfsþjálfun samkvæmt eftirfarandi töluliðum. Heildar­starfsþjálfun skal eigi vera skemmri en 4 1/2 ár í aðalgrein. Veita má sérfræðingi í sálfræði sérfræðileyfi í einni undirgrein þess sérsviðs sem hann er sérfræðingur á. Til að hljóta sérfræðileyfi í undirgrein skal umsækjandi hafa lokið tveggja ára viðurkenndri starfsþjálfun í undirgreininni. Sérfræðingar í undirgreinum skulu uppfylla ákvæði í lið c) í neðantöldum starfsþjálfunarákvæðum með starfi á stofnun eða deild tengdri undirgreininni.

 

I. Klínísk sálfræði:

a)      30 mánuðir á deildum eða stofnunum sem fást við geðræn vandamál eða geðsjúkdóma, þar af minnst 12 mánuðir á almennum geðdeildum fyrir fullorðna, 6 mánuðir á barna- og unglingageðdeild og 4 mánuðir á áfengisdeild, í öllum tilvikum samhliða göngudeildar­þjónustu.

b)      12 mánuðir á stofnun/deild fyrir fatlaða, aðra en þá sem einkum eiga við geðræn vandamál að stríða, eða stofnun/deild, sem fæst við uppeldis- og skólavandamál barna og unglinga.

c)      12 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem tengjast greininni.

 

II. Fötlunarsálfræði:

a)      30 mánuðir á sérdeild fyrir greinina, svo sem greiningardeild og/eða stofnun fyrir fatlaða.

b)      12 mánuðir á öðrum stofnunum eða deildum, sem fást við geðræn vandamál og geðsjúkdóma eða uppeldis- og skólavandamál barna og unglinga.

c)      12 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem tengjast greininni.

 

III. Uppeldissálfræði:

a)      30 mánuðir við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu fræðsluskrifstofu, í skólum eða á uppeldis­eða meðferðarstofnunum fyrir börn og/eða unglinga.

b)      12 mánuðir á stofnunum eða deildum fyrir fatlaða eða þá sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Þar af 6 mánuðir á barna- og unglingageðdeild.

c)      12 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem tengjast greininni.

 

IV. Félags- og skipulagssálfræði:

a)      30 mánuðir á stofnun eða fyrirtæki á sviði stjórnunar og skipulagningar, sem sérfræðinefnd viðurkennir.

b)      12 mánuðir á stofnunum eða deildum við hagnýt sálfræðileg störf.

c)      12 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem tengjast greininni.

Hafi maður starfað í meira en 10 ár sem sálfræðingur við gildistöku þessarar reglugerðar má fella niður skilyrði um skiptingu starfsþjálfunar nema hvað snertir a-liði þessarar greinar.

 

6. gr.

Til þess að fá viðurkenningu sem sérfræðingur þarf sálfræðingur að hafa fengið handleiðslu á starfsþjálfunartímanum sem hér segir:

Einstaklingshandleiðsla minnst 120 skipti (miðað við 1 klst. í senn). Handleiðendur skulu vera a.m.k. tveir á námstímanum og minnst 40 skipti hjá hvorum. Hóphandleiðsla 40 skipti (miðað við 1 1/2 klst. í senn). Veita má undanþágu frá hóphandleiðslu, ef ekki hefur verið hægt að koma henni við, og skal þá krafa um einstaklingshandleiðslu aukast í 150 skipti. Í einstaklingshandleiðslu skal handleiðandi vera sálfræðingur með sérfræðiviðurkenningu eða sálfræðingur, sem sérfræðinefnd viðurkennir. Þó má viðurkenna allt að þriðjungi tímans frá sérfræðingi í annarri grein en sálfræði sem hefur handleiðsluviðurkenningu í veigamiklum þáttum er snerta viðkomandi grein sálfræði. Heimilt er að minnka kröfur um handleiðslu um 10% af heildartímafjölda fyrir hvert ár sem menn hafa við gildistöku þessarar reglugerðar starfað sem sálfræðingar á því sviði sem sótt er um sérfræðingsviðurkenningu á.

 

7. gr.

Til þess að fá viðurkenningu sem sérfræðingur þarf umsækjandi að hafa lokið sem svarar 300 stundum í fræðilegu námi, og skal námsefnið vera að meirihluta á höfuðsviði sérgreinar­innar. Það skal vera svo víðtækt að enginn afmarkaður þáttur viðurkennist sem meira en þriðjungur námskrafnanna. Skólar, námskeið og námsstefnur, sem sérfræðinefnd viðurkenn­ir, eru að jafnaði vettvangur þess fræðilega náms sem metið er.

 

8. gr.

Til þess að fá viðurkenningu sem sérfræðingur þarf umsækjandi að hafa samið ritgerð um sálfræðilegt efni, sem reist er á eigin rannsóknum innan sérsviðs hans. Ritgerðin skal hafa birst á prenti, annað hvort sem sérstakt rit eða sem grein í viðurkenndu vísindariti.

 

9. gr.

Til þess að fá viðurkenningu sem sérfræðingur skal umsækjandi hafa sótt námskeið Sálfræðifélags Íslands, þar sem m.a. er fjallað um lög um sálfræðinga, hlutverk þeirra og siðareglur, og skipan fræðslumála, félagsmála, heilbrigðismála og dómsmála á Íslandi.

 

10. gr.

Veita má sérfræðileyfi á öðrum sviðum en þeim sem talin eru í 4. og 5. gr., ef fullnægt er kröfum um sérmenntun að mati sérfræðinefndar. Sérfræðinefnd úrskurðar á sama hátt um veitingu sérfræðileyfa í undirgreinum.

Ekki má veita sérfræðiviðurkenningu nema í einni aðalgrein í senn, þótt umsækjandi uppfylli kröfur um fleiri svið. Kjósi sérfræðingur að fá viðurkenningu á öðru sviði en hann hefur fyrir, afsalar hann sér um leið sérfræðiviðurkenningu á hinu fyrra sviði.

 

11. gr.

Sérfræðingur skal skyldur að viðhalda menntun sinni.

 

12. gr.

Heimilt er að synja sálfræðingi um sérfræðingsviðurkenningu, þótt hann fullnægi ákvæðum þessarar reglugerðar, ef óeðlilega langur tími telst liðinn frá því hann lauk samfelldu sérnámi þar til umsókn berst, eða ef aðrar gildar ástæður mæla gegn.

 

13. gr.

Umsóknir um sérfræðileyfi í sálfræði ásamt staðfestum vottorðum yfirmanna og öðrum nauðsynlegum fylgiskjölum skal stíla til menntamálaráðuneytisins. Umsókninni skal fylgja eintak af þeirri ritgerð, sem umsækjandi vill láta meta til sérfræðiviðurkenningar.

Menntamálaráðuneytið veitir sérfræðileyfi í sálfræði að fenginni umsögn þriggja manna sérfræðinefndar, sem ráðherra skipar. Einn nefndarmanna skal skipaður án tilnefningar og skal hann gegna formennsku í nefndinni. Annar skal vera prófessor í sálfræði við félagsvís­indadeild Háskóla Íslands, og sá þriðji skal vera formaður námsmatsnefndar Sálfræðingafé­lags Íslands. Námsmatsnefnd Sálfræðingafélags Íslands er sérfræðinefndinni til ráðuneytis.

Áður en sérfræðileyfi í klínískri sálfræði er vent, skal leita umsagnar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

Menntamálaráðuneytið gefur árlega út skrá yfir þá sem hafa sérfræðileyfi hverju sinni.

 

14. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 1. gr. laga nr. 68/1988 um breyting á lögum nr. 40/1976, um sálfræðinga, og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 3. apríl 1990.

 

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica