Félagsmálaráðuneyti

49/1994

Reglugerð um starfsháttu barnaverndarráðs - Brottfallin

1. gr.

Hlutverk barnaverndarráðs.

Barnaverndarráð fer með úrskurðarvald í þeim málum, sem skotið er til þess, skv. lokamálslið 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 49. gr. laga nr 58/1992 um vernd barna og ungmenna.

2. gr.

Aðild að málskoti.

Foreldrar barns, forráðamenn þess og aðrir þeir, sem barninu eru nákomnir geta skotið úrskurði barnaverndarnefndar til fullnaðarúrskurðar barnaverndarráðs.

Félagsmálaráðuneytið getur skotið máli til endanlegs úrskurðar barnaverndarráðs verði það þess áskynja að barnaverndarnefnd hafi kveðið upp úrskurð andstæðan lögum.

3. gr.

Málskotsfrestur.

Málskot skal hafa borist barnaverndarráði innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var kunnugt um úrskurð barnaverndarnefndar.

Barnaverndarráð eða starfsmenn þess skulu veita þeim, sem til þess leita, alla nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi málskot.

4. gr.

Réttaráhrif málskots.

Málskot til barnaverndarráðs frestar ekki framkvæmd úrskurðar barnaverndarnefndar. Barnaverndarráð skal svo fljótt sem auðið er frá því að kæra berst að eigin frumkvæði eða að beiðni aðila, taka afstöðu til þess hvort aðstæður séu það sérstakar að fresta beri framkvæmd úrskurðar barnaverndarnefndar þar til endanlegur úrskurður barnaverndarráðs er kveðinn upp.

5. gr.

Ályktunarhæfi barnaverndarráðs.

Barnaverndarráð er ályktunarfært ef allir ráðsmenn sitja fund og tveir þeirra fylgjast að máli. Varamaður tekur sæti ef ráðsmaður hefur boðað forföll eða er vanhæfur, sbr. 6. gr.

6. gr.

Vanhæfi.

Um vanhæfi ráðsmanna til meðferðar einstakra mála gilda ákvæði 5. gr. laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991 eftir því sem við getur átt. Sama gildir um starfsmenn barnaverndarráðs.

7. gr.

Rannsóknarskylda - gagnaöflun.

Barnaverndarráð skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en það kveður upp úrskurð sinn, sbr, nánar 43. gr. laga nr. 58/1992.

Barnaverndarráð getur mælt fyrir um formlegan málflutning fyrir ráðinu.

8. gr.

Afhending gagna.

Barnaverndarráð skal með nægilegum fyrirvara hafa frumkvæði að því að láta aðilum í té afrit af öllum skriflegum gögnum máls.

Barnaverndarráði er þó heimilt að ákveða með rökstuddum úrskurði að tiltekin gögn skuli ekki afhent. Á það einkum við í þeim tilvikum þegar raunveruleg hætta telst vera fyrir hendi vegna hagsmuna barns eða vegna sambands þess og foreldra, að aðilar fái þau í hendur, svo sem skýrslur sérfræðinga, sem byggjast á upplýsingum er þeir hafa aflað í samtölum við börn eða gögn með upplýsingum sem ætla má að reynst gætu hættulegar aðila sjálfum eða öðrum. Í þessum tilvikum ber þó ætíð að hafa að leiðarljósi meginregluna, sbr. 1. mgr. um rétt aðila til aðgangs að gögnum.

Einnig er barnaverndarráði heimilt á sama hátt að úrskurða að aðilar geti kynnt sér gögn án þess að þau verði afhent.

9. gr.

Leiðbeiningarskylda.

Barnaverndarráði ber, áður en það kveður upp úrskurð sinn, að leiðbeina foreldrum eða öðrum forráðamönnum barns eða ungmennis um réttarstöðu þeirra samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna.

10. gr.

Andmælaréttur aðila .

Málsaðilum skal veittur kostur á að tjá sig um málið fyrir barnaverndarráði, munnlega eða skriflega, þ.á m. með liðsinni lögmanna.

11. gr.

Andmælaréttur barns.

Að jafnaði ber að veita barni kost á að tjá sig um mál og er það skylt ef mál varðar barn 12 ára eða eldra.

Þegar sérstaklega stendur á getur barnaverndarráð skipað barni eða ungmenni talsmann.

12. gr.

Málshraði.

Barnaverndarráði ber að taka mál, sem skotið er til úrskurðar þess, til skjótrar meðferðar og úrlausnar. Að jafnaði skal barnaverndarráð kveða upp fullnaðarúrskurð innan sex mánaða frá því að málinu var skotið til ráðsins.

13. gr.

Niðurstaða úrskurðar.

Barnaverndarráð getur metið að nýju bæði lagahlið málsins og sönnunargögn þess. Það getur ýmist staðfest úrskurð barnaverndarnefndar að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu, þar á meðal mælt fyrir um aðrar ráðstafanir en barnaverndarnefnd hefur ákveðið. Þá getur ráðið einnig vísað málinu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju, svo og aflað gagna sjálft eða fyrir atbeina barnaverndarnefnda eða með öðrum hætti ef því er að skipta.

14. gr.

Form og efni úrskurðar.

Úrskurðir barnaverndarráðs skulu vera skriflegir og rökstuddir. Þeir skulu undirritaðir í tveimur samhljóða eintökum. Annað eintakið skulu aðilar fá. Hitt skal varðveitt með tryggilegum hætti hjá barnaverndarráði.

Í úrskurði skal greina eftirfarandi atriði á stuttan og glöggan hátt:

1.             Nöfn aðila og kennitölu.

2.             Nafn barns/barna og kennitölu.

3.             Kröfur aðila.

4.             Málavexti og forsendur.

5.             Rökstuðning fyrir niðurstöðu máls.

6.             Niðurstöðu, er skal draga saman í lok úrskurðar í sérstakt úrskurðarorð. Með úrskurði skal fylgja yfirlit um öll þau gögn sem hann byggir á.

15. gr.

Birting úrskurða.

Úrskurð skal tilkynna aðila máls með ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggilegan hátt.

16. gr.

Afhending úrskurða.

Barnaverndarráði er óheimilt að afhenda úrskurð öðrum en aðilum máls eða lögmönnum þeirra og barnaverndarnefnd þeirri sem kvað upp hinn kærða úrskurð.

Þó má láta talsmanni barns, hafi hann verið skipaður, í té afrit úrskurðar, svo og öðrum þeim sem starfs síns vegna hafa hlutverk við að fullnægja úrskurðinum. Ennfremur geta opinberir aðilar, eftir skriflega rökstuddri beiðni, fengið afrit úrskurðar, ef nauðsyn þykir bera til.

17. gr.

Valdbeiting.

Beri brýna nauðsyn til að beita valdi við að hrinda úrskurði barnaverndarráðs í framkvæmd heyrir slík valdbeiting undir lögreglustjóra/sýslumann. Fulltrúi barnaverndarráðs eða hlutaðeigandi barnaverndarnefndar skal ávallt vera viðstaddur ef til slíkra ráðstafana þarf að grípa í þeim tilgangi að gæta hagsmuna þess barns sem í hlut á.

18. gr.

Skýrsla til félagsmálaráðuneytis.

Barnaverndarráð skal fyrir 1. febrúar ár hvert gefa félagsmálaráðuneytinu skýrslu um starfsemi sína á liðnu ári.

19. gr.

Starfsmenn barnaverndarráðs.

Barnaverndarráð skal hafa sérhæfða starfsmenn í þjónustu sinni og annað starfsfólk eftir þörfum. Þar skal starfa framkvæmdastjóri er fari með umboð til að rækja dagleg störf ráðsins.

Þess skal jafnan gætt að til staðar sé lagaleg, sálfræðileg og félagsleg þekking hjá þeim sem

starfa að þeim málum, sem barnaverndarráð fær til úrlausnar.

Heimilt er barnaverndarráði að leita álits utanaðkomandi sérfræðinga þegar ástæða þykir til.

20. gr.

Þagnarskylda.

Barnaverndarráðsmenn og starfsmenn á vegum þeirra njóta réttinda og bera skyldur opinberra starfsmanna. Þeim ber að sýna börnum og ungmennum, er þeir fjalla um mál þeirra, fulla nærgætni og mega ekki skýra óviðkomandi mönnum frá því sem þeir verða vísir í starfa sínum um einkamál manna og heimilisháttu.

Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

21. gr.

Fundarboðun.

Formaður, eða framkvæmdastjóri í umboði hans, skal boða fund hjá barnaverndarráði með hæfilegum fyrirvara. Skylt er að boða til fundar ef meirihluti ráðsmanna krefst þess.

Ráðsmaður skal svo fljótt sem auðið er tilkynna formanni (framkvæmdastjóra) um forföll

og boðar þá formaður (framkvæmdastjóri) varamann hans.

22. gr.

Fundarhöld.

Fundir barnaverndarráðs skulu að jafnaði haldnir fyrir luktum dyrum. Ráðið getur kvatt á sinn fund starfsmenn og fulltrúa barnaverndarnefndar ásamt þeim sérfræðingum sem þörf krefur hverju sinni.

23. gr.

Fundargerðarbók.

Barnaverndarráð skal halda fundargerðarbók. Í henni skal getið, hvar og hvenær fundur er haldinn og hverjir sitji hann. Víki einhver af fundi skal það skráð í gerðarbók.

Í upphafi hvers fundar skal leggja fram fundargerð síðasta fundar og skrá í fundargerðarbók hvort hún hafi verið samþykkt óbreytt eða breytingar gerðar á henni.

Skrá skal mál, sem tekið er fyrir á hverjum fundi, númer þess og fylgiskjala, nöfn aðila og meginefni máls og hvaða afgreiðslu það fær hverju sinni. Sé mál ekki afgreitt samhljóða skal þess getið í fundargerð.

Þá ber og að skrá í fundargerðarbók hvaða önnur gögn eru lögð fram í máli og númer þeirra, sbr. bréfabók barnaverndarráðs.

Í gerðarbók skal getið allra krafna, sem ekki koma fram í skriflegum og framlögðum gögnum, svo og breytingar á kröfugerð.

Óski einhver fundarmanna að færð verði til bókar stutt yfirlýsing/athugasemd af hans hálfu skal það gert og skal síðan lesa bókunina upphátt fyrir viðstadda og hún staðfest af hlutaðeigandi.

Kveði barnaverndarráð upp úrskurð á fundi sínum, skal færa úrskurðarorðið í heild sinni í fundargerð. Undirritaður úrskurður skal varðveittur í skjalasafni ráðsins.

Í lok fundar ber ráðsmönnum að undirrita fundargerð þess fundar.

24. gr.

Málaskrá.

Barnaverndarráð skal halda skrá yfir þau mál, sem því berast til úrskurðar. Í málaskrá skal færa eftirtalin atriði:

1.             Númer máls.

2.             Móttökudag þess.

3.             Eldra númer þess hafi það borist ráðinu áður.

4.             Nöfn málsaðila, heimilisfang og kennitölu.

5.             Nöfn barna og kennitölu.

6.             Málskotsaðila og dagsetningu málskots.

7.             Barnaverndarnefnd sem kvað upp hinn kærða úrskurð og dagsetningu hans.

8.             Lyktir máls og dagsetningu.

Ef málaskrá er í tölvutæku formi skal með reglulegu millibili taka öryggisafrit af skránni.

25. gr.

Skráning skjala.

Öll skjöl mála, sem barnaverndarráð fær til umfjöllunar, skal merkja í bréfabók. Í þeirri merkingu skal tilgreina eftirtalin atriði:

1.             Númer máls.

2.             Móttökudag og númer skjals.

3.             Eldra númer máls hafi það verið til umfjöllunar fyrir barnaverndarráði áður.

4.             Nafn bréfritara.

5.             Stofnun sem bréf kemur frá ef því er að skipta.

6.             Efni skjals í stuttu máli.

Þeirri reglu skal fylgt að merkja aðalbréf með hlaupandi töluröð í þeirri röð sem þau berast, 1, 2 o.s.frv. Fylgiskjöl með þeim bréfum skal merkja í áframhaldandi töluröð út frá aðalbréfi 1.1, 1.2; 2.1, 2.2 o.s.frv.

Sömu atriði eiga við um útsend bréf barnaverndarráðs.

Félagsmálaráðuneytið, 20. janúar 1994.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Húnbogi Þorsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica