Iðnaðarráðuneyti

1048/2004

Reglugerð um gæði raforku og afhendingaröryggi.

I. KAFLI
Markmið, gildissvið, frávik og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja, svo sem kostur er, fullnægjandi gæði og afhendingaröryggi raforku í íslenska raforkukerfinu og stuðla að þjóðhagslega hagkvæmum rekstri og uppbyggingu raforkukerfisins að teknu tilliti til almannahagsmuna og sérstakra hagsmuna aðila.


2. gr.
Gildissvið.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda fyrir vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki og dreifiveitur. Um tengingu notenda við flutningskerfi gilda einnig tæknileg ákvæði þess svo og "Tæknilegir tengiskilmálar raforkudreifingar" vegna tengingar notenda við dreifikerfið.

Þar sem annars er ekki getið gildir spennustaðallinn ÍST/EN 50160 í reglugerð þessari.


3. gr.
Frávik.

Flutningsfyrirtæki, dreifiveitur og vinnslufyrirtæki geta gert samning við viðskiptavini sína um önnur afhendingargæði en þau sem tilgreind eru í reglum þessum. Í slíkum samningi skulu áðurnefnd fyrirtæki gera viðskiptavinum sínum skýra grein fyrir afleiðingum er leiða af samningnum. Þrátt fyrir slíkan samning skulu aðrir viðskiptavinir flutningsfyrirtækis/ dreifiveitna njóta afhendingargæða sem eru innan þeirra marka sem skilgreind eru í þessum reglum.


4. gr.
Skilgreiningar.

Eftirfarandi skilgreiningar eru notaðar í reglugerð þessari:
Afhendingargæði: Gæði spennu og tíðni ásamt öryggi afhendingar raforku í flutnings- og dreifikerfum og vinnslufyrirtækjum auk upplýsingargjafar til notenda.

Afhendingarstaður: Staður í flutnings- eða dreifikerfi þar sem innmötun eða úttekt raforku fer fram.

Afhendingaröryggi: Lýsing á áreiðanleika afhendingar raforku, sem tengist rofi á raforku.

Almennur notandi: Sá sem kaupir raforku til eigin nota, en er ekki stórnotandi.

Bilun: Það ástand þegar eining í raforkukerfi fer úr rekstri eða hefur takmarkaða getu til að sinna hlutverki sínu.

CENELEC: Evrópsk staðlasamtök á raftæknisviði, Comité Européen de Normalisation Electrotechnique (European Committee for Electrotechnical Standardization).

Dreifikerfi: Raflínur sem ekki teljast til flutningskerfisins ásamt mannvirkjum og búnaði þeim tengdum til og með heimtaug. Enn fremur mælar og mælabúnaður hjá notendum.

Dreifiveita: Fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði.

Flutningsfyrirtæki: Fyrirtæki sem stýrir rekstri flutningskerfisins og annast kerfisstjórnun.

Flutningskerfi: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem nauðsynleg eru til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna á þeim afhendingarstöðum sem taldir eru upp í viðauka með raforkulögum.

Heildarmat á bjögun: Heildaryfirsveiflubjögun, THDu-i (Total Harmonic Distorsion) sbr. 11 gr.

Heimtaug: Raflína sem tengir veitu notanda við dreifikerfi.

Hæg breyting á virku spennugildi: Breyting á 10 mínútna meðalgildi virks spennugildis.

IEC: Alþjóðleg staðlasamtök á raftæknisviði, International Electrotechnical Commission.

Kerfismínútur (KM): Stuðull sem gefur til kynna hve alvarlegt einstakt tilvik skertrar orkuafhendingar er. Eftirfarandi jafna gildir um þennan stuðul:

Kerfismínútur - Jafna fyrir stuðul sem gefur til kynna hve alvarlegt einstakt tilvik skertrar orkuafhendingar er


Þar sem:
E : Orkuskerðing í rekstrartruflun [MWh]
PMax : Hámarksafl viðkomandi kerfis, flutningsfyrirtækis/dreifiveitu [MW]


Nafnspenna kerfis: Sú riðspenna sem notuð er til að einkenna kerfi eða hluta þess.

Notandi: Sá sem kaupir raforku til eigin nota.

Notkunarstaður: Sá staður þar sem dreifiveita afhendir orku til almenns notanda.

Raflína: Samsafn af leiðurum, einangrandi efni og tengdum búnaði til að flytja raforku milli tveggja staða innan raforkukerfisins.

Rekstrartruflun: Sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki var gert ráð fyrir eða misheppnuð innsetning við bilun í raforkukerfinu.

Skerðing: Ástand sem einkennist af því að afhending raforku er skert eða takmörkuð til eins eða fleiri notenda og veituspenna er undir 1% af nafnspennu kerfis.

Spennublikk: Notað til að lýsa óstöðugum sjónrænum áhrifum ljóss vegna hraðra breytinga á spennu eða reglulegum endurteknum breytingum á spennubylgjunni, sbr. 11. gr.

Spennugæði: Lýsing á nothæfi rafmagns, sem tekur til tíðni spennu, virks gildis og bylgjulögunar hennar.

Spennumisvægi: Ójafnt virkt gildi spennu í þriggja fasa kerfi og/eða misstór horn milli fasa spennu, sbr. 11. gr.

Spennuþrep: Skyndileg stök breyting spennu milli tveggja stöðugra samfelldra spennugilda af óþekktri tímalengd, sbr. 11. gr.

Stórnotandi: Notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 MW afl með árlegum nýtingartíma í 8000 stundir eða meira.

Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur: Þessi stuðull metur hve lengi skerðing hefur staðið miðað við orkuskerðingu og heildarorkuafhendingar. Eftirfarandi jafna gildir um þennan stuðul:

Jafna fyrir stuðul um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur

Þar sem:

Ei : Orkuskerðing í rekstrartruflun i [MWh].
EAlls : Heildarorkuafhending til viðskiptavina [MWh].

Stuðull um rofið álag (Power Interruption Index):

Þessi stuðull er hlutfall samanlagðrar aflskerðingar og mesta álags á kerfið. Eftirfarandi jafna gildir um þennan stuðul:


Jafna fyrir stuðul um rofið álag


Þar sem:

Pi : Aflskerðing í skerðingartilviki i [MW].
PMax : Hámarksafl heildarinnmötunar ársins inn á kerfi flutningsfyrirtækis/dreifiveitu [MW].

Tæknilegir tengiskilmálar raforkudreifingar:

Tæknilegir tengiskilmálar raforkudreifingar (TTS), útgefnir af Samorku 2001 og staðfestir af iðnaðarráðuneytinu 31. ágúst s.á.

Viðskiptavinir flutningskerfis/dreifiveitna: Dreifiveitur, vinnslufyrirtæki og sölufyrirtæki raforku og notendur, sem hafa þörf fyrir að fá raforku flutta.

Vinnslufyrirtæki: Fyrirtæki sem stundar vinnslu á raforku eða hefur fengið virkjunarleyfi.

Yfirsveiflur: Sínus-löguð spenna með tíðni sem er margfeldi af grunntíðni spennu eða straums, og hægt er að meta með afstæðum styrk, Uh borið saman við grunnspennu, sbr, 11. gr.


II. KAFLI
Skyldur.
5. gr.
Innra eftirlit.

Í samræmi við 28. gr. raforkulaga nr. 65/2003 skulu vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtækið og dreifiveitur koma á innra eftirliti með gæðum raforku og afhendingaröryggi.


6. gr.
Úrbætur.

Verði truflanir í kerfum flutningsfyrirtækis, dreifiveitna eða vinnslufyrirtækja, sem valda flutningstakmörkunum, skerðingu á raforku eða færa ástand þeirra úr skorðum svo það lendi utan marka, sem þessi reglugerð setur og skilgreinir, skulu framangreind fyrirtæki bæta rekstrarástand kerfa sinna svo fljótt sem kostur er. Meðan truflun stendur skal sá sem ber ábyrgð á viðkomandi virki gera það sem unnt er til að takmarka áhrif hennar.

Viðskiptavinur flutningsfyrirtækis/dreifiveitu skal svo fljótt sem kostur er tilkynna flutningsfyrirtæki/dreifiveitu um truflun í eigin kerfi ef líklegt er að hún geti valdið því að flutningsfyrirtækið/dreifiveitan geti átt í erfiðleikum við að fullnægja kröfum þessara reglna.

Þegar viðhald á raforkukerfinu veldur skerðingu eða flutningstakmörkunum ber flutningsfyrirtæki/dreifiveitum að láta þá viðskiptavini sem skerðingin/flutningstakmarkanirnar hafa áhrif á vita með góðum fyrirvara um hvenær slíkt muni eiga sér stað og hve lengi það ástand muni standa. Upplýsingunum skal komið á framfæri á skilvirkan hátt.


7. gr.
Aðgerðir flutningsfyrirtækis eða dreifiveitu þegar gæði afhendingar eru skert.

Viðskiptavinur flutningsfyrirtækis/dreifiveitu skal koma kvörtunum sínum um meint skert afhendingargæði til þess fyrirtækis sem hann er tengdur. Flutningsfyrirtæki/dreifiveita getur farið fram á skriflegar röksemdir vegna atriða sem skipta máli.

Flutningsfyrirtæki/dreifiveita skal gera nauðsynlegar mælingar, athuganir og útreikninga.

Við ófullnægjandi afhendingargæði skulu gerðar úrbætur í samræmi við 6. gr.

Flutningsfyrirtækið/dreifiveitan skal svo fljótt sem auðið er eða í síðasta lagi innan tveggja mánaða senda viðskiptavinum upplýsingar um hvað hafi verið gert og áætlun um úrbætur. Mælingar sem gerðar eru skulu standa yfir að minnsta kosti í eina viku og skulu eins og unnt er ná til sambærilegs rekstrarástands og fram kemur í athugasemd.

Flutningsfyrirtæki/dreifiveita skal eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi innan 4 mánaða greina frá því hver beri ábyrgð á endurbótum sbr. 6. gr. Ef ástæðuna er að finna hjá viðskiptavini flutningsfyrirtækis/dreifiveitu, skal fyrirtækið taka málið skriflega upp við viðskiptavininn með vísan í kröfur um úrbætur samkvæmt reglugerð þessari.

Flutningsfyrirtæki/dreifiveita getur ekki krafist sérstakrar greiðslu fyrir að standa við skyldur sínar samkvæmt fyrstu til fjórðu málsgrein.


8. gr.
Kvörtun til Orkustofnunar.

Ef ekki næst samkomulag milli flutningsfyrirtækis/dreifiveitu og viðskiptavinar varðandi þætti þessara reglna ber flutningsfyrirtæki/dreifiveitu að upplýsa viðskiptavininn um að heimilt sé að kvarta til Orkustofnunar sem eftirlitsaðila.


9. gr.
Skráning truflana.

Flutningsfyrirtæki/dreifiveitur skulu skrá truflanir í flutnings- eða dreifikerfi. Að lágmarki skulu skráð þau tilvik sem leiða til skerðingar. Skráningarnar skulu vera í samræmi við reglur starfshóps um rekstrartruflanir (START) sem Orkustofnun hefur samþykkt og skulu skráðar í tölvukerfi hópsins eða sambærilegt kerfi. Einnig skulu skráningar vera í samræmi við ákvæði reglugerðar um kerfisstjórnun í raforkukerfinu, nr. 513/2003. Að lágmarki skulu eftirfarandi atriði koma fram í skráningum en nánari skilgreining er í fyrrnefndum leiðbeiningum START:
- Upplýsingar um truflun
- Upplýsingar um bilun
- Upplýsingar um skerðingu
- Vinnsla í varastöð

Flutningsfyrirtæki/dreifiveitu ber að varðveita skráninguna að lágmarki í 10 ár.


III. KAFLI
Öryggi í afhendingu raforku.
10. gr.
Afhendingaröryggi.

Flutningsfyrirtæki/dreifiveitu er heimilt að rjúfa afhendingu raforku til viðskiptavinar vegna nauðsynlegra breytinga, viðhalds, bilanaleitar og lagfæringa. Rof í slíkum tilgangi telst ekki vera skert afhendingaröryggi í skilningi þessara reglna.

Afhendingaröryggi flutningsfyrirtækis og dreifiveitu skal meta út frá eftirfarandi stuðlum:

Stuðull um rofið álag (SRA)

Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur (SMS)

Kerfismínútur (KM)

Flutningsfyrirtæki og hver dreifiveita um sig skal setja sér markmið hvað varðar þessa stuðla og þarf Orkustofnun að samþykkja þau. Orkustofnun getur ákvarðað markmið fyrir fyrirtæki ef stofnunin telur mat þess óraunhæft.

Þegar upp koma tilvik þar sem stuðlar eru utan fyrrgreindra marka skal fyrirtækið senda skýrslu til Orkustofnunar þar sem fram koma upplýsingar um tilvik og aðgerðir til endurbóta.

Fyrir 1. apríl ár hvert ber flutningsfyrirtæki og dreifiveitum að senda Orkustofnun samantekt um afhendingaröryggi síðasta árs í samanburði við markmið fyrirtækisins skv. stuðlunum hér að framan. Ef Orkustofnun telur þörf á, getur hún kallað eftir frekari gögnum um truflanir sbr. 9. gr.


IV. KAFLI
Tíðnistýring og spennugæði.
11. gr.
Tíðnistýring og spennugæði.

Flutningsfyrirtæki skal leitast við að tryggja að 10 sekúndna meðalgildi grunntíðni spennu sé innan þeirra marka sem fram koma í atriði 1 í töflu 1 í hinu samtengda raforkukerfi. Sama gildir þegar hluti flutningskerfisins rofnar frá hinu samtengda raforkukerfi. Dreifiveita sem rekur dreifikerfi sem ekki er tengt flutningskerfinu skal leitast við að tryggja að tíðni spennunnar sé innan áðurnefndra marka. Sama gildir þegar hluti dreifikerfisins rofnar frá hinu samtengda raforkukerfi.

Flutningsfyrirtæki/dreifiveitur skulu fylgjast með spennu í kerfinu og breytingum sem verða á henni í samræmi við atriði 2 til 7 í töflu 1 og skulu leitast við að halda spennunni innan þeirra marka sem þar koma fram.

Samantekt á sérstökum kröfum koma fram í töflu 1 hér að neðan.

Tafla 1: Spennugæði í flutnings- og dreifikerfum.

Atriði Nafn Skilgreining Gæðakröfur
1 Tíðnibreytingar Frávik í rekstrartíðni frá máltíðni (sem er 50 Hz). Kerfistíðni skal vera 50 Hz. Við eðlileg rekstrarskilyrði á meðalgildi rekstrartíðni mælt í 10 s að vera innan eftirfarandi marka:
50Hz +/- 99,5% tímans og
50 Hz +4 / -6 % (þ.e. 47 – 52 Hz)
allan mælitímann.
2 Afhendingarspenna og vikmörk Spenna sem er mæld í ákveðinn tíma á hverjum afhendingar- og notkunarstað


Vikmörk í afhendingarspennu miðast við nafnspennu og eru þau leyfilegu frávik sem afhendingarspennan má taka.
Afhendingarspenna skal vera innan skilgreindra vikmarka en getur verið háð staðbundnum aðstæðum.

Vikmörk: +10/-10%

Miðað er við að mælt sé á afhendingar- eða notkunarstað viðskiptavinar. Ef mælt er í dreifistöð skulu neðri vikmörk spennu vera lægst -4,5% í stað -10%, nema unnt sé að sýna fram á að slík þrenging eigi ekki við eða mörkin séu víðari en -4,5%
3 Spennublikk Spennublikk er notað til að lýsa óstöðugum sjónrænum áhrifum af völdum ljóss (blikk) vegna hraðra breytinga á spennu eða reglulegum endurteknum breytingum á spennubylgjunni og er skilgreint skv. UIE-IEC-aðferð þannig: Skilgreining spennublikks
þar sem:
· Pst = Skammtímagildi mælt í 10 mín.
· Plt = Langtímagildi metið út frá 12 mælingum á Pst í einn sólarhring.
Nafn-       Mörk
spenna    Pst
>35 kV    <=1,3
<=35 kV  <=0,6
95% tímans.
4 Spennuþrep Spennuþrep - mynd
Fyrirvaralaus stök breyting spennu milli tveggja stöðugra samfelldra spennugilda af óþekktri tímalengd.
Getur verið annaðhvort spennuhækkun eða spennulækkun.
Sjá skal til þess að spennuþrep verði ekki meiri en hér segir:
· Þrep sem geta orðið á klukkutíma fresti eða oftar skulu ekki vera meiri en sem nemur
> 35kV     2,0%
<=35kV    3,5%
· Þrep sem geta komið allt að 4 sinnum á sólahring mega vera allt að
>35kV       5,0%
<=35kV     5,0%
· Árstíðabundin þrep skulu ekki vera meiri en sem nemur
>35kV        5,0%
<=35kV      8,0%
5 Spennumisvægi Ójafnt virkt gildi spennu í þriggja fasa kerfi og/eða misstór horn milli fasa spennu.
Spennumisvægi - mynd
Neikvæð spennufylgd (negative voltage sequence) eða gildi hennar er oft notuð sem mælikvarði á spennumisvægi í þriggja fasa kerfi. Neikvæð spennufylgd er reiknuð út frá fasaspennu á eftirfarandi hátt.
Neikvæð spennufylgd reiknuð út
Þar sem Va, Vb og Vc eru fasaspennur og a er vigur (vector) með lengdina 1 og hornið 120° eða
Skilgreining a
Neikvæð spennufylgd, skal vera innan við
>35kV        2,0%
<=35kV      3,0%
miðað við 10 mínútna meðaltal og 95% tímans. Þó er meira frávik heimilt á svæðum þar sem einfasa dreifing er útbreidd en dreifiveita skal reyna eftir bestu getu að halda sig innan fyrrnefndra marka.
6 Bjögun af völdum einstakra yfirsveiflna Bjögun rekstrarspennu af völdum einstakra yfirsveiflna spennu með tíðni sem er frábrugðin rekstrartíðni.Bjögun vegna einstakra yfirsveiflna er oft skilgreind sem Dh en sú stærð er reiknuð samkvæmt:
Bjögun vegna einstakra yfirsveiflna reiknuð út
Þar sem Uh er fasaspenna yfirsveiflu og h er númer þeirrar yfirsveiflu sem er til athugunar. U1 er fasaspenna nafnspennu kerfis.

Bjögun vegna einstakra yfirsveifla, Dh, skal vera innan eftirfarandi marka:

>200 kV     2,0%
35-200 kV   3,0%
<=35 kV     6,0%
95% tímans.

7 Heildarmat á bjögun vegna yfirsveiflna Heildarbjögun rekstrarspennu af völdum allra spennusveiflna með tíðni sem er frábrugðin rekstrartíðni.

Heildarbjögun yfirsveiflna er skilgreind samkvæmt formúlunni:

Heildarbjögun yfirsveiflna skilgreind
Þar sem m er hæsta númer yfirsveiflu spennu sem metin er (oft er miðað við m = 50 sem svarar til 2500 Hz).
Fyrir flutnings- og dreifikerfi
skal heildarbjögun yfirsveiflna, THD, vera innan eftirfarandi marka:

>200 kV      3,0%
35-200 kV   5,0%
<=35kV      8,0%
95% tímans.


V. KAFLI
Upplýsingaskylda.
12. gr.
Samningsskylda vegna tengingar og notkunar.

Í samningi flutningsfyrirtækis/dreifiveitu við viðskiptavin skulu koma fram markmið fyrirtækisins varðandi afhendingaröryggi og spennugæði. Heimilt er að semja um strangari kröfur en koma fram í þessari reglugerð.


13. gr.
Afhendingarskylda og spennugæði.

Flutningsfyrirtæki/dreifiveitu ber að upplýsa viðskiptavin um gildandi reglur um afhendingaröryggi eða spennugæði ef eftir því er leitað.

Að fenginni skriflegri beiðni viðskiptavinar eða hugsanlegs viðskiptavinar skal flutningsfyrirtæki/dreifiveita upplýsa um afhendingaröryggi og spennugæði í eigin kerfishlutum. Fyrirtækið skal veita eftirfarandi upplýsingar innan mánaðar frá því að fyrirspurn berst:

a) Virkt gildi spennu ásamt áætlun um hægar breytingar spennu á afhendingar- og notkunarstað.
b) Upplýsingar úr truflanaskráningu sbr. 9. gr.
c) Niðurstöður um afhendingaröryggi síðustu 3ja ára sbr. III. kafla.
d) Áætlað lágmarks- og hámarksskammhlaupsafl á afhendingar- og notkunarstað næstu fimm árin.
e) Sérstakar aðstæður í kerfinu sem geta haft áhrif á gæði afhendingar.

Ofangreindar upplýsingar eiga að grundvallast á skráðum, mældum eða útreiknuðum gildum. Flutningsfyrirtæki/dreifiveita getur ekki krafist sérstakrar greiðslu vegna öflunar þessara upplýsinga.


14. gr.
Aðferðir við mælingar og kvörðun ásamt skráningu á nákvæmni.

Mælingar sem gerðar eru í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar skulu vera í samræmi við viðurkennda staðla IEC og CENELEC. Mælitæki skulu kvörðuð í samræmi við skilgreiningar staðals og leiðbeiningar framleiðanda með tilliti til áreiðanleika og aðferða. Mælitæknilegur rekjanleiki mælinga, á einstaka þáttum, skal skráður. Nákvæmni mælitækja og takmarkanir skulu koma fram við birtingu mæliniðurstaðna.

Flutningsfyrirtækið skal gera úrtaksmælingar á tíðni og spennugæðum á öllum afhendingarstöðum þannig að fjórðungur staða sé tekinn á hverju ári.

Dreifiveitur skulu gera úrtaksmælingar á tíðni og spennugæðum og skulu slíkar mælingar standa að minnsta kosti í 7 daga í hvert sinn og dreifast jafnt yfir árið. Gæði spennu skulu mæld að lágmarki á tveimur stöðum hjá hverri dreifiveitu, en auk þess skal tekin ein mæling fyrir hverja 15.000 íbúa á veitusvæðinu og ein mæling fyrir hverja 15.000 km2 sem veitusvæðið nær yfir.


VI. KAFLI
Önnur ákvæði.
15. gr.
Eftirlit.

Orkustofnun fer með eftirlit með ákvæðum reglugerðar þessarar.


16. gr.
Úttekt á innra eftirliti.

Faggilt skoðunarstofa skal taka út innra eftirlit flutningsfyrirtækis, dreifiveitna og vinnslufyrirtækja með gæðum raforku og afhendingaröryggi að minnsta kosti á tveggja ára fresti.


17. gr.
Þvingunarúrræði og viðurlög.

Telji Orkustofnun að ákvæði reglugerðar þessarar séu ekki uppfyllt getur hún krafist þess að úr verði bætt að viðlögðum dagsektum. Dagsektir geta numið 10-500 þús. kr. á dag. Við ákvörðun dagsekta skal tekið tillit til eðlis vanrækslu eða brots og þeirra hagsmuna sem í húfi eru. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna skriflega þeim sem hún beinist að. Dagsektir eru aðfararhæfar.


18. gr.
Undanþágur.

Orkustofnun getur í undantekningartilvikum og að fenginni rökstuddri beiðni um slíkt veitt undanþágur frá reglugerð þessari. Undanþágan getur náð til takmarkaðs svæðis eða veitusvæðis flutningsfyrirtækis/dreifiveitu í heild. Orkustofnun er heimilt að veita slíka undanþágu t.d. ef umbætur vegna einstakra gæðaþátta teljast ekki þjóðhagslega hagkvæmar.


19. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 28. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Ákvæði reglugerðar þessarar um skráningu taka gildi 1. janúar 2005 en ákvæði um þær gæðakröfur sem gerðar eru til afhendingar raforku þann 1. janúar 2007. Flutningsfyrirtækið og dreifiveitur skulu hefja gagnaöflun til að sinna upplýsingaskyldu vegna 13. gr. reglugerðar þessarar í síðasta lagi 1. janúar 2006.


Iðnaðarráðuneytinu, 21. desember 2004.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica