Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

2/2000

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 413/1973 um starfsmannaráð sjúkrahúsanna. - Brottfallin

1. gr.

5. gr. verði svohljóðandi:

Starfsmannaráð sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Starfsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur skulu kjósa starfsmannaráð eins og lýst hefur verið hér að framan. Starfsmenn Ríkisspítala skulu með sama hætti kjósa starfsmannaráð samkvæmt framangreindum reglum.

Heimilt er þó að ákveða í starfsreglum um starfsmannaráð sjúkrahúss, samkvæmt 3. mgr. 6. gr., að kosin séu starfsmannaráð einstakra deilda eða eininga innan sjúkrahússins og þau kjósi síðan fulltrúa í starfsmannaráð sjúkrahússins. Jafnframt er heimilt, með ákvörðun í starfsreglum, að víkja frá ákvæðum 5. mgr. 43. gr. um fjölda fulltrúa í starfsmannaráði sjúkrahúss.

Starfsmannaráð Ríkisspítala og starfsmannaráð Sjúkrahúss Reykjavíkur skulu mynda sameiginlegt starfsmannaráð sjúkrahúsanna í Reykjavík. Hvort starfsmannaráð skal kjósa fimm fulltrúa til setu í sameiginlegu starfsmannaráði sjúkrahúsanna. Ákvæði 3. málsgr. 3. gr. eiga ekki við um sameiginlega starfsmannaráðið.

Starfsmannaráð sjúkrahúsanna í Reykjavík kýs sér sjálft formann, varaformann og ritara. Hlutverk þess er að vera tengiliður við stjórnarnefnd og miðla upplýsingum frá stjórnendum sjúkrahúsanna til starfsmannaráða samkvæmt 1. mgr. Starfsmannaráð sjúkrahúsanna í Reykjavík skal kjósa þá fulltrúa, sem starfsmannaráði ríkisspítala ber að tilnefna í stjórnarnefnd ríkisspítala samkvæmt 30. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Kjósa skal tvo fulltrúa til fjögurra ára í senn og skal annar þeirra vera starfsmaður Ríkisspítala og hinn starfsmaður Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í fyrsta skipti sem kosið er skal fulltrúi Ríkisspítala kjörinn til tveggja ára en fulltrúi Sjúkrahúss Reykjavíkur til fjögurra ára. Varamenn skulu kosnir með sama hætti.

Starfsmannaráð sjúkrahúsanna í Reykjavík skal halda fundi eigi sjaldnar en einu sinni á ári og oftar ef þurfa þykir. Það getur tekið fyrir mál sem eru sameiginleg fyrir sjúkrahúsin svo og mál sem stjórnarnefnd vísar til umsagnar ráðsins.

Að öðru leyti gilda almenn ákvæði reglugerðarinnar um starfsmannaráð, eftir því sem við getur átt.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. mgr. 32. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 með síðari breytingum og öðlast hún þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 3. janúar 2000.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Guðríður Þorsteinsdóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica