Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

1050/2006

Reglugerð um rannsókn og saksókn efnahagsbrota. - Brottfallin

1. gr.

Saksóknari efnahagsbrota.

Saksóknari efnahagsbrota annast rannsókn á brotum sem falla undir skilgreiningu í 3. gr. þessara reglna og meðferð mála sem hann lætur rannsaka fyrir héraðsdómstólum, sbr. 2. gr. Enn fremur sinnir hann kærum til Hæstaréttar í þeim málum sem hann hefur til meðferðar.

Saksóknarinn getur tekið við málum á sínu sviði frá staðarlögreglu en einnig byrjað rannsókn að eigin frumkvæði.

Viðkomandi lögreglustjóri ber ábyrgð á rannsókn og saksókn í minni málum vegna brota sem falla undir skilgreiningu í 3. gr. þessara reglna og saksóknari efnahagsbrota annast ekki.

Saksóknari efnahagsbrota sem skipaður er til starfa hjá ríkislögreglustjóranum, samkvæmt heimild í lögum um meðferð opinberra mála, er í fyrirsvari fyrir rannsóknum efna­hags­brota. Saksóknarinn annast ákæruvald ríkislögreglustjórans vegna efna­hags­brota en ber faglega ábyrgð gagnvart ríkissaksóknara.

Honum til aðstoðar við rannsókn mála og meðferð þeirra fyrir dómstólum er löglært starfsfólk, lögreglumenn og annað starfsfólk sem ríkislögreglustjórinn lætur honum í té og starfar undir stjórn saksóknarans.

Ríkissaksóknari getur gefið fyrirmæli um meðferð einstakra mála hjá saksóknara efna­hags­brota, kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd rannsóknar og fylgst með henni, sbr. 5. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.

2. gr.

Höfðun mála og flutningur þeirra fyrir héraðsdómi.

Saksóknari efnahagsbrota tekur ákvörðun um hvort höfða skuli mál á grundvelli rannsóknar sem hann hefur látið framkvæma. Hann höfðar mál í nafni saksóknara efnahagsbrota og flytur þau fyrir héraðsdómi hvar sem er á landinu nema ríkis­saksóknara beri að höfða málið samkvæmt fyrirmælum laga um meðferð opinberra mála.

Saksóknarinn getur falið löglærðum aðstoðarmönnum sínum flutning mála sem hann höfðar eða annast fyrir dómstólum.

Ákærur saksóknara efnahagsbrota skulu kunngjörðar með eftirfarandi tilgreiningu: SAKSÓKNARI EFNAHAGSBROTA gjörir kunnugt.

3. gr.

Viðfangsefni.

Saksóknara efnahagsbrota ber að annast meðferð alvarlegra brota sem falla undir 109. gr., 128. gr. - 129. gr., 179. gr., 247. gr. - 250. gr., 253. gr. - 254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a. almennra hegningarlaga eða alvarlegra brota á skatta- og tollalögum, lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, og lánsviðskipti, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og annarra alvarlegra, óvenjulegra eða skipulagðra fjármunabrota sem tengjast atvinnurekstri eða verslun og viðskiptum.

Saksóknari efnahagsbrota annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Saksóknari efnahagsbrota tekur ákvörðun um hvort hann tekur mál til meðferðar. Við ákvörðun ber sérstaklega að taka tillit til eftirfarandi atriða:

 

a)

Umfangs rannsóknar og hve margslungið mál er.

 

b)

Verðmæta eða fjármuna sem málsrannsókn snýst um.

 

c)

Hvort mál eða viðskipti, sem fjallað er um í rannsókn, tengist öðru landi.

 

d)

Hvort um sé að ræða brotastarfsemi í atvinnurekstri eða aðra skipulagða brotastarfsemi.

 

e)

Hvort mál hafi grundvallarþýðingu með tilliti til almannahagsmuna og um leið fordæmisgildi.



Ríkissaksóknari getur ákveðið að saksóknari efnahagsbrota annist rannsókn tiltekins máls þótt það falli ekki undir skilgreiningu 1. og 2. mgr.

4. gr.

Um yfirtöku mála, byrjun mála að eigin frumkvæði og tilkynningar.

Viðkomandi lögreglustjóri getur beðið saksóknara efnahagsbrota um að yfirtaka rannsókn og frekari meðferð máls sem getur fallið undir skilgreiningu í 3. gr.

Lögreglustjóra ber ávallt og þegar á frumstigi að gera saksóknaranum viðvart um stórfelld og alvarleg fjármunabrot, sem koma til rannsóknar í umdæmi hans.

Saksóknari efnahagsbrota getur byrjað rannsókn í slíku máli að eigin frumkvæði. Ber saksóknaranum að gera viðkomandi lögreglustjóra viðvart um rannsóknina áður en hún hefst. Saksóknarinn getur líka óskað þess að fá að taka rannsókn, sem hafin er hjá lögreglustjóra, í sínar hendur. Beiðni þess efnis skal beint til ríkissaksóknara.

Vilji lögreglustjóri ekki una ákvörðun saksóknarans um hvor annast rannsókn máls getur hann borið álitaefnið undir ríkissaksóknara til ákvörðunar.

5. gr.

Samstarfshópar.

Saksóknari efnahagsbrota og viðkomandi lögreglustjóri geta gert samkomulag um að skipa rannsóknarhóp með mönnum frá saksóknaranum og frá viðkomandi lögreglu­umdæmi til að rannsaka mál sem hann hefur yfirtekið enda þyki sú skipan hagkvæm.

6. gr.

Heimild til að rannsaka önnur brot.

Komi fram í máli, sem saksóknari efnahagsbrota annast rannsókn á, upplýsingar um önnur ætluð brot, sem ekki heyra undir verkefnasvið saksóknarans, skal hann annast rannsókn allt að einu og fylgja þeim eftir enda sé það augljóslega hagkvæmasta leiðin til að ljúka málinu í heild.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90 13. júní 1996, sbr. 3. gr. laga nr. 46 13. júní 2006, öðlast gildi 1. janúar 2007. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um rannsókn og saksókn efnahagsbrota, nr. 406/1997.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 11. desember 2006.

Björn Bjarnason.

Halla Bergþóra Björnsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica