Utanríkisráðuneyti

141/2009

Reglugerð um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir varðandi Írak. - Brottfallin

1. gr.

Almenn ákvæði.

Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um þvingunaraðgerðir varðandi Írak nr. 661 (1990), 1483 (2003), 1546 (2004) og 1859 (2008) og ákvörðunum framkvæmda­nefndarinnar um þvingunaraðgerðir varðandi Írak, sbr. ályktun nr. 1518 (2003).

Ákvarðanir framkvæmdanefndarinnar, þ.m.t. uppfærðir listar yfir aðila og hluti sem þvingunaraðgerðir beinast að eða varða, eftir því sem við á, eru birtar á vefsetri hennar (http://www.un.org/sc/committees/1518/index.shtml).

Ákvæði reglugerðar nr. 119/2009 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skulu gilda um framkvæmd reglugerðar þessarar.

2. gr.

Vopnasölubann.

Vopnasölubann skal gilda gagnvart Írak, sbr. 3. mgr. ályktunar nr. 661 (1990).

Búnaður, tækni og þjónusta, sem eru nauðsynleg til að tryggja stöðugleika og öryggi í Írak í samræmi við ályktanir öryggisráðsins, eru undanþegin ákvæðum 1. mgr., sbr. 21. mgr. ályktunar nr. 1546 (2004).

3. gr.

Frysting fjármuna.

Frysta skal fjármuni og efnahagslegan auð sem tilheyra fyrrum ríkisstjórn Íraks, stofnunum hennar, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem öryggisráðið eða framkvæmdanefndin tilgreinir, sbr. I. og II. viðauka, sbr. 23. mgr. ályktunar nr. 1483 (2003).

Fjármunum og eignarheimildum að efnahagslegum auði skv. 1. mgr. skal komið til þróunarsjóðs Íraks, samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins, svo fremi sem ekki hafi þegar verið höfðað mál hérlendis vegna þeirra.

Kröfum settum fram af einkaaðilum, sem varða fjármuni og efnahagslegan auð skv. 1. mgr., hvort sem þeir hafa verið yfirfærðir eða ekki, skal beint til hinnar alþjóðlega viðurkenndu ríkisstjórnar Íraks.

Fjármunir og efnahagslegur auður skv. 1. mgr. verða ekki andlag aðfarar, kyrrsetningar, löggeymslu eða nauðungarsölu, sbr. 23. mgr. ályktunar nr. 1483 (2003).

4. gr.

Verslun með menningarverðmæti.

Öll verslun, útflutningur og innflutningur á írökskum menningarverðmætum, sem hafa verið eða ætla má að hafi verið flutt burt frá Írak með ólögmætum hætti eftir 6. ágúst 1990, eru óheimil. Bannið gildir um allar fornleifar og muni sem hafa sagnfræðilegt, menningarlegt, vísindalegt eða trúarlegt gildi.

Bann skv. 1. mgr. gildir ekki um muni sem er skilað til viðkomandi írakskra stofnana, sbr. 7. mgr. ályktunar nr. 1483 (2003).

5. gr.

Verslun með olíu.

Olía og olíuvörur, upprunnar í Írak, skulu undanþegnar aðför, kyrrsetningu, löggeymslu eða nauðungarsölu, þar til eignayfirfærsla á sér stað yfir til kaupanda, nema þær standi til fullnustu skaðabótakrafna vegna mengunarslyss, þ.m.t. olíuleka, sbr. 22. mgr. ályktunar nr. 1483 (2003) og 1. mgr. ályktunar nr. 1859 (2008).

Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um niðurstöðu dómstóla í málum er hafa verið höfðuð vegna samningsskuldbindinga sem Írak gekkst undir eftir 30. júní 2004, sbr. 27. mgr. ályktunar nr. 1546 (2004).

6. gr.

Undanþágur frá þvingunaraðgerð.

Ráðherra getur veitt undanþágur frá þvingunaraðgerðum, sem gripið hefur verið til á grundvelli ályktana öryggisráðsins, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum.

7. gr.

Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal sæta viðurlögum skv. 10. gr. laganna, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

8. gr.

Heimild.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunar­aðgerða nr. 93/2008.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing nr. 579/2004 um ráðstafanir til að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1483 (2003) og nr. 1546 (2004) um afnám viðskiptaþvingana gegn Írak o.fl.

Utanríkisráðuneytinu, 20. janúar 2009.

Össur Skarphéðinsson.

Benedikt Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica