Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 14. júní 2018

1270/2016

Reglugerð um ákvörðun framlaga úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til ákvörðunar framlaga úr sveitarsjóði.

2. gr. Réttur til framlags úr sveitarsjóði.

Grunnskólar sem eru reknir af einkaaðila á grundvelli laga um grunnskóla og þjónustusamnings við sveitarfélag, sem hlotið hefur staðfestingu Menntamálastofnunar, eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem eiga lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar og vegna barna sem ráðstafað hefur verið í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu.

Sama gildir um grunnskóla sem þegar eru starfandi á grundvelli viðurkenningar ráðherra, en sveitarfélagi er þó heimilt í þjónustusamningi að takmarka framlag úr sveitarsjóði við hámarksfjölda nemenda.

Grunnskólar, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum en njóta framlags úr sveitarsjóði, skulu senda starfsáætlun, þar með taldar upplýsingar um kennslu og fjölda nemenda á næsta fjárhagsári til sveitarstjórnar eigi síðar en 1. maí ár hvert nema annað sé tekið fram í reglum sveitarfélags. Jafnframt skulu þeir grunnskólar sem gert hafa þjónustusamning við viðkomandi sveitarfélag senda því ársskýrslu ásamt ársreikningi.

3. gr. Upphæð framlags úr sveitarsjóði.

Framlag skv. 2. gr. skal nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunnskóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.

Hagstofa Íslands tekur saman 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur og birtir fimmta dags hvers mánaðar, á tímabilinu frá október og fram til ágúst, framreiknað framlag skv. 1. mgr. Við framreikning þess skal tekið tillit til verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá ákvörðun framlags skv. 1. mgr., þ.e. almennra launahækkana starfsmanna grunnskóla og breytinga á vísitölu neysluverðs, miðað við vægi hvors þáttar í rekstrarkostnaði grunnskóla.

Sveitarfélög greiða framlög reglulega eftir því sem segir í þjónustusamningi. Greiðslurnar taka breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir útreikningum Hagstofu Íslands. Í þjónustusamningi sem sveitarfélag gerir við rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla er heimilt að semja sérstaklega um verðlagsbætur umfram útreikning Hagstofunnar skv. 3. mgr., svo sem um að sveitarfélag reikni breytingar á framlagi úr sveitarsjóði mánaðarlega á grundvelli launataflna í kjarasamningi grunnskólakennara.

Sveitarfélögum er heimilt að greiða sérstakt stofnframlag til sjálfstætt rekinna grunnskóla. Slík framlög verða eingöngu nýtt í þágu skólastarfsins.

4. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 43. gr. f laga um grunnskóla nr. 91/2008, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi 6. gr. og 7. gr. reglugerðar um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, nr. 699/2012.

Ákvæði til bráðabirgða.

Reglugerð þessi er sett til bráðabirgða og gildir fyrst um sinn til 1. október 2018, uns sett hefur verið heildarreglugerð á grundvelli 43. gr. f í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.