Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

39/1935

Reglugerð um sölu áfengis til iðnaðar o. fl.

1. gr. Áfengi til iðnaðar.

Áfengi til iðnaðar eða iðnaðaráfengi er samkvæmt reglugerð þessari vínandi (aethylalkóhól), sem látinn er úti til iðnaðar eða annara verklegra þarfa, hvort sem hann er blandaður eða óblandaður og í hverskonar þynningum, ef styrkleikinn nemur meiru en 2 1/4 % af vinanda að rúmmáli. Er þetta áfengi ýmist fullmengað, hálfmengað eða ómengað.

Forstöðumaður Áfengisverzlunarinnar sér um mengun áfengisins í samráði við forstöðumann efnarannsóknarstofu ríkisins, samkvæmt 3. og 4. gr. þessarar reglugerðar.

2. gr. Einkaréttur Áfengisverzlunar ríkisins til að flytja inn áfengi til iðnaðar, svo og til að flytja inn og framleiða her á landi ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn, bökunardropa, kjarna (essensa) til iðnaðar og pressuger.

Áfengisverzlun ríkisins einni er heimilt að flytja inn áfengi til iðnaðar. Henni einni er og heimilt að flytja inn og framleiða hér á landi hverskonar ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn, bökunardropa og kjarna (essensa) til iðnaðar, hvort sem þeir vökvar hafa inni að halda áfengi eða ekki, og gilda um þá öll ákvæði þessarar reglugerðar, án tillits til þess. -- Áfengisverzluninni einni er og heimilt að flytja inn og framleiða pressuger.

3. gr. Fullmengað áfengi.

Fullmengað áfengi er sá vínandi, sem mengaður er með 0,5 % af pyridinbösum.

4. gr. Hálfmengað áfengi.

Hálfmengað áfengi er sá vínandi, sem mengaður er með efnum, sem fremur auðvelt er að ná úr vínandanum aftur, eða mengaður þannig, að vínandinn verður ekki með öllu talinn óhæfur til nautnar. Þar til telst, til dæmis að taka, vínandi mengaður með 0,5 % terpentínolíu, eða 0,5 % af bergamotolíu, eða með 5,5 % af flögulakki (schellakki). Vínandi mengast þannig með flogulakki: Í hverja 100 lítra af vinanda skal blanda 20 lítrum af flögulakksblöndu, sem búin er til úr 2 hlutum vínanda og 1 hluta flögulakks. Til vissra iðnþarfa má, ef þurfa þykir, menga vínandann með öðrum efnum en framantöldum, eftir því sem forstöðumenn þeir, er getur í 1. gr., telja gerlegt. Bökunardropa, ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn og aðra slíka vökva skal menga þannig, að þeir verði sem óhæfastir til nautnar eftir því, sem það verður samrímt vörugæðum og því, að hætta geti ekki stafað af.

5. gr. - Ómengað áfengi.

Ómengað áfengi er sa vínandi, sem hvorki er fullmengaður samkvæmt 3. gr. né hálfmengaður samkvæmt 4. gr.

6. gr. Til hvers láta má úti iðnaðaráfengi.

Áfengi til iðnaðar má láta úti til:

1. Smíða, aðallega til fægingar og gljáningar.

2. Gosdrykkjagerðar, brjóstsykurgerðar, súkkulaði- og konfektgerðar og annars þvílíks.

3. Efnarannsókna, vísindarannsókna og náttúrugripasafna.

4. Prentmyndagerðar.

5. Gervilimagerðar.

6. Tannviðgerða og tannsmíða.

7. Snyrtingar og hreinlætis (ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn og aðrir slíkir vökvar).

8. Bökunar (bökunardropar).

9. Eldsneytis (suðuvínandi).

Vínanda (aethylalkóhól) má ekki láta úti til áttavita.

7. gr. Sala ómengaðs iðnaðaráfengis.

Ómengað áfengi til iðnaðar og hálfmengað áfengi, sem er mengað á þann hátt, að sérstaklega auðvelt er að gera það hæft til nautnar, lætur Áfengisverzlun ríkisins úti beint til notenda. Hér til teljast venjulegar tegundir fægivínanda og gljávínanda (flögulakksvínandi, pólítúr). Sá, sem æskir slíks áfengis, leggur fyrir forstöðumann Áfengisverzlunarinnar skilríki sín fyrir því, hver hann sé, hvaða iðn hann stundi, og til hvers hann þarfnist áfengisins. Getur forstöðumaður Áfengisverzlunarinnar krafizt, að áfengisbeiðandi leggi fram vottorð lögreglustjóra og sóknarprests, þar sem áfengisbeiðandi er búsettur, um, að honum sé trúandi fyrir áfenginu. Fellir forstöðumaður úrskurð um það, hvort áfengið skuli látið úti og hve mikið, en úrskurði hans má skjóta undir fullnaðarúrskurð ráðherra. Sá, sem fær úti látið áfengi til iðnaðar samkvæmt þessari grein, skal skrifa undir skuldbindingu um, að nota áfengið aðeins til þess, er hann hefir tjáð sig ætla að nota það og að láta það ekki af hendi til annara.

8. gr. Sala mengaðs iðnaðaráfengis.

Fullmengað og hálfmengað áfengi til iðnaðar (sbr. þó 7. gr.) er Áfengisverzlun ríkisins heimilt að selja kaupmönnum og kaupfélögum í því skyni, að það verði selt aftur til iðnaðar eða annara verklegra þarfa. Hér kemur aðallega til greina:

1. Suðuvínandi. Hann skal vera fullmengaður samkvæmt 3. gr.

2. Bökunardropar. Þá selur Áfengisverzlunin einnig þeim, er bökunariðn stunda.

3. Ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn og aðrir þess háttar vökvar. Þá selur Áfengísverzlunin einnig þeim, er stunda rakaraiðn og hárgreiðslu- og aðra snyrtingarstarfsemi.

Heimilt skal að hafa birgðir af vörum þeim, er greinir í 2. og 3. tölulið, í útibúum Áfengisverzlunarinnar. Ekki má selja eða láta úti vörur þessar nema í óhreyfðum umbúðum þeim, er þær koma í frá Áfengisverzluninni, og með óbreyttri áletrun.

9. gr. Sala kjarna.

Áfengisverzlun ríkisins selur kjarna aðeins iðnfyrirtækjum til gosdrykkjagerðar, súkkulaði- og brjóstsykurgerðar, köku- og konfektgerðar og annarar slíkrar framleiðslu.

10. gr. Sala pressugers.

Áfengisverzlun ríkisins selur bökunarhúsum pressuger. Henni er og heimilt að selja pressuger til skipa, sjúkrahúsa, skólaheimila og annara þeirra staða, þar sem mikill bakstur fer fram. Sá, sem fær úti látið pressuger, skal skrifa undir skuldbindingu um , að nota það ekki til annars en baksturs og að láta það ekki af hendi til annara.

11. gr. Verð og álagning.

Á vörur þær, sem um getur í 1.-3. tölulið 8. gr., skal Áfengisverzlunin setja smásöluverð, en gæta þess, að álagning fari að jafnaði ekki fram úr álagning þeirri, sem verið hefir á samskonar vörum hér á markaðinum undanfarið, en síðan gefur hún 25-33 1/3 % heildsöluafslátt frá þessu verði, enda sé varan greidd við móttöku. Þegar senda þarf vörur þessar á fjarlæga verzlunarstaði, greiðir Áfengisverzlunin flutningsgjaldið, en kaupendur greiða umbúðir og póstkröfugjald, ef um það er að ræða.

Álagning á kjarna og pressuger, að viðbættum tolli og flutningskostnaði, má ekki fara fram úr 25 %.

Áfengisverzluninni er heimilt að veita auka-afslátt af framleiðsluvörum sínum, svo sem bökunardropum og hárvötnum, og þá í hlutfalli víð ársúttekt hvers einstaks viðskiptaaðilja. Má sá afsláttur vera sem hér segir:
Af viðskiptum, sem nema kr. 2000.00 2 %,
------------------------------------ 4000.00 4 --
------------------------------------ 6000.00 5 --
------------------------------------ 8000.00 6 --
------------------------------------10000.00 7 --

Greiðir Áfengisverzlunín afslátt þennan áður en hún lýkur reikningsskilum hvers árs.

12. gr. Skýrsla Áfengisverzlunarinnar til ráðherra.

Forstöðumaður Áfengisverzlunarinnar skal í byrjun hvers árs senda ráðherra skýrslu um öll útlát iðnaðaráfengis verzlunarinnar á næstliðnu ári. Í skýrslu þessari skal greina þá með nöfnum, er iðnaðaráfengi hafa fengið úti látið samkvæmt 7. gr., og hve mikið hver hafi fengið. Forstöðumaður skal ennfremur senda ráðherra árlega skýrslu um framleiðslu og sölu á bökunardropum, ilmvötnum, hárvötnum, andlitsvötnum og öðrum slíkum vökvum, svo og á pressugeri.

13. gr. Skýrsla framleiðenda um birgðir.

Þeir, sem framleitt hafa hér á landi bökunardropa, ilmvötn, andlitsvötn og hárvötn, skulu gefa Áfengisverzlun ríkisins skýrslu um birgðir þær, sem þeir kunna að eiga, og gerir hún þá annað tveggja að kaupa af þeim birgðirnar samkvæmt mati, er fari sem næst framleiðsluverði að viðbættum 5 %, eða hún tiltekur hæfilegan frest, svo að þeir fái selt birgðirnar. En þegar fresturinn verður ákveðinn, skal það gert með tilliti til þess, hversu mikið hlutaðeigandi hefir selt af vörum þessum undanfarin ár.

14. gr. Refsiákvæði.

Um brot á reglugerð þessari, sem sett er samkvæmt lögum nr. 69, 7. maí 1928, um einkasölu á áfengi, lögum nr. 63, 10. desember 1934, um breyting á þeim lögum og áfengislögum nr. 33, 9. janúar 1935, fer samkvæmt fyrirmælum nefndra laga.

15. gr. Málarekstur.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið sem almenn lögreglumál.

16. gr. Hvenær reglugerðin öðlast gildi.

Reglugerð þessi öðlast gildi nú þegar og fellur þá jafnframt úr gildi reglugerð frá 3. marz 1930, um sölu áfengis til verklegra nota, suðuvökva o. fl.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 16. apríl 1935.
Hermann Jónasson.
Gissur Bergsteinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.