Umhverfisráðuneyti

133/2002

Reglugerð um breyting á byggingarreglugerð nr. 441/1998,með síðari breytingum, (bréfakassar). - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

Grein 80.2 orðast svo:
Bréfakassi er kassi í eða við aðsetur viðtakanda ætlaður fyrir móttöku bréfapóstsendinga. Í þéttbýli og annars staðar þar sem póstútburður fer fram er sett það skilyrði fyrir útburði að kassar eða bréfarifur séu á eða við útihurðir ein-, tví- og þríbýlishúsa, en þar sem fleiri en þrjár íbúðir hafa sameiginlegan inngang skulu húseigendur setja upp bréfakassasamstæður. Sama á við í atvinnuhúsnæði þar sem fleiri en einn aðili hefur starfstöð. Bréfarifur skulu vera minnst 25´260 mm að stærð og staðsettar þannig að fjarlægð frá gólfi (jörðu) að neðri jaðri bréfarifu sé ekki minni en 1000 mm og ekki meiri en 1200 mm.

Bréfakassasamstæður skulu staðsettar á neðstu hæð sem næst aðalanddyri svo bréfberi geti óhindrað komist að og athafnað sig við skil bréfapóstsendinga. Lýsing við kassasamstæðu skal vera fullnægjandi og eigi lakari en almennt er krafist í göngum og stigahúsum fjölbýlishúsa.

Við hverja bréfarifu og/eða á hverjum kassa skal vera skilti eða gluggi, minnst 26´100 mm að stærð, þar sem tilgreint er með stóru og skýru letri fullt nafn húsráðanda og annarra sem hjá honum búa. Ennfremur skal í fjöleignarhúsum tilgreina númer og auðkenni hæðar. Eigendur (íbúar) fjöleignarhúsa skulu sjá um, að kassarnir séu rétt merktir á hverjum tíma og ber þeim einnig að útvega íbúaskrá fyrir viðkomandi hús. Innbyrðis staðsetning kassanna skal vera sem eðlilegust t.d. kassi fyrir íbúð á fyrstu hæð neðstur til vinstri í samstæðunni o.s.frv. Kassarnir skulu vera læstir og samstæðan vel fest við vegg, svo að útilokað sé að bréf falli aftur fyrir hana.

Staðsetning kassasamstæðu á vegg skal vera þannig, að hæð frá gólfi að neðri jaðri neðstu bréfarifu sé ekki minni en 700 mm og hæð frá gólfi að efri jaðri efstu bréfarifu sé ekki meiri en 1750 mm. Staðsetning einstakra kassa skal vera þannig að hæð frá gólfi að neðri jaðri bréfarifu sé ekki minni en 1000 mm og að efri jaðri bréfarifu ekki meiri en 1200 mm.


2. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 37. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 öðlast þegar gildi.


Umhverfisráðuneytinu, 8. febrúar 2002.

F. h. r.
Ingimar Sigurðsson.
Sigurður Á. Þráinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica