Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

1155/2005

Reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu.

1. gr. Sjúkratryggðir.

Sá sem verið hefur búsettur hér á landi í sex mánuði telst sjúkratryggður nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 32. gr. og 9. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn og unglingar yngri en 18 ára eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst sjúkratryggður. Að öðru leyti gildir, um það hverjir teljist sjúkratryggðir hér á landi, reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá.

2. gr.

Þátttaka ríkisins í kostnaði við gleraugu.

Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra styrkir kaup á nauðsynlegum gleraugum fyrir sjúkratryggða einstaklinga.

  1. Fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára sbr. fylgiskjal.
  2. Fyrir 18 ára og eldri sbr. fylgiskjal og með eftirfarandi augnsjúkdóma:

    1. Eru augnsteinslausir (aphaki).
    2. Þurfa á prismagleraugum að halda vegna tvísýni.
    3. Eru hánærsýnir (myopia gravis) ≥ -12,00.
    4. Eru háfjarsýnir (microphathalmia) ≥ +10,00.
    5. Eru með lausa augasteina (luxatio lentis).
    6. Þurfa að breyta gleraugnastyrk umtalsvert, að mati sérgreinalæknis í augnlækningum, vegna augnsjúkdóma eða skurðaðgerða, svo sem keiluglæru (keratoconus), eftir hornhimnuígræðslu eða nethimnulossaðgerð.

Greiðsluþátttaka skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. skal þó aldrei vera hærri fjárhæð en sem nemur kaupverði glerja samkvæmt framlögðum reikningi.

3. gr. Tíðni greiðsluþátttöku ríkisins í gleraugum.

Einstaklingur getur mest notið greiðsluþátttöku ríkisins fyrir gleraugu skv. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. sem hér segir:

  1. barn á aldrinum 0 til 3ja ára, tvisvar á ári.
  2. barn á aldrinum 4 til 8 ára, árlega.
  3. barn og unglingur á aldrinum 9 til 17 ára, annað hvert ár.

Breytist sjónlag meira en ≥+/- 0,75 hjá einstaklingi skv. c lið skal greiðsluþátttaka ríkisins vera skv. b lið.

Einstaklingur getur mest notið greiðsluþátttöku fyrir gleraugu skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., þriðja hvert ár.

Breytist sjónlag umtalsvert að mati sérgreinalæknis í augnlækningum áður en þriggja ára tímabilinu lýkur skal réttur til greiðsluþátttöku ríkisins endurskoðaður.

4. gr. Umsókn.

Greiðsluþátttaka ríkisins er einungis heimil gegn umsókn frá augnlækni eða sjóntækjafræðingi með leyfi til sjónmælinga sbr. reglugerð nr. 1043/2004 um menntun sjóntækjafræðinga og takmarkanir á heimild þeirra til sjónmælinga. Á umsóknareyðublaði komi fram ástæður gleraugnanotkunar (sjúkdómsgreining), styrkleiki og verð glerja.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 4. og 5. gr. laga nr. 18/1984 um þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra, öðlast gildi 1. janúar 2006.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sem fengið hafa endurgreiðslu vegna kaupa á gleraugum á árunum 2003, 2004 og 2005 eiga rétt á endurgreiðslu eftir gildistöku reglugerðar þessarar samkvæmt þeim tímamörkum sem sett eru í 3. gr. eftir því sem við á.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 20. desember 2005.

Jón Kristjánsson.

Davíð Á. Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.