Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

212/1998

Reglugerð um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota. - Brottfallin

Almenn ákvæði.

1. gr.

            Einstaklingum er heimilt að flytja inn til landsins lyf til eigin nota með þeim takmörkunum sem reglugerð þessi kveður á um.

2. gr.

            Einstaklingar geta flutt inn lyf til eigin nota, að því tilskyldu að um sé að ræða lyf sem aflað hefur verið með lögmætum hætti til notkunar fyrir menn.

            Einstaklingur skal geta framvísað vottorði læknis, lyfseðli eða annarri skriflegri yfirlýsingu ásamt fyrirmælum um notkun, er færi fullnægjandi sönnur á að lyfjanna hafi verið aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu honum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

Innflutningur lyfja frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

3. gr.

            Einstaklingur má hafa með sér til landsins eða flytja með pósti, frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, lyf til eigin nota í magni sem svarar til mest 100 daga notkunar.

            Innflutningur lyfja frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

4. gr.

            Einstaklingur má hafa með sér til landsins, frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, lyf til eigin nota í magni sem svarar til mest 100 daga notkunar.

            Óheimilt er að flytja inn lyf með pósti frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Takmarkanir.

5. gr.

            Þegar um er að ræða lyf er falla undir ákvæði laga og reglugerða um ávana- og fíkniefni og sem talin eru á listum I, II, III og IV í alþjóðasamningi um ávana- og fíknilyf (Convention on Narcotic Drugs 1961 og Convention on Psychotropic Substances 1971) og öðrum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og krafist er inn- eða útflutningsleyfa fyrir, má einstaklingur ekki flytja með sér meira magn en sem svarar til mest 10 daga notkunar.

            Af öðrum ávana- og fíknilyfjum, sem falla undir ákvæði laga um ávana- og fíkniefni, en ekki er krafist inn- eða útflutningsleyfa fyrir er heimilt að flytja með sér magn sem svarar til mest 30 daga notkunar.

            Óheimilt er að flytja inn með pósti lyf samkvæmt þessu ákvæði.

6. gr.

            Óheimilt er að flytja inn í eigin farangri eða á annan hátt lyf af flokki vefaukandi stera (anabolica) og hliðstæðra efna samkvæmt c.-lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar, eða hormón heiladinguls og undirstúku (pituitary og hypothalamic), þ.e. vaxtarhormón og hliðstæð efni samkvæmt f.-lið í skrá Alþjóðaólympíunefndarinnar yfir lyf sem bönnuð eru í íþróttum, umfram það magn sem einstaklingur þarf til mest 30 daga notkunar.

            Tollayfirvöld geta krafist þess að einstaklingur sem hefur í fórum sínum lyf samkvæmt 1. mgr. færi fullnægjandi sönnur á, að lyfin séu honum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er t.d. með vottorði læknis.

Refsiákvæði.

7. gr.

            Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt 43. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, sbr. 2. gr. laga nr. 55/1995, enda sé ekki kveðið á um þyngri refsingu í öðrum lögum.

Lagagrundvöllur og gildistaka.

8. gr.

            Reglugerð þessi er sett með heimild í 44. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og öðlast gildi við birtingu.

            Ákvæði reglugerðarinnar byggja á tilskipun Evrópubandalagsins nr. 92/26/EEC, þar sem einstaklingum er veittur réttur til að taka með sér eða fá sent hæfilegt magn lyfja er aflað hefur verið á löglegan hátt til eigin nota frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 26. mars 1998.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica