Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

426/2006

Reglugerð um útfararþjónustu.

1. gr.

Í reglugerð þessari merkir orðið útfararþjónusta sölu á vöru og þjónustu í atvinnuskyni vegna útfara og undirbúnings þeirra.

Útfararþjónusta (útfararstofa) getur verið í höndum einstaklinga, félaga, stofnana eða annarra lögaðila, þ. á m. sóknarnefnda og kirkjugarðsstjórna. Þeir einir mega reka útfararþjónustu er til þess hafa fengið leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

2. gr.

Umsókn um leyfi til starfrækslu útfararþjónustu skal vera skrifleg. Í henni skal tilgreina svo glöggt sem verða má eftirtalin atriði:

  1. Fullt nafn, kennitölu og lögheimili leyfisbeiðanda svo og forstöðumanns, ef hann er annar en beiðandi.
  2. Heiti væntanlegrar útfararþjónustu.
  3. Aðalstarfsstöð og þjónustusvæði væntanlegrar útfararþjónustu.
  4. Lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi.

Ef umsækjandi er lögaðili (þ.e. félag, stofnun, fyrirtæki, sóknarnefnd eða kirkjugarðsstjórn), þarf að tilgreina einstakling (framkvæmdastjóra) sem ábyrgðarmann um faglegan rekstur útfararþjónustunnar.

3. gr.

Til þess að fá leyfi eða endurnýja leyfi til að reka útfararþjónustu þarf umsækjandi:

  1. Að hafa óflekkað mannorð.
  2. Að vera búsettur hér á landi, vera lögráða og hafa forræði á búi sínu. Búsetuskilyrðið gildir þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningum um Evrópska efnahagssvæðið, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki. Sanna þarf ríkisborgararétt og búsetu í slíkum tilvikum.
  3. Félög og fyrirtæki skulu vera skráð hér á landi og mega ekki vera bundin við nauðasamninga eða bú þeirra undir gjaldþrotaskiptum.
  4. Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi til að bera næga kunnáttu eða þekkingu til að rækja starfann.
  5. Umsækjandi skal undirrita siðareglur, sbr. 10. gr.

4. gr.

Þess skal gætt við útfararþjónustu að starfið sé innt af hendi af alúð og með háttvísi þar sem tillit skal tekið til trúar, siðferðiskenndar, óska og siðvenja hins látna og aðstandenda. Þá skal starfsemin samræmast góðum viðskiptaháttum. Skulu auglýsingar um starfsemina vera látlausar þar sem viðskiptavinum sé gerð grein fyrir mismunandi þjónustu sem í boði er. Útfararþjónustu er skylt að leggja ávallt fram bindandi kostnaðaráætlun um alla þætti þjónustunnar. Óheimilt er útfararþjónustu að hafa samband við aðstandendur að fyrra bragði til að auglýsa eða markaðssetja þjónustu sína.

5. gr.

Útfararþjónusta skal unnin í góðri samvinnu við aðstandendur hins látna eða þann sem fyrir útför stendur svo og þá aðila sem tengjast útförinni, svo sem presta, hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn og eftir atvikum bálstofu.

6. gr.

Útfararstjóri ber ábyrgð á því að starfsmenn útfararþjónustu hans kunni skil á helstu þáttum í starfsemi útfararþjónustunnar og búi yfir þekkingu á lögum og reglugerðum er lúta að andláti og útför. Útfararstjóri skal í því sambandi kappkosta að starfsmenn hans sæki námskeið er kunna að vera í boði um mismunandi útfararsiði og hefðir er ríkja samkvæmt helstu trúarbrögðum heims og að því er varðar frágang líks og annan undirbúning að framkvæmd varðandi kveðjuathöfn og greftrun.

7. gr.

Til starfseminnar skal útfararþjónusta hafa sérstaka skrifstofu, merkta bifreið til líkflutninga og annan búnað sem nauðsynlegur telst til boðlegrar þjónustu. Óheimilt er að nota bifreiðar útfararþjónustu til annars en þess sem tengist útför. Ennfremur skal útfararstofan sýna fram á að hún geti útvegað þá aðstöðu sem hún ræður ekki sjálf yfir, svo sem í líkhúsi. Á fámennum stöðum er heimilt að víkja frá framangreindum skilyrðum.

8. gr.

Starfsaðstaða útfararþjónustu skal vera innréttuð í samræmi við markmið starfseminnar. Framganga og klæðaburður starfsmanna skal vera í samræmi við tilefni þeirra verkefna, sem útfararþjónustan hefur með höndum.

9. gr.

Útfararstjóri skal við leyfisveitingu undirrita þagmælskuheit um að þjónustan verði rækt af tillitssemi, virðingu og umhyggju svo og að í heiðri verði höfð lög og reglur sem um starfsemina gilda. Þá skal hann ennfremur sjá til þess að starfsmenn útfararþjónustunnar undirriti þagnarheit, þar sem þeir heita því að skýra ekki óviðkomandi frá því sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara. Þagnarskylda þessi og ábyrgð hennar helst, þótt starfsmenn láti af störfum.

10. gr.

Útfararstjórar skulu gangast undir siðareglur sem gilda fyrir útfararstofnanir í Evrópu (EFFS). Siðareglurnar fylgja í íslenskri þýðingu í fylgiskjali I ásamt skýringum.

11. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 36 4. maí 1993 um kirkjugarða, greftun og líkbrennslu, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 232/1995, sbr. reglugerð nr. 381/1995, sbr. reglugerð nr. 285/1999.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. maí 2006.

Björn Bjarnason.

Hjalti Zóphóníasson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.