Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

1068/2010

Reglugerð um byggingaröryggisgjald.

1. gr.

Vátryggingafélög og aðrir sem annast vátryggingar á Íslandi skulu árlega innheimta með iðgjöldum sínum sérstakt byggingaröryggisgjald fyrir Mannvirkjastofnun. Byggingaröryggisgjaldið skal nema fyrir hvert byrjað ár 0,045‰ af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu þar sem hið vátryggða er vátryggt á ákveðnum vátryggingarstað á landi.

Gildi vátrygging skemur en eitt ár skal innheimta byggingaröryggisgjald í hlutfalli við gildistímann.

2. gr.

Á iðgjaldakvittun vátryggingafélaga og þeirra sem annast vátryggingar, sbr. 1. gr., skal auk vátryggingarfjárhæðar koma fram sundurgreining milli annars vegar fjárhæðar vátryggingariðgjalds og hins vegar fjárhæðar byggingaröryggisgjaldsins.

3. gr.

Þeir aðilar sem innheimta byggingaröryggisgjald samkvæmt 1. gr. skulu hafa staðið Mannvirkjastofnun skil á gjaldinu innan þriggja mánaða frá innheimtu viðkomandi vátryggingar þar sem byggingaröryggisgjald er innheimt samhliða. Miðast innheimta við gjalddaga viðkomandi vátryggingar.

4. gr.

Séu gjöldum eigi skilað innan frests skv. 3. gr. falla á hæstu leyfilegir dráttarvextir á hverjum tíma fyrir hvern byrjaðan mánuð, talið frá lokadegi frests skv. 3. gr.

Byggingaröryggisgjald ásamt áföllnum vöxtum má taka lögtaki skv. lögum nr. 29/1885 um lögtak og fjárnám án undangengins dóms eða sáttar.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 50. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og tekur gildi 1. janúar 2011. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 592/1987 um brunavarnagjald.

Umhverfisráðuneytinu, 29. desember 2010.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.