Umhverfisráðuneyti

789/1999

Reglugerð um styrk kolmónoxíðs og fallryks í andrúmslofti - Brottfallin

 

REGLUGERÐ

um styrk kolmónoxíðs og fallryks í andrúmslofti.

 

I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

Markmið.

1. gr.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr mengun af völdum kolmónoxíðs og fallryks, einkum í andrúmsloftinu, og ákvarða umhverfismörk.

 

Gildissvið.

2. gr.

2.1 Reglugerð þessi gildir um umhverfismörk fyrir kolmónoxíð og fallryk.  Reglugerðin gildir einnig um atvinnurekstur sem kann að valda mengun af völdum kolmónoxíðs og fallryks hér á landi og í mengunarlögsögunni.  Reglugerðin gildir um athafnir einstaklinga eftir því sem við á.

2.2 Reglugerðin gildir ekki um kolmónoxíð og fallryk á vinnustöðum, sbr. ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

 

Skilgreiningar.

3. gr.

3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.2 Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

3.3 Fallryk er ryk sem sest sjálfkrafa á rakt yfirborð.

3.4 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.5 Mæling á umhverfisgæðum er mæling og skráning á einstökum þáttum í umhverfinu, óháð atvinnurekstri og starfsleyfum, venjulega framkvæmd í stuttan tíma.

3.6 Umhverfismörk eru mörk sem óheimilt er að fara yfir í tilteknu umhverfi á tilteknum tíma og sett eru til að takmarka mengun umhverfis á grundvelli vísindalegrar þekkingar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið. Umhverfismörk geta verið sett til að vernda umhverfið í heild eða tiltekna þætti þess (svo sem heilsuverndarmörk og gróðurverndarmörk).

 

II. KAFLI

Umsjón.

Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4. gr.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

 

III. KAFLI

Varnir gegn loftmengun.

Meginreglur.

5. gr.

5.1 Halda skal loftmengun af völdum kolmónoxíðs og fallryks í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti.

5.2 Í ákvæðum starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem kann að valda mengun af völdum kolmónoxíðs og fallryks skulu viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun og beita skal til þess bestu fáanlegu tækni.

5.3 Hollustuvernd ríkisins eða heilbrigðisnefnd eftir því sem við á er heimilt að gera strangari kröfur en reglugerð þessi segir til um ef loftmengun á tilteknu svæði er sérstaklega mikil eða ef svæðið á að njóta sérstakrar verndar.

 

Styrkur kolmónoxíðs og fallryks í andrúmslofti og sýnataka.

6. gr.

6.1 Styrkur kolmónoxíðs skal ekki vera yfir umhverfismörkum í 98% tilvika á ári, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari. Styrkur fallryks skal ekki vera yfir umhverfismörkum, sbr. fylgiskjal með reglugerðinni.

6.2 Við sýnatöku og mælingar á styrk kolmónoxíðs og fallryks í sýnum skal fara eftir þeim viðmiðunum og aðferðum sem Hollustuvernd ríkisins samþykkir.

 

Sýnatökustöðvar.

7. gr.

7.1 Hollustuvernd ríkisins skal sjá um að sýnatökustöðvar séu settar upp og þær starfræktar á stöðum þar sem líkur eru á að fólk dvelji óvarið langtímum saman og þar sem líklegt er að mengun nái umhverfismörkum fyrir kolmónoxíð og fallryk, eða fari yfir þau samkvæmt reglugerð þessari.  Þá skal stofnunin sjá um framkvæmd vöktunar.

 

Ráðstafanir til þess að draga úr loftmengun.

8. gr.

8.1 Fari loftmengun yfir umhverfismörk, samkvæmt reglugerð þessari, eða ef hætta er á slíku skal Hollustuvernd ríkisins eða viðkomandi heilbrigðisnefnd eftir því sem við á gera ráðstafanir til að dregið verði úr loftmengun og umhverfismörkin virt.

8.2 Ráðstafanir sem gripið er til samkvæmt 1. mgr. mega ekki hafa í för með sér að loft mengist af völdum kolmónoxíðs og fallryks á stöðum þar sem mengun er lítil  miðað við umhverfismörkin sem koma fram í fylgiskjali með reglugerðinni.

 

Upplýsingagjöf.

9. gr.

9.1 Heilbrigðisnefndum ber að skila upplýsingum um niðurstöður mengunarvarnaeftirlits og mælinga á umhverfisgæðum til Hollustuverndar ríkisins í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar.

9.2 Á sama hátt ber Hollustuvernd ríkisins að skila viðkomandi heilbrigðisnefndum mælingarniðurstöðum stofnunarinnar um mengun af völdum kolmónoxíðs og fallryks í andrúmslofti.

 

IV. KAFLI

Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

Aðgangur að upplýsingum.

10. gr.

10.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

Þagnarskylda eftirlitsaðila.

11. gr.

11.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

11.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

 

Valdsvið og þvingunarúrræði.

12. gr.

12.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á.  Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

 

Viðurlög.

13. gr.

13.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

13.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

 

V. KAFLI

Lagastoð, gildistaka o.fl.

14. gr.

14.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

14.2 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

 

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

 

Siv Friðleifsdóttir.Magnús Jóhannesson.

 

Fylgiskjal.Umhverfismörk fyrir hámarksmengun andrúmslofts.

 

Efni                                                              Viðmiðunartími                            Mörk

 

Kolmónoxíð                                                  Ein klst.                                           20 mg/m3

(CO)                                                                                                                      Átta klst.                   6 mg/m3

 

Fallryk, ekki vatnsleysanlegt                       Mánuður                                          10 g/m2

 

Mörk fyrir mánuð eru meðaltöl sem mengun má ekki fara yfir. Styrkur CO fyrir sólarhring eða skemmri tíma skal vera undir umhverfismörkum í 98% tilvika á ári.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica