Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

433/1997

Reglugerð um ráðstafanir til að bæta öryggi og hollustuhætti starfsmanna í afleysingarstarfi eða tímabundnu starfi.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um:

  1. afleysingastarf, sem byggist á ráðningarskilmálum þar sem starfsmaður gegnir af leysingarstarfi samkvæmt beinum samningi milli atvinnurekanda og starfsmanns. Einnig er skilyrði að samningslok séu ákveðin með hlutlægum skilyrðum, svo sem að miðað sé við tiltekinn uppsagnardag, ef um er að ræða tiltekið verkefni eða sérstakan viðburð;
  2. tímabundið starf, sem byggist á ráðningarskilmálum um tímabundið starf milli vinnumiðlunar, sem er vinnuveitandi, og starfsmanns sem er ráðinn til starfa fyrir og undir stjórn fyrirtækis og/eða stofnunar sem nýtir sér þjónustu hans.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að starfsmenn samkvæmt 1. gr. njóti sömu verndar og aðrir starfsmenn hlutaðeigandi fyrirtækis og/eða stofnunar.

3. gr. Upplýsingagjöf til starfsmanna.

Áður en starfsmaður samkvæmt 1. gr. tekur að sér störf skal hlutaðeigandi fyrirtæki og/eða stofnun sem nýtir sér þjónustu hans veita honum upplýsingar um þá áhættu sem fylgir starfinu.

Í upplýsingum skv. 1. mgr. skal taka fram:

  1. hvort krafist sé sérstakrar menntunar, starfshæfis eða kunnáttu;
  2. hvort krafist sé sérstakrar læknisskoðunar;
  3. hvort starfinu fylgi sérstök áhættuaukning.

4. gr.

Verk sem stofna öryggi og heilsu starfsmanna í mikla hættu.

Óheimilt er að nýta þjónustu starfsmanna samkvæmt 1. gr. til verka sem stofna öryggi þeirra og heilsu í mikla hættu.

5. gr. Þjónusta í verndunar- og varnarskyni.

Atvinnurekandi sem ræður starfsmann skv. 1. gr. skal veita starfsmönnum eða einstaklingum, sem tilnefndir eru til að sjá um verndun og varnir gegn áhættu í starfi, upplýsingar um ráðningu starfsmannsins. Með þeim hætti verði þeim gert kleift að inna af hendi á fullnægjandi hátt verndar- og varnaraðgerðir sem ná til allra starfsmanna í fyrirtækinu og/eða stofnuninni.

6. gr. Upplýsingar um ráðningarskilmála.

Áður en starfsmenn samkvæmt 2. mgr. 1. gr. eru ráðnir skal hlutaðeigandi atvinnurekandi veita vinnumiðlun upplýsingar m.a. um kröfur til menntunar og starfshæfis og sérstakt eðli hlutaðeigandi starfs. Vinnumiðlun ber jafnframt að gera viðkomandi starfsmanni grein fyrir þessum upplýsingum.

7. gr. Eftirlit og málskotsréttur.

Vinnueftirlit ríkisins fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Um áfrýjun á ákvörðunum og úrskurðum sem byggjast á reglugerðinni gilda ákvæði 98. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

8. gr. Refsiákvæði.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 99. gr. laga nr. 46/1980.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 73. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og með hliðsjón af tilskipun 91/383/EBE, í 16. tölul. XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 3. júlí 1997.

Páll Pétursson.

Sigríður Lillý Baldursdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.