Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

74/2014

Reglugerð um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

1. gr. Innleiðing á EES-gerð.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirfarandi EES-gerð:

  1. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 764/2008 frá 9. júlí 2008, um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki og um niðurfellingu á ákvörðun 3052/95/EB, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 54, 27. september 2012, bls. 648, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 126/2012, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 63, 8. nóvember 2012, bls. 5.

2. gr. Gildissvið o.fl.

Í reglugerð þessari er mælt fyrir um reglur og málsmeðferð sem lögbær yfirvöld hér á landi eiga að fylgja þegar þau taka ákvörðun eða hyggjast taka ákvörðun, sbr. 2. mgr., sem myndu hindra frjálsa flutninga á vöru sem er löglega markaðssett í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja.

Stjórnvaldsákvörðun sem er beint til rekstraraðila, hvort sem hún er tekin eða fyrirhuguð, á grundvelli tæknireglu eins og hún er skilgreind í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 764/2008, ef bein eða óbein áhrif ákvörðunarinnar eru bann við því að setja þá vöru eða vörutegund á markað, breyting eða viðbótarprófun á vörunni eða vörutegundinni áður en hægt er að setja hana á markað eða halda henni á markaðnum, varan eða vörutegundin er tekin af markaðnum.

3. gr. Vörutengiliðir, gagnkvæm aðstoð o.fl.

Vörutengiliðir skulu, m.a. að beiðni rekstraraðila eða lögbærra stjórnvalda í öðru aðildarríki, sbr. 2. gr., veita upplýsingar m.a. um tæknireglur sem gilda um tiltekna vöru á yfirráðasvæðinu þar sem þessir vörutengiliðir hafa staðfestu, hvort vörutegundin fellur undir kröfu um fyrirframleyfi samkvæmt lögum aðildarríkis þeirra svo og allar aðrar nauðsynlegar upplýsingar sem nánar er kveðið á um í 2. kafla reglugerðar (EB) nr. 764/2008.

Vörutengiliður á Íslandi er atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Um starfsemi, réttindi og skyldur vörutengiliða fer að öllu leyti eftir ákvæðum í 3. kafla reglugerðar (EB) nr. 764/2008.

4. gr. Neytendastofa og eftirlitsstjórnvöld.

Eftirlitsstjórnvöld með vöru bera ábyrgð hver á sínu sviði með markaðseftirliti á vörum í samræmi við lög og reglugerðir sem þau fara með framkvæmd á og teljast því lögbær yfirvöld í skilningi þessarar reglugerðar. Eftirlitsstjórnvöld skulu við málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki beita ákvæðum þessarar reglugerðar telji þau ástæðu til að fresta tímabundið eða varanlega markaðssetningu vöru sem löglega hefur verið markaðssett í öðru EES-ríki eða á annan hátt hafa í hyggju að taka stjórnvaldsákvarðanir sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar.

Tollayfirvöld hafa eftirlit og bera ábyrgð á framkvæmd ákvæða 27.-29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 765/2008 og aðstoða eftirlitsstjórnvöld á sviði markaðseftirlits með vörum í samræmi við ákvæði laga og reglna settra samkvæmt þeim.

Neytendastofa ber ábyrgð í samræmi við löggjöf sem fellur undir eftirlit stofnunarinnar. Neytendastofa veitir jafnframt rekstraraðilum og öðrum stjórnvöldum aðstoð vegna beitingar reglugerðar þessarar í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.

5. gr. Stjórnsýsla, viðurlög o.fl.

Um stjórnsýsluúrræði, málsmeðferð, viðurlög o.fl. fer eftir IV. og V. kafla laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við getur átt, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

6. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. mgr. 27. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, með síðari breytingum, og með hliðsjón af lögum nr. 57/2000, um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 9. janúar 2014.

Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.