Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

533/1995

Reglugerð um eftirlit með hættu á snjóflóðum.

I. KAFLI Athugunarmenn.

1. gr.

Lögreglustjórar ráða, hver í sínu lögsagnarumdæmi, athugunarmenn til að fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum. Við ráðningu athugunarmanns skal lögreglustjóri hafa samráð við viðkomandi sveitarstjórnir, almannavarnanefndir og Veðurstofu Íslands.

2. gr.

Lögreglustjóri auglýsir starf athugunarmanns. Í auglýsingu skulu helstu verkefni athugunarmanns tilgreind.

Lögreglustjóri skal leita umsagnar viðkomandi sveitarstjórna, almannavarnanefnda og Veðurstofu Íslands um umsækjendur áður en hann tekur ákvörðun um ráðningu.

3. gr.

Athugunarmaður skal starfa í hverjum byggðarkjarna þar sem 200 manns eða fleiri búa við snjóflóðahættu að mati Almannavarna ríkisins. Lögreglustjóri getur, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, falið athugunarmanni að annast athuganir í fleiri en einu byggðarlagi.

Heimilt er að ráða mann til að leysa af og aðstoða athugunarmann.

II. KAFLI Störf athugunarmanna.

4. gr.

Athugunarmenn starfa undir stjórn lögreglustjóra. Starfstími þeirra skal nánar skilgreindur í ráðningarsamningi með hliðsjón af aðstæðum á hverjum stað og að höfðu samráði við Veðurstofu Íslands.

5. gr.

Veðurstofa Íslands skilgreinir verkefni athugunarmanna og setur þeim verklagsreglur um tilhögun, umfang og tíðni athuguna, svo og meðferð og skil á niðurstöðum þeirra.

III. KAFLI Þjálfun og búnaður.

6. gr.

Veðurstofa Íslands skal sjá til þess að allir nýir athugunarmenn fái kennslu og þjálfun áður en þeir hefja störf. Enn fremur skulu á vegum Veðurstofunnar haldin reglulega endurmenntunarnámskeið fyrir starfandi athugunarmenn. Athugunarmönnum er skylt að sækja þessi námskeið.

7. gr.

Athugunarmönnum skal séð fyrir nauðsynlegum búnaði og tækjum til að annast þau verkefni sem þeim eru falin. Almannavarnir ríkisins setja, að fengnum tillögum Veðurstofu Íslands, nánari reglur um hvaða búnað og tæki er að ræða.

Veðurstofa Íslands leggur athugunarmönnum til rannsóknartæki og -búnað. Lögreglustjóri sér, í samráði við Veðurstofu, athugunarmönnum fyrir öðrum búnaði og tækjum, svo og starfsaðstöðu og geymslu fyrir tæki og búnað.

Lögreglustjóra er heimilt að gera samning við athugunarmann um að hann sjái sér fyrir aðstöðu, og búnaði og tækjum, gegn greiðslu.

Búnaður og tæki athugunarmanna, sem keypt eru með fé úr ofanflóðasjóði, skulu vera merkt samkvæmt kröfum Almannavarna ríkisins.

IV. KAFLI Starfskjör.

8. gr.

Laun athugunarmanna og aðstoðarmanna þeirra miðast við kjarasamning ríkisins við Starfsmannafélag ríkisstofnana.

Samningar um laun og kjör athugunarmanna eru háðir samþykki Almannavarna ríkisins.

V. KAFLI Greiðslur ofanflóðasjóðs.

9. gr.

Ofanflóðasjóður greiðir, í samræmi við reglur sínar, kostnað vegna kaupa Veðurstofu Íslands á rannsóknartækjum og -búnaði fyrir athugunarmenn.

10. gr.

Ofanflóðasjóður greiðir lögreglustjóraembættum kostnað þeirra vegna starfa athugunarmanna samkvæmt tillögum Almannavarna ríkisins.

Lögreglustjóri skal árlega gera áætlun um stofn-, launa- og rekstrarkostnað embættis síns vegna starfa athugunarmanns og leggja fyrir Almannavarnir ríkisins. Laun athugunarmanns skulu greidd á sama hátt og laun annarra starfsmanna viðkomandi embættis en ofanflóðasjóður greiðir embættinu reglulega vegna rekstrarkostnaðar og launa athugunarmanns samkvæmt nánara samkomulagi um greiðslufyrirkomulag.

11. gr.

Almannavarnir ríkisins skulu á grundvelli kostnaðaráætlana lögreglustjóra, sbr. 10. gr., leggja árlega fyrir félagsmálaráðherra til staðfestingar, áætlun um greiðslur úr ofanflóðasjóði vegna athugunarmanna, ásamt uppgjöri vegna næsta árs á undan.

VI. KAFLI Almenn ákvæði.

12. gr.

Reglugerð þessi gildir, eftir því sem við á, einnig um eftirlit með skriðuföllum.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er í samráði við Almannavarnir ríkisins, dómsmálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið, með heimild í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28, 4. júní 1985, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytið, 6. október 1995.

Páll Pétursson.

Anna G. Björnsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.