Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 26. júní 1991

62/1989

Reglugerð um bann við áfengisauglýsingum

1. gr.

Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar.

Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

2. gr.

Með auglýsingu er í reglugerð þessari átt við hvers konar tilkynningar til almennings þar sem sýndar eru í máli eða myndum, áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar á áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna o.þ.h.

Ákvæðið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda, sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja enda skal tekið fram með áberandi hætti að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi áfengislaga og ekki sé vísað til hinnar áfengu framleiðslu. Skal letur sem vísar til hins óáfenga drykkjar ekki vera minna áberandi en letur firmanafnsins og/eða firmamerkisins.

3. gr.

Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er:

1. Auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum, sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi.

2. Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað, þar sem áfengisveitingar eru heimilar.

3. Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á flutningatækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.

4. gr.

Með brot á ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið að hætti opinberra mála. Um refsingar fer skv. áfengislögum nr. 82/1969, með síðari breytingum.

5. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 5. mgr. 16. gr. áfengislaga, nr. 82, 2. júlí 1969, öðlast þegar gildi.

Jafnframt fellur úr gildi 16. gr. reglugerðar um sölu og veitingar áfengis, nr. 335, 18. maí 1983.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.