Menntamálaráðuneyti

679/1997

Reglugerð um listamannalaun. - Brottfallin

1. gr.

                Hlutverk Launasjóðs rithöfunda, Launasjóðs myndlistarmanna, Tónskáldasjóðs og Listasjóðs er að veita listamönnum starfslaun og styrki samkvæmt lögum um listamannalaun nr. 35/1991 með áorðnum breytingum og reglugerð þessari. Ákvarðanir um veitingu framlaga úr sjóðum þessum skulu gegna þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu.

2. gr.

                Starfslaun listamanna skulu veitt úr fjórum sjóðum:

                a.             Launasjóði rithöfunda.

                b.             Launasjóði myndlistarmanna.

                c.             Tónskáldasjóði.

                d.             Listasjóði.

                Þrír fyrstnefndu sjóðirnir eru sérgreindir sjóðir. Listasjóður er almennur sjóður en sinnir einkum öðrum listgreinum en þeim sem falla undir sérgreindu sjóðina. Listasjóður veitir og sérstök framlög til listamanna, sem notið höfðu listamannalauna í nokkur ár fyrir 31. desember 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri. Allir sjóðirnir veita starfslaun, svo og náms- og ferðastyrki.

3. gr.

                Yfirumsjón með sjóðunum skv. 1. gr. er í höndum stjórnar listamannalauna. Menntamálaráðherra skipar stjórn listamannalauna þremur fulltrúum til þriggja ára í senn, einum tilnefndum af Bandalagi íslenskra listamanna, einum tilnefndum af Háskóla Íslands, en af Listaháskóla þegar stofnaður verður, og loks einum án tilnefningar. Ráðherra skipar formann úr hópi stjórnarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

                Stjórn listamannalauna úthlutar fé úr Listasjóði, en sérstakar þriggja manna úthlutunarnefndir, sem skipaðar eru árlega af menntamálaráðherra fyrir hvern hinna sérgreindu sjóða, veita fé úr þeim sbr. 6.-8. gr. laga nr. 35/1991 með áorðnum breytingum. Úthlutunarnefndirnar skipta sjálfar með sér verkum.

4. gr.

                Stjórn listamannalauna sér til þess að auglýst sé með venjulegum hætti eftir umsóknum um veitingu starfslauna og náms- og ferðastyrkja úr sjóðunum og lætur gera sérstök eyðublöð fyrir umsóknir um framlög úr þeim. Umsókn skulu m.a. fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil, verðlaun og viðurkenningar, greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar umsókninni og hve langan starfstíma er sótt um. Sé sótt um náms- eða ferðastyrk skal gera á skýran hátt grein fyrir tilgangi ferðarinnar eða tilhögun námsins. Stjórn listamannalauna ákveður að öðru leyti og tiltekur í auglýsingu hvaða upplýsingar skuli fylgja umsókn.

                Auglýst skal eftir umsóknum eigi síðar en 15. október ár hvert og skal umsóknarfrestur að jafnaði vera eigi skemmri en tveir mánuðir. Miðað skal við að úthlutun starfslauna listamanna verði lokið fyrir 1. mars ár hvert.

5. gr.

                Við veitingu starfslauna og styrkja úr öllum sjóðum skulu úthlutunarnefndir gæta þess vandlega að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarðanir séu ávallt reistar á faglegum sjónarmiðum.

6. gr.

                Þeir sem njóta starfslauna skulu ekki vera fastráðnir til þess að gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur úr stöðugildi meðan þeir fá greidd starfslaun, enda hindri það ekki listamanninn í því að sinna því verkefni sem starfslaunin voru veitt til.

                Allir þeir sem njóta starfslauna skulu skila greinargóðri vélritaðri skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Þeir sem hljóta starfslaun til tveggja eða þriggja ára skulu skila skýrslu árlega.

                Hafi umsækjandi áður hlotið starfslaun skal umsókn hans því aðeins tekin til umfjöllunar að hann hafi skilað fullnægjandi skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum.

                Starfslaunaþegi skal taka starfslaunin samfellt á meðan á starfslaunatíma stendur en heimilt er honum að fresta upphafi tímabilsins í allt að sex mánuði frá því að tilkynning um veitingu starfslaunanna barst honum. Stjórn listamannalauna er þó heimilt að veita undanþágu frá töku samfelldra starfslauna vegna fæðingarorlofs sbr. lög nr. 57/1987.

                Sami listamaður getur eigi fengið starfslaun úr tveimur sjóðum í senn.

7. gr.

                Áður en til úthlutunar starfslauna kemur úr Listasjóði skal stjórn listamannalauna taka frá þann hluta fjárveitingarinnar sem ætlaður er listamönnum sem um getur í 4. mgr. 3. gr. þessarar reglugerðar.

                Allt að þriðjungi starfslauna úr Listasjóði skal varið til stuðnings leikhópum, sbr. 9. gr. laganna.

8. gr.

                Úthlutunarnefndir skulu senda stjórn listamannalauna niðurstöður sínar til afgreiðslu þegar þær hafa lokið störfum. Stjórn listamannalauna skal árlega taka saman skýrslu um starfsemi sjóðanna, sem geymir endurskoðaðan ársreikning og skrá um úthlutanir úr sjóðunum. Skýrsla þessi skal send menntamálaráðuneytinu og Bandalagi íslenskra listamanna.

                Ef starfslaunaþegi brýtur gegn ákvæðum laga um listamannalaun nr. 35/1991 með áorðnum breytingum, og reglugerð þessari, getur stjórn listamannalauna fellt niður starfslaun að hluta eða að öllu leyti eða krafist endurgreiðslu, enda hafi starfslaunaþega áður verið gefinn kostur á að tala máli sínu.

9. gr.

                Menntamálaráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna og fulltrúa í úthlutunarnefndum, sem greiðist af fé sjóðanna.

10. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 12. gr. laga um listamannalaun nr. 35/1991 með áorðnum breytingum og öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð um listamannalaun nr. 50/1992.

Menntamálaráðuneytinu, 25. nóvember 1997.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica