Umhverfisráðuneyti

785/1999

Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun - Brottfallin

Felld brott með:

Breytingareglugerðir:

I. KAFLI
Markmið, gildissvið o.fl.
Markmið.
1. gr.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum.

1.2 Jafnframt er það markmið að tryggja að kröfur sem gerðar eru í starfsleyfum til þess að draga úr tiltekinni mengun umhverfisins valdi ekki aukinni mengun annars staðar í umhverfinu.


Gildissvið.
2. gr.

2.1 Reglugerð þessi gildir um undirbúning, innihald, auglýsingu og útgáfu starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og fellur undir lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Reglugerðin gildir einnig um atvinnurekstur sem fellur undir lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar og lög nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur.


Skilgreiningar.
3. gr.

3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.2 Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

3.3 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.4 Færibreytur (parameter) eru viðmið sem notuð eru til að gefa niðurstöður eða upplýsingar um losun eða umhverfisáhrif.

3.5 Gæðamarkmið eru mörk tiltekinnar mengunar í umhverfi þ.e.a.s. í lofti, vatni, jarðvegi, seti eða lífverum og/eða lýsing á ástandi, sem ákveðið er að gilda eigi fyrir svæði til þess að hindra enn frekar áhrif vegna mengunar en unnt er að gera með umhverfismörkum. Gæðamarkmiðum er ætlað að styðja tiltekna notkun umhverfisins og/eða viðhalda henni til lengri tíma.

3.6 Innra eftirlit er eigið eftirlit starfsleyfishafa með sjálfum sér, framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila, sem til þess hefur tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í starfsleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.

3.7 Losun er beint eða óbeint útstreymi efna, titrings, hita eða hávaða frá atvinnurekstri út í andrúmsloft, vatn eða jarðveg.

3.8 Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Losunarmörk geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

3.9 Persónueining (pe.) er magn lífrænna efna, næringarsalta og annarra efna sem samsvarar því sem einn einstaklingur er að jafnaði talinn losa frá sér á sólarhring. Ein pe. af lífrænu efni er það magn lífrænna efna í skólpi sem getur brotnað niður líffræðilega með 60 g súrefnis á dag mælt með 5 sólarhringa lífefnafræðilegri súrefnisnotkun.

3.10 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.11 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

3.12 Rannsóknir (prófanir) felast í greiningu sýna vegna eftirlits, eftirlitsverkefna, vöktunar og annarra þjónusturannsókna eða fyrirbyggjandi aðgerða á sviði hollustuhátta og mengunarvarna.

3.13 Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi atvinnurekstri.

3.14 Samþættar mengunarvarnir er aðferð þar sem samþættum aðgerðum er beitt til að draga sem mest úr losun mengunarefna út í andrúmsloft, vatn eða jarðveg og stuðla að víðtækri umhverfisvernd með því að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið ef mengun færist á milli lofts, láðs og lagar.

3.15 Starfsleyfi er ákvörðun viðkomandi heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfisins.

3.16 Starfandi atvinnurekstur er rekstur sem hefur starfsleyfi við gildistöku reglugerðar þessarar eða atvinnustarfsemi sem sótt hefur verið um starfsleyfi fyrir enda hefjist starfsemi eigi síðar en einu ári eftir gildistöku reglugerðarinnar.

3.17 Umhverfismörk eru mörk sem óheimilt er að fara yfir í tilteknu umhverfi á tilteknum tíma og sett eru til að takmarka mengun umhverfis á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk.).

3.18 Útgefandi starfsleyfis er viðkomandi heilbrigðisnefnd eða Hollustuvernd ríkisins.

3.19 Úttektarrannsókn er viðamikil rannsókn eða langtímamæling með það að markmiði að meta mengunarhættu, rannsókn á yfirgripsmiklum þáttum mengunar, t.d. frá farartækjum, eða rannsókn á mengun er berst frá öðrum löndum. Oft er slík rannsókn bundin við stærra svæði, svo sem tiltekið landsvæði, þéttbýli eða hluta af þéttbýli.

3.20 Viðtaki er svæði sem tekur við mengun og þynnir hana eða eyðir.

3.21 Vöktun merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.

3.22 Þynningarsvæði er sá hluti viðtaka þar sem þynning mengunar á sér stað og ákvæði starfsleyfis kveða á um að mengun megi vera yfir umhverfismörkum eða gæðamarkmiðum.


II. KAFLI
Yfirumsjón, samræming og samþætting.
Yfirstjórn.
4. gr.

4.1 Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari.


Hollustuvernd ríkisins.
5. gr.

5.1 Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með því að ákvæðum reglugerðar þessarar sé framfylgt og að mengunarvarnir séu samræmdar og samþættar.

5.2 Hollustuvernd ríkisins ber að tryggja að kröfur og skilyrði í starfsleyfum sem stofnunin gefur út og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi.

5.3 Stofnunin hefur einnig yfirumsjón með því að kröfur og skilyrði í starfsleyfum og veiting þeirra sé með samræmdum hætti hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna. Einnig skal hún fyrirbyggja tvíverknað og skörun í gerð starfsleyfa eftir því sem frekast er unnt. Þá sér stofnunin til þess að komið verði á samþættum mengunarvörnum.

5.4 Hollustuvernd ríkisins gerir tillögur að mengunarvörnum fyrir einstakar atvinnugreinar, sbr. fylgiskjal 2, í samráði við heilbrigðisnefndir.

5.5 Stofnunin skal veita heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna ráðgjöf á þessu sviði, m.a. með útgáfu leiðbeiningarrita um gerð starfsleyfa o.fl.

5.6 Telji Hollustuvernd ríkisins nauðsynlegt að gera athugasemdir við vinnubrögð heilbrigðisnefndar vegna undirbúnings eða útgáfu starfsleyfis skal gera það skriflega.


Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna og heilbrigðisfulltrúar.
6. gr.

6.1 Heilbrigðisnefnd ber að tryggja að kröfur og skilyrði í starfsleyfum sem hún gefur út og veiting þeirra sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi. Henni ber að sjá til að komið verði á samþættum mengunarvörnum.

6.2 Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefnda.


III. KAFLI
Starfsleyfisskylda, umsóknir o.fl.
Starfsleyfisskylda.
7. gr.

7.1 Allur atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, skal hafa gilt starfsleyfi, sbr. fylgiskjal 1, fylgiskjal 2 og I. viðauka með reglugerðinni. Ákvæði um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getið er um í tl. 10 í fylgiskjali 2 eru í 17. gr.

7.2 Óheimilt er að hefja starfsleyfisskyldan atvinnurekstur án þess að starfsleyfi hafi verið gefið út.

7.3 Að fenginni tillögu Hollustuverndar ríkisins gefur umhverfisráðherra út lista yfir tiltekna starfsemi, sem er á fylgiskjali 2, sem ekki er talin þörf á ítarlegri starfsleyfisgerð fyrir, enda samrýmist starfsemin gildandi skipulagi og sé í samræmi við samþykkta notkun fasteignar. Listanum skulu fylgja starfsreglur sem viðkomandi atvinnurekstur þarf að fara eftir. Birta skal listann með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Beita skal ákvæðum 9., 10. og 11. gr., IV.-VI. kafla og VIII.-X. kafla reglugerðarinnar eins og við getur átt, sbr. og 4. mgr. 7. gr.

7.4 Ákvæði 25. gr. hvað varðar auglýsingar gildir um atvinnurekstur, sbr. fylgiskjal 2, nema listi samkvæmt 3. mgr. hafi verið gefinn út. Þó getur heilbrigðisnefnd ákveðið að beita skuli ákvæðum 25. gr. reglugerðarinnar þótt atvinnurekstrar sé getið á lista samkvæmt 3. mgr. enda sé líklegt að reksturinn muni hafa í för með sér mengun og hugsanleg óþægindi fyrir nágranna. Þegar mat á þessu fer fram skal m.a. hafa hliðsjón af staðsetningu atvinnurekstrar, eðli starfsemi, fjölda starfsmanna, hvort fleiri en 2000 pe. séu losaðar við starfsemina, svo og af öðrum þáttum sem eru líklegir til þess að valda mengun.


Útgefandi starfsleyfis.
Hollustuvernd ríkisins.
8. gr.

8.1 Hollustuvernd ríkisins vinnur tillögur að starfsleyfum og gefur starfsleyfin út fyrir atvinnurekstur sem talinn er upp í fylgiskjali 1 með reglugerðinni og fyrir sambærilegan atvinnurekstur samkvæmt I. viðauka nema þann sem getið er um í liðum 6.4 til 6.6 í viðaukanum.

8.2 Við gerð tillögu skal stofnunin ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og, eftir því sem við á hverju sinni, Náttúruverndar ríkisins, Skipulagsstofnunar, Vinnueftirlits ríkisins, frjálsra félagasamtaka og annarra sérfróðra aðila.

8.3 Áður en umsagnar er leitað skal liggja fyrir rökstutt álit stofnunarinnar á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið. Telji Hollustuvernd ríkisins eða umsagnaraðilar að upplýsingar um mengun og áhrif hennar á umhverfið séu ekki fullnægjandi getur stofnunin krafist þess að fram fari athuganir, mælingar eða rannsóknir á kostnað umsækjanda.

8.4 Telji umsækjandi að útgefandi krefjist óeðlilegra athugana og/eða rannsókna vegna undirbúnings að útgáfu starfsleyfis getur hann kært þá ákvörðun til ráðherra, sbr. 33. gr.

8.5 Hollustuvernd ríkisins skal senda afrit af útgefnum starfsleyfum til viðkomandi heilbrigðisnefndar og birta þau á heimasíðu stofnunarinnar.


Útgefandi starfsleyfis.
Heilbrigðisnefndir.
9. gr.

9.1 Viðkomandi heilbrigðisnefnd vinnur tillögur að starfsleyfum og gefur starfsleyfin út, sbr. fylgiskjal 2 og liði 6.4 til 6.6 í I. viðauka.

9.2 Við gerð tillögu skal heilbrigðisnefnd leita umsagnar, eftir því sem við á hverju sinni, Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Skipulagsstofnunar, Vinnueftirlits ríkisins, frjálsra félagasamtaka og annarra sérfróðra aðila.

9.3 Áður en umsagnar er leitað skal liggja fyrir rökstutt álit viðkomandi heilbrigðiseftirlits á áhrifum hugsanlegrar mengunar á umhverfið. Telji heilbrigðisnefnd eða umsagnaraðilar að upplýsingar um mengun og áhrif hennar á umhverfið séu ekki fullnægjandi getur hún krafist þess að fram fari athuganir, mælingar eða rannsóknir á kostnað umsækjanda.

9.4 Telji umsækjandi að útgefandi krefjist óeðlilegra athugana og/eða rannsókna vegna undirbúnings að útgáfu starfsleyfis getur hann kært þá ákvörðun til ráðherra, sbr. 33. gr.

9.5 Heilbrigðisnefndir skulu fyrir 1. mars ár hvert senda yfirlit yfir útgefin starfsleyfi til Hollustuverndar ríkisins.


Umsókn um starfsleyfi.
10. gr.

10.1 Umsókn um starfsleyfi skal senda hlutaðeigandi útgefanda. Með umsóknum skulu fylgja upplýsingar um atvinnureksturinn eins og krafist er í reglugerð þessari og öðrum reglum sem gilda um viðkomandi atvinnurekstur.

10.2 Umsóknum skal fylgja eins og við á hverju sinni:
a. lýsing á tegund atvinnurekstrar, umfangi hans og umfangi einstakra rekstrarþátta ef við á og uppdrættir af staðsetningu,
b. afrit af staðfestu deiliskipulagi,
c. lýsing á staðháttum við vinnslustað,
d. upptalning á hráefnum og hjálparefnum, öðrum efnum og þeirri orku sem er notuð eða framleidd,
e. lýsing á uppruna, eðli og magni fyrirsjáanlegrar losunar út í andrúmsloft, vatn eða jarðveg, og greinargerð um áhrif losunar á umhverfið,
f. lýsing á þeim mengunarvörnum sem valdar eru til að hindra eða draga úr losun,
g. lýsing á áætluðum aðgerðum til að fylgjast með losun út í umhverfið,
h. lýsing á tilhögun innra eftirlits vegna losunar út í umhverfið,
i. lýsing á ráðstöfunum til að koma í veg fyrir myndun úrgangs ásamt upplýsingum og lýsingu á ráðstöfunum um endurnýtingu úrgangs, ef þörf er á,
j. lýsing á tegund og magni úrgangs, þ.m.t. spilliefna,
k. lýsing á öðrum ráðstöfunum sem gerðar verða, m.a. í samræmi við almenn skilyrði í 14. gr.

10.3 Í umsókn samkvæmt 2. mgr. skal vera samantekt, sem er ekki á tæknimáli, um þau atriði sem fram koma í umsókninni.

10.4 Heimilt er að leggja fram fyrirliggjandi gögn sem unnin voru til að uppfylla ákvæði laga og reglugerða um mat á umhverfisáhrifum, reglugerða um hættumat í iðnaðarstarfsemi eða annarra viðeigandi reglna.


Ófullnægjandi upplýsingar.
11. gr.

11.1 Nú telur útgefandi að ófullnægjandi upplýsingar séu í umsókn um starfsleyfi og skal þá vísa henni frá skriflega og gera grein fyrir þeim þáttum sem vanreifaðir eru.

11.2 Heimilt er umsækjanda að kæra ákvörðun um frávísun, sbr. 1. mgr., til ráðherra.


IV. KAFLI
Almenn skilyrði starfsleyfis.
Almenn skilyrði.
12. gr.

12.1 Starfsleyfi skal gefa út til tiltekins tíma, sbr. þó 1. mgr. 20. gr.

12.2 Í starfsleyfum skulu vera ákvæði sem tryggja að atvinnureksturinn sé með þeim hætti að allar viðeigandi mengunarvarnir séu viðhafðar, og til þess sé beitt bestu fáanlegu tækni í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint.

12.3 Í ákvæði starfsleyfis skal þess gætt að gerð sé krafa um að orka sé vel nýtt. Jafnframt skal gera kröfu um að dregið verði með skipulögðum hætti úr myndun úrgangs, úrgangi sem myndast skal komið í endurnotkun og endurnýtingu og förgun þess úrgangs sem ekki er hægt að endurnota eða endurnýta verði með skipulögðum hætti. Þá skulu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir mengunaróhöpp og til þess að draga úr afleiðingum þeirra, sbr. lög og reglur þar að lútandi.

12.4 Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja mengun þegar rekstur er stöðvaður og til að koma rekstrarsvæði í viðunandi horf, að mati útgefanda starfsleyfis, þegar atvinnurekstur er endanlega stöðvaður eða starfsemi lögð niður.


Besta fáanlega tækni - gæðamarkmið - viðbótarráðstafanir.
13. gr.

13.1 Í starfsleyfum skal gera kröfu um notkun bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því og IV. viðauka. Ef sett eru strangari gæðamarkmið fyrir umhverfið en hægt er að uppfylla með bestu fáanlegu tækni skal krefjast viðbótarráðstafana í starfsleyfi.

13.2 Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndum ber að fylgjast með og hafa tiltækar upplýsingar um bestu fáanlegu tækni. Hollustuvernd ríkisins skal veita heilbrigðisnefndum alla þá ráðgjöf sem mögulegt er og aðstæður krefjast.


V. KAFLI
Nýr atvinnurekstur.
Samþættar mengunarvarnir o.fl.
14. gr.

14.1 Gera skal kröfu um samþættar mengunarvarnir hjá nýjum atvinnurekstri. Þá skal við gerð starfsleyfa huga að því að ráðstafanir sem gerðar eru til þess að draga úr tiltekinni mengun umhverfis valdi ekki aukinni mengun annars staðar.

14.2 Skilyrði í starfsleyfum og veiting þeirra skal samræmd. Starfsleyfi samkvæmt fylgiskjali 1 og I. viðauka skulu innihalda eftirfarandi upplýsingar, önnur starfsleyfi skulu innihalda þær eins og við á hverju sinni:
a. lýsingu á þeirri starfsemi sem heimiluð er, stærð hennar og staðsetningu,
b. almenn skilyrði í samræmi við 12. gr. reglugerðar þessarar,
c. ákvæði um bestu fáanlegu tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum sem slíkt hefur verið skilgreint svo og viðbótarráðstafanir eftir því sem við á sbr. 1. mgr. 13. gr.
d. ákvæði um losunarmörk,
e. ákvæði um eftirlit eftirlitsaðila í samræmi við reglugerð þar að lútandi,
f. ákvæði um innra eftirlit með losun út í umhverfið,
g. ákvæði í samræmi við 8. kafla um fyrirhugaðar breytingar á rekstri,
h. ákvæði 9. kafla um endurskoðun,
i. ákvæði um tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa sem gætu haft umtalsverð áhrif á umhverfið,
j. ákvæði um tilkynningar til viðkomandi heilbrigðisnefnda ef atvinnustarfsemi er færanleg eða er færð á milli umdæma,
k. ákvæði þess efnis að almenningur eigi rétt á aðgangi að upplýsingum, sbr. ákvæði XI. kafla,
l. ákvæði um skyldur rekstraraðila,
m. önnur ákvæði sem nauðsynleg eru til að tryggja umhverfisvernd sem við eiga hverju sinni.


Nánar um efni starfsleyfis.
15. gr.

15.1 Í starfsleyfum, sbr. fylgiskjal 1 og I. viðauka, skal gera nákvæma grein fyrir þeim atriðum sem hér fara á eftir. Einnig í öðrum starfsleyfum eins og við á hverju sinni. Starfsleyfi skulu ná til allra rekstrarþátta.

15.2 Í starfsleyfi skal tilgreina losunarmörk fyrir mengandi efni einkum þau sem getið er í III. viðauka enda sé líklegt að mengandi efni verði losuð í umtalsverðu magni frá atvinnurekstrinum eða einstökum rekstrareiningum. Taka skal tillit til eðlis efnanna og hversu líklegt sé að þau berist á milli vatns, andrúmslofts og jarðvegs. Þar sem við á er heimilt að nota aðra viðmiðun en losunarmörk, t.d. umhverfismörk, gæðamarkmið eða að beita tæknilegum ráðstöfunum.

15.3 Ef nauðsynlegt reynist skal einnig tíunda viðeigandi ráðstafanir sem tryggja verndun jarðvegs og grunnvatns og meðhöndlun úrgangsefna sem falla til við atvinnureksturinn.

15.4 Þegar sett eru losunarmörk vegna atvinnurekstrar, sem fellur undir lið 6.6 í I. viðauka með reglugerðinni, skal hafa hliðsjón af hagnýtum þáttum.

15.5 Losunarmörk, jafngildar færibreytur og tæknilegar ráðstafanir, sbr. 2., 3. og 4. mgr., skulu grundvallaðar á bestu fáanlegu tækni. Þetta gildir þó ekki ef ákvæði 13. gr. um viðbótarráðstafanir eiga við. Taka skal tillit til tæknibúnaðar viðkomandi atvinnurekstrar, staðsetningar hans og umhverfisskilyrða á staðnum. Í öllum tilvikum skal setja ákvæði í starfsleyfi þess efnis að mengun sem getur borist langar leiðir eða til annarra landa skuli haldið í lágmarki og tryggja víðtæka umhverfisvernd.

15.6 Í starfsleyfi skal tilgreina ákvæði um eftirlit með losun, hvað varðar mæliaðferðir, mælitíðni og matsaðferðir. Einnig skulu vera ákvæði um skyldu rekstraraðila til þess að láta eftirlitsaðila í té þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að kanna hvort skilyrðum starfsleyfisins sé fullnægt. Heimilt er að taka tillit til kostnaðar og ávinnings við mælingar samkvæmt þessari málsgrein vegna atvinnurekstrar í lið 6.6 í I. viðauka.

15.7 Í starfsleyfum skulu vera ákvæði sem varða gangsetningar, leka vegna bilana, tímabundna stöðvun og endanlega stöðvun rekstrar ef hætta stafar af þessum þáttum eða vegna ófyrirsjáanlegra atvika sem valda því að ekki er hægt að fara að öllum ákvæðum í starfsleyfi í tiltekinn tíma.

15.8 Í starfsleyfum skal einnig tilgreina önnur sérstök skilyrði eða kröfur sem eftirlitsaðili telur að þörf sé á og samræmast markmiðum reglugerðar þessarar.

15.9 Ef viðkomandi atvinnurekstur er háður mati á umhverfisáhrifum skal í starfsleyfi taka fullt tillit til niðurstöðu matsins áður en starfsleyfið er gefið út, sbr. 10. kafla reglugerðarinnar.

15.10 Telji útgefandi starfsleyfis að tiltekin framkvæmd kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif ber honum að tilkynna hana til ráðherra í samræmi við reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.


VI. KAFLI
Starfandi atvinnurekstur.
Skilyrði rekstrar.
16. gr.

16.1 Starfsleyfi starfandi atvinnurekstrar skulu innihalda og a.m.k. uppfylla skilyrði 14. og 15. gr. frá og með gildistöku reglugerðar þessarar. Þó þarf starfandi atvinnurekstur ekki að hafa uppfyllt eftirfarandi skilyrði fyrr en 31. október 2007:
1. kröfu um samþættar mengunarvarnir, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr.,
2. kröfu um að orka sé vel nýtt, sbr. 3. mgr. 12. gr. og b-lið 2. mgr. 14. gr.,
3. kröfu um bestu fáanlegu tækni eða um viðbótaráðstafanir, sbr. 1. mgr. 13. gr. og c-lið 2. mgr. 14. gr.

Samræmingu samkvæmt 3. mgr. 5. gr. skal lokið fyrir sama tíma.

16.2 Starfandi atvinnurekstur sætir mengunarvarnaeftirliti í samræmi við ákvæði starfsleyfa, reglugerðar þessarar, reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit og annarra reglugerða eins og við á hverju sinni.


VII. KAFLI
Annar mengandi atvinnurekstur eða einstakar framkvæmdir.
Tímabundinn atvinnurekstur eða einstök framkvæmd.
17. gr.

17.1 Þegar um er að ræða tímabundinn atvinnurekstur eða einstakar framkvæmdir, sbr. tl. 10 í fylgiskjali 2, sem getur haft í för með sér mengun skal sækja um starfsleyfi til viðkomandi heilbrigðisnefndar eins fljótt og auðið er og með minnst tveggja vikna fyrirvara, nema aðstæður krefjist annars.

17.2 Umsókn samkvæmt 1. mgr. skulu fylgja nauðsynlegar upplýsingar um atvinnureksturinn eða framkvæmdina.

17.3 Heilbrigðisnefnd gefur út skriflegt starfsleyfi fyrir viðkomandi atvinnurekstri eða framkvæmd.

17.4 Beita skal ákvæðum 9., 10. og 11. gr., IV.-VI. kafla og VIII.-X. kafla reglugerðarinnar eins og við getur átt, sbr. og 4. mgr. 7. gr.


VIII. KAFLI
Fyrirhugaðar breytingar á rekstri.
Breytingar á rekstri.
18. gr.

18.1 Rekstraraðila ber að veita útgefanda starfsleyfis upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á atvinnurekstri með góðum fyrirvara áður en ráðist er í þær.

18.2 Útgefandi metur upplýsingarnar innan 4 vikna frá móttöku þeirra samkvæmt 1. mgr. og tilkynnir rekstraraðila skriflega hvort nauðsynlegt sé að gefa út nýtt starfsleyfi og ber þá umsækjanda að leggja fram umsókn þess efnis til útgefanda starfsleyfis.

18.3 Heimilt er að kæra ákvörðun útgefanda samkvæmt 2. mgr. í samræmi við 34. gr. reglugerðarinnar.


Umsókn.
19. gr.

19.1 Í umsókn um nýtt starfsleyfi vegna breytinga á rekstri skulu a.m.k. koma fram þær upplýsingar sem krafist er í 10.-16. gr. reglugerðarinnar eins og við á hverju sinni. Ákvæði III.-VI. kafla, svo og ákvæði XI. kafla reglugerðarinnar, gilda.


IX. KAFLI
Endurskoðun starfsleyfis.
Regluleg endurskoðun.
20. gr.

20.1 Endurskoða skal starfsleyfi að jafnaði á fjögurra ára fresti.

20.2 Komi í ljós við endurskoðun að nauðsynlegt reynist að gefa út nýtt starfsleyfi skal fara eftir þeim reglum sem gilda um ný starfsleyfi, sbr. þó þær reglur sem gilda um starfandi atvinnurekstur við gildistöku reglugerðar þessarar.


Breyttar forsendur.
21. gr.

21.1 Skylt er útgefanda starfsleyfis að endurskoða það ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búast mátti við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á bestu fáanlegu tækni sem gera það kleift að draga umtalsvert úr losun án óhóflegs kostnaðar. Jafnframt skal endurskoða starfsleyfið ef öryggi við rekstur eða vinnslu krefst þess að önnur tækni sé notuð en upphaflega var miðað við, ef breytingar verða á atvinnurekstri eða ef nýjar reglur um mengunarvarnir taka gildi.

21.2 Ef nauðsynlegt reynist að mati útgefanda skal gefa út nýtt starfsleyfi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. og ber þá umsækjanda að sækja um nýtt starfsleyfi.

21.3 Heimilt er að kæra ákvörðun útgefanda til ráðherra.


X. KAFLI
Mat á umhverfisáhrifum.
Starfsleyfisskyldur atvinnurekstur.
22. gr.

22.1 Nú er starfsleyfisskyldur atvinnurekstur, sem reglugerð þessi gildir um, háður mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi og skal þá niðurstaða matsins liggja fyrir áður en tillaga að starfsleyfi er auglýst, sbr. 24. gr. Ef niðurstaða mats á umhverfisáhrifum er kærð til umhverfisráðherra er óheimilt að auglýsa tillögu að starfsleyfi fyrr en niðurstaða kærumálsins liggur fyrir.

22.2 Reynist niðurstaða kærumálsins vera sú að meta skuli frekari áhrif viðkomandi starfsemi er óheimilt að auglýsa tillögu að starfsleyfi þar til lokaniðurstaða liggur fyrir í mati á umhverfisáhrifum.

22.3 Ef ekki er fallist á fyrirhugaðan atvinnurekstur í mati á umhverfisáhrifum, samkvæmt 1. og 2. mgr., er óheimilt að gefa út starfsleyfi.


Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum.
23. gr.

23.1 Í starfsleyfistillögu og starfsleyfi skal taka fullt tillit til niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum, m.a. skal mæla fyrir um nauðsynlegar rannsóknir vegna fyrirhugaðrar starfsemi og vakta þá umhverfisþætti sem starfsemin hefur áhrif á. Slíkar rannsóknir eru á kostnað og ábyrgð rekstraraðila.


XI. KAFLI
Auglýsingar og aðgangur að upplýsingum.
Auglýsing umsóknar og tillögu að starfsleyfi.
24. gr.

24.1 Útgefandi starfsleyfis skal tryggja að almenningur eigi greiðan aðgang að starfsleyfisumsóknum. Umsóknin skal liggja frammi á skrifstofu viðkomandi sveitarstjórnar ásamt starfsleyfistillögu, sbr. 2. mgr., og er heimilt að gera athugasemdir við umsóknina áður en frestur, sem þar greinir, rennur út.

24.2 Útgefandi starfsleyfis skal auglýsa á tryggan hátt, s.s. í dagblaði eða staðarblaði ef við á, að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis tillagan sé og hvar hún liggi frammi. Einnig skal tilgreina frest til þess að gera skriflegar athugasemdir við tillöguna. Frestur til að gera skriflegar athugasemdir vegna starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali I og I. viðauka skal hann vera átta vikur frá auglýsingu. Frestur til að gera athugasemdir vegna annarra starfsleyfa skal vera fjórar vikur frá auglýsingu. Athugasemdum skal koma til útgefanda.


Útgáfa starfsleyfis fyrir atvinnurekstur
sem tilgreindur er í fylgiskjali 1 og I. viðauka.
25. gr.

25.1 Útgefandi starfsleyfis fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali 1 og I. viðauka skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi rennur út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem athugasemdir hafa gert tilkynnt um ákvörðunina bréflega og jafnframt upplýst um heimild til að kæra ákvörðunina til fullnaðarúrskurðar ráðherra og gerð grein fyrir því efnislega hvernig tekið hefur verið á athugasemdum hvers og eins.

25.2 Ákvörðun um útgáfu starfsleyfis samkvæmt 1. mgr. er heimilt að kæra til fullnaðarúrskurðar ráðherra, sbr. 33. gr., innan tveggja vikna frá ákvörðun útgefanda.


Útgáfa starfsleyfis fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali 2.
26. gr.

26.1 Útgefandi skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögu að starfsleyfi rennur út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem athugasemdir hafa gert tilkynnt um ákvörðunina bréflega og upplýst um heimild til að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðuninni. Beiðni um rökstuðning skal berast innan 7 daga frá því að hún barst aðila. Jafnframt skal útgefandi upplýsa um heimild til að kæra ákvörðunina til fullnaðarúrskurðar ráðherra.

26.2 Ákvörðun um útgáfu starfsleyfis er heimilt að kæra til fullnaðarúrskurðar ráðherra, sbr. 33. gr., innan tveggja vikna frá ákvörðun útgefanda eða innan tveggja vikna frá því að rökstuðningur útgefanda hefur verið tilkynntur aðila.


Handhafi starfsleyfis.
27. gr.

27.1 Starfsleyfi skal gefið út á rekstraraðila.

27.2 Komi nýr rekstraraðili að atvinnurekstri er hefur gilt starfsleyfi er heimilt að færa starfsleyfið yfir á nýjan rekstraraðila án þess að gefið verði út nýtt starfsleyfi, enda verði engin önnur breyting á starfsleyfi.


Auglýsing starfsleyfis.
28. gr.

28.1 Auglýsa skal í B-deild Stjórnartíðinda útgáfu og gildistöku starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í fylgiskjali 1 og I. viðauka.

28.2 Þegar nýtt starfsleyfi hefur verið gefið út skal almenningur hafa aðgang að því hjá útgefanda og ljósriti gegn greiðslu ljósritunarkostnaðar.


Takmarkanir á upplýsingarétti.
29. gr.

29.1 Heimilt er að takmarka upplýsingarétt samkvæmt þessum kafla í samræmi við heimildarákvæði um takmarkanir í lögum nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, einkum 4. og 5. gr. laganna, og í samræmi við upplýsingalög nr. 50/1996. Óski umsækjandi eftir því að takmarkaður verði aðgangur að þeim upplýsingum sem hann leggur fram með starfsleyfi skal hann tilgreina hvaða upplýsingar hann óski að svo skuli fara með.


Þagnarskylda starfsmanna.
30. gr.

30.1 Þeir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

30.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.


XII. KAFLI
Kostnaður vegna starfsleyfisgerðar.
Sveitarfélög.
31. gr.

31.1 Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir vinnslu og útgáfu starfsleyfa og fyrir aðra þjónustu og verkefni sem tengjast starfsleyfisgerð samkvæmt fylgiskjali 2 og liðum 6.4-6.6 í I. viðauka, sbr. gjaldskrá sem sett er samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum.

31.3 Gjöld samkvæmt 1. mgr. má innheimta með fjárnámi. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi eða þjónusta er tengd notkun fasteignar.


Hollustuvernd ríkisins.
32. gr.

32.1 Hollustuvernd ríkisins innheimtir gjald fyrir vinnslu og útgáfu starfsleyfa og fyrir aðra þjónustu og verkefni sem tengjast starfsleyfisgerð, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni og I. viðauka.

32.2 Ráðherra setur gjaldskrár, sbr. 1. mgr., að fengnum tillögum stofnunarinnar í samræmi við 21. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gjaldskráin skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

32.3 Gjöld samkvæmt ákvæði þessu má innheimta með fjárnámi.


XIII. KAFLI
Úrskurður.
Fullnaðarúrskurður ráðherra.
33. gr.

33.1 Ákvörðun um útgáfu starfsleyfis er heimilt að kæra til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna frá ákvörðun útgefanda.

33.2 Rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd reglugerðarinnar eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt þeim skal vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Sama gildir um ágreining milli Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

33.3 Frestur til þess að skjóta máli til umhverfisráðherra samkvæmt 2. mgr. er þrír mánuðir frá því að ágreiningur reis eða ákvörðunin var tilkynnt.

33.4 Ráðherra skal kveða upp úrskurð samkvæmt 1. og 2. mgr. svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að honum berst mál í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en átta vikur. Leita skal umsagna frá málsaðilum og öðrum eins og þörf er á.


XIV. KAFLI
Valdsvið og þvingunarúrræði.
34. gr.

34.1 Til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerð þessari geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi, svo og Hollustuvernd ríkisins, í þeim tilvikum sem stofnunin fer með eftirlit, beitt ákvæðum VI. kafla laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, eins og við getur átt hverju sinni.


Viðurlög.
35. gr.

35.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

35.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.


V. KAFLI
Lagastoð, gildistaka o.fl.
36. gr.

36.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og lög nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, sbr. og lög nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni og sbr. og lög nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

36.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af tölul. 2g, 2ab og 16 XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 96/61/EB, tilskipun 84/360/EBE og ákvörðun 96/511/EB).

37.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu og um leið fellur úr gildi mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum, nema VII. kafli reglugerðarinnar og viðauki 5 við hana.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Hollustuvernd ríkisins skal gera áætlun um endurskoðun starfsleyfa, sbr. 9. kafla reglugerðarinnar, og skal stefnt að því að endurskoða starfsleyfi einstakra tegunda atvinnurekstrar samtímis. Áætlun þessi skal liggja fyrir 1. desember 1999 og kynna skal hana sérstaklega fyrir handhöfum starfsleyfa. Heilbrigðisnefndir skulu einnig gera sambærilegar áætlanir fyrir 1. mars 2000 og kynna þær.

Stofnunin skal einnig gera áætlun vegna samræmingar krafna í starfsleyfum, sbr. 3. mgr. 5. gr. og 14. gr. reglugerðarinnar. Áætlun þessi skal liggja fyrir 1. janúar 2000 og kynnt sérstaklega fyrir heilbrigðisnefndum.


II.

Atvinnurekstur sem fellur undir fylgiskjal 2 og er starfandi við gildistöku reglugerðar þessarar hefur þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. frest til 1. janúar 2001 til að afla sér starfsleyfis.

Heilbrigðisnefndir skulu fyrir 1. mars 2000 gera áætlun um útgáfu starfsleyfis til handa atvinnurekstri sem starfandi er án starfsleyfis í umdæmi þeirra við gildistöku reglugerðar þessarar. Í áætluninni er heimilt að setja ákvæði um að umsóknir um starfsleyfi fyrir einstakar atvinnugreinar skuli berast innan tiltekins frests. Áætlun þessi skal kynnt Hollustuvernd ríkisins og hlutaðeigandi atvinnurekstri.


Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

Siv Friðleifsdóttir.
Magnús Jóhannesson.




Fylgiskjal 1.
Atvinnurekstur sem Hollustuvernd ríkisins veitir starfsleyfi.



Eftirlitsflokkur1)
1. a. Fiskimjölsverksmiðjur (framleiðsla > 500 t/sólarhring og í þéttbýli)
2
b. Fiskimjölsverksmiðjur (framleiðsla > 500 t/sólarhring og í strjálbýli; og minni verksmiðjur í þéttbýli)
3
2. Álframleiðsla
1
3. Áburðarframleiðsla
1
4. Sements- og kalkframleiðsla
1
5. Kísiljárnframleiðsla
1
6. Kísilmálmframleiðsla
1
7. Kísil- og kísilgúrframleiðsla
1
8. Járn- og stálframleiðsla
1
9. Glerullar- og steinullarframleiðsla 20 t á dag
2
10. Sútunarverksmiðjur 12 tonn á dag
2
11. a. Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera þar sem
2
ársframleiðsla > 1000 tonn og fráveita til sjávar
eða ársframleiðsla > 100 tonn og fráveita í ferskvatn
b. Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera þar sem ársfrl. > 200 t
3
og fráveita til sjávar eða ársfrl. > 20 t og fráveita í ferskvatn
12. a. Meðferð úrgangs - móttökustöðvar sveitarfélaga:
1
Flokkunarmiðstöðvar, urðunarstaðir og sorpbrennslustöðvar
þar sem tekið er á móti meira en 5000 tonnum af úrgangi
eða fleiri en 20 þús. einstaklingum er þjónað
b. Meðferð úrgangs - móttökustöðvar sveitarfélaga:
2
Flokkunarmiðstöðvar, urðunarstaðir og sorpbrennslustöðvar
þar sem tekið er á móti 500-5000 tonnum af úrgangi
eða 1-20 þús. einstaklingum er þjónað
c. Meðferð úrgangs - móttökustöðvar sveitarfélaga:
3
Flokkunarmiðstöðvar, urðunarstaðir og sorpbrennslustöðvar
þar sem tekið er á móti 50-500 tonnum af úrgangi eða
færri en 1 þúsund einstaklingum er þjónað
13. Meðhöndlun og förgun spilliefna
2
14. Lím- og málningarvöruframleiðsla
3
15. Olíumalar- og malbikunarstöðvar með fasta staðsetningu
3
16. Kítín- og kítosanframleiðsla
2
17. Framleiðsla á magnesíum og efnasamböndum sem
1
innihalda magnesíum
18. Framleiðsla á peroxíðum
1
19. Sinkframleiðsla
1
20. Olíuhreinsistöðvar
1
21. Pappírs- og trjákvoðuframleiðsla
1
22. Framleiðsla á slípiefnum, t.d. kísilkarbíði
1
23. Vinnsla alifatískra alkóhóla til iðnaðarnota
1
24. Annar sambærilegur atvinnurekstur, sbr. I. viðauka
1



Fylgiskjal 2.
Atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi.

1. Vinnsla úr járni og öðrum málmum.
Eftirlitsflokkur
1.1.
Málmsteypur < 20 tonn á dag
4
1.2.
Stálsmíði og stálskipagerð
3
1.3.
Völsunar-, víra- og stangaverksmiðjur
5
1.4.
Nagla- og skrúfuframleiðsla
5
1.5.
Vélaframleiðsla
5
1.6.
Vinnsla á málmum í raftækniiðnaði, t. d.
5
rafgeymaverksmiðjur og verkstæði
1.7.
Meðferð og húðun málma
4
1.8.
Vinnsla á hrájárni og stáli, vinnslugeta 2,5 t/klst.
3
1.9.
Bræðsla og málmblanda sem ekki innihalda járn
2
4 t/dag af blýi og kadmíum eða 20 t/dag
af öðrum málmum
1.10.
Yfirborðsmeðhöndlun með rafgreiningar eða efnafræðilegar aðferðir og þar sem rúmmál kerja er 30 m³
3
1.11.
Annar sambærilegur atvinnurekstur í málmiðnaði, rafiðnaði og tækjagerð
1-5


2. Vinnsla og úrvinnsla á kalki, leir, steinum og sambærilegum jarðefnum.
2.1. Steinmölun og framleiðsla á ofaníburði og fyllingarefnum
5
2.2. Steinsmíði
5
2.3. Steypustöðvar og steypueiningaverksmiðjur
5
2.4. Leirmunaverkstæði afkastageta 75 t/dag
5
og/eða rúmtak ofns 4m³
2.5 Steypueiningaverksmiðjur
5
2.6. Vinnsla jarðefna þ.m.t. malar, vikur og grjótnám
5
2.7. Önnur sambærileg starfsemi með jarðefni
5


3. Efnaiðnaður.
3.1. Fyrirtæki sem geyma klórgas
5
3.2. Lakksprautun
5
3.3. Prentiðnaðarfyrirtæki
5
3.4. Efnalaugar
4
3.5. Lyfja- og snyrtivöruframleiðsla
5
3.6. Framköllun t.d. á ljós-, röntgen- og kvikmyndum
4
3.7. Átöppun og pökkun ýmissa efnasambanda
5
3.8. Framleiðsla á aukefnum og hjálparefnum fyrir matvælaiðnað
5
3.9. Hreinlætisvöruverksmiðjur
4
3.10. Plastiðnaður
4
3.11. Vinnsla með plast- og frauðefni
5
3.12. Kælitæki, viðgerðir og nýsmíði
5
3.13. Gleriðnaður og speglagerð
5
3.14. Fúavörn á viði
5
3.15. Tannlæknastofur
5
3.16. Önnur starfsemi með sambærileg efni
4-5


4. Vinnsla og úrvinnsla á efnum úr jurta- og dýraríkinu
4.1. Fóðurstöðvar
5
4.2. Fóðurblöndur
5
4.3. Gúmmívinnsla
5
4.4. Trésmíðaverkstæði
5
4.5. Sögunarmyllur
5
4.6. Framleiðsla á spónaplötum, límtré og þess háttar
5
4.7. Pappírsvöru- og pappakassaframleiðsla
5
4.8. Leðurvinnsla
5
4.9. Vefnaðar- og spunaverksmiðjur
5
4.10 Litun og bleiking 10 tonn á dag
3
4.11. Ullarþvottastöðvar
3
4.12 Framleiðsla á mjöli og feiti úr sláturúrgangi 10 tonn á dag
2
4.13. Fitu- og lýsisvinnsla
3
4.14. Fituhersla
3
4.15. Önnur sambærileg starfsemi með vinnslu og úrvinnslu
3-5
á efnum úr jurta- og dýraríkinu


5. Matvælavinnsla.
5.1.
Sláturhús 50 t á dag
3
5.2.
Kjötvinnsla 75 tonn á dag
4
5.3.
Niðursuðuverksmiðjur
4
5.4.
Reykhús og reykofnar
4
5.5.
Vinnsla fisks og annarra sjávarafurða 75 tonn á dag
4
5.6.
Framleiðsla tilbúinna rétta 75 tonn á dag
4
5.7.
Heitloftsþurrkun fiskafurða
4
5.8.
Mjólkurstöðvar 200 tonn á dag
4
5.9.
Framleiðsla mjólkurdufts
5
5.10.
Öl-, gos- og svaladrykkjagerðir
5
5.11.
Kaffibrennsla
5
5.12.
Smjörlíkisgerðir
5
5.13.
Kartöfluvinnsla 300 tonn á dag
4
5.14.
Framleiðsla á kartöflumjöli og sterkju
5
5.15.
Lauksteikingarverksmiðjur
5
5.16.
Mörbræðsla og tólgarframleiðsla
5
5.17.
Meðhöndlun, blöndun og mölun á korni < 300 tonn á dag
5
5.18.
Kæli- og frystigeymslur
5
5.19.
Önnur sambærileg matvælavinnsla
3-5


6. Búfjár- og dýrahald.
6.1. Loðdýrarækt
3
6.2. Alifuglarækt 40.000 stæði
3
6.3. Svínarækt 2000 stæði alisvín eða 750 stæði fyrir gyltur
3
6.4. Kanínurækt
5
6.5. Hestahald
5
6.6. Dýraspítalar
5
6.7. Hunda- og kattageymslur
5
6.8. Gæludýraverslanir
5
6.9. Fiskeldisstöðvar, aðrar en þær sem eru á fylgiskjal 1
4
6.10. Seiðaeldisstöðvar með fleiri en 350 þús. seiði og afrennsli í ferskvatn og eru ekki í tengslum við fiskeldisstöðvar
3
6.11. Seiðaeldisstöðvar með fleiri en 150 þús. seiði og afrennsli í ferskvatn og eru ekki í tengslum við fiskeldisstöðvar
4
6.12. Seiðaeldi annað en í 6.10 og 6.11 og ekki í tengslum við fiskeldi
5
6.13. Önnur sambærileg starfsemi með búfjár- og dýrahald
3-5


7. Starfsemi er snertir vélknúin farartæki.
7.1. Kappaksturs-, æfinga- og kennslubrautir
5
7.2. Alþjóðaflugvellir og flugvellir með eldsneytisafgreiðslu
3
7.3 Flugvellir án eldsneytisafgreiðslu
4
7.4. Bifreiða- og vélaverkstæði
5
7.5 Bifreiðasprautun
4
7.6. Ryðvarnarverkstæði
4
7.7. Smurstöðvar
4
7.8. Bensínstöðvar
3
7.9. Vöruflutningamiðstöðvar
5
7.10. Biðstöðvar leigubifreiða
5
7.11. Bið- og endastöðvar strætisvagna
5
7.12. Bón- og bílaþvottastöðvar
4
7.13. Niðurrif bifreiða og bílapartasölur
4
7.14. Sorpflutningar og sorphirða
5
7.15. Verktakar með þungavinnuvélar, verstæðisaðstaða
5
7.16. Verkstæðisaðstaða hjá fyrirtækjum með ólíka starfsemi
5
7.17. Önnur sambærileg starfsemi fyrir vélknúin farartæki
3-5


8. Meðferð skólps og úrgangs.
8.1. Skólphreinsistöðvar, útrásadælustöðvar og fráveitur
a. Skólphreinsistöðvar fyrir meira en 150.000 pe
1
b. > 10.000 pe og afrennsli til strandsjávar eða > 2.000 pe
2
og afrennsli til ármynnis
c. Aðrar skólphreinsistöðvar en í 8.1 a og b
3
8.2. Gámastöðvar
5
8.3. Gámaflutningsaðilar og aðilar sem flytja spilliefni
5
8.4. Aðilar sem sérhæfa sig í flutningi og hreinsun á seyru
5
8.5. Endurvinnsla úrgangs
5
8.6. Önnur sambærileg starfsemi
1-5


9. Ýmislegt.
9.1. Virkjanir og orkuveitur
a. 2-10 MW
5
b. 10-50 MW
4
c. > 50 MW
3
9.2. Stórar spennistöðvar
5
9.3. Stórar vörugeymslur
5
9.4. Líkbrennslur
5
9.5. Skotvellir
5
9.6. Skemmtigarðar, tívolí, fjölleikahús o. þ. h.
5
9.7. Æfingasvæði slökkviliðs
5
9.8. Þvottahús
5
9.9. Olíumalar- og malbikunarstöðvar með breytilega staðsetningu
4
9.10. Saltvinnsla
3
9.11. Gasbirgðastöðvar með meira en 100 m³ geymslurými (STP)
3
9.12. Gasbirgðastöðvar með 100 m³ geymslurými (STP)
2
9.13. Atvinnurekstur sem meðhöndlar asbest
4
9.14. Viðhald og niðurrif skipa
3
9.15. Önnur sambærileg starfsemi
1-5


10. Tímabundinn atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi.
Eftirlitsflokkur 5
10.1. Geymsla olíumalarefna og lagning utan fastra starfsstöðva.
10.2. Notkun seyru til landgræðslu- og skógræktar.
10.3. Áburðarframleiðsla úr lífrænum efnum ( t.d. þurrkaður hænsnaskítur o.fl.).
10.4. Jarðborun.
10.5. Flugeldasýningar.
10.6. Brennur af ýmsu tagi (áramóta – Jónsmessu – ýmsar uppákomur).
10.7. Ýmis konar tímabundin aðstaða s.s. farandsalerni, farandeldhús og vinnubúðir sem tengjast tímabundnum framkvæmdum.


I. VIÐAUKI

Hollustuvernd ríkisins vinnur starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem tilgreindur er í viðauka þessum nema atvinnurekstur sem um getur í lið 6.4 til 6.6.

Flokkun starfsemi
1. Stöðvar, eða hlutar þeirra, sem eru notaðar fyrir rannsóknir, þróun og prófun á nýjum vörum og aðferðum falla ekki undir þessa reglugerð.
2. Markgildin hér á eftir eiga almennt við um vinnslugetu eða vinnsluafköst. Ef sami aðili rekur margs konar starfsemi, sem fellur undir sama lið, í sömu stöð eða á sama stað er vinnslugeta þessara tegunda starfsemi lögð saman.



1. Orkuiðnaður.
Eftirlitsflokkur
1.1. Brennslustöðvar með meiri nafnhitaafköst en 50 MW
1
1.2. Jarðolíu- og gashreinsunarstöðvar
1
1.3. Koksverksmiðjur
1
1.4. Iðjuver þar sem kolagösun og þétting fer fram
1


2. Framleiðsla og vinnsla málma.
2.1. Stöðvar þar sem málmgrýti (að meðtöldu brennisteinsgrýti)
1
er hreinsað með bruna og glæðingu.
2.2. Stöðvar þar sem hrájárn eða stál er framleitt (fyrsta eða
1
önnur bræðsla), með tilheyrandi strengjamótun, og sem hafa meiri
vinnslugetu en 2,5 tonn á klukkustund.
2.3. Stöðvar þar sem málmur sem inniheldur járn er unninn:
a) með heitvölsunarvélum sem hafa meiri vinnslugetu en 20 tonn
2
á klukkustund af hrástáli,
b) í smiðjum þar sem slagkraftur hvers hamars er meiri en 50 kílójúl
2
við meira en 20 MW varmamyndun,
c) með því að gert er hlífðarlag úr bræddum málmi og sem hafa
2
meiri vinnslugetu en 2 tonn af hrástáli á klukkustund.
2.4. Járnmálmsteypur sem geta framleitt meira en 20 tonn á dag.
2
2.5. Stöðvar:
a) þar sem framleiðsla hrámálms, sem inniheldur ekki járn, úr grýti,
1
kirni eða endurframleitt hráefni, fer fram með málmvinnsluaðferðum,
efnafræðilegum aðferðum eða rafgreiningaraðferðum,
b) þar sem bræðsla og málmblanda málma sem inniheldur ekki járn,
1
einnig endurnýttra framleiðsluvara (hreinsun/endurbætur,
steypumótun o.s.frv.) fer fram og sem geta brætt 4 tonn af blýi og
kadmíum á dag eða 20 tonn af öllum öðrum tegundum málma á dag.
2.6. Stöðvar þar sem málmar og plastefni fá yfirborðsmeðferð með
2
rafgreiningaraðferðum eða efnafræðilegum aðferðum og rúmmál
kera er meira en 30 m³.


3. Jarðefnaiðnaður.
3.1. Stöðvar þar sem framleiðsla sementsgjalls fer fram í hverfiofnum
1
sem geta framleitt meira en 500 tonn á dag eða kalk í hverfiofnum
sem geta framleitt meira en 50 tonn á dag eða í öðrum ofnum sem
geta framleitt meira en 50 tonn á dag.
3.2. Stöðvar þar sem vinnsla asbests og framleiðsla vara sem innihalda
2
asbest fer fram.
3.3. Stöðvar þar sem framleiðsla glers, einnig glertrefja, fer fram og
1
sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.4. Stöðvar þar sem bræðsla jarðefna, einnig steinullartrefja, fer fram
1
og sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.5. Stöðvar þar sem framleiðsla leirvara fer fram með brennslu,
1
einkum þakflísa, múrsteina, eldfastra múrsteina, flísa, leirmuna eða
postulíns, sem geta framleitt meira en 75 tonn á dag og/eða rúmtak
ofns er meira en 4 m³ og setþéttleiki hans er meiri en 300 kg/m³.


4. Efnaiðnaður.
Með framleiðslu í þeirri starfsemi sem fellur undir þennan þátt er átt við mikla framleiðslu með efnafræðilegri vinnslu efna eða flokka efna sem er getið í liðum 4.1 til 4.6.
4.1. Efnaverksmiðjur sem framleiða lífræn grunnefni, svo sem:
a) einföld vetniskolefni (línuleg eða hringlaga, mettuð eða ómettuð,
1
alífatísk eða arómatísk),
b) vetniskolefni með súrefni, svo sem alkóhól, aldehýð, ketón,
1
karboxýlsýrur, estera, asetöt, etera, peroxíð, epoxýresín,
1
c) brennisteinsvetniskolefni,
1
d) köfnunarefnisvetniskolefni, svo sem amín, amíð, nítursambönd,
1
nítrósambönd eða nítratsambönd, nítríl, sýanöt, ísósýanöt,
e) vetniskolefni með fosfór,
1
f) halógenvetniskolefni,
1
g) lífræn málmsambönd,
1
h) plastefni (fjölliður, gervitrefjar og trefjar úr sellúlósaafleiðum),
1
i) gervigúmmí,
1
j) litarefni og dreifuliti,
1
k) yfirborðsvirk efni.
1
4.2. Efnaverksmiðjur sem framleiða ólífræn grunnefni, t.d.:
a) gös, svo sem ammóníak, klór eða vetnisklóríð, flúor eða
1
vetnisflúoríð, koloxíð, brennisteinssambönd, köfnunarefnisoxíð,
vetni, brennisteinsdíoxíð, karbónýlklóríð,
b) sýrur, svo sem krómsýru, flúorsýru, fosfórsýru, saltpéturssýru,
1
saltsýru, brennisteinssýru, óleum, brennisteinstvísýrling,
c) basa, svo sem ammóníumhýdroxíð, kalíumhýdroxíð,
1
natríumhýdroxíð,
d) sölt, svo sem ammóníumklóríð, kalíumklórat, kalíumkarbónat,
1
natríumkarbónat, perbórat, silfurnítrat,
e) málmleysingja, málmoxíð eða önnur ólífræn sambönd, svo sem
1
kalsíumkarbíð, kísil, kísilkarbíð.
4.3. Efnaverksmiðjur sem framleiða áburð sem inniheldur fosfór,
1
köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur).
4.4. Efnaverksmiðjur sem framleiða grunnvörur fyrir plöntuheilbrigði og lífeyða.
1
4.5. Stöðvar þar sem notaðar eru efnafræðilegar og líffræðilegar aðferðir við framleiðslu grunnlyfjavara.
1
4.6. Efnaverksmiðjur sem framleiða sprengiefni.
1


5. Eftirlit með úrgangsefnum.
5.1. Stöðvar fyrir förgun eða endurnýtingu spilliefna samkvæmt
1
skilgreiningu í reglugerð, um skrá yfir spilliefni og annan úrgang,
í V. viðauka (aðgerðir R1, R5, R6, R8 og R9) og í reglugerð um
olíuúrgang, sem geta afkastað meira en 10 tonnum á dag;
5.2. Stöðvar fyrir sorpbrennslu, samkvæmt skilgreiningu í reglugerð
1
um sorpbrennslustöðvar, sem geta afkastað meira en 3 tonnum
á klukkustund;
5.3. Stöðvar fyrir förgun úrgangs annars en spilliefna samkvæmt
1
skilgreiningu í IV. viðauka í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan
úrgang í liðum D8 og D9, sem geta afkastað meira en 50 tonnum á dag;
5.4. Urðunarstaðir sem taka við meira en 10 tonnum á dag eða sem geta
1
afkastað meira í heild en 25 000 tonnum af óvirkum úrgangi.


6. Önnur starfsemi.
6.1. Iðjuver sem framleiða:
a) deig úr viði eða önnur trefjaefni,
1
b) pappír og pappa og geta framleitt meira en 20 tonn á dag.
1
6.2. Stöðvar þar sem fram fer formeðferð (aðgerðir eins og þvottur,
1
bleiking, mersivinnsla) eða litun trefja eða textílefna og hafa meiri
vinnslugetu en 10 tonn á dag.
6.3. Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum og hafa meiri
1
vinnslugetu en 12 tonn af fullunninni vöru á dag.
6.4. a) Sláturhús sem geta framleitt meira en 50 tonn af skrokkum á dag
1
b) Meðferð og vinnsla fyrir matvælaframleiðslu úr:
— hráefnum af dýrum (öðrum en mjólk) þar sem hægt er að framleiða
1
meira en 75 tonn af fullunninni vöru á dag,
— hráefnum af jurtum þar sem hægt er að framleiða meira en 300 tonn
1
af fullunninni vöru á dag (meðaltal á hverjum ársfjórðungi)
c) Meðferð og vinnsla mjólkur, tekið er á móti meira en 200 tonnum af
1
mjólk á dag (meðaltal á ársgrundvelli).
6.5. Stöðvar þar sem förgun eða endurvinnsla skrokka og úrgangs af
1
dýrum fer fram og afkastageta er meiri en 10 tonn á dag.
6.6. Stöðvar þar sem þauleldi alifugla eða svína fer fram með fleiri en:
a) 40 000 stæði fyrir alifugla,
1
b) 2 000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg), eða
1
c) 750 stæði fyrir gyltur.
1
6.7. Stöðvar þar sem fram fer yfirborðsmeðferð efna, hluta eða afurða
1
með lífrænum leysiefnum, einkum pressun, prentun, húðun,
fituhreinsun, vatnsþétting, meðhöndlun eða þakning með límvatni,
málun, hreinsun eða gegndreyping og meira en 150 kg eru notuð á
klukkustund eða meira en 200 tonn á ári.
6.8. Stöðvar þar sem fram fer framleiðsla kolefna (fullbrenndra kola) eða rafgrafíts með brennslu eða umbreytingu í grafít.
1


II. VIÐAUKI
Skrá yfir reglugerðir þar sem fram koma losunarmörk,
viðmiðunarmörk og eða gæðamarkmið.
1. Reglugerð um varnir gegn mengun af völdum asbests.
2. Reglugerð um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri frá atvinnurekstri sem stundar rafgreiningu alkalíklóríða í yfirborðsvatn.
3. Reglugerð um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kadmíum í yfirborðsvatn.
4. Reglugerð um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á kvikasilfri í yfirborðsvatn.
5. Reglugerð um losunarmörk, umhverfismörk og gæðamarkmið fyrir losun á hexaklórsýklóhexani (HCH) í yfirborðsvatn.
6. Reglugerð um varnir gegn mengun vatns.
7. Reglugerð um sorpbrennslustöðvar.
8. Reglugerð um brennslu spilliefna.
9. Reglugerð um úrgang frá títandíoxíðiðnaði.
10. Reglugerð um úrgang.
11. Reglugerð um olíuúrgang.
12. Reglugerð um spilliefni.


III. VIÐAUKI
Skrá yfir helstu mengunarefni sem taka ber tillit til.

LOFT.

1. Brennisteinsdíoxíð og önnur brennisteinssambönd.
2. Köfnunarefnisoxíð og önnur köfnunarefnissambönd.
3. Kolmónoxíð.
4. Rokgjörn lífræn sambönd.
5. Málmar og sambönd þeirra.
6. Ryk.
7. Asbest (svifagnir, trefjar).
8. Klór og sambönd þess.
9. Flúor og sambönd þess.
10. Arsen og sambönd þess.
11. Sýaníð.
12. Efni og blöndur sem sannað hefur verið að hafi krabbameinsvaldandi eða stökkbreytivaldandi eiginleika, eða eiginleika sem gætu haft áhrif á æxlun, fyrir milligöngu andrúmslofts.
13. Fjölklóruð díbensódíoxín og fjölklóruð díbensófúrön.

VATN.

1. Lífræn halógensambönd og efni sem geta myndað slík sambönd í vatni.
2. Lífræn fosfórsambönd.
3. Lífræn tinsambönd.
4. Efni og blöndur sem sannað hefur verið að hafi krabbameinsvaldandi eða stökkbreytivaldandi eiginleika, eða eiginleika sem gætu haft áhrif á æxlun, í vatni eða fyrir milligöngu þess.
5. Þrávirk vetniskolefni og þrávirk lífræn eiturefni sem safnast fyrir í lífverum.
6. Sýaníð.
7. Málmar og sambönd þeirra.
8. Arsen og sambönd þeirra.
9. Lífeyðar og efni fyrir plöntuheilbrigði.
10. Efni í sviflausn.
11. Efni sem stuðla að næringarefnaaugðun (einkum nítröt og fosföt).
12. Efni sem hafa óheppileg áhrif á súrefnisjafnvægi (og hægt er að mæla með því að nota færibreytur svo sem BOD, COD o.s.frv.).


IV. VIÐAUKI

Þættir sem taka ber tillit til, almennt eða í sérstökum tilvikum, þegar tekin er ákvörðun um fullkomnustu tækni sem völ er á samkvæmt skilgreiningu í 2. mgr. 3. gr., með hliðsjón af líklegum kostnaði og ávinningi af tiltekinni ráðstöfun og meginreglunum um forvarnir og varnir:

1. notkun tækni sem veldur litlum úrgangi;
2. notkun hættuminni efna;
3. endurnýting og endurvinnsla efna, sem verða til og eru notuð við vinnslu og úrgangs, eftir því sem við á;
4. sambærileg vinnsla, aðbúnaður eða starfsaðferðir sem reyndar hafa verið í miklum mæli með góðum árangri;
5. tæknilegar framfarir og breytingar á vísindalegri þekkingu og skilningi;
6. eðli, áhrif og magn viðkomandi losunar;
7. fyrsti rekstrardagur nýrra stöðva eða stöðva í rekstri;
8. nauðsynlegur tími til að innleiða fullkomnustu tækni sem völ er á;
9. notkun og eðli hráefna (að meðtöldu vatni) sem eru notuð við vinnslu og orkunýtni þeirra;
10. nauðsyn þess að hindra eða draga eins og frekast er kostur úr heildaráhrifum losunar á umhverfið og umhverfisáhættu;
11. nauðsyn þess að koma í veg fyrir slys og draga eins og frekast er kostur úr afleiðingum slysa fyrir umhverfið.


1) Eftirlitsflokkar, sbr. 12. gr. reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica