Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

8/1998

Reglugerð um störf og búnað eftirlitsmanna vegna eftirlits með hættu á ofanflóðum.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Veðurstofa Íslands skal ráða sérstaka eftirlitsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem þörf er á slíkum athugunum samkvæmt ákvörðun ráðherra. Eru þeir starfsmenn Veðurstofu Íslands og skal Veðurstofa hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn um ráðningu eftirlitsmanns.

2. gr.

Veðurstofa Íslands skipuleggur og hefur yfirumsjón með störfum eftirlitsmanna, menntun þeirra og þjálfun, búnaði og tækjum.

3. gr.

Hlutaðeigandi sveitarstjórn skal leggja til húsnæði fyrir eftirlitsmenn og búnað þeirra t.d. vélsleða. Húsnæði skal henta störfum eftirlitsmanna svo sem að aðgangur þeirra sé ávallt tryggður, óviðkomandi hafi ekki aðgang að húsnæði og búnaði, næði sé til vinnu og staðsetning taki mið af fjarlægð til heimilis eftirlitsmanna og fundarstað viðkomandi almannavarnarnefndar.

4. gr.

Hlutaðeigandi sveitarstjórn leggur til almennan skrifstofubúnað svo sem skrifborð, stóla, lampa, síma, farsíma, boðtæki, myndsendi eða aðgang að myndsendi, sérstaka símalínu fyrir nettengingu tölvu, ljósritunarvél eða aðgang að ljósritunarvél, hirslur fyrir búnað, ritföng og annað sem tilheyrir. Sveitarstjórn greiðir kostnað vegna reksturs ofangreinds búnaðar, vegna aðstöðu svo og minniháttar kostnaðarliði s.s. framköllun ljósmynda.

5. gr.

Hlutaðeigandi sveitarstjórn leggur til og annast viðhald öryggis- og persónulegs búnaðar eftirlitsmanna s.s. innri skjólfatnað, jakka og buxur, skó, legghlífar, vettlinga, húfu, skíðagleraugu, áttavita, mannbrodda, hjálm, snjóflóðaýli, ísexi, göngustafi, bakpoka og kortamöppu.

6. gr.

Veðurstofa Íslands leggur til ytri skjólfatnað, jakka og buxur, sérhæfð mæli- og athugunartæki, tölvu ásamt viðeigandi hugbúnaði, tölvuprentara og annan búnað sem Veðurstofa Íslands telur nauðsynlegan og ekki er talinn upp í 3., 4. og 5. gr. Á þeim stöðum sem Veðurstofa Íslands telur nauðsynlegt leggur hún eftirlitsmanni til vélsleða til eftirlits með ofanflóðahættu. Veðurstofa Íslands annast viðhald og endurnýjun búnaðar skv. þessari grein.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 8. janúar 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.