Fjármálaráðuneyti

93/1987

Reglugerð um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla sem skrásett eru erlendis - Brottfallin

REGLUR

um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla sem skrásett eru erlendis.

 

1. gr.

Tollyfirvaldi er heimilt að veita mönnum sem búsettir hafa verið erlendis leyfi til tímabundins tollfrjáls innflutnings á bifreiðum og bifhjólum í allt að þrjá mánuði talið frá komudegi flutningsfars ökutækis til landsins að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum, sbr. einnig 2. gr.

1.        Ökutækið sé skráð erlendis og innflytjandi skráður eigandi eða leigjandi þess.

2.        Innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. tvö undanfarandi ár, sbr. 4. málsgr. 5. gr.

3.        Innflutningur ökutækis eigi sér stað við komu hlutaðeigandi til landsins eða í beinu framhaldi af komu til landsins.

Innflutningur samkvæmt reglum þessum er að öðru leyti háður því að viðkomandi skuldbindi sig til að hlíta eftirtöldum almennum skilyrðum:

1.        Að hann eða maki hans aki ökutækinu eða ökumenn, útlendir eða innlendir, sem ráðnir eru til þess að aka ökutækinu fyrir hann.

2.        Að ökutækið verði ekki lánað, leigt eða notað til neins konar flutninga gegn greiðslu.

3.        Að hann hafi ökutækið með sér til útlanda enda sé ætlun hans að fara þangað í síðasta lagi að tólf mánuðum liðnum frá því að það var flutt hingað til landsins.

 

2. gr.

Eigi má veita heimild til tímabundins tollfrjáls innflutnings á ökutæki samkvæmt reglum þessum til aksturs hér á landi nema ökutækið sé vátryggt lögboðinni ábyrgðartryggingu samkvæmt íslenskum umferðarlögum eða umráðamaður þess leggi fram við tollafgreiðslu "Grænt skírteini" (Green Card) sem út er gefið í samræmi við reglur þær um alþjóðlegar bifreiðatryggingar sem mælt hefur verið með af undirnefnd vegaflutninga í innanlandsflutninganefnd Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu eða ökutæki sé vátryggt á annan fullnægjandi hátt samkvæmt reglum settum af dómsmálaráðuneytinu skv. 70. gr. umferðarlaga nr. 40/1968 með áorðnum breytingum.

 

3. gr.

Við veitingu leyfis til tímabundins innflutnings ökutækis samkvæmt reglum þessum skal innflytjandi útfylla til þess gert eyðublað og gera þar m.a. grein fyrir nafni, þjóðerni, heimilisfangi hér á landi, verði því við komið, vegabréfsnúmeri, tegund og árgerð ökutækis, verksmiðjunúmeri, skrásetningarnúmeri ökutækis, og öðru því sem óskað er upplýsinga um í eyðublaði.

Í eyðublaði því sem um ræðir í 1. mgr. skal innflytjandi jafnframt gefa yfirlýsingu þess efnis að hann hafi kynnt sér skilyrði þau sem sett eru fyrir tollfrjálsum innflutningi ökutækis, sbr. 1. gr., og skuldbindi sig til þess að flytja ökutækið úr landi eða greiða af því að öðrum kosti aðflutningsgjöld, þ.m.t. sölugjald, og önnur opinber gjöld innan þess frests sem tilgreindur er í leyfi tollyfirvalds.

 

4. gr.

Tollyfirvaldi er heimilt að framlengja leyfi sem veitt hefur verið skv. 1. gr. um þrjá mánuði í senn, allt að tólf mánuðum alls, enda færi viðkomandi að mati tollstjóra fullgildar sönnur á að hann fullnægi eftirtöldum skilyrðum:

1.        Að hann hafi hvorki launaða atvinnu hér á landi né reki hér atvinnufyrirtæki eða hafi framfærslu sína af aðila sem uppfyllir ekki þessi skilyrði. Sendikennarar og aðrir slíkir sem þiggja laun sín úr erlendum opinberum sjóðum skulu þó undanþegnir þessu ákvæði

2.        Að hann hafi ekki tekið sér búsetu hér á landi.

3.        Að hann hafi ekki flutt búslóð sína hingað til lands.

 

5. gr.

Nú uppfyllir viðkomandi ekki skilyrði 4. gr. til framlengingar leyfis til tímabundins tollfrjáls innflutnings án þess þó að hafa tekið sér fasta búsetu hér á landi og getur tollyfirvald þá heimilað framlengingu tollfrelsis fyrir viðkomandi ökutæki í þrjá mánuði í senn, allt að tólf mánuðum talið frá komudegi flutningsfars, gegn greiðslu fyrirfram á 0,7% gjaldi fyrir hvern byrjaðan mánuð sem framlengt er. Skal gjaldið sem samtals er 2% reiknað af tollverði viðkomandi bifreiðar eins og það ákvarðast samkvæmt ákvæðum gildandi reglna um tollverð notaðra bifreiða. Tollverð annarra ökutækja skal ákveðið samkvæmt meginreglum 5.-7. gr. tollskrárlaga. Aðili sem óskar framlengingar tollfrelsis samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar skal gera tollyfirvaldi grein fyrir ástæðum beiðni um framlengingu tollfrelsis, áætluðum brottfarartíma og öðru því sem tollyfirvald telur tilefni gefa til.

Gjald sem greitt hefur verið skv. 1. málsgr. verður ekki endurgreitt við endurútflutning viðkomandi ökutækis en skal hins vegar koma til frádráttar álögðum gjöldum við endanlega tollafgreiðslu hér á landi eins og þau verða ákveðin samkvæmt gildandi reglum þar að lútandi, sbr. m.a. 11. gr. og 1. tl. 14. gr. tollskrárlaga. Heimilt er þó að endurgreiða gjald, sem greitt hefur verið skv. 1. málsgr., miðað við þann tíma sem eftir er af framlengdri heimild til tímabundins tollfrjáls innflutnings ökutækis þegar það er flutt úr landi. Gjald skal þó ekki endurgreitt vegna hluta úr mánuði. Hafi ökutæki, sem gjald skv. 1. málsgrein þessarar greinar hefur verið greitt af, eigi verið flutt úr landi að liðnum tólf mánuðum talið frá komudegi flutningsfars til landsins eða óskað er endanlegrar tollafgreiðslu hér á landi fyrir þann tíma skulu ákvæði 3. málsgr. þessarar greinar gilda um tollmeðferð ökutækis eftir því sem við getur átt. Vextir sem þar um ræðir skulu þó með sama hætti og þar greinir reiknaðir af áföllnum gjöldum að frádregnum greiðslum samkvæmt 1. málsgr. þessarar greinar.

Hafi viðkomandi tekið sér fasta búsetu hér á landi skulu aðflutningsgjöld, þ.m.t. sölugjald, þegar greidd. Innflytjanda er þó heimilt að greiða aðflutningsgjöld, þ.m.t., sölugjald, gegn útgáfu skuldabréfs er greiðist með þremur jöfnum afborgunum ásamt meðaltalsvöxtum af þeim eins og þeir eru á hverjum tíma auglýstir samkvæmt lögum nr. 36/ 1986, um Seðlabanka Íslands, í fyrsta sinn að liðnum sex mánuðum talið frá komudegi flutningsfars til landsins og hina síðustu að liðnum 12 mánuðum talið frá sama tíma. Sjálfskuldarábyrgð banka fyrir greiðslu skuldar, vaxta og dráttarvaxta skal fylgja. Vextir skulu reiknaðir frá lokum þriðja mánaðar talið frá komudegi flutningsfars.

Nú uppfyllir viðkomandi eigi skilyrði 2. tl. 1. málsgr. 1. gr. um búsetu erlendis í minnst tvö ár en hefur þó dvalið samfleytt erlendis í eitt ár og er tollyfirvaldi þá heimilt að veita viðkomandi greiðslufrest á aðflutningsgjöldum og sölugjaldi í allt að þrjá mánuði talið frá komudegi flutningsfars gegn útgáfu skuldabréfs og greiðslu hæstu lögleyfðra vaxta og sjálfskuldarábyrgð banka, sbr. 3. málsgr. þessarar greinar, sem reiknaðir skulu frá komudegi flutningsfars.

 

6. gr.

Leyfi til tímabundins innflutnings samkvæmt reglum þessum skal gefið út af tollyfirvaldi í því tollumdæmi þar sem flutningsfar tekur höfn og ökutæki er skipað upp og skal ökutækið jafnframt hljóta þar endanlega tollafgreiðslu, sbr. þó 2. málsgr. þessarar greinar og 7. gr.

Tollyfirvaldi á innflutningsstað er þó heimilt að veita mönnum sem flytja búferlum til landsins og fyrirhuga að taka upp fasta búsetu í öðru tollumdæmi sérstakt leyfi í allt að eina viku til tollfrjáls innflutnings á viðkomandi ökutæki að uppfylltum skilyrðum 1.-3. gr. reglna þessara. Sama skal gilda um farangur viðkomandi, enda hafi hann verið skoðaður af tollstarfsmönnum og tollskoðunarskýrsla um hann gerð ef nauðsyn þykir. Tollyfirvald á innflutningsstað skal í því tilviki senda tollstjóra í því umdæmi sem viðkomandi aðili hyggst taka sér búsetu afrit af leyfi því sem út hefur verið gefið samkvæmt þessari málsgrein, ásamt tollskoðunarskýrslu hafi hún verið gerð. Ákvæði V. kafla laga nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, skulu að öðru leyti gilda um flutning þennan eftir því sem við getur átt. Aðili sem fær slílct leyfi skal innan nefnds frests gefa sig fram við viðkomandi tollstjóra sem veita skal leyfi til tímabundins tollfrjáls innflutnings á viðkomandi ökutæki í samræmi við ákvæði reglna þessara.

Ökutæki, sem leyfður hefur verið á tímabundinn tollfrjáls innflutningur, skulu auðkennd með sérstökum límmiða sem embætti tollgæslustjóra lætur gera í því skyni og límdur skal á framrúðu ökutækis eða þau auðkennd með öðrum hætti er tollgæslustjóri telur fullnægjandi.

 

7. gr.

Farmflytjendum er óheimilt að taka til flutnings úr landi ökutæki sem innflutningur hefur átt sér stað á samkvæmt ákvæðum reglna þessara, nema uppgjör hafi áður farið fram á gjaldi því sem greiða ber skv. 1. og 2. málsgr. 5. gr. svo og öðrum opinberum gjöldum enda liggi fyrir leyfi viðkomandi tollyfirvalds til útflutnings.

Tollyfirvald í því tollumdæmi þar sem útflutningur er fyrirhugaður skal í samráði við tollyfirvald sem leyfi veitti til tímabundins tollfrjáls innflutnings gera gjaldið upp og senda því afrit af greiðslukvittun

 

8. gr.

Ökutæki sem tímabundinn tollfrjáls innflutningur hefur verið leyfður á og aðflutningsgjöld, þ.m.t. sölugjald, hafa ekki verið greidd af skulu vera að veði fyrir aðflutningsgjöldum til lúkningar gjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði, sbr. 54. gr. laga nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, með áorðnum breytingum.

 

9. gr.

Verði hækkun á tollum eða öðrum gjöldum álögðum við innflutning, t.d. vegna ákvarð­ana um breytingu á tollaafgreiðslugengi eða af öðrum ástæðum, undanþiggja ákvæði þessara reglna viðkomandi innflytjanda ekki greiðslu hækkaðra gjalda við endanlega tollafgreiðslu viðkomandi ökutækis nema annað sé tekið fram í lögum eða öðrum fyrirmælum.

 

10. gr.

Röng skýrslugjöf eða framlagning rangra eða villandi gagna og röng upplýsingagjöf látin í té í því skyni að fá ívilnun á tolli eða gjöldum samkvæmt ákvæðum reglna þessara svo og misnotkun ívilnunar sem veitt hefur verið samkvæmt ákvæðum reglna þessara getur m.a. varðað við 63. og 67. gr. laga nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, með áorðnum

breytingum. Um meðferð mála vegna brots á reglum þessum fer að hætti opinberra mála.

 

11. gr.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 10. tl. 1. mgr. 3. gr., sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 120 31. desember 1976, um tollskrá o.fl., og lögum nr. 59 28. maí 1969, um tollheimtu og tolleftirlit, með áorðnum breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felldar reglur nr. 229 30. apríl 1981 um sama efni með áorðnum breytingum.

 

Fjármálaráðuneytinu, 25. febrúar 1987.

 

F. h. r. Lárus Ögmundsson.

Guðrún Ásta Sigurðardóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica