Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

252/1996

Reglugerð um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðavarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl.

1. gr.

Dvöl manna er óheimil við hreiður fálka, hafarnar, snæuglu, haftyrðils, keldusvíns og þórshana vegna myndatöku, upptöku á hljóðum, athugana á lifnaðarháttum eða í öðrum tilgangi sem ætla má að geti valdið truflunum.

Á tímabilinu 15. mars - 15. ágúst er mönnum óheimilt að koma nær arnarhreiðrum en 500 m nema brýna nauðsyn beri til, svo sem vegna lögmætra nytja sem ekki er hægt að stunda á öðrum árstíma, enda sýni menn ítrustu varfærni og forðist að trufla fuglana. Þessi takmörkun á umferð gildir þar sem ernir eru að búa sig undir varp og við þau hreiður sem orpið hefur verið í.

Umhverfisráðuneytið getur, að fenginni umsögn ráðgjafarnefndar um villt dýr, veitt undanþágu frá ákvæðum 1. og 2. málsgr., enda sé sótt um hana fyrirfram og skilyrði sett um umgang við hreiður, þ.á m. um það tímabil sem viðkomandi er heimil dvöl við hreiður.

Óheimilt er að hrófla við hreiðrum og hreiðurstöðum þeirra tegunda sem taldar eru upp í 1. málsgr., hvort sem er á varptíma eða utan hans.

2. gr.

Sýslumaður annast friðlýsingu æðarvarps. Beiðni til sýslumanns um friðlýsingu æðarvarps skal koma frá landeiganda, ábúanda eða umráðamanni æðarvarps. Skal í beiðninni tilgreina staðsetningu og mörk varpsins eða sýna svæðið skýrt á viðurkenndu korti eða loftmynd. Sýslumaður getur krafist þess að beiðni um friðlýsingu fylgi staðfesting tveggja kunnugra manna um að æðarvarp sé á umræddu svæði eða að líklegt sé að koma megi þar upp æðarvarpi. Sýslumaður skal fá staðfestingu byggingarfulltrúa um að aðstöðu sé rétt lýst.

Ákvörðun um friðlýsingu æðarvarps skal birt í Lögbirtingablaðinu og gildir í 10 ár frá birtingu.

Sýslumaður skal halda skrá um friðlýst æðarvörp og skal hún liggja frammi á skrifstofu hans. Skrá þessi, ásamt síðari breytingum, skal send til viðkomandi sveitastjórnar, embættis veiðistjóra og hlunnindaráðunautar Bændasamtaka Íslands.

Umsækjandi ber kostnað við friðlýsingu æðarvarps.

3. gr.

Friðlýsing æðarvarps gildir á tímabilinu frá 15. apríl til og með 14. júlí ár hvert. Friðlýsingin felur það í sér að öll skot eru bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km, nema brýna nauðsyn beri til. Á sama tíma má eigi án leyfis varpeiganda leggja net í sjó nær friðlýstu æðarvarpi en 250 m frá stórstraumsfjörumáli. Jafnframt felur friðlýsingin í sér að innan friðlýstra svæða er öll óviðkomandi umferð og röskun bönnuð, svo og óþarfa hávaði af völdum manna og véla, nema með leyfi varpeiganda. Friðlýst æðarvörp skal auðkenna með áberandi hætti, þar sem því verður við komið. Í óbyggðum eyjum og hólmum á þetta ekki við.

4. gr.

Heimilt er að stugga við örnum sem halda til eða sjást í friðlýstum æðarvörpum, svo fremi sem fuglunum sjálfum, hreiðrum þeirra, eggjum og ungum er ekki hætta búin. Þó er óheimilt að stugga við hreiðurörnum innan tveggja km frá arnarvarpstað.

Heimilt er að nota reyk, hræður, fælur og gasbyssur til að stugga við örnum.

5. gr.

Þeir sem hirða haförn, fálka, smyril, haftyrðil í Grímsey, snæuglu, branduglu, keldusvín, þórshana eða flækingsfugla, ósjálfbjarga eða dauða, skulu senda þá til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ef umræddir fuglar drepast í haldi eða reynast ekki hafa verið skotnir er Náttúrufræðistofnun Íslands heimilt að afhenda finnanda fuglinn til uppsetningar og varðveislu. Óheimilt er að selja og kaupa slíka fugla.

6. gr.

Sá sem finnur eða handsamar merktan fugl skal senda upplýsingar þar að lútandi til Náttúrufræðistofnunar Íslands, hvort sem merkið er íslenskt eða útlent. Eftirtaldar upplýsingar þurfa að koma fram um merkta fugla sem finnast: Frá hvaða landi merkið er, númerið á merkinu, hverrar tegundar fuglinn er talinn vera, hvar fuglinn fannst, hvenær fuglinn fannst, atvik fundar, nafn, heimilisfang og sími tilkynnanda og finnanda sé hann annar. Merki af dauðum fuglum ber að senda til Náttúrufræðistofnunar Íslands, auk þess sem æskilegt er að senda fuglinn, verði því við komið.

7. gr.

Þeir sem vilja taka hami eða skinn af villtum dýrum og setja upp skulu skrá sig hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Skráning þessi skal vera hamskera að kostnaðarlausu.

Hamskerar skulu skrá öll villt dýr sem þeir setja upp og geta hvar, hvenær og hvernig dýrið fannst, frá hverjum það er og hver varðveitir það. Afrit af árlegum viðbótum við skrána skulu send til Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir 1. mars næsta árs.

8. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 19. og 20 gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. skal friðlýsing æðarvarps sem átt hefur sér stað fyrir gildistöku reglugerðarinnar halda gildi sínu á árinu 1996.

Umhverfisráðuneytinu, 19. apríl 1996.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.