Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

1078/2005

Reglugerð um tryggingar skipa og starfsemi á landi vegna bráðamengunar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerðin tekur til trygginga á bráðamengunartjóni af völdum flutnings á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum á sjó og atvinnustarfsemi sem talin er upp í viðauka með reglugerð þessari. Tryggingin gildir hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands.

2. gr. Skilgreiningar.

Trygging: Ábyrgðartrygging vátryggingarfélags, P og I klúbbtryggingarvernd skipa (Protection & Indemnity Club Cover), ábyrgð veitt af viðskiptabanka eða sparisjóði eða önnur trygging sem veitir sömu vernd að mati Umhverfisstofnunar.

Bótaskylt bráðamengunartjón: Tjón eða skaði á mönnum, dýrum, lífríki, jarðvegi og efnislegum verðmætum vegna mengunar hafs og stranda, sem verður skyndilega og krefst tafarlausra aðgerða, og kostnaður af ráðstöfunum til að takmarka slíkt tjón eða skaða.

Flutningur olíu, hættulegra efna og eiturefna: Flutningar á efnum sem falla undir ákvæði alþjóðasamþykktar um sjóflutninga á hættulegum varningi, IMDG-kóðann, um sjóflutninga á hættulegum efnum í farmgeymum skipa, IBC-kóðann, um flutning á olíu í farmgeymum skipa, eða ADR-reglur um flutning á hættulegum farmi á vegum, þ.e. þeim efnum sem falla undir viðauka I, II og III í MARPOL-samningnum, þegar þau eru flutt sem farmur í skipum og efnum sem flokkuð eru sem hættuleg á landi.

3. gr. Tryggingarskylda.

Sá sem flytur olíu, eiturefni, eða hættuleg efni á sjó eða stundar atvinnustarfsemi sem talin er upp í viðauka við reglugerð þessa, skal taka tryggingu vegna bráðamengunartjóns, þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanns hans.

Tryggingin skal bæta tjón allt að 1 milljón SDR vegna hvers einstaks tjónsatburðar eða samtals á tryggingarárinu.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með að tryggingarskyldu sé fullnægt.

4. gr. Eigin áhætta, endurkröfuréttur, skerðing bótaréttar.

Heimilt er að áskilja eigin áhættu í skilmálum ábyrgðartryggingar eða ábyrgðar viðskiptabanka eða sparisjóðs, en slíkt má ekki skerða rétt þriðja manns, til bóta úr hendi þess sem tryggingu veitir.

Sá sem veitir trygginguna getur endurkrafið hvern þann sem valdið hefur tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Bætur má lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

5. gr. Kynning á vátryggingarskilmálum.

Almennir skilmálar vegna vátrygginga skulu kynntir Umhverfisstofnun og Fjármálaeftirlitinu, áður en þeir eru boðnir á markaði.

6. gr. Niðurfelling tryggingar.

Falli ábyrgðartrygging eða ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs niður, ber þeim er veitti trygginguna að tilkynna Umhverfisstofnun um niðurfellingu hennar. Enda þótt trygging sé fallin úr gildi, ber sá sem hana veitti, áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á tjónum sem verða þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að tryggingin féll úr gildi, nema önnur fullnægjandi trygging hafi verið tekin.

7. gr. Ágreiningur.

Rísi ágreiningur um framkvæmd reglugerðarinnar þ.m.t. tryggingarskyldu, er heimilt að vísa honum til umhverfisráðherra til úrskurðar.

Ráðherra skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en átta vikum eftir að honum berst mál í hendur.

Rísi ágreiningur um það hvort um bráðamengun samkvæmt reglugerð þessari sé að ræða er heimilt að vísa málinu til umhverfisráðherra til úrskurðar. Skal ráðherra úrskurða í málinu eins fljótt og við verður komið og eigi síðar en viku eftir að honum berst mál í hendur.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í w lið 6. gr. og 16. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda og tekur gildi 1. janúar 2006.

Umhverfisráðuneytinu, 7. desember 2005.

F. h. r.

Ingimar Sigurðsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.