Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

107/1969

Reglugerð um skipun hjálparliðs almannavarna.

1. gr.

Almannavarnanefndir fara með skipulagningu hjálparliðs almannavarna hver í sínu umdæmi, eftir því, sem nánar segir í reglugerð þessari.

2. gr.

Lögreglustjóri skipar í hjálparlið að fengnum tillögum almannavarnanefndar, og er hverjum manni á aldrinum 18-65 ára skylt að gegna án endurgjalds starfi í hjálparliði almannavarna í umdæmi, þar sem hann dvelst.

Ákvörðun lögreglustjóra um skipun í hjálparlið má skjóta til dómsmálaráðherra.

Ef hætta vofir yfir eða tjón hefur orðið, má kveðja hvern mann 16 ára og eldri, sem tiltækur er, til tafarlausrar aðstoðar við hjálparlið.

3. gr.

Almannavarnanefnd sér um þjálfun hjálparliðs í umdæmi sínu, og fer um þjálfun eftir starfsreglum, sem forstöðumaður almannavarna setur.

Hver, sem starfar í hjálparliði, er skyldur að taka þátt í námskeiðum og æfingum, sem hann hefur verið kvaddur til, og her honum að hlýða fyrirmælum og fara eftir starfsreglum.

4. gr.

Almannavarnir ríkisins halda námskeið fyrir yfirmenn og leiðbeinendur í hjálparliði.

5. gr.

Sá, sem starfar í hjálparliði, á rétt á bótum vegna meiðsla eða tjóns, sem hann kann að verða fyrir í slíku starfi.

6. gr.

Hjálparlið almannavarna skal aðstoða við eftirtalin verkefni: eldvarnir, björgun og sjúkraflutninga, ruðningsstarf, hjálparstarf vegna tjóns af völdum geislavirkni, sýkla eða eiturefna, löggæzlu, fjarskiptaþjónustu og félagslegt hjálparstarf.

7. gr.

Heimilt er almannavarnanefnd, meðan skipun hjálparliðs og þjálfun er á byrjunarstigi, að fresta skipulagningu og þjálfun hjálparliðs, að því er tekur til einstakra verkefna, samkvæmt 6. gr.

8. gr.

Stærð hjálparsveita skal vera sem hér segir:

Í umdæmi með allt að 3500 íbúa ekki færri en 35 menn, í umdæmi með 3500 íbúa ekki færri en 60 menn, í umdæmi með 6000-10000 íbúa ekki færri en 100 menn, og síðan 100 manna sveit á hverja 10 000 íbúa.

Almannavarnanefnd ákveður tölu manna í hjálparsveitum, en heimilt er henni með sérstöku samþykki almannavarnaráðs að hafa hjálparsveit fámennari en gert er ráð fyrir í 2. mgr.

9. gr.

Forstöðumaður almannavarna veitir leiðbeiningar um starfsskiptingu innan hverrar hjálparsveitar, svo og um lágmarksbúnað hjálparliðs, en að öðru leyti kveður almannavarnanefnd á um þessi atriði.

10. gr.

Heimilt er almannavarnanefnd að semja við starfandi björgunarsveitir áhugamanna um að annast ákveðin verkefni á sviði almannavarna.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 9. gr. laga nr. 94/1962, sbr. 4. gr. laga nr. 30/1967, öðlast gildi þegar í stað.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 25. apríl 1969.

Jóhann Hafstein.

Ólafur W. Stefánsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.