Landbúnaðarráðuneyti

504/1998

Reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til hvers konar framleiðslu, vinnslu, flutninga, geymslu og dreifingar á gæðastýrðum íslenskum landbúnaðarafurðum með áherslu á hreinleika afurða, velferð búfjár og umhverfisvernd.

Í reglugerð þessari er lýst gæðastýringu og eftirlitskerfi til að tryggja uppruna og eldi búfjár og ræktun nytjajurta þannig að afurðirnar uppfylli kröfur sem gerðar eru til vistvænna landbúnaðarafurða. Framleiðslan skal samræmast góðum búskaparháttum og markmiðum sjálfbærrar þróunar í landbúnaði. Tryggja skal öflun góðs neysluvatns, örugga meðferð sorps og frárennslis svo og aðrar mengunarvarnir og góða umhirðu við framleiðslu landbúnaðarafurða. Nánari ákvæði um framleiðslu einstakra afurða eru í viðaukum með reglugerð þessari.

Heimilt er að einkenna íslenskar sláturafurðir, aðrar búfjárafurðir og afurðir nytjajurta með merki fyrir "vistvæna landbúnaðarafurð", uppfylli þær kröfur þessarar reglugerðar.

2. gr.

Gæðakröfur.

Til vistvænna landbúnaðarafurða geta þær afurðir talist sem falla undir eftirfarandi skilyrði eftir því sem við á:

Afurðirnar séu af eða komi frá gripum, sem aldrei hafa verið gefnir hormónar eða vaxtarhvetjandi efni á eldisskeiðinu og notkun sýkla- og sníklalyfja skal hafa verið í lágmarki við eldi og framleiðslu gripanna og í samræmi við ákvæði í viðaukum fyrir einstakar afurðir.

Við ræktun nytjajurta og afurða þeirra skal notkun áburðar, lyfja eða varnarefna vera í samræmi við viðurkenndar reglur um hreinleika og hollustu afurða og verndun umhverfis og í samræmi við ákvæði í viðaukum fyrir einstakar afurðir.

Við framleiðslu vistvænna afurða skal árleg hámarksnotkun köfnunarefnis miðast við 120 kg N/ha fyrir tún í fjölærri ræktun og 180 kg N/ha fyrir grænfóður, kartöflur, grænmeti og aðra einæra útiræktun. Óheimilt er að nota áburð sem inniheldur meira en 10 mg af kadmíum í hverju kílói fosfórs. Áburðaráætlun skal hverju sinni yfirfarin og samþykkt af búnaðarráðunaut.

Við framleiðslu vistvænna afurða skal þess ávallt gætt að beit búfjár rýri ekki landgæði né hamli eðlilegri framvindu gróðurs. Við beitarþolsmat og aðgerðir til úrbóta þar sem þeirra er þörf skal taka mið af ástandsflokkun lands samkvæmt aðferðum sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins viðurkenna með tilliti til hverrar búfjártegundar.

3. gr.

Vinnuferli.

Allt búfé sem flutt er í sláturhús og afurðir þess skulu merktar viðkomandi framleiðanda. Sláturfénaður skal einstaklingsmerktur frá fæðingu og skráður í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands eða öðru sambærilegu skráningarkerfi sem eftirlitsaðilar viðurkenna. Hver sláturgripur skal halda merki sínu til slátrunar. Eftir slátrun skal hver skrokkur merktur framleiðanda og það síðan tryggt með merkingum við sundurhlutun að ávallt sé hægt að rekja vistvæna afurð til viðkomandi framleiðanda. Í frekari vinnslu og dreifingu skal ávallt vera unnt að rekja afurðina til viðkomandi afurðastöðvar. Verði einstaklingsmerkingu ekki við komið skal hver framleiðslu- eða sláturhópur merktur framleiðanda og sömuleiðis afurðirnar. Afurðir nytjajurta skulu merktar einstökum framleiðendum í gegnum vinnslu og dreifingu.

4. gr.

Gæðaeftirlit.

Gæðaeftirlit er til þess að tryggja að framleiðsla sláturafurða, annarra búfjárafurða og afurða nytjajurta, sem merkt er "Vistvæn landbúnaðarafurð", uppfylli kröfur þessarar reglugerðar. Eftirlitsaðilar með gæðastjórnun samkvæmt reglugerð þessari eru búnaðarráðunautar og dýralæknar, sem sótt hafa sérstök námskeið eins og krafist er hverju sinni og hlotið hafa viðurkenningu landbúnaðarráðuneytisins til að starfa við eftirlitið. Hver framleiðandi og afurðastöð sem óskar eftir viðurkenningu skal sækja um hana til viðkomandi búnaðarsambands sem felur eftirlitsaðila að framkvæma úttekt á framleiðsluaðstöðu umsækjanda. Eftirlitsaðilar skulu eigi sjaldnar en einu sinni á ári gera úttekt hjá framleiðendum og afurðastöðvum sem hafa hlotið viðurkenningu á aðstöðu þar með talið landgæðum og búnaði til framleiðslu og vinnslu.

Hollustuhættir við vinnslu og dreifingu á vistvænum landbúnaðarvörum skulu uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Merkingar á vistvænum matvælum skulu uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingar, auglýsingu og kynningu matvæla.

Framleiðendur og afurðastöðvar bera allan kostnað af eftirlitinu.

5. gr.

Viðurkenning og skráning.

Búnaðarsamband, undir eftirliti landbúnaðarráðuneytisins, gefur þeim aðilum, sem uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar, viðurkenningu sem heimilar þeim rétt til að merkja framleiðsluna með merki vistvænna íslenskra landbúnaðarafurða. Landbúnaðarráðuneytið samræmir form og fyrirkomulag á viðurkenningum milli búnaðarsambanda og gefur út nauðsynleg eyðublöð. Búnaðarsamband heldur skrá um þá aðila sem hlotið hafa viðurkenningu og sendir landbúnaðarráðuneytinu hana fyrir 15. janúar og 15. júlí ár hvert.

Komi í ljós við skoðun eftirlitsaðila að framleiðandi/afurðastöð hefur gerst brotleg við ákvæði reglugerðarinnar skal viðkomandi veittur fjögurra vikna frestur til úrbóta. Hafi úrbótum að þeim tíma liðnum ekki verið lokið að mati eftirlitsaðila skal viðurkenning hans afturkölluð. Búnaðarsamband skal tilkynna landbúnaðarráðuneytinu þegar í stað missi framleiðandi leyfi til framleiðslu á vistvænum landbúnaðarafurðum.

Landbúnaðarráðherra úrskurðar um ágreining sem upp kann að koma um framkvæmd reglugerðarinnar.

6. gr.

Merki.

Merki fyrir vistvæna íslenska landbúnaðarframleiðslu er eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Framleiðanda og afurðastöð er heimilt að skrá upplýsingar um afurðina er komi fram neðan við texta í merkinu.

(Sjá mynd)

7. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 67. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993, með síðari breytingum og lögum um búfjárhald, forðagæslu o.fl. nr. 46/1991, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 89/1996 um sértækt gæðastýrða íslenska landbúnaðarframleiðslu. Þó skulu ákvæði um beit búfjár eigi öðlast gildi fyrr en viðmiðunarreglur Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins um mat á beitilöndum liggja fyrir og þær hlotið staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins, að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Viðurkenningar sem gefnar hafa verið út skv. reglugerð nr. 89/1996 halda gildi sínu í samræmi við ákvarðaðan gildistíma þeirra.

Landbúnaðarráðuneytinu, 17. ágúst 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Jón Höskuldsson.

 

I. VIÐAUKI

1. hluti: Kindakjöt.

GÆÐAEFTIRLIT - YFIRLIT:

Verkþáttur           Ábyrgur aðili       Tilvísunarnr.

Sauðfé dæmt hæft:

Viðurkenning eftirlitsaðila

Eftirlitsaðili

1.1

Staðfesting

Móttökustjóri

1.2

Fé framleiðanda/auðkenning skrokka:

Hjörð við komu

Móttökustjóri

2.1

Hjörð sem bíður slátrunar

Móttökustjóri

2.2

Slátrunarferli

Móttökustjóri

3.1, 3.2

Hjörð eftir slátrun

Kjötmatsmaður

3.3

Frágangur eftir slátrun

Verkstjóri í kæli

3.4

Talning skrokka

Umsjónarmaður

4.1

Auðkenning afurða framleiðanda:

Hlutunaráætlun

Framleiðslustjóri

4.2

Afurðaskráning

Verkstjóri

4.3

Eftirlitsstörf:

Störf matsmanna

Sláturhússtjóri/tölvubókari

5.1

Uppgjör slátrunar

Tölvubókari

5.2

Merking kassa

Sögunar-/úrbeiningarstjóri

 

 

eða framleiðslustjóri

5.3

Birgðaskráning

Framleiðslustjóri og

 

 

yfirmaður frystingar

5.4

Eftirlitsaðilar

Búnaðarráðunautar

 

 

Dýralæknar

 

Vísun til skjala:

1. Vottorð eftirlitsaðila

 

1.1

2. Móttökukvittun, stíukort, afhendingarkvittun

 

2.1

3. Slátrunaráætlun

 

3.1

4. Merking skrokks

 

3.3

5. Kassamerking, bráðabirgðamerking

 

4.2, 5.3

6. Afskurður

 

4.3

1.0 verkþáttur: Framleiðsla á búi.

1.1           Viðurkenning eftirlitsaðila.

                Verklýsing:

                Viðurkenna má framleiðslu af sauðfé, sem ekki hafa verið gefnir hormónar eða vaxtarhvetjandi efni. Notkun sýkla- og sníklalyfja er óheimil frá fjögurra vikna aldri lamba til slátrunar og sömuleiðis fyrir mæður þeirra frá þeim tíma. Fullorðið fé skal ekki fá slík lyf síðustu fjóra mánuðina fyrir slátrun. Allt fé skal einstaklingsmerkt og skráð og aðeins það fé fær viðurkenningu sem alið er frá burði til slátrunar hjá viðkomandi framleiðanda.

                Við öflun sauðfjárfóðurs og ræktun beitilands skal hámarksnotkun köfnunarefnis í áburði miðast við 120 kg N/ha fyrir tún og 180 kg N/ha fyrir grænfóður. Allt innlent fóður skal vera laust við skordýraeitur og illgresiseyða. Halda skal notkun innflutts fóðurs í lágmarki.

                Eftirlitsaðilum skal vera heimilt að skoða búið, þar með talið beitiland, tún, annað ræktað land og húsakost, og ganga úr skugga um að rétt sé staðið að beit, fóðrun og aðbúnaði. Þess skal ætíð gætt að beit búfjár rýri ekki landgæði né hamli eðlilegri framvindu gróðurs.

                Bókun:

                Skrá sem eftirlitsaðili gefur út með hverri hjörð (þ.e. heildarfjöldi sauðfjár hjá framleiðendum) skal afhent viðeigandi aðilum í sláturhúsinu við afhendingu fjárins.

                Viðurlög:

                Verði eftirlitsaðili eða framleiðandi uppvís að því að gefa rangar upplýsingar í skrá er afurðstöð óheimilt að taka við sauðfé sem vistvænni framleiðslu frá þeim framleiðanda á framleiðsluárinu.

1.2           Sauðfé dæmt hæft.

                Verklýsing:

                Hverjum sláturhópi, þ.e. hluta hjarðar sem slátrað er hverju sinni, skal fylgja skrá, staðfest af framleiðanda. Allt sauðfé skal eyrnamarkað framleiðanda, eða öðrum sem eiga fé á viðkomandi búi, auk einstaklingsmerkingar.

                Bókun:

                Sláturhúsið tekur við skrám og varðveitir þær í eitt ár og er eftirlitsaðilum heimill aðgangur að þeim hvenær sem er.

                Viðurlög:

                Sé skrá ófullnægjandi eða gölluð er gripum hafnað. Sauðfé sem komið er með, og ekki er auðkennt eða ranglega merkt í skrá, skal hafna. Sé gripum hafnað skal þeim slátrað sér og þeir merktir með öðrum hætti en gripir sem eftirlit þetta tekur til.

2.0          verkþáttur: Fyrir slátrun.

2.1           Móttaka sauðfjár.

                Verklýsing:

                Staðfestri skrá eða vorbók skal framvísa til móttökustjóra við afhendingu sauðfjár. Móttökustjóri útbýr afhendingarkvittun, þar sem eftirfarandi kemur fram: Nafn og heimilisfang framleiðanda, komudagur og komutími, fjöldi sláturfjár, staðfesting um að skrá hafi verið framvísað; einnig er gefið út númer fyrir sauðfjárhjörðina á þessari kvittun. Farið er eftir hlaupandi númeraröð. Móttökustjóri áritar kvittunina. Viðurkennt fé skal fært til slátrunar sér í hópi.

                Bókun:

                Móttökukvittun fyrir sauðféð, í þríriti til kaupanda, matsmanna og sláturhúss. Afhendingarkvittun skal vera í þríriti: Eitt eintak til framleiðanda, eitt eintak til bókhalds sláturhússins (ef vill), eitt fylgi vottorði framleiðanda til varðveislu í skjalasafni sláturhúss og skal það vera aðgengilegt eftirlitsaðilum.

                Viðurlög:

                Sauðfé sem dæmt er óhæft skal við slátrun auðkennt og haldið aðskildu frá þeim gripum sem dæmdir voru hæfir og getið er í skrá eftirlitsaðila.

2.2           Auðkenning sauðfjár.

                Verklýsing:

                Þegar tekið hefur verið við skrá eftirlitsaðila og gefin út afhendingarkvittun þarf að merkja gripina þeim framleiðanda sem afhenti þá. Stíukort skal gefið út til þess að auðkenna hjörð sem vottorð eftirlitsaðila á við, með númeri afhendingarkvittunar; þar skal ennfremur getið stíunúmers hjarðarinnar, komudags og komutíma; fjölda, einnig nafns eða viðskiptanúmers viðkomandi innleggjanda.

                Bókun:

                Stíukort skal gefið út í þríriti af móttökustjóra. Eitt eintak fylgir hjörðinni í móttöku og vinnslu, eitt eintak fylgir skrá til skjalasafns fyrir eftirlitsaðila, eitt eintak fer í bókhald sláturhússins.

                Viðurlög:

                Ekki má slátra gripum nema gengið hafi verið frá útgáfu stíukorts.

3.0          verkþáttur: Auðkenning skrokka.

3.1           Slátrunaráætlun.

                Verklýsing:

                Gripum er slátrað eftir hlaupandi númeraröð hjarðarinnar.

               

                Bókun:

                Númer hjarðar. Nafn eða númer viðskiptavinar (framleiðanda). Númer stíu. Fjöldi og tegund gripa. Vakthafandi verkstjóri ábyrgur.

                Viðurlög:

                Engin slátrun skal fara fram fyrr en allt fé sem komið er í móttöku að morgni dags hefur verið bókað í slátrun.

3.2           Auðkenning hjarðar.

                Verklýsing:

                Eintök af öllum skilríkjum fylgi fyrsta skrokki hjarðarinnar.

               

                Bókun:

                Skrá eftirlitsaðila (1.1). Afhendingarkvittun gripa (2.1). Stíukort (2.2). Vakthafandi verkstjóri ábyrgur.

                Viðurlög:

                Beri skilríkjum ekki saman við slátrun er viðkomandi hjörð ekki hæf samkvæmt þessu eftirliti og skal slátrað með öðrum auðkennum.

3.3           Merking skrokks.

                Verklýsing:

                Hver skrokkur fyrir sig er merktur með sértækum og almennum upplýsingum. Einstaklingsmerki gripsins fylgja skrokknum þar til skrokkurinn er metinn. Einstaklingsmerki tekin burt, en þess í stað kemur matsmiði með sértækum og almennum upplýsingum.

                Bókun:

                Sértækar upplýsingar. Upplýsingar á matsmiða. Gæðaflokkur skrokks, nafn eða númer framleiðanda, hópnúmer, auðkennisnúmer skrokks, matsmaður.

                Viðurlög:

                Skrokkar sem ekki eru sérstaklega merktir skulu ekki teknir með (sjá 3.4).

3.4           Auðkenning eftir slátrun.

                Verklýsing:

            Í kæli skal skrokkum raðað sér á brautum eftir innleggjendum.

                Bókun:

                Matsmiði á hverjum skrokki. Tákn fyrir staðsetningu í kæli. Vakthafandi verkstjóri í kæli ábyrgur.

                Viðurlög:

                Eftir venjubundið eftirlit skrokka skulu felldir skrokkar fjarlægðir. Engin frekari vinnsla fari fram fyrr en að eftirlitsstörfum loknum (sjá 5.2).

4.0          verkþáttur: Merktar vörur.

4.1           Talning skrokka.

                Verklýsing:

                Nafn eða númer framleiðanda. Dagsetning slátrunar. Fjöldi og flokkun skrokka.

                Bókun:

                Gögn um afurðir slátrunar. Umsjónarmaður.

                Viðurlög:

                Engin frekari vinnsla fyrr en að lokinni viðurkenningu (sjá 5.2).

4.2           Hlutunaráætlun.

                Verklýsing:

                Þegar að sögun eða pökkun og merkingu kemur skulu aðeins viðurkenndar afurðir vera á sögunarsvæði. Nafn eða númer viðkomandi framleiðanda ásamt samþykktu vottorði. Fjöldi og flokkun skrokka. Leiðbeiningar um sögun eftir því hvernig hluta skal skrokkinn. Leiðbeiningar um merkingu.

                Bókun:

                Hlutunaráætlun hjá sláturhúsi nr. ____. Vakthafandi framleiðslustjóri ábyrgur.

                Viðurlög:

                Engin bókun vegna sögunar eða úrbeiningar fyrir kaupanda skal fara fram nema leiðbeiningar um sögun og merkingar séu tiltækar og gildar.

4.3           Afurðaskráning.

                Verklýsing:

                Framleiðsludagur. Fjöldi kassa skv. tegund afurða.

                Bókun:

                Afurðaskráning. Verkstjóri. Framleiðslustjóri.

                Viðurlög:

                Nauðsynlegt vegna vottunar. Engar afurðir skulu afgreiddar fyrr en að lokinni viðurkenningu (sjá 5.4).

5.0          verkþáttur: Viðurkenning.

5.1           Gæðaflokkun.

                Verklýsing:

                Aðgangur einungis heimill tölvuráðgjöfum og tveimur starfsmönnum.

                Bókun:

                Í hverju tilviki má einungis skrá færslur skv. heimild. Ábyrgð: sláturhússtjóri, tölvubókari.

                Viðurlög:

                Færslur í heimildarleysi. Kaupandi setur bann á allar merktar afurðir þar til eftirlit hefur verið viðurkennt.

5.2           Uppgjör slátrunar.

                Verklýsing:

                Fjöldi gripa frá hverjum framleiðanda verður að svara til fjölda skrokka sem kemur úr flokkun að viðbættum skrokkum sem vísað er frá.

                Bókun:

                Afurðaskráning. Tölvubókari.

                Viðurlög:

                Séu skrokkarnir, að meðtöldum þeim sem vísað er frá, fleiri en fjöldi afhentra gripa má ekki viðurkenna viðkomandi hóp.

5.3           Kassamerking.

                Verklýsing:

                Takmarkaður aðgangur að tölvugögnum. Skyldubundnar upplýsingar. Nöfn og/eða auðkenni framleiðanda.

                Bókun:

                Færsluskrá eftirlitsins; heimild til bókunar hafa: Sögunar- og úrbeiningarstjóri eða framleiðslustjóri.

                Viðurlög:

                Ólögmæt færsla; bann gegn flutningi úr sláturhúsi þar til eftirlitskerfi hefur verið viðurkennt.

5.4           Birgðaskráning.

                Verklýsing:

                Fjöldi kassa eftir (skrokk) hlutum, merkjum og/eða nafni framleiðanda, auk þess ný framleiðsla að frátöldum útfluttum kössum.

                Bókun:

                Birgðaskráning endurskoðuð daglega á ábyrgð framleiðslustjóra. Rauntalning. Framleiðslustjóri og yfirmaður frystingar ábyrgir.

                Viðurlög:

                Séu kassar merktir samkvæmt þessu kerfi fleiri en framleiðslutölur segja til um, skulu allar fyrirliggjandi birgðir af merktum kössum dæmdar óhæfar til flutnings úr sláturhúsi.

 

2. hluti: Aðrar sauðfjárafurðir og afurðir geitfjár.

Heimilt er að viðurkenna aðrar sauðfjárafurðir en kjöt svo sem innmat, gærur, ull, mjólk og sauðatað, svo og samsvarandi afurðir geitfjár sem hlotið hefur þá meðferð sem kveðið er á um í reglugerð þessari og l. hluta I. viðauka.

 

II. VIÐAUKI

Fóðurjurtir og afurðir þeirra.

1.0 HRÁEFNI.

                Viðauki þessi tekur til hvers konar afurða úr grasi og öðrum tún- og engjagróðri, svo og öðrum fóðurjurtum, þar með talið þurrhey, vothey, gras í loftþéttum umbúðum, grasmjöl, graskögglar og heykögglar sem framleitt er samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

2.0 RÆKTUN.

                Gætt skal hófs við áburðarnotkun þannig að hún samræmist umhverfisvernd. Árleg hámarksnotkun köfnunarefnis í áburði skal miðast við 120 kg N/ha fyrir tún í fjölærri ræktun og 180 kg N/ha fyrir grænfóður og aðrar einærar nytjajurtir. Öll notkun lyfja og varnarefna er óheimil, þar með talin eiturefni gegn illgresi, skordýrum og sveppum. Við staðlaða framleiðslu grasmjöls, grasköggla og grass í loftþéttum umbúðum skal taka jarðvegssýni til rannsóknar hjá viðurkenndum aðilum þegar viðurkenning fer fram og síðan a.m.k. á fimm ára fresti úr því. Hráefni skal vera af túnum, sem eru varin gegn ágangi búfjár.

3.0          VINNSLA.

                Slegið skal á skriðtíma grasanna. Við framleiðslu grasmjöls og grasköggla skal grasið saxað og flutt samdægurs til þurrkunar við 500-1.000°C blástur þar til a.m.k. 85% þurrefni er náð. Einungis er heimilt að nota hreint vatn við pressun grasmjöls í köggla.

4.0          PÖKKUN.

                Afurðum skal pakka með þeim hætti sem best hentar til flutnings og geymslu. Velja skal plastumbúðir með tilliti til umhverfisverndar. Miða skal við að votheysrúllur séu vafðar sex vafningum hið minnsta. Við framleiðslu grass í loftþéttum umbúðum skal hráefnið vera án rigningarvatns og skal rakastig vera 35-55% við pökkun.

5.0          GÆÐAEFTIRLIT OG VIÐURKENNING.

                Við geymslu og flutning skal þess gætt að afurðir fóðurjurta, sem viðurkenndar eru samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar, sé haldið aðskildum og þær merktar einstökum framleiðendum. Merkja skal hverja pakkningu grasmjöls, grasköggla, heyköggla og grass í loftþéttum umbúðum en votheys- og þurrheysrúllur skal merkja hverja fyrir sig ef því verður við komið. Að öðru leyti er heimilt að auðkenna vothey og þurrhey eftir gámum eða förmum. Á hverri pakkningu skal vera innihaldslýsing þar sem fram koma upplýsingar um næringargildi, sbr. gildandi reglur um fóðurmat. Verði framleiðandi uppvís að því að gefa eftirlitsaðila rangar upplýsingar er heimilt að svipta hann rétti til að nota vörumerkið. Eftirlitsaðilum skal ætíð heimill aðgangur að fyrirtækjum og öðrum framleiðslustöðum, þar með talið byggingum, vélum, túnum og öðru landi þar sem hráefnis til framleiðslunnar er aflað.

 

III. VIÐAUKI

Eldisfiskur.

1.0          FRAMLEIÐSLA Í ELDISSTÖÐ.

1.1           Viðurkenning eftirlitsaðila.

                Viðauki þessi tekur til eldisfisks sem ekki hefur fengið sýkla- eða sníklalyf á eldistímanum, aldrei verið gefnir hormónar eða vaxtarhvetjandi efni og ekki verið alinn á fóðri sem hefur verið meðhöndlað með skordýraeitri. Einungis er vottaður eldisfiskur, sem hefur verið alinn upp í viðurkenndum eldisstöðvum.

2.0          HRÁEFNI.

                Viðauki þessi tekur til hvers kyns afurða eldisfiska.

3.0          FISKELDISSTÖÐ.

3.1           Eldisvatn.

                Daglega skulu fara fram mælingar á eftirfarandi þáttum: Hitastig skal ekki fara niður fyrir 1°C og ekki upp fyrir 20°C. Í framhaldseldi skal selta vera yfir 1% í laxeldi. Innihald súrefnis skal vera yfir 75% mettingu.

3.2           Eldisumhverfi.

                Þéttleiki eldisfisks skal ekki vera umfram 30 kg/m3. Þar sem engin súrefnisbæting kemur til í lokuðum eldiskerjum skal endurnýjun vatns vera að lágmarki 1
lítri/kg/mínútu.

                Þar sem fljótandi súrefni er bætt út í skal endurnýjun vatns vera að lágmarki 0,25 lítri/kg/mínútu.

                Eldiskvíar skulu vera þannig frágengnar að engin hætta sé á að eldisfiskur geti sloppið.

                Tryggja skal að fóðurleifar og saur hafi ekki mengandi áhrif á umhverfi fiskeldisstöðvar. Súrefnisinnihald við botn undir kvíum skal ekki vera frábrugðið þeim gildum sem mælast annars staðar á svæðinu.

4.0          ELDI.

4.1           Meðhöndlun fisks.

                Fiskur skal aldrei vera lengur á þurru en 30 sekúndur við flokkun, bólusetningu, flutning o.þ.h. Allan flutning fisks innan stöðva skal skrá og færa í bókhald.

4.2           Fóður.

                Óheimilt er að blanda lyfjum eða vaxtaraukandi efnum í fóður eldisfiska. Heimilt er að blanda vítamínum í fóður til að koma í veg fyrir hörgulsjúkdóma. Yfirlit yfir innihald þungmálma í eldisfóðri skal fylgja hverri sendingu. Bannað er að blanda gerviefnum í fóður til að koma í veg fyrir þránun og til að auka matarlyst. Einungis er heimilt að nota litarefnið astaxanthin í fóður.

4.3           Smitgát.

                Fari dauði fram úr 0,5% á viku skal umsvifalaust láta rannsaka fiskinn með tilliti til sjúkdóma. Sjálfdauðan fisk skal fjarlægja daglega og eyða samkvæmt viðurkenndum aðferðum.

4.4           Efna- og lyfjanaotkun.

                Öll notkun sýkla-, sníkla-, hormóna- og vaxtarhvetjandi efna er bönnuð. Einungis er leyfilegt að taka til eldis sjóþroska seiði, sem aldrei hafa fengið sýkla- eða hormónameðferð.

                Í þeim tilvikum þar sem ekki verður komist hjá að nota sýklalyf vegna smitsjúkdóms í ákveðnum eldiseiningum skal sá hluti ekki hljóta viðurkenningu. Skrá skal daglega tegund lyfs og magn sem notað er og hvar það er notað.

                Tryggt skal að eldisvatn af sjúkum fiski og fiski sem undirgengst lyfjameðferð komist ekki í snertingu við aðra fiska í stöðinni.

                Eftir greiningu sjúkdómsvaldandi sýkla/veira skal hefja lyfjameðferð eða förgun á sjúkum fiski svo fljótt sem auðið er. Þar sem kvíaeldi er stundað er notkun hvers skyns málningar eða annarra efna eða lyfja til að forðast lífrænan gróður bönnuð.

4.5           Ónæmisaðgerðir.

                Notkun viðurkenndra bóluefna á seiðastigi er heimil.

4.6           Slátrun.

                Eldisfisk skal ávallt færa lifandi til slátrunar. Sláturaðstaða og vinnsla skal vera viðurkennd og hafa hlotið leyfisnúmer hjá eftirlitsaðilum Fiskistofu.

5.0          Villtur fiskur.

                Heimilt er að viðurkenna fisk og merkja, samkvæmt framangreindum reglum, sem veiddur er í vötnum eða ám og viðurkenndur er af dýralækni fisksjúkdóma m.t.t. fisksjúkdóma og hreinleika.

 

IV. VIÐAUKI

Egg varphænsna í lausagöngu.

1.0          GILDISSVIÐ.

                Viðauki þessi tekur til eggja varphænsna sem alin hafa verið samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar með áherslu á hreinleika, velferð dýra og umhverfisvernd. Við eldi stofnfugla skal fylgt ákvæðum reglugerðar um aðbúnað og sjúkdómavarnir á alifuglabúum og útungunarstöðvum nr. 251/1995, svo og við eldi varphænsna nema annað sé tilgreint í viðauka þessum.

2.0          MEÐFERÐ.

                Þess skal gætt að hænsnin njóti eðlislægs atferlis í hvívetna. Eftir komu þeirra á búið skulu þau vera í lausagöngu í húsi og að þau njóti útvistar þegar aðstæður leyfa. Óheimilt er að goggstífa hænsnin. Ákvæði reglugerðar um hænsnahald í búrum nr. 125/1986 gilda ekki við framleiðsluna.

3.0          HÚSAKOSTUR OG BÚNAÐUR.

                Hús og útigerði skulu vera þurr og hús vel loftræst, hæfilega björt og auðþrífanleg. Tryggja þarf nægan undirburð í húsi og skulu hænsnin hafa aðgang að setprikum, sandi og fersku vatni allan sólarhringinn. Þau skulu hafa aðgang að varpkössum, einum á hverjar fimm hænur. Lágmarks gólfrými skal við það miðað að á hvern fermetra gólfflatar skulu vera mest átta hænur. Heimilt er að hafa net eða grindur í allt að 2/3 gólfflatar í húsi. Hámarksfjöldi varphænsna skal eigi vera meiri en 10.000 í hverri framleiðslueiningu. Utandyra skulu hænsnin ekki ganga stöðugt á sömu blettunum.

4.0       MERKING OG SKRÁNING.

                Hver aldurshópur varphænsna sem fer í eldishús skal númeraður og skráður greinilega og auk þess skal skrá klakdag og fjölda fugla í húsi. Skrá skal daglega fóðurnotkun, varp og vanhöld. Einnig er æskilegt að skrá vatnsnotkun, ljósmagn og ljóstíma. Lyfjanotkun skal haldið í lágmarki. Ef lyf eru notuð skal skrá tegund, magn og notkunartíma með dagsetningum. Eftirlitsaðilar skulu hafa ótakmarkaðan aðgang að öllum skýrslum um fóðurnotkun, varp, vanhöld, lyfjanotkun o.fl. til að tryggja reglubundið eftirlit.

5.0          HEILSUVERND.

                Dýralæknir skal hafa eftirlit með fuglunum a.m.k. tvisvar á ári. Skylt er að taka til rannsóknar saursýni tvisvar á uppeldistíma og tvisvar á varptíma hvers aldurshóps samkvæmt reglum yfirdýralæknis um salmonellueftirlit í eggjaframleiðslu.

6.0          VIÐURKENNING - SKRÁNING.

                Framleiðslu bús, sem uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar og þessa viðauka, er heimilt að merkja sem vistvæna landbúnaðarafurð. Auk eggja er heimilt að nota vörumerkið á sláturafurðir sem til falla á búinu. Sé önnur alifuglarækt stunduð samhliða á búinu skulu hús aðskilin svo og tínsla og flokkun eggja.

7.0          FÖRGUN HÆNSNADRITS.

                Um meðferð úrgangs frá viðurkenndum eggjabúum samkvæmt viðauka þessum fer eftir gildandi reglum í hverju sveitarfélagi um heilbrigðishætti, mengunarvarnir o.fl. Auk þess er skylt að nýta allt hænsnadrit frá búinu til áburðar eða uppgræðslu.

 

V. VIÐAUKI

Grænmeti og kartöflur.

1.0          UMGJÖRÐ OG EFTIRLIT.

1.1           Umsjón.

                Búnaðarsamband, undir umsjón landbúnaðarráðuneytisins, hefur með höndum skráningu þeirra aðila sem rétt hafa á þátttöku undir merkjum vistvænnar ræktunar og að viðkomandi aðilar fylgi og fari eftir þeim reglum sem gilda þar um.

1.2           Eftirlitstíðni.

                Eftirlitsaðili skal koma a.m.k. einu sinni á ári í hverja ræktunarstöð og leitast skal við að heimsóknin sé á ræktunartíma viðkomandi tegunda.

                Í lok heimsóknar skal eftirlitsaðilinn fylla út eyðublað um niðurstöður eftirlitsins, sem bæði garðyrkjubóndinn og eftirlitsaðilinn skrifa undir.

                Auk heimsókna á stöðvarnar geta farið fram skyndiskoðanir hjá dreifingaraðilum.

1.3           Kostnaður.

                Ræktendur bera sjálfir allan kostnað af eftirlitinu.

1.4           Viðurlög.

                Þátttakendum ber skylda til að fara eftir þeim reglum sem settar eru um vistvæna ræktun. Verði misbrestur þar á eiga viðkomandi á hættu að vera meinuð áframhaldandi þátttaka í lengri eða skemmri tíma eftir alvarleika brots. Við minniháttar brot skal veita viðkomandi áminningu og frest til að bæta þar úr. Sjá nánar liði 1.4.1 og 1.4.2 hér að neðan.

1.4.1        Ræktun í gróðurhúsum.

                Leiði eftirlit í ljós að reglum vistvænnar ræktunar sé ekki fylgt sem skyldi skal viðkomandi framleiðanda gerð grein fyrir þeim þáttum sem er ábótavant. Brotin eru flokkuð í fjóra flokka eftir því hversu alvarleg þau eru:

1. stigs brot:          Eftirlitsaðilinn skráir brotið og gefur viðkomandi framleiðanda leiðbeiningar um úrbætur.

2. stigs brot:          Eftir því hve brotið er alvarlegt getur eftirlitsaðili um vistvæna ræktun gefið viðkomandi framleiðanda ákveðinn frest til úrbóta, eða bannað að viðkomandi afurð sé markaðssett undir merkjum vistvænnar ræktunar í lengri eða skemmri tíma.

3. stigs brot:          Óheimilt er að markaðssetja afurðina undir merkjum vistvænnar ræktunar í lengri eða skemmri tíma.

4. stigs brot:          Viðkomandi framleiðanda er vísað úr vistvænni ræktun út ræktunartímabilið.

                Til að gæta samræmis skal eftirfarandi haft til hliðsjónar þegar meta skal þyngd brota á reglum vistvænnar ræktunar:

Tegund brots:       Flokkun brots:

Ræktun hafin án leyfis undir merkjum vistvænnar ræktunar

Brottvísun

Sama tegund bæði án og undir merkjum vistvænnar ræktunar

3. stigs brot

Ófullnægjandi eða rangar færslur

1. - 2. stigs brot

Röng notkun plöntulyfja úr 1. lyfjaflokki

2. stigs brot

Skráð notkun plöntulyfja úr 2. lyfjaflokki

3. stigs brot

Notkun plöntulyfja ekki skráð

3. stigs brot

Notkun nytjadýra ekki skráð

3. stigs brot

Óskráð notkun plöntulyfja úr 2. lyfjaflokki

4. stigs brot

Notkun óleyfilegra plöntulyfja

4. stigs brot

Áburðaráætlun ekki fylgt

2. stigs brot

Skortur á áburðaráætlun

3. stigs brot

Áburðarnotkun ekki skráð

3. stigs brot

                Flokkun lyfja í 1. og 2. flokk ræðst fyrst og fremst af skaðlegum eftiráhrifum þeirra á nytjadýrin. Undir 1. flokk falla lyf með skaðleg eftiráhrif gagnvart lífrænum vörnum í allt að eina viku og í 2. flokk falla lyf með lengri skaðleg eftiráhrif en sem nemur einni viku.

1.4.2        Ræktun utandyra.

                Leiði eftirlit í ljós að reglum vistvænnar ræktunar sé ekki fylgt sem skyldi skal viðkomandi framleiðanda gerð grein fyrir þeim þáttum sem er ábótavant. Brotin eru flokkuð í fjóra flokka eftir því hversu alvarleg þau eru:

1. stigs brot:          Eftirlitsaðilinn skráir brotið og gefur viðkomandi framleiðanda leiðbeiningar um úrbætur.

2. stigs brot:          Eftir því hve brotið er alvarlegt getur eftirlitsaðili gefið viðkomandi framleiðanda ákveðinn frest til úrbóta, eða bannað að viðkomandi afurð sé markaðssett undir merkjum vistvænnar ræktunar í lengri eða skemmri tíma.

3. stigs brot:          Óheimilt er að markaðssetja afurðina undir merkjum vistvænnar ræktunar í lengri eða skemmri tíma.

4. stigs brot:          Viðkomandi framleiðanda er vísað úr vistvænni ræktun út ræktunartímabilið.

                Til að gæta samræmis skal eftirfarandi haft til hliðsjónar þegar meta skal alvarleika brota á reglum vistvænnar ræktunar:

Tegund brots:       Flokkun brots:

Ræktun hafin án leyfis undir merkjum vistvænnar ræktunar

Brottvísun

Sama tegund bæði án og undir merkjum vistvænnar ræktunar

3. stigs brot

Ófullnægjandi eða rangar færslur

1. - 2. stigs brot

Röng færsla leyfilegra plöntulyfja

2. stigs brot

Notkun plöntulyfja ekki skráð

3. stigs brot

Notkun óleyfilegra plöntulyfja

4. stigs brot

Áburðaráætlun ekki fylgt

2. stigs brot

Skortur á áburðaráætlun

3. stigs brot

Áburðarnotkun ekki skráð

3. stigs brot

2.0          Ræktun í gróðurhúsum.

2.1           Ákvæði þessi taka til ræktunar gúrkna, papriku, salats og tómata í gróðurhúsum.  

2.2           Ekki er leyfilegt að markaðssetja sömu grænmetistegund bæði undir merkjum vistvænnar og hefðbundinnar ræktunar.

2.3           Plöntuvernd skal grundvallast á lífrænum vörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum eftir því sem tök eru á.

2.3.1        Plöntulyf má aðeins nota í neyðartilvikum og þá einungis með viðurkenndum lyfjum og í fullu samræmi við notkunarleiðbeiningar.

2.3.2        Hafi reynst nauðsynlegt að nota plöntulyf má ekki markaðssetja afurðirnar undir merki vistvænnar ræktunar þann tíma sem skaðlegra áhrifa viðkomandi plöntulyfs á lífrænar varnir gætir.

2.3.3        Viðurkenni eftirlitsaðili (t.d. ráðunautur) að jafnvægi hafi á ný náðst á milli nytjadýra og skaðvalda áður en fresturinn er liðinn sem getið er í 2.3.2, má stytta frestinn sem þessum tíma nemur.

2.3.4        Skrá verður á sérstök eyðublöð alla notkun plöntulyfja og nytjadýra.

2.3.5        Gróðurhús skulu þvegin og þrifin vandlega áður en ræktunartímabilið hefst.          

2.4           Við loftslagsstjórnun skal þess gætt að hún taki mið af þörfum plantnanna eftir því sem tök eru á og dragi sem mest úr hættu á sveppasjúkdómum.

2.5           Vinna skal sérstaka áætlun varðandi áburðargjöf, sem tekur mið af þörfum viðkomandi plantna. Öll frávik skal skrá og rökstyðja.

2.5.1        Við ræktun í moldarbeðum í grunni húsanna skal grunngjöfin taka mið af jarðvegssýnum.

2.5.2        Við ræktun í óvirkum rótarbeði skal vökva rótarbeðinn upp með viðeigandi áburðarblöndu áður en plantað er út. Síðar er leiðnitala vökvunarlausnarinnar mæld reglulega og skal áburðarvökvunin taka mið þar af. Leiðnitala vökvunarlausnarinnar skal vera undir 5 mS/cm.

2.5.3        Hlutfall einstakra næringarefna við áburðarvökvun á ræktunartímanum skal vera:

                Gúrkur: N = 100 : P 10-15, K 100-150, Ca 50-100, Mg 20-30 og S 30-50.

                Paprikur: N = 100 : P 15-25, K 100-150, Ca 60-120, Mg 25-40 og S 40-60.

                Tómatar: N = 100 : P 15-25, K 100-150, Ca 60-120, Mg 25-40 og S 40-60.

                Salat: N = 180 : P 25, K 260, Ca 45, Mg 20 og S 20.

2.5.4        Skrá skal áburðarnotkun ræktunarinnar, frá og með byrjun ræktunar.

2.6           Framleiðandi sem ekki virðir og fylgir settum reglum varðandi vistvæna ræktun getur misst réttinn til að merkja og markaðssetja vöru sína undir merkjum vistvænnar ræktunar í lengri eða skemmri tíma.

2.7           Sérhverjum þeim sem ræktar undir merkjum vistvænnar ræktunar er skylt að veita eftirlitsaðila allar umbeðnar upplýsingar um ræktunina.

3.0          RÆKTUN UTANDYRA.

3.1           Ákvæði þessi taka til ræktunar blaðlauks, blómkáls, gulrófna, gulróta, hvítkáls, kartaflna, kínakáls, salats, spergilkáls og stilksellerís.

3.2           Ekki er leyfilegt að markaðssetja sömu grænmetistegund bæði undir merkjum vistvænnar og hefðbundinnar ræktunar. 

3.3           Plöntulyf má aðeins nota í neyðartilvikum eða samkvæmt notkunaráætlun. Í notkunaráætluninni skal m.a. koma fram hvaða lyf muni væntanlega verða notuð.           

3.4           Einungis er leyfilegt að nota viðurkennd plöntu- og illgresislyf og í fullu samræmi við notkunarleiðbeiningar.

3.5           Skrá verður á sérstök eyðublöð alla notkun plöntu- og illgresislyfja frá og með byrjun ræktunar.       

3.6           Vinna skal sérstaka áætlun varðandi áburðargjöf sem tekur mið af þörfum plantnanna og jarðvegssýnum. Öll frávik skal skrá og rökstyðja. Hámarksnotkun köfnunarefnis í tilbúnum áburði skal miðast við 180 kg N/ha.                

3.7           Skrá verður á sérstök eyðublöð alla áburðarnotkun frá og með byrjun ræktunar.

3.8           Framleiðandi sem ekki virðir og fylgir settum reglum varðandi vistvæna ræktun getur misst réttinn til að merkja og markaðssetja vöru sína undir merkjum vistvænnar ræktunar í lengri eða skemmri tíma.

3.9           Sérhverjum þeim sem ræktar undir merkjum vistvænnar ræktunar er skylt að veita eftirlitsaðila allar umbeðnar upplýsingar um ræktunina.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica