Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

356/1986

Reglugerð um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislum - Brottfallin

I. KAFLI

Geislavarnir ríkisins

1. gr.

Ríkið rekur stofnun, er nefnist Geislavarnir ríkisins, sem er sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn heilbrigðismálaráðherra. Stofnunin hefur það hlutverk að annast öryggisráðstaf­anir gegn jónandi geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum, samkvæmt lögum nr. 117, 31. desember 1985, í því skyni að koma í veg fyrir skaðleg áhrif slíkra geisla. Starfsemi Geislavarna ríkisins skal miða við reglur Alþjóðgeislavarnaráðsins, International Commissi­on on Radiological Protection, ICEP um geislavarnir.

 

2. gr.

Geislavarnir ríkisins annast:

1.      Reglubundið eftirlit með öllum geislatækjum og geislavirkum efnum, sem leyfi þarf fyrir samkvæmt 10. gr. laga nr. 117, 31. desember 1985.

2.      Leyfisveitingar samkvæmt 11. gr. laga nr. 117, 31. desember 1985. Leita skal staðfestingar heilbrigðismálaráðherra áður en leyfi er vent fyrir nýrri tækni og nýrri notkun á geislavirkum efnum og geislatækjum.

3.         Eftirlit með og rannsóknir á þeirri geislun, sem starfsfólk, sjúklingar og almenningur verður fyrir vegna notkunar jónandi geislunar.

4.      Eftirlit með uppsetningu og breytingu röntgentækja og annarra geislatækja.

5.      Eftirlit með innflutningi, umbúnaði, tollskoðun, fjarlægingu og förgun geislavirkra efna.

6.      Hvers konar eftirlit og athuganir, sem nauðsynlegar eru samkvæmt lögum nr. 117, 31. desember 1985, reglugerð þessari eða reglum settum samkvæmt þeim.

7.      Fræðslu um geislavarnir fyrir starfsfólk, er vinnur við jónandi geisla svo og upplýsingar fyrir almenning og fjölmiðla.

8.      Eftirlit með og rannsóknir á geislavirkni í umhverfi, matvælum o. fl. 9. Rannsóknir á sviði geislavarna.

10.     Aðild að evrópsku viðvörunarkerfi, er starfar í neyðartilfellum og að annast viðvörun vegna geislahættu.

11.     Eftirlit og umsjón með, að lögum nr. 117, 31. desember 1985, reglugerð þessari og reglum samkvæmt þeim, sé fylgt.

12.     Þátttöku í norrænu og alþjóðlegu samstarfi á sviði geislavarna.

13.     Önnur verkefni á sviði geislavarna, eftir nánari ákvörðun ráðherra.

14.     Geislavarnir ríkisins skulu hafa samvinnu við aðrar opinberar stofnanir svo sem landlækni, Hollustuvernd ríkisins, Siglingamálastofnun, Ríkismat sjávarafurða, Vinnu­eftirlit ríkisins og Náttúruverndarráð varðandi rannsóknir og eftirlit á geislavirkni eftir því sem við á hverju sinni.

 

3. gr.

Geislavarnir ríkisins skulu árlega gera skýrslu um starfsemi stofnunarinnar.

 

II. KAFLI

Leyfi til innflutnings, framleiðslu, eignar, sölu og afbendingar.

4. gr.

Áður en leyfi samkvæmt 10. gr. sbr. 11. gr. laga nr. 117, 31. desember 1985, um geislavarnir, er vent, skulu Geislavarnir ríkisins kanna, hvort öryggisbúnaður og fyrirhuguð notkun umræddra tækja og efna sé í samræmi við lögin, reglugerð þessa eða aðrar reglur, sem settar eru samkvæmt þeim.

 

5. gr.

Þeim, sem hefur fengið leyfi samkvæmt 10. gr. laga nr. 17, 31. desember 1985, um geislavarnir, er aðeins heimilt að selja, leigja, lána eða láta af hendi á annan hátt, umrædd tæki og efni til aðila, sem hefur leyfi Geislavarna ríkisins til þess að starfrækja þau. Framsal tækja og efna skal tafarlaust tilkynna Geislavörnum ríkisins.

 

III. KAFLI

Uppsetning og breytingar á geislatækjum.

 

6. gr.

Viðgerðir, uppsetningar eða breytingar á geislatækjum mega þeir einir annast, sem hafa til þess nægilega þekkingu og reynslu, að mati Geislavarna ríkisins.

 

7. gr.

Þeir, sem taka að sér að setja upp geislatæki, gera við slík tæki eða breyta, skulu ganga úr skugga um, að öryggisbúnaður tækjanna sé í samræmi við lög, reglugerð þessa eða aðrar reglur, sem settar eru samkvæmt þeim, og tilkynna Geislavörnum ríkisins tafarlaust, ef svo er ekki.

 

8. gr.

Þeir aðilar, er hyggjast setja upp geislatæki eða breyta slíkum tækjum, skulu senda Geislavörnum ríkisins áætlun um verkið á sérstökum eyðublöðum, er stofnunin lætur gera. Óheimilt er að hefja verkið, fyrr en fengið er samþykki stofnunarinnar.

 

IV. KAFLI

Eftirlit með geislatækjum og geislavirkum efnum.

9. gr.

Eftirlit Geislavarna ríkisins með geislatækjum og geislavirkum efnum skal vera alhliða, reglubundið eftirlit með þeim þáttum, er lúta að öryggi starfsfólks, sjúklinga og annarra, vegna notkunar jónandi geislunar. Eftirlitið skal miðað að því, að sú geislun, sem þessu aðilar verða fyrir, sé eins lítil og kostur er, með skynsamlegu tilliti til aðstæðna. Einnig skal eftirlitið fela í sér leiðbeiningar og fræðslu um geislavarnir svo og meðferð tækja og efna.

Geislavarnir ríkisins annast reglubundnar skoðanir á geislatækjum og geislavirkum efnum. Eigandi eftirlitsskylds tækis eða efnis getur óskað eftir aukaskoðun sér að kostnaðarlausu. Árlega skal gera skýrslu um eftirlitið til heilbrigðis- og tryggingamálaráðu­neytisins og landlæknis.

 

10. gr.

Eigendur geislatækja og geislavirkra efna skulu láta framkvæma þær lagfæringar, sem Geislavarnir ríkisins telja nauðsynlegar, innan tiltekins frests. Ef lagfæringar eru eigi framkvæmdar innan tiltekins frests, er Geislavörnum ríkisins heimilt að banna frekari notkun tækja og efna þar til lagfæring hefur farið fram.

 

11. gr.

Geislavörnum ríkisins er heimilt að banna frekari notkun tækja og efna þar til lagfæring hefur farið fram, sé öryggisbúnaði það ábótavant að hætta geti stafað af.

 

12. gr.

Gjöld vegna eftirlitsskyldra efna og tækja svo og gjöld vegna eftirlits með geisla­skömmtum starfsfólks skulu greidd af skráðum eigendum geislatækja og geislavirkra efna samkvæmt gjaldskrá, er heilbrigðismálaráðherra setur, að fengnum tillögum Geislavarna ríkisins. Gjaldinu skal varið til þess að standa undir kostnaði við eftirlitsstarfsemi Geislavarna ríkisins og fellur það í gjalddaga 1. febrúar með eindaga 1. maí ár hver. Eftirlitsgjöld eru tryggð með lögveðsrétti í hinu eftirlitsskylda tæki í 2 ár eftir gjalddaga.

 

V. KAFLI

Tollskoðun, flutningur, geymsla, fjarlæging og förgun geislavirkra efna.

13. gr.

Tollskoðun á sendingum, sem innihalda geislavirk efni, skal framkvæma í viðurvist sérfróðs aðila frá Geislavörnum ríkisins, sé þess óskað af hálfu Tollstjóra eða umboðsmanna hans.

 

14. gr.

Við flutning skulu geislavirk efni vera í öruggum umbúðum, þannig að efnið dreifist eigi út í umhverfið, þótt umbúðir rofni. Skal svo um búið, að geislunin geti eigi valdið óleyfilega háum geislaskömmtum meðan á flutningi stendur, samkvæmt reglum Alþjóða geislavarna­ráðsins. Á umbúðirnar skal rita tegund og magn hins geislavirka efnis. Þá skal þess getið, hver sé sendandi og viðtakandi og heimilisföng beggja. Þess skal getið á flutningsskjölum öllum, að um geislavirk efni sé að ræða.

 

15. gr.

Geislavirk efni skulu ávallt geymd í öruggum og traustum geymslum. Geislavarnir ríkisins setja nánari reglur um gerð þeirra og frágang. Þeir staðir, þar sem geislavirk efni eða tæki, sem nýta jónandi geisla, eru geymd, skulu greinilega merktir aðvörunarmerkjum eftir fyrirmælum Geislavarna ríkisins.

 

16. gr.

Vegna fjarlægingar og förgunar geislavirkra efna, skal haft samráð við Geislavarnir ríkisins. Skal fylgt fyrirmælum, er stofnunin gefur, svo og reglum er hún setur um fjarlægingu og förgun geislavirkra efna.

 

VI. KAFLI

Notkun geislavirkra efna og geislatækja.

17. gr.

Aðilar, er hyggjast hefja eða breyta starfsemi þar sem notuð eru geislavirk efni eða geislatæki, skulu sbr. 19. grein laga nr. 117, 31. desember 1985, um geislavarnir, senda Geislavörnum ríkisins umsókn um leyfi til þess, ásamt áætlun um fyrirhugaða starfsemi eða breytingar með ítarlegum upplýsingum. Óheimilt er að hefja eða breyta starfsemi, fyrr en fengið er leyfi Geislavarna ríkisins. Þegar notkun geislavirkra efna og geislatækja er hætt, skal það tilkynnt Geislavörnum ríkisins tafarlaust. Sala, leiga eða annað framsal á þessum efnum og tækjum er aðeins heimil til aðila, er hefur leyfi til eignar og notkunar slíkra tækja og efna. Framsal tækja og efna skal tafarlaust tilkynnt Geislavörnum ríkisins.

 

18. gr.

Áður en leyfi er veitt samkvæmt 17. gr., skulu Geislavarnir ríkisins kanna aðstæður umsækjanda til þess að uppfylla öryggiskröfur samkvæmt lögum, reglugerð þessari eða öðrum reglum.

 

19. gr.

Eigendur bera ábyrgð á starfrækslu geislatækja og geislavirkra efna. Við sjúkdóms­greiningu eða meðferð skulu þau starfrækt undir handleiðslu og faglegri ábyrgð læknis, dýralæknis eða tannlæknis, eftir því sem við á.

 

20. gr.

Þar sem geislavirk efni eða geislatæki eru starfrækt, skal ábyrgðarmaður, sbr. 19. gr., eða aðili tilnefndur af honum, sjá um að starfræksla og meðferð umræddra tækja og efna sé í samræmi við lög, reglugerð þessa og aðrar reglur um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislun.

 

21. gr.

Þekking þess, sem stjórnar starfi þar sem notuð er jónandi geislun, svo og þekking þess aðila, sem tilnefndur er samkvæmt 20. gr., skal vera fullnægjandi að dómi Geislavarna ríkisins og má gera kröfur um viðbótarmenntun, sé þess talin þörf.

 

22. gr.

Við hönnun og byggingu húsnæðis og annarrar aðstöðu fyrir starfsemi, þar sem nota á geislavirk efni eða geislatæki, skal leitað álits Geislavarna ríkisins, hvort fyrirhugað húsnæði, aðstaða og annar búnaður uppfylli kröfur, sem gerðar eru um geislavarnir.

 

23. gr.

Allir þeir staðir, þar sem unnið er með geislavirk efni eða geislatæki, skulu greinilega merktir aðvörunarmerkjum eftir fyrirsögn Geislavarna ríkisins.

 

24. gr.

Þeir einir mega vinna við geislavirk efni og geislatæki, sem hafa til þess fullnægjandi þekkingu og reynslu að dómi Geislavarna ríkisins. Starfsfólk skal gæta þess að fara eftir settum reglum um geislavarnir.

 

25. gr.

Geislavarnir ríkisins setja nánari reglur um öryggisráðstafanir, búnað og frágang tækja og efna, meðferð o. fl.

Eigendur geislavirkra efna og geislatækja bera ábyrgð á því, að farið sé eftir þeim reglum.

 

VII. KAFLI

Heilbrigðiseftirlit, hópskoðanir.

26. gr.

Geislavarnir ríkisins setja að höfðu samráði við landlækni reglur um lækniseftirlit starfsfólks, er starfar við jónandi geislun.

 

27. gr.

Aðilar, er ætla að framkvæma hópskoðanir á fólki og nota til þess jónandi geisla, skulu leita heimildar Geislavarna ríkisins til þess. Óheimilt er að hefja slíkar skoðanir fyrr en heimild Geislavarna ríkisins liggur fyrir, að fengnu áliti landlæknis.

 

VIII. KAFLI

Gildistaka.

28. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 9. gr. laga nr. 117/1985, um geislavarnir, öðlast gildi þegar við birtingu.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 24. júlí 1986.

 

Ragnhildur Helgadóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica