Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

139/1995

Reglugerð um starfsþjálfun stjórnenda ökutækja sem flytja tiltekinn hættulegan farm. - Brottfallin

Reglugerð

um starfsþjálfun  stjórnenda ökutækja

sem flytja tiltekinn hættulegan farm.

Skilgreiningar.

1. gr.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

ADR-samningurinn: Evrópusamningur um millilandaflutninga á vegum á hættulegum farmi (ADR) sem gerður var í Genf 30. september 1957.

Flutningar á vegum: Allur akstur ökutækis til flutninga með hættulegan farm á vegum opnum fyrir almennri umferð.

Hættulegur farmur: Varningur sem inniheldur hættulegt efni sem um getur í ADR-samningnum.

Vottorð um starfsþjálfun: Vottorðið sem kveðið er á um í viðbæti B. 6 við ADR-samninginn.

Bráðabirgðavottorð um starfsþjálfun: Vottorð sem kveðið er á um í viðbæti B. 6 við ADR-samninginn og gildir eingöngu fyrir flutninga innanlands.

Gildissvið.

2. gr.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda um starfsþjálfunarvottorð til handa ökumönnum sem annast innanlands- og millilandaflutninga með hættulegan farm á vegum með:

a. ökutækjum með leyfða heildarþyngd meiri en 3500 kg og ef flutt er meira magn hættulegs farms en fram kemur í viðauka I. Ef um sprengiefni eða sprengifima hluti er að ræða gildir ákvæðið einnig þótt leyfð heildarþyngd ökutækis sé 3500 kg eða minni,

b. tankbifreiðum eða flutningseiningum sem samanstanda af tönkum eða fargeymum með meira en 3000 lítra rými og/eða yfir 3500 kg leyfðri heildarþyngd. Þetta gildir bæði þegar bifreiðirnar eða flutningseiningarnar flytja hættulegan farm og þegar búið er að losa hinn hættulega farm áður en tankarnir hafa verið hreinsaðir og/eða afgasaðir.

Starfsþjálfun.

3. gr.

Nám sem ökumaður þarf að stunda til að fá vottorð um starfsþjálfun skal bæði vera bóklegt og verklegt og samþykkt af prófnefnd.

Þessi þjálfun hefur að meginmarkmiði að gera stjórnendum ökutækja grein fyrir hættunni sem fylgir flutningum með hættulegan farm og kenna þeim nauðsynleg grundvallaratriði til að draga sem verða má úr slysahættu, og beri slys að höndum að þeir bregðist rétt við til að verja sjálfa sig og umhverfið og draga úr áhrifum slyssins.

Í þjálfuninni skal a.m.k. farið yfir það námsefni sem talið er upp í viðauka II. Náminu skal ljúka með prófi.

Vottorð um starfsþjálfun.

4. gr.

Ökumaður sem annast flutning á hættulegum farmi á vegum, sbr. 2. gr., skal hafa gilt vottorð um starfsþjálfun. Heimilt er að framlengja gildistíma vottorðsins í fimm ár í senn þegar handhafi þess:

  • a.hefur áður en gildistími vottorðsins rann út lokið endurmenntunarnámskeiði sem samþykkt er af prófnefnd og staðist próf, eða
  • b. getur sannað fyrir prófnefnd að hann hafi verið samfellt við störf frá því að vottorð hans var gefið út eða síðast endurnýjað. Árstíðabundin stöðvun, frídagar og hlé, allt að sex mánuðum á tólf mánuðum, er heimil.

Prófnefnd.

5. gr.

Þriggja manna prófnefnd skal sjá um framkvæmd prófa og um undirbúning fyrir útgáfu og afgreiðslu vottorða um starfsþjálfun til handa stjórnendum ökutækja sem flytja hættulegan farm. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af dómsmálaráðuneytinu, einn af samgönguráðuneytinu og einn af félagsmálaráðuneytinu og er hann formaður nefndarinnar.

6. gr.

Hlutverk nefndar samkvæmt 5. gr. er að gera námskrá fyrir nám til undirbúnings þess að öðlast vottorð um starfsþjálfun og hafa yfirumsjón með námskeiðum samkvæmt 7. gr.

Framkvæmd.

7. gr.

Vinnueftirlit ríkisins annast framkvæmd námskeiða í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins og gefur út vottorð um starfsþjálfun til þeirra sem lokið hafa prófi, undir yfirumsjón prófnefndar. Það sér um að útvega námsefni, innheimta námskeiðsgjöld og að greiða kostnað sem af námskeiðum og prófum hlýst.

>Heimilt er atvinnurekendum, ökuskólum, félagi vörubifreiðaeigenda á flutningaleiðum eða öðrum sem hafa ökumenn í vinnu sem aka ökutæki sem flytur hættulegan farm að halda námskeið til að undirbúa þá sem öðlast vilja vottorð um starfsþjálfun. Sá aðili sem heldur námskeiðið skal greiða kostnað af prófi og útgáfu vottorðs um starfsþjálfun.

Sérstakt eftirlit á vegum.

8. gr.

Lögreglan skal hafa eftirlit með að stjórnandi ökutækis sem flytur hættulegan farm hafi meðferðis vottorð um starfsþjálfun. Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með að fyrirtæki sem flytja hættulegan farm hafi í sinni þjónustu ökumenn með gild vottorð um starfsþjálfun.

Gildistaka.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 2. mgr. 50. gr. og 5. mgr. 73. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44 7. maí 1993, svo og með hliðsjón af 24. tölul. XIII. viðauka við EES samninginn (tilskipun 89/684/EBE), og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið hvað þátt Vinnueftirlits ríkisins varðar og umhverfisráðuneytið hvað þátt Hollustuverndar ríkisins varðar, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem annast flutninga sem krefjast starfsþjálfunarvottorðs samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skulu hafa hlotið slíkt vottorð fyrir 30. júní 1995.

Prófnefnd er heimilt að veita stjórnanda ökutækis sem flytur hættulegan farm bráðabirgðavottorð um starfsþjálfun til tveggja ára án þess að hann hafi farið á námskeið eða gengist undir próf eins og mælt er fyrir um í 3. gr., enda leggi hann fram umsókn um slíkt vottorð innan 6 mánaða frá gildistöku reglugerðarinnar og leggi fram sönnun þess að hann hafi a.m.k. síðustu fimm árin starfað sem stjórnandi slíks ökutækis. Til þess að fá vottorð um starfsþjálfun þarf hlutaðeigandi að hafa sótt námskeið og tekið próf skv. 3. gr.

Til 31. desember 1998 er prófnefnd heimilt, að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, að undanþiggja frá þessari reglugerð að hluta eða í heild, yfir tveggja ára tímabil, í afskekktum byggðarlögum, sem unnt er að framlengja í önnur tvö ár, ökumenn ökutækja sem einungis annast innanlandsflutninga með varning sem skapar litla hættu (t.d. dísilolíu) eða er lítill mengunarvaldur vegna sérstakra eiginleika hans eða vegna þess að flutt er lítið magn.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 3. mars 1995.

Þorsteinn Pálsson.

Ólafur W. Stefánsson.

Viðauki.

Fylgiskjal: sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica