Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

572/1994

Reglugerð um varnir gegn fjárkláða.

1. gr.

Komi upp grunur um fjárkláða, skal sá sem hans verður var þegar í stað tilkynna það héraðsdýralækni eða lögreglustjóra. Skulu þeir þá hlutast til um að hið grunaða eða kláðasjúka fé sé einangrað uns héraðsdýralæknir hefur úrskurðað, hvort um fjárkláða sé að ræða.

Verði fjárkláði staðfestur skal héraðsdýralæknir tilkynna það yfirdýralækni þegar í stað. Landbúnaðarráðherra tekur ákvörðun um nauðsynlegar varnaraðgerðir gegn sjúkdómnum að fengnum tillögum yfirdýralæknis. Varnaraðgerðir geta falist í böðun eða lyfjagjöf. Yfirdýralæknir gefur út leiðbeiningar um notkun lyfja við böðun eða lyfjagjöf og leiðbeinir um meðferð.

Héraðsdýralæknir skal jafnframt grípa til annarra nauðsynlegra varúðarráðstafana til varnar útbreiðslu og til útrýmingar á kláðanum, svo sem að hefta samgang fjár, farga einstöku kindum, sem vart verða læknaðar, sótthreinsa fjárhús og aðrar fjárgeymslur og eyða ullarkleprum, skófum og öðru sem smithætta getur stafað af.

Öllum þeim er starfa við heilbrigðiseftirlit á sláturhúsum, smölun, réttun, hirðingu og gæslu sauðfjár og geita er skylt að hafa vakandi auga á því hvort fjárkláða eða annarra óþrifa verði vart.

2. gr.

Hafi fjárkláði verið staðfestur er heimilt að láta fara fram ítarlega skoðun á sauðfé og geitum sem hafa haft samgang við hinar sjúku kindur. Fjáreigendum er skylt að framvísa fé sínu til skoðunar og veita nauðsynlega aðstoð við verkið sé þess óskað. Héraðsdýralæknum eða fulltrúum þeirra skal vegna skyldustarfa sinna vera heimill aðgangur að útihúsum og öðrum vistarverum þar sem sauðfé eða geitur kunna að vera geymdar.

3. gr.

Héraðsdýralæknar, hver í sínu umdæmi, skulu vera eftirlitsmenn með varnaraðgerðum gegn fjárkláða. Héraðsdýralæknar geta tilnefnt sérstaka fulltrúa, baðstjóra, til að sjá um framkvæmd böðunar og lyfjameðferðar. Í umdæmum þar sem ekki eru starfandi héraðsdýralæknar skipar landbúnaðarráðherra eftirlitsmenn, að fengnum tillögum yfirdýralæknis.

Baðstjórum er skylt að halda skýrslur um böðun sauðfjár, tölu þess, fjölda sjúkra kinda, framkvæmd verksins og hvenær það var unnið samkvæmt fyrirsögn héraðsdýralæknis.

4. gr.

Fjáreigendum er skylt að hafa allt fé sitt tiltækt til eftirlits eða meðhöndlunar, á húsi eða í rétt, eftir fyrirsögn héraðsdýralæknis eða fulltrúa hans.

Eigandi eða umráðamaður sauðfjár eða geitfjár skal hafa tiltækan nægan mannafla svo verkið geti gengið vel og greiðlega. Við böðun eða aðrar varnaraðgerðir gegn fjárkláða skal þess gætt að fé sæti ekki hrottalegri meðferð og aðstaða til verksins sé góð. Geitfé skal meðhöndla á sama hátt og sauðfé.

5. gr.

Vanti sauðfé þegar böðun eða aðrar varnaraðgerðir gegn fjárkláða fara fram á fjárbúi eða fresta verði aðgerðum á hluta fjárstofns af óviðráðanlegum ástæðum, skal allt meðhöndlað fé auðkennt og því haldið tryggilega aðskildu frá öðru fé, þar til allt fé á bænum hefur verið meðhöndlað.

Sérstaka gát skal hafa á fé sem heimtist seint og gæta þess vandlega að það sé ekki sett saman við annað fé fyrr en það hefur verið meðhöndlað.

6. gr.

Verði fjárkláða ítrekað vart á ákveðnu svæði er landbúnaðarráðherra rétt að fyrirskipa, að höfðu samráði við yfirdýralækni, að meðferð verði endurtekin innan eins mánaðar á svo stóru svæði sem þurfa þykir.

Landbúnaðarráðherra er heimilt að skipa sérstakan fulltrúa til að stýra framkvæmd endurtekinnar meðferðar (útrýmingarböðun) og taki hann laun úr ríkissjóði. Hann skal sjá um að varnaraðgerðir á svæðinu fari í hvívetna fram eftir settum reglum, allt fé sé meðhöndlað á tilskyldum tíma og fylgst sé vandlega með því að fé sem heimtist eftir meðferð sé meðhöndlað án tafar.

Þegar endurtekin meðferð hefur verið ákveðin tilkynnir yfirdýralæknir það héraðsdýralæknum en þeir baðstjórum. Tilkynning um slíka meðferð skal einnig birt með sannanlegum hætti fyrir viðkomandi umráðamanni sauðfjár eða geita.

7. gr.

Eigendur og umráðamenn sauðfjár og geitfjár greiða allan kostnað við útrýmingu fjárkláða. Þó greiðir ríkissjóður kostnað vegna einangrunar fjár, efniskostnað vegna nauðsynlegrar hreinsunar og sótthreinsunar, einnig kostnað vegna aflífunar, eyðingar hræja og notkunar tækja sem þarf til fyrrgreindra verka. Þá greiðir ríkissjóður lyfjakostnað vegna endurtekinnar meðferðar.

Reikningur fyrir kostnaði ríkissjóðs skal staðfestur af eftirlitsmanni.

Eigendum eða umráðamönnum er skylt að leggja fram endurgjaldslaust alla ófaglega vinnu og aðstoð við aðgerðir samkvæmt reglugerð þessari.

8. gr.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 25 7. apríl 1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi Reglugerð um sauðfjárbaðanir nr. 290/1978.

Landbúnaðarráðuneytið, 1. nóvember 1994.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.