Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

870/2014

Reglugerð um stjórn fjarskiptasjóðs og verkefnisstjórn um framkvæmd fjarskiptaáætlunar.

1. gr. Hlutverk fjarskiptasjóðs.

Hlutverk fjarskiptasjóðs er að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Stjórn sjóðsins úthlutar fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum.

2. gr. Stjórn.

Innanríkisráðherra skipar þrjá menn í stjórn fjarskiptasjóðs, þar af formann og varaformann, auk varamanna. Skipunin gildir til þriggja ára í senn. Stjórn fjarskiptasjóðs er jafnframt verkefnisstjórn fjarskiptaáætlunar.

Formaður kemur fram fyrir hönd stjórnar við kynningu ákvarðana hennar og mála sem hún hefur til meðferðar. Stjórnarmenn skulu vísa fyrirspurnum fjölmiðla til hans. Formaður undirritar samninga sem fjarskiptasjóður gerir. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér störfum.

3. gr. Fundarboðun o.fl.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda eftir þörfum en þó ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Heimilt er að boða til funda með tölvupósti á tölvupóstfang sem stjórnarmenn tiltaka. Stjórnarfundi skal að jafnaði boða með þriggja sólarhringa fyrirvara hið minnsta. Formaður stýrir fundum samkvæmt dagskrá og undirbýr þá ásamt starfsmanni sem innanríkisráðuneytið leggur til. Stjórnarfundi skal ætíð halda ef einn eða fleiri stjórnarmenn óska þess, eða telji formaður þess þörf. Ef ósk berst frá stjórnarmanni um fund, skal boðað til hans innan viku frá því að ósk berst formanni og skal fundurinn haldinn svo fljótt sem verða má.

Fundir skulu að öllu jöfnu haldnir í innanríkisráðuneytinu. Fundur er lögmætur ef réttilega er til hans boðað og meirihluti stjórnarmanna sækir hann. Hver stjórnarmaður fer með eitt atkvæði á fundum. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu máls. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Meiriháttar ákvarðanir má ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið sé þess nokkur kostur. Óski stjórnarmaður eftir frestun á afgreiðslu máls til annars fundar er rétt að verða við þeirri beiðni, enda þoli málið slíka bið.

Stjórn er heimilt að óska eftir því að utanaðkomandi aðilar sitji stjórnarfundi. Ákvæði 4. gr. um vanhæfi og ákvæði 5. gr. um þagnarskyldu gilda einnig um viðkomandi aðila eftir því sem við á.

4. gr. Vanhæfi.

Stjórnarmenn skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða lögaðila sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku stjórnarmanna í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega. Tengdir aðilar í skilningi greinarinnar eru m.a.:

  1. Maki, maki í staðfestri samvist eða sambúðarmaki stjórnarmanns,
  2. barn, kjörbarn eða stjúpbarn stjórnarmanns sem er á hans framfæri,
  3. önnur skyldmenni stjórnarmanns sem hafa búið á sama heimili og hann í a.m.k. eitt ár miðað við þann dag sem tiltekin viðskipti fara fram.

5. gr. Fundargerðir.

Halda skal fundargerð um það sem fram fer á stjórnarfundum. Fundargerð skal staðfest í upphafi næsta fundar og undirrituð af formanni. Bóka skal hvaða stjórnarmenn eru mættir, hvað sé á dagskrá fundarins og hvaða ákvarðanir hafa verið teknar. Þeir sem greiða atkvæði gegn ákvörðunum eiga rétt á því að fá stutta lýsingu á afstöðu sinni bókaða í fundargerð og skal senda hana án ástæðulausrar tafar til stjórnarmanna og innanríkisráðherra.

Stjórnarmenn eru bundnir þagnarskyldu um það sem fram fer á stjórnarfundum.

6. gr. Tekjur.

Tekjur fjarskiptasjóðs eru framlag úr ríkissjóði samkvæmt ákvörðun Alþingis, tekjur af gjöldum fyrir afnot af tíðnum sem lögð eru á samkvæmt heimild í lögum nr. 81/2003 um fjarskipti, ásamt tekjum af ávöxtun fjármuna sjóðsins.

7. gr. Verksvið og verkefni stjórnar fjarskiptasjóðs.

Stjórn fjarskiptasjóðs skal hafa yfirumsjón með fjármálum sjóðsins í samræmi við hlutverk hans. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir innanríkisráðuneytið.

Stjórnin skal m.a. annast eftirfarandi verkefni:

  1. Annast fjárreiður fjarskiptasjóðs í samráði við innanríkisráðuneyti,
  2. kveða á um ávöxtun fjármuna sjóðsins,
  3. ákveða framlög úr sjóðnum í samræmi við hlutverk hans og fjarskiptaáætlun, að jafnaði að undangengnu útboði,
  4. semja greiðsluáætlun innan heimilda fjárlaga,
  5. ákveða útboð,
  6. samþykkja tilboð,
  7. kveða á um faglegt eftirlit með verkefnum og framvindu þeirra,
  8. kalla eftir greinargerðum um framvindu verkefna og ráðstöfun fjár,
  9. ákveða tilfærslu fjármuna milli ára og/eða einstakra verkefna ef nauðsyn krefur,
  10. láta færa reikninga sjóðsins,
  11. setja nánari reglur, ef þörf krefur m.a. um framkvæmd einstakra verkefna, upplýsingagjöf um framvindu og ráðstöfun fjár vegna einstakra verkefna,
  12. svara erindum sem sjóðnum berast,
  13. skila skýrslu um starfsemi sjóðsins til innanríkisráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi á vorþingi.

Innanríkisráðuneytið sér um samningagerð í kjölfar útboðs vegna framkvæmda einstakra verkefna, í samræmi við ákvarðanir stjórnar sem undirritar samninga um framkvæmdina.

8. gr. Verksvið verkefnisstjórnar um framkvæmd fjarskiptaáætlunar.

Verkefnisstjórn um framkvæmd fjarskiptaáætlunar skal hafa umsjón með endurskoðun og framkvæmd áætlunarinnar fyrir hönd innanríkisráðherra.

Verkefnisstjórnin skal m.a. annast eftirfarandi:

  1. Að útfæra einstök verkefni í samvinnu við ábyrgðaraðila þeirra,
  2. gera tillögu að forgangsröðun verkefna,
  3. fjalla um kostnaðaráætlanir verkefna,
  4. samþykkja útfærslu og verkáætlanir einstakra verkefna,
  5. svara erindum sem verkefnisstjórninni berast,
  6. kynna tillögur fyrir ráðherra,
  7. vinna með tengiliðum ábyrgðaraðila,
  8. hafa umsjón með undirbúningi og gerð tillagna að fjarskiptaáætlun,
  9. undirbúa skýrslu um framgang fjarskiptaáætlunar til innanríkisráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi á vorþingi.

Innanríkisráðuneytið annast undirbúning og framkvæmd einstakra verkefna fjarskiptaáætlunar.

9. gr. Umsýsla og eftirlit.

Þeir sem fá úthlutað fé úr fjarskiptasjóði skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár.

Stjórn fjarskiptasjóðs skal árlega afla faglegrar úttektar á stöðu einstakra verkefna, eða oftar gerist þess nauðsyn. Að öðru leyti hefur innanríkisráðuneytið eftirlit með framkvæmd verkefna sem njóta styrkja frá sjóðnum. Um framkvæmd útboða og eftirlit fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 81/2003 um fjarskipti, laga nr. 65/1993 um framkvæmd útboða og laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

10. gr. Kostnaður.

Fjarskiptasjóður ber allan kostnað af starfsemi sinni og verkefnisstjórnar um framkvæmd fjarskiptaáætlunar. Sjóðurinn ber einnig allan kostnað innanríkisráðuneytisins af starfsemi sem tengist verkefnum sjóðsins. Reikningar sem berast fjarskiptasjóði skulu samþykktir af starfsmanni sem ráðuneytið leggur til.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 132/2005 um fjarskiptasjóð og öðlast þegar gildi.

Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 588/2006 um stjórn fjarskiptasjóðs og verkefnisstjórnar um framkvæmd fjarskiptaáætlunar.

Innanríkisráðuneytinu, 17. september 2014.

Hanna Birna Kristjánsdóttir
innanríkisráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.