Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

68/1998

Reglugerð um ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfshætti og hlutverk ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur.

Umhverfisráðherra skipar í ráðgjafanefndina í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur til þriggja ára í senn.

2. gr. Hlutverk nefndarinnar.

Ráðgjafanefndin skal veita umsagnir samkvæmt lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, og vera umhverfisráðherra og Hollustuvernd ríkisins til ráðgjafar varðandi þennan málaflokk.

Hlutverk nefndarinnar.

  1. Að vera umhverfisráðherra og Hollustuvernd ríkisins til ráðgjafar um framkvæmd laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur;
  2. að beita sér fyrir fræðslu um erfðabreytingar;
  3. að gera tillögur til ráðherra um allt sem horfir til betri vegar í málaflokknum;
  4. að vera umsagnaraðili um reglugerðir sem umhverfisráðherra setur samkvæmt ákvæðum laga nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur;
  5. að vera umsagnaraðili um umsóknir, sbr. 3.gr.
  6. að vera Hollustuvernd ríkisins til ráðgjafar um varnir gegn slysum sem kunna að verða vegna erfðabreyttra lífvera.
  7. að vera Hollustuvernd ríkisins til ráðgjafar varðandi tilkynningar um sleppingar og markaðssetningar á erfðabreyttum lífverum á Evrópska efnahagssvæðinu eftir því sem ástæða þykir til.

3. gr. Umsagnir.

Leita skal umsagnar ráðgjafanefndar áður en endanleg ákvörðun er tekin eða leyfi veitt fyrir afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera, þ.e. starfsemi B með örverur í flokki II-1, II-2 og II-3 svo og dýr og plöntur, sbr. reglugerð nr.330/1997 um afmarkaða notkun erfðabreyttra lífvera. Hið sama gildir um umsóknir um leyfi til sleppingar eða dreifingar og markaðssetningar erfðabreyttra lífvera á Íslandi, sbr. reglugerð nr.493/1997 um sleppingar eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera.

4. gr. Fundir nefndarinnar.

Ráðgjafanefndin skal halda fundi svo oft sem þörf krefur, þó eigi sjaldnar en 4 sinnum á ári. Formaður nefndarinnar boðar að jafnaði til funda með einnar viku fyrirvara hið minnsta. Nefndarmenn eða Hollustuvernd ríkisins geta þó í samráði við formann óskað eftir að boðað verði til fundar telji fyrrgreindir aðilar tilefni til. Formaður stjórnar fundum.

Hollustuvernd ríkisins sér nefndinni fyrir fundaraðstöðu. Starfsmaður Hollustuverndar ríkisins er fundarritari og hefur málfrelsi og tillögurétt á fundum en ekki atkvæðisrétt. Hann undirbýr jafnframt fundi með formanni nefndarinnar.

5. gr. Ákvarðanataka og afgreiðsla.

Hver nefndarmaður fer með eitt atkvæði á fundum. Ákvarðanataka er lögleg þegar formaður eða varaformaður og a.m.k. 4 nefndarmenn sigja fund. Verði ágreiningur um afgreiðslu mála skal einfaldur meirihluti atkvæða ráða.

Nefndin skal skila umsögn um umsóknir innan 30 daga frá því hún fær þær til umfjöllunar þegar um innlenda sleppingu eða dreifingu er að ræða, en 45 daga þegar um innlenda markaðssetningu er að ræða. Nefndin skal skilja umsögn vegna afmarkaðrar notkunar erfðabreyttra lífvera, starfsemi B, innan 30 daga frá því hún fær þær til umfjöllunar.

6. gr. Trúnaður.

Nefndarmönnum í ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur er óheimilt að greina frá trúnaðarupplýsingum sem þeir kunna að komast að vegna starfa sinna í nefndinni. Óheimilt er að greina frá umsóknum sem dregnar hafa verið til baka.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal ekki fara með sém trúnaðarmál upplýsingar um atriði sem varðað geta heilsu manna eða raskað umhverfinu svo og upplýsingar um aðferðir og áætlanir um eftirlit með erfðabreyttum lífverum og viðbrögð í neyðartilfellum.

Á meðan mál eru til umfjöllunar í nefndinni skulu nefndarmenn ekki gera einstaka þætti þeirra opinbera á samráðs við formann eða þann sem óskaði trúnaðar.

Trúnaðarskylda helst þótt látið sé af setu í nefndinni.

7. gr. Upplýsingaskylda.

Nefndin skal veita Hollustuvernd ríkisins og umhverfisráðuneytinu upplýsingar um störf sín með fundagerðum og ársskýrslum.

8. gr. Kostnaður.

Nefndin skal gera fjárhagsáætlun vegna starfa sinna fyrir hvert fjárhagsár, svo sem vegna funda, fræðslustarfsemi, gerð sérfræðiálita, ferðir og einstök verkefni. Fjárhagsáætlun skal samþykkt af Hollustuvernd ríkisins.

Kostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist af Hollustuvernd ríkisins annar en þóknun til nefndarmanna en sá kostnaður greiðist af umhverfisráðuneytinu.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 6. gr. laga nr.18/1996, um erfðabreyttar lífverur, og öðast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 26. janúar 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.