Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 23. ágúst 2012

254/2009

Reglugerð um mælifræðilegt eftirlit með ósjálfvirkum vogum.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eftirlit með ósjálfvirkum vogum, sem hafðar eru til þeirrar notkunar sem um getur í stafliðum a.-f. 1. tl. 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir, hér eftir nefnast þær vogir.

Löggildingar ósjálfvirkra voga skiptast í tvö löggildingarsvið eftir hámarksvigtunargetu. Löggildingarsvið fyrir ósjálfvirkar vogir skulu nánar vera þannig:

  1. Til og með 3.000 kg
  2. Yfir 3.000 kg

2. gr. Skilgreiningar.

Nota skal eftirfarandi skilgreiningar um vogir, sbr. 1. mgr. 1. gr.:

  1. Innsigli eru venjulega hnappar eða miðar sbr. reglugerð nr. 955/2006 um löggildingartákn og merkingar eftirlitsskyldra mælitækja en geta einnig verið hugbúnaðarinnsigli þar sem skrá þarf lykilorð til þess að fá aðgengi að stillingum og allt slíkt aðgengi er skráð. Innsiglun skal vera í samræmi við fyrirmæli framleiðanda.
  2. Mesta leyfða skekkja er hæsta tölugildi fyrir skekkju sem er leyfð samkvæmt þessari reglugerð við löggildingu ósjálfvirkra voga.
  3. Mælitækjabirgir er framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, seljandi eða dreifingaraðili á vogum sem falla undir 1. mgr. 1. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.
  4. Ósjálfvirk vog er vog sem stjórnandi þarf að hafa afskipti af meðan á vigtun stendur.
  5. Samræmismat er það, þegar framleiðandi vottar að vogir séu í samræmi við grunnkröfur viðauka I í reglugerð nr. 616/2000 með málsmeðferðum sem eru settar saman af einni eða fleiri af aðferðaeiningunum EB-gerðarprófun, EB-yfirlýsing um gerðarsamræmi, EB-sannprófun eða EB-einingarsannprófun. Samræmismati lýkur ávallt með CE-merkingu og skriflegri samræmisyfirlýsingu framleiðandans.
  6. Tilkynntur aðili er óháður prófunar-, vottunar- eða skoðunaraðili, sem stjórnvöld tilnefna, til að annast samræmismat samkvæmt reglugerð nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir.
  7. Vog er mælitæki til að ákvarða massa hlutar með því að nota þyngdarkraftinn sem verkar á hlutinn. Vog kann einnig að vera notuð til að ákvarða aðrar stærðir, sem tengjast massa, svo sem fjölda, magn, kennistærðir eða eiginleika.

Auk ofangreindra skilgreininga skal skýra íðorð og tákn með hliðsjón af notkun þeirra í reglugerð nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir.

II. KAFLI Eldri vogir, fyrsta notkun og merking, löggildingarskylda.

3. gr. Áframhaldandi notkun eldri voga.

Vogir, sem ekki uppfylla kröfur reglugerðar nr. 616/2000 sbr. 1. mgr. 1. gr., má nota áfram meðan þær vega rétt, hafi þær verið settar löglega á markað og teknar í notkun fyrir 1. janúar 2004.

Eldri vogagerðir skulu standast sömu nákvæmniskröfur og vogir samkvæmt reglugerð nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir.

4. gr. Fyrsta notkun og merking.

Vogir sem uppfylla kröfur reglugerðar nr. 616/2000 skulu hafa samræmisyfirlýsingu, réttar merkingar og innsigli og teljast þær hafa löggildingu til fyrstu notkunar. Auk þess skal eigandi sjá til þess að vogirnar beri sérstakt merki fyrir ný mælitæki, sbr. reglugerð nr. 955/2006, um löggildingartákn og merkingar eftirlitsskyldra mælitækja.

Þegar 5. tl. viðauka II í reglugerð nr. 616/2000 á við vegna uppsetningar eða þyngdarsviðs og samræmismati skal lokið á notkunarstað vogarinnar, er fyrsta notkun ekki heimil fyrr en samræmismati er að fullu lokið og skrifleg samræmisyfirlýsing framleiðanda liggur fyrir.

5. gr. Löggildingarskyldar vogir.

Skylt er að löggilda vogir sem hafðar eru til eftirfarandi nota:

  1. Ákvörðun massa fyrir verslunarviðskipti.
  2. Ákvörðun massa fyrir útreikning á tollum, vörugjöldum, skatti, kaupauka eða ágóðahlut, févíti, þóknun, bótum eða greiðslum af slíkum toga.
  3. Ákvörðun verðs á grunni massa vegna beinnar sölu til almennings og vegna gerðar forpakkaðrar vöru.
  4. Vigtun samkvæmt reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla sem þar er kveðið á um að fara skuli fram á löggiltri vog þótt hún kunni ekki að falla undir lið a.

Neytendastofa sker úr þegar vafi kann að leika á um löggildingarskyldu og getur heimilað frávik þegar hagsmunir eru litlir af notkun vogar. Önnur stjórnvöld geta einnig kveðið á um löggildingarskyldu svo sem vegna vigtunar sjávarafla.

III. KAFLI Um ábyrgð aðila.

6. gr. Kröfur til birgja.

Mælitækjabirgir voga má ekki markaðssetja, selja eða afhenda vogir samkvæmt 1. mgr. 1. gr. nema samræmismati þeirra sé lokið, þær hafi skriflega samræmisyfirlýsingu framleiðanda, séu innsiglaðar og rétt merktar samkvæmt reglugerð nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir, sjá einnig 2. mgr. 4. gr.

Mælitækjabirgir voga skal upplýsa kaupanda um nákvæmnisflokk, hámark og aðrar kennistærðir voganna og hvort ætla megi að þær henti fyrirhugaðri notkun.

7. gr. Kröfur til eigenda voga.

Eigandi má ekki setja eða láta setja vog upp samkvæmt 1. mgr. 1. gr. nema vogin sé rétt merkt og innsigluð.

Eigandi vogar, sem er löggildingarskyld skv. 5. gr., ber ábyrgð á því að fá reglulega löggildingu hjá prófunarstofu sem hefur til þess umboð, sbr. reglugerð nr. 956/2006 um starfshætti þeirra sem annast löggildingu mælitækja í umboði Neytendastofu.

Hafi eigandi vitneskju um að notkunarfrávik vogar séu yfir tvöföldum fráviksmörkum sem höfð eru til viðmiðunar fyrir nýjar vogir, eða aðrar ástæður sem valda því að löggilding er úr gildi fallin sbr. 3. mgr. 16. gr. ber hann ábyrgð á því að taka vogina úr notkun uns hún hefur verið endurlöggilt.

Eigandi vogar skal hlíta skilyrðum framleiðanda um aðstæður fyrir notkun og leyfð rekstrarskilyrði. Taka skal mið af kröfum reglugerðar nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir og ákvæðum þessarar reglugerðar.

8. gr. Kröfur til þjónustuaðila.

Vog sem er löggildingarskyld skv. 5. gr. en er ekki með gilda löggildingu sbr. 16. gr. eða hefur fengið þjónustu þannig að 2. mgr. 4. gr. eigi við, ber að láta endurlöggilda áður en hún er tekin aftur í notkun, með þeirri undanþágu sem greinir í 4. mgr. 16. gr.

Þjónustuaðili, sem hefur framkvæmt einhverja þá aðgerð, sem krefst endurlöggildingar, sbr. 1. mgr. skal þegar tilkynna það eiganda vogarinnar.

IV. KAFLI Kröfur til voga í notkun.

9. gr. Markaðseftirlit.

Vogir falla undir kröfur um markaðseftirlit í samræmi við reglugerð nr. 616/2000 óháð löggildingarskyldu þeirra.

10. gr. Mestu leyfðu skekkjur.

Mestu leyfðu skekkjur voga við löggildingu eru samkvæmt töflu 1, en hún er samhljóða töflu 3 í reglugerð nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir, sem gildir fyrir nýjar vogir:

TAFLA 1
Mestu leyfðu skekkjur við löggildingu.

Hleðsla m Mesta leyfða skekkja
Flokkur I Flokkur II Flokkur III Flokkur IV
0 ≤ m ≤ 50.000 e 0 ≤ m ≤ 5.000 e 0 ≤ m ≤ 500 e 0 ≤ m ≤ 50 e ±0,5 e
50.000 e < m ≤ 200.000 e 5.000 e < m ≤ 20.000 e 500 e < m ≤ 2.000 e 50 e < m ≤ 200 e ±1,0 e
200.000 e < m 20.000 e < m ≤ 100.000 e 2.000 e < m ≤ 10.000 e 200 e < m ≤ 1.000 e ±1,5 e

11. gr. Aðrar kröfur.

Við prófun vegna löggildingar skulu vogir uppfylla kröfur reglugerðar nr. 616/2000 um ósjálfvirkar vogir. Þetta á þó ekki við um eldri vogir sbr. 3. gr. og 14. gr.

Undirlag voga skal hæfa vogargerð og notkun, það skal vera stöðugt, lárétt og laust við óhreinindi, sem áhrif gætu haft á mæliniðurstöður vogarinnar.

Umhverfishitastig skal hæfa vog og óheimilt er að löggilda eða nota vog ef hitastigið er utan þess sviðs sem vogin er gerð fyrir.

Sé vog notuð til beinnar sölu til almennings skal hún einnig standast kröfur sem fram koma í 14. tl. í viðauka I í reglugerð nr. 616/2000.

Vog skal ekki löggilt eða notuð nema veðuráraun eða aðrir umhverfisþættir hafi hverfandi áhrif á niðurstöður, þannig að ætla megi að kröfur um mestu leyfðu skekkju séu uppfylltar.

12. gr. Vogir sem taka skal úr notkun.

Ef í ljós kemur að vogir uppfylla ekki kröfur þessa kafla skulu þær teknar úr notkun og hljóta ekki endurlöggildingu.

Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla er heimilt að nota vog fram að næstu löggildingu á meðan skekkja hennar er ekki meiri en tvöföld mesta leyfða skekkja.

V. KAFLI Reglur um löggildingar voga.

13. gr. Lóð notuð við löggildingu.

Lóð, sem notuð eru við löggildingar voga, skulu vera í samræmi við kröfur gildandi reglugerða um lóð og skulu þau henta aðstæðum og vog þeirri sem verið er að prófa.

Nota skal lóð a.m.k. í nákvæmnisflokki M1 við löggildingar voga í flokki III og F1 við löggildingar voga í flokki II. Nákvæmnisflokkar lóða M1 og F1 eru skilgreindir í reglugerð nr. 136/1994.

Krafan um heildaróvissu við löggildingar í reglugerð nr. 956/2006 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Neytendastofu, getur leitt til þess að nákvæmnin sem krafist er í 2. mgr. sé ekki fullnægjandi.

14. gr. Prófunarkröfur við löggildingar.

Skoða skal eða prófa hvort vog uppfylli kröfur samkvæmt IV. kafla. Prófa skal vogir við aðstæður sem eru líkar aðstæðum við notkun, eftir því sem unnt er.

Athuga skal merkingar, innsiglun og upplýsingar á vog og skjá hennar, aðstæður sbr. 11. gr. og hvort notkun hentar voginni.

Prófa skal mælifræðilega eiginleika voga. Til þess að vog standist prófun mega frávik ekki vera meiri en mestu leyfðu skekkjur í samræmi við töflu 1. Gildir þetta um hvert atriði sem prófað er.

Prófa skal allt mælisvið vogarinnar, sérstaklega við lágmark, hámark og þar sem mesta leyfða skekkja breytist og gera endurtektar- og hjámiðjuprófun. Ef vísbendingar kunna að benda til truflana við vigtun skal skoða áhrif af hugsanlegum skekkjuvöldum svo sem af dragsúgi, sterkum rafstraumi, segulsviði og inngeislun hita, ljóss eða farsíma.

Heimilt er að löggilda eldri vogir sbr. 3. gr. þó svo að merkingar séu ekki í samræmi við kröfur reglugerðarinnar að því tilskildu að lágmarksmerkingar komi fram. Lágmarksmerkingar eru:

  1. Vogargerð.
  2. Hámarksgeta.
  3. Lágmarksgeta.
  4. Skerðingargildi.
  5. Raðnúmer.

15. gr. Löggilding.

Vog má löggilda hafi hún staðist skoðun og prófun sbr. 14. gr. Löggilding er staðfest með því að festur er á vogina löggildingarmiði og jafnframt er gerð skýrsla um prófun og löggildingu hennar. Hafi vogin búnað sem notanda er óheimilt að fjarlægja eða stilla skal tryggja gegn slíku með innsigli áður en löggildingarmiði er festur á vogina.

Prófunarstofa sem annast löggildingar má ekki gera við vog. Þegar frávik vogar reynist vera komið út fyrir leyfileg fráviksmörk er löggildingaraðilanum þó heimilt að stilla vogina sé slík stilling gerð í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda eða viðurkenndar aðferðir þegar leiðbeiningarnar eru ekki til.

16. gr. Gildistímar löggildinga og samþykki þjónustuaðila.

Gildistími löggildinga voga er tvö ár, nema bílavoga sem er eitt ár.

Gildistími fyrir nýjar vogir miðast við ártalið í CE-merkingunni. Þannig skal löggilda vog fyrir lok þar næsta árs á eftir ártalinu í CE-merkingunni.

Löggilding fellur úr gildi, þrátt fyrir að gildistími sé ekki liðinn, ef:

  1. Vog bilar.
  2. Innsigli er rofið.
  3. Viðgerð er framkvæmd á voginni sem áhrif getur haft á mæliniðurstöður hennar.
  4. Vog er flutt á annað þyngdarsvæði en hún var löggilt eða stillt fyrir.
  5. Skekkja er meiri en tvöföld mesta leyfða skekkja samkvæmt töflu 1 í 10. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er þjónustuaðila, sem Neytendastofa samþykkir, heimilt að rjúfa innsigli og annast minni háttar viðgerðir án þess að löggilding falli úr gildi. Þjónustuaðilinn skal innsigla vogina að nýju með auðkenni sínu og senda Neytendastofu skýrslu um hvað var gert.

Samþykki Neytendastofu á þjónustuaðila er háð skilyrðum, sem Neytendastofa setur og ákvörðun Neytendastofu eftir könnun á hæfni og vinnubrögðum hans til þess að tryggja að mæliniðurstöður verði áfram innan mesta leyfilega fráviks í notkun.

Neytendastofa gefur út skriflegt leyfi til þjónustuaðila með nánari skilmálum og afmörkun heimilaðra viðgerða. Uppfylli þjónustuaðili ekki lengur þau skilyrði, sem samþykki Neytendastofu er háð, getur hún afturkallað og fellt úr gildi heimild þjónustuaðila samkvæmt þessari grein.

17. gr. Skýrslugerð.

Skýrslugjöf til Neytendastofu skal vera í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 956/2006 um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Neytendastofu.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu og þær skulu vera aðgengilegar starfsmönnum Neytendastofu:

  1. Núllskekkja.
  2. Vigtarfall og skekkja í þeim punktum sem prófaðir eru.
  3. Hjámiðjuskekkja.
  4. Niðurstöður endurtektarprófs.
  5. Skekkja með törun.
  6. Aðstæður.

VI. KAFLI Innra eftirlit.

18. gr. Almenn skilyrði um innra eftirlit.

Heimilt er að nota innra eftirlit í stað löggildinga að fengnu samþykki Neytendastofu samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar, sbr. 14. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Innra eftirlit skal tryggja að allar vogir undir innra eftirliti standist sömu kröfur um nákvæmni og vogir sem hljóta reglubundna löggildingu.

Prófanir voga undir innra eftirliti skulu vera eftir ákvæðum V. kafla.

Við innra eftirlit í stað löggildinga skal skrá upplýsingar sem veita yfirlit um allar vogir sem falla undir gildissvið þessarar reglugerðar. Veita skal Neytendastofu viðkomandi upplýsingar um vogirnar úr þessari skrá.

Innra eftirlitskerfið skal vera skráð að fullu í eftirlits- eða gæðahandbók eiganda.

19. gr. Umsókn og málsmeðferð fyrir innra eftirlit.

Eigendur voga geta óskað eftir samþykki Neytendastofu fyrir því að gæðakerfi fyrir innra eftirlit með vogum og rekjanleika mæligilda þeirra verði tekið gilt í stað löggildingar. Umsókn skal fylgja:

  1. Eftirlits- eða gæðahandbók, um kerfið fyrir innra eftirlit, sem byggir á ÍST ISO 9001:2008 eftir því sem við getur átt.
  2. Samningur eiganda við faggilta skoðunarstofu um forskoðun á viðkomandi innra eftirliti.
  3. Yfirlit um rekstur kerfisins og aðrar upplýsingar, sem Neytendastofa telur nauðsynlegar fyrir samþykki, komi þær ekki fram í eftirlits- eða gæðahandbók.
  4. Greiðsla á umsóknargjaldi samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

Kerfi fyrir innra eftirlit skal fullnægja öllum ákvæðum laga og þessarar reglugerðar, svo og reglum sem Neytendastofa setur og tryggja eiga réttar mælingar.

Neytendastofa skal tilkynna umsækjanda að forskoðun faggiltrar skoðunarstofu megi fara fram, þegar fullnægjandi umsókn og fylgigögn liggja fyrir.

Skoðunarstofan annast skoðun og úttekt á kerfi fyrir innra eftirlit á grundvelli reglna sem Neytendastofa setur og fram koma í skoðunarhandbók Neytendastofu fyrir innra eftirlit.

Í umsóknarferli um viðurkenningu á innra eftirliti er umsækjanda skylt að veita allar upplýsingar um tilhögun innra eftirlits, gögn um rekstur kerfisins og nauðsynlegar upplýsingar sem þarf til að leggja mat á og gefa ábendingar um úrbætur á fyrirhuguðu innra eftirliti.

Neytendastofa tekur ákvörðun um samþykki á grundvelli álitsgerðar frá faggiltri skoðunarstofu og þeirra úrbóta sem umsækjandi hefur gert, þegar það á við. Uppfylli umsækjandi um innra eftirlit öll skilyrði sem Neytendastofa ákveður, veitir hún leyfi til að notað verði innra eftirlit í stað löggildinga gegn greiðslu á leyfisgjaldi samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

Synji Neytendastofa um samþykki skal það rökstutt skriflega.

Uppfylli innra eftirlit ekki lengur skilyrðin skal Neytendastofa afturkalla leyfi til innra eftirlits með vogum, sbr. einnig ákvæði 20. gr.

20. gr. Árlegt eftirlit og skýrslugerð.

Eigandi voga, sem fengið hefur samþykki Neytendastofu til innra eftirlits, sbr. 18. og 19. gr. skal hafa samning við faggilta skoðunarstofu um árlegt eftirlit í samræmi við skoðunarhandbók Neytendastofu svo og sérstakar skoðanir ef það á við. Faggilt skoðunarstofa skal gefa Neytendastofu skýrslu árlega og eigi síðar en 1. mars fyrir síðastliðið ár, um allt eftirlit og skoðanir, niðurstöður skoðana og ákvarðanir sem hafa verið teknar um vogir.

Skýrslan skal gefa tölfræðilegt yfirlit um allar gerðir bilana, galla, skekkjur, viðgerðir, flutning og rofin innsigli voga. Auk þess skal skila skýrslum um allar prófanir, sbr. 17. gr. Að öðru leyti skal form, flokkun frávika og innihald skýrslunnar vera eins og Neytendastofa ákveður.

Neytendastofa staðfestir eigi síðar en 1. júní framlengingu á gildistíma heimildar til innra eftirlits gegn greiðslu árlegs eftirlitsgjalds samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

Hafi eigandi voga þegar vottað gæðakerfi, sem tekur til innra eftirlits með vogum, tekur Neytendastofa afstöðu til þess að hve miklu leyti ákvæði þessa kafla kunna þegar að vera uppfyllt.

VII. KAFLI Eftirlit, markaðseftirlit, stjórnsýsluúrræði o.fl.

21. gr. Hlutverk Neytendastofu.

Neytendastofa hefur eftirlit með því að farið sé eftir ákvæðum þessarar reglugerðar og annast markaðseftirlit í samræmi við viðauka við reglugerð nr. 465/2007 um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/22/EB, um mælitæki og ákvæði laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

22. gr. Um framkvæmd eftirlits.

Um framkvæmd eftirlits með mælitækjum, réttarúrræði og viðurlög við brotum á ákvæðum þessarar reglugerðar fer eftir ákvæðum laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

23. gr. Gjöld vegna innra eftirlits.

Neytendastofa innheimtir umsóknargjald, leyfisgjald og árlegt eftirlitsgjald vegna innra eftirlits sbr. 19. og 20. gr. samkvæmt gjaldskrá sem sett er í samræmi við ákvæði laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

VIII. KAFLI Áfrýjun og kæruleiðir.

24. gr. Áfrýjun og kæruleiðir.

Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli reglugerðar þessarar verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005 um Neytendastofu og talsmann neytenda.

Ákvörðun Neytendastofu verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.

IX. KAFLI Viðurlög.

25. gr. Viðurlög.

Sá sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn ákvæðum reglugerðar þessarar skal sæta fésektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar.

Þeim sem gefur rangar eða villandi upplýsingar í tengslum við ákvarðanir eða upplýsir ekki um atriði sem skipta máli til að upplýsa mál samkvæmt þessari reglugerð skal refsað með sektum nema þyngri refsing liggi við lögum samkvæmt.

Refsa skal þeim sem brjóta gegn ákvæðum III. og VI. kafla með sektum.

Sekt samkvæmt reglugerð þessari er unnt að leggja á lögaðila í samræmi við 3. mgr. 41. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

X. KAFLI Gildistaka, aðlögun o.fl.

26. gr. Gildistaka og aðlögun.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 13. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, öðlast þegar gildi.

Samtímis falla úr gildi reglugerðir nr. 793/2002 um löggildingu ósjálfvirkra voga, nr. 958/2006 um breytingu á reglugerð um löggildingu ósjálfvirkra voga og nr. 34/2008 um breytingu á reglugerð um löggildingu ósjálfvirkra voga.

Neytendastofa skal leggja mat á gildi og árangur eftirlits samkvæmt þessari reglugerð ekki sjaldnar en á fimm ára fresti og meta þörf fyrir endurskoðun eftirlitsreglna.

Ákvæði til bráðbirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. skulu vogir sem löggiltar voru fyrir gildistöku reglugerðarinnar halda áður útgefnum gildistíma löggildingar.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.