Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

371/1997

Reglugerð fyrir Friðlýsingarsjóð skv. lögum um náttúruvernd.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Sjóðurinn heitir Friðlýsingarsjóður. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að náttúruvernd og friðlýsingu svæða og auka fræðslu um náttúruvernd og náttúrufar.

Náttúruverndarráð fer með stjórn sjóðsins og annast vörslu hans.

2. gr.

Stofnfé sjóðsins er þrjúhundruð þúsund krónur.

Tekjur sjóðsins eru:

- árlegt framlag Þjóðhátíðarsjóðs, sbr. 3. gr. skipulagsskrár Þjóðhátíðarsjóðs nr. 361/ 1977,

- tekjur af sérstökum verkefnum sem Náttúruverndarráð gengst fyrir til tekjuöflunar fyrir sjóðinn,

- gjafir er sjóðnum kunna að berast,

- vaxtatekjur og aðrar tekjur af eignum sjóðsins.

3. gr.

Sjóðstjórn leitar eftir hugmyndum um verkefni í samræmi við tilgang sjóðsins og ráðstafar tekjum sjóðsins sbr. 2. mgr. 2. gr. í samræmi við tilganginn. Óheimilt er að verja fé sjóðsins með öðrum hætti.

4. gr.

Friðlýsingarsjóður hefur sjálfstæðan fjárhag og skal ávaxtaður á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli verðtryggingar í samræmi við nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins á hverjum tíma.

5. gr.

Sjóðstjórn semur reikninga sjóðsins árlega. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og sendir umhverfisráðuneyti og Þjóðhátíðarsjóði.

Umhverfisráðuneyti og Þjóðhátíðarsjóði skal árlega gerð grein fyrir ráðstöfun sjóðsins eftir verkefnum, framvindu þeirra og verklokum.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 4. mgr. 12. gr. laga nr. 93/1996, um náttúruvernd, öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 16. júní 1997.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.