Landbúnaðarráðuneyti

59/2000

Reglugerð um vörslu búfjár. - Brottfallin

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðarinnar er að setja reglur með almennum ákvæðum um vörslu hverrar búfjártegundar og kveða á um almennar reglur um framkvæmd hennar.

2. gr.

Búfé.

Með búfé í reglugerð þessari er átt við alifugla, geitfé, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé og svín.

3. gr.

Skilgreiningar.

Friðað svæði er land afmarkað vörslulínu sem hindrar frjálsa för búfjár.

Frjáls för búfjár er óhindruð för búfjár hvert og hvenær sem er, þ.e. hvorki heft af gripheldum girðingum, hliðum, öðrum mannvirkjum eða náttúrulegum farartálmum.

Graðpeningur er kynþroska, ógelt og frjó karldýr búfjártegunda sem geta gagnast kvendýrum og getið afkvæmi við þeim svo sem naut, hrútar, hafrar, geltir og graðhestar (stóðhestar).

Gripheld girðing er mannvirki úr ýmiss konar efni sem reist er til að hindra frjálsa för búfjár. Hún er breytileg að gerð og gæðum eftir tegund, aldri og kyneiginleikum búfjár, s.s. fjárheld, hrossheld, nautgripaheld og graðpeningsheld.

Gripheld varsla er hindrun á frjálsri för búfjár með gripheldum girðingum, hliðum og öðrum mannvirkjum svo og með náttúrulegum farartálmum sem koma að sama gagni.

Héraðsráðunautur er ráðunautur sem starfar í tilteknum landshluta á vegum búnaðarsambands eða leiðbeiningarmiðstöðvar.

Huglæg varnarlína er ákveðin hugsuð lína, merkt á landakort eða lýst með heitum þekktra örnefna, sem ætlað er að aðskilja búfé, sbr. varnarlína, en uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til vörslulínu.

Landsráðunautur er ráðunautur sem hefur allt landið sem starfssvæði og hefur yfirumsjón með leiðbeiningum á sínu sviði.

Lausaganga er þegar búfé getur gengið á annars manns land í óleyfi.

Lausagöngubann er bann sem sveitarstjórn samþykkir fyrir sveitarfélagið í heild eða afmarkaða hluta þess til að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár.

Lausagöngufénaður er búfé á lausagöngu hvort sem lausagöngubann er í gildi eða ekki.

Náttúrulegur farartálmi er hindrun sem kemur í veg fyrir frjálsa för búfjár, s.s. ófærir hamrar, björg og jöklar, ófærar ár, vötn, lón og sjór við lágfjöru.

Skurður er minnst 3 m breiður og 1, 5 m djúpur framræsluskurður.

Varnarlína myndar mörk sóttvarnarsvæða, þar með taldar girðingarlínur sem skiptast í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur.

Varsla búfjár er þegar eigandi eða umráðamaður búfjár heldur því innan ákveðins afmarkaðs svæðis.

Veghaldari er aðili sem hefur forræði yfir vegsvæði þar með vegagerð, þjónustu og viðhaldi vega.

Vegsvæði er land sem vegur og öll önnur mannvirki viðkomandi veginum standa á, s.s. vegkantar, girðingar og hlið.

Vörsluaðili búfjár er eigandi eða umráðamaður búfjár ábyrgur fyrir vörslu þess í samræmi við gildandi reglur í viðkomandi sveitarfélagi.

Vörsluaðili lands er eigandi eða umráðamaður lands, þar með landgræðslugirðinga, skógræktargirðinga og vegsvæða sem er friðað fyrir lausagöngu búfjár.

Vörslugildi er eiginleiki girðingar, hliðs eða annars mannvirkis, svo og náttúrulegs farartálma, til að hindra frjálsa för búfjár.

Vörsluhólf er reitur, beitarhólf eða landsvæði afmarkað vörslulínu.

Vörslukrafa er krafa eða viðmiðun um gerð og gæði tiltekinnar vörslu, mismikil eftir tegund, aldri og kyneiginleikum búfjár.

Vörslulína er gripheld girðing, hlið og önnur mannvirki svo og náttúrulegur farartálmi sem kemur í veg fyrir frjálsa för búfjár allt árið eða á þeim tímum árs þegar búfjár er von á svæðinu.

Vörsluskylda er skilyrðislaus krafa um að eigandi eða umráðamaður búfjár ábyrgist að tiltekið búfé í umsjá hans sé haldið innan afmarkaðs svæðis allt árið eða tiltekna hluta ársins.

4. gr.

Fullnægjandi varsla.

Varsla telst fullnægjandi þegar unnt er að stöðva alla frjálsa för búfjár inn á ákveðið svæði eða út af því, á tilteknum árstíma. Skal þá tryggt að viðkomandi vörslulína hafi vörslugildi í samræmi við þær vörslukröfur sem gerðar eru til hennar. Huglægar varnarlínur, varnarlínur á milli sóttvarnarsvæða og girðingar með vegum þar sem för búfjár er frjáls inn á vegsvæði á einum eða fleiri stöðum, uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til fullnægjandi vörslu samkvæmt reglugerð þessari.

5. gr.

Vörsluaðilar búfjár og lands.

Vörsluaðilar búfjár og/eða lands skulu, eftir atvikum, ábyrgjast merkingu vörslulína inn á landakort og lýsa þeim á prenti með heitum þekktra örnefna og/eða með hnitum öllum viðkomandi til kynningar. Vörsluaðili búfjár eða lands, eftir atvikum, ábyrgist uppsetningu og viðhald allra mannvirkja sem mynda vörslulínu, nema um annað sé samið og fjarlægir þau sé þeirra ekki lengur þörf. Um kostnað við vörslulínur á landamerkjum gilda almenn ákvæði girðingarlaga nr. 10/1965, með síðari breytingum.

Komist búfé inn á friðuð svæði þrátt fyrir viðurkennda griphelda vörslu skulu vörsluaðilar lands ábyrgjast handsömun og ráðstöfun þess í samræmi við almenn ákvæði laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, svo og sérstök ákvæði í viðkomandi fjallskilasamþykkt og samþykkt um búfjárhald, eftir því sem við á í hverju sveitarfélagi.

6. gr.

Kröfur um vörslu.

Þær kröfur skal gera til vörslu búfjár að hún sé gripheld og hindri frjálsa för þess. Sveitarstjórn ábyrgist handsömun og geymslu lausagöngufénaðar nema um annað sé samið við einstaklinga og stofnanir, s.s. við vörsluaðila friðaðs lands sbr. 5. gr.

Lágmarksgæðakröfur fyrir girðingar og önnur mannvirki sem teljast gripheld fyrir hverja tegund búfjár skulu vera eftirfarandi:

A. Fjárheld girðing.

1. Netgirðing með 5 strengja vírneti, einum gaddavírsstreng neðan við netið og minnst einum ofan við það. Hæð girðingarinnar skal vera 1,10 m. Jarðfastir tré-, járn- eða plaststaurar skulu vera með mest 4 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 9 m enda sé þá bil á milli rengla mest 3 m.

2. Gaddavírsgirðing með 6 gaddavírsstrengjum. Hæð girðingarinnar skal vera 1,10 m. Jarðfastir tré-, járn- eða plaststaurar skulu vera með mest 4 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 9 m enda sé bil á milli rengla mest 3 m.

3. Rafgirðing háspennt og varanleg með 5 vírstrengjum. Hæð girðingarinnar skal vera 0,95 m. Jarðfastir tréstaurar, þar með úr harðviði, og plaststaurar, skulu vera með mest 10 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 24 m enda sé bil á milli rengla mest 8 m. Um uppsetningu, búnað og frágang rafgirðingar fer að öðru leyti eftir reglugerð nr. 121/1999 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, með síðari breytingum.

4. Girðingar úr ýmsu efni s.s. tré, steinsteypu, stáli, áli, plasti, grjóti og torfi sem teljast fjárheldar að mati héraðsráðunauta eða landsráðunauta.

5. Skurðir með 3 eða fleiri gaddavírsstrengjum á skurðbakka. Um staura gilda sömu reglur og fyrir gaddavírsgirðingar.

B. Hrossheld girðing.

1. Allar fjárheldar girðingar, sbr. ákvæði A. liðar 6. gr. reglugerðar þessarar.

2. Gaddavírsgirðing með 3 gaddavírsstrengjum. Hæð girðingarinnar skal vera 1,10 m. Jarðfastir tré-, járn- eða plaststaurar skulu vera með mest 4 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 9 m enda sé bil á milli rengla mest 3 m.

3. Rafgirðing háspennt og varanleg, með 2 vírstrengjum. Hæð girðingarinnar skal vera 0,95 m. Jarðfastir tréstaurar þar með úr harðviði og plaststaurar, skulu vera með mest 10 m millibili. Þegar notaðar eru renglur skal mesta bil á milli jarðfastra staura vera 24 m enda sé bil á milli rengla mest 8 m. Um uppsetningu, búnað og frágang rafgirðingar fer að öðru leyti eftir reglugerð nr. 121/1999 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, með síðari breytingum.

4. Skurðir með 2 eða fleiri gaddavírsstrengjum á skurðbakka. Um staura gilda sömu reglur og fyrir gaddavírsgirðingar.

Óheimilt er að nota gaddavír og háspenntar rafgirðingar umhverfis gerði eða hólf þar sem hross hafa ekki aðgang að beit, sbr. ákvæði 2. gr. reglugerðar um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa nr. 132/1999.

C. Nautgripaheld girðing.

Allar fjárheldar og hrossheldar girðingar, sbr. ákvæði A og B. liðar 6. gr. reglugerðar þessarar, að því undanskildu að gaddavírsgirðing með 2 gaddavírsstrengjum er fullnægjandi varsla fyrir mjólkurkýr.

D. Aðrar gripheldar girðingar.

Um gripheldar girðingar fyrir alifugla, kanínur, loðdýr og svín gilda ákvæði reglugerða um slíkt búfjárhald en héraðsráðunautur eða landsráðunautur metur vörslugildi girðinga fyrir geitfé.

E. Hlið og ristarhlið.

Gera skal sömu vörslukröfur til hliða og ristarhliða og annarra hluta vörslulínu. Þess skal gætt að auðvelt sé að opna og loka hliðum. Veghaldari leggur til ristarhlið, sbr. vegalög nr. 45/1994.

F. Frágangur vörslulína

Við frágang mannvirkja sem mynda vörslulínu, s.s. girðinga, hliða og ristarhliða, skal þess gætt að ekki skapist hætta á meiðslum eða slysum fyrir búfé og fólk. Sama gildir um frágang göngustiga og príla sem vörsluaðili búfjár eða lands setur upp til að greiða fyrir lögmætri för almennings um landið, sbr. ákvæði laga um náttúruvernd nr. 44/1999 um almannarétt, umgengni og útivist.

7. gr.

Kröfur um vörslu graðpenings.

Sveitarstjórn er heimilt að gera strangari kröfur til að tryggja örugga vörslu graðpenings en gerðar eru til almennrar vörslu búfjár, sbr. 6. gr. reglugerðar þessarar. Skal þá tekið tillit til tegundar og aldurs karldýrs og aðstæðna hverju sinni. Sveitarstjórn ábyrgist handsömun og geymslu graðpenings sem ekki er í öruggri vörslu á kostnað eiganda.

Rétt er vörsluaðila búfjár að setja upp viðvörunarskilti við vörsluhólf fyrir graðpening þar sem almenningi er greint frá þeirri hættu sem stafað getur af för um landið.

Til vörslu graðhesta (stóðhesta) utanhúss skal gera eftirfarandi lágmarkskröfur:

A. Vörsluhólf.

1. Hrossheld rafgirðing, sbr. ákvæði B. liðar 6. gr. reglugerðar þessarar.

2. Fjárheld netgirðing, sbr. ákvæði A. liðar 6. gr. reglugerðar þessarar með minnst einum háspenntum, varanlegum rafstreng efst í stað gaddavírsstrengs.

B. Gerði við hús.

Hæð skilveggja skal vera minnst 2,0 m. Séu skilveggir ekki heilir (lokaðir) skulu þeir vera það þéttklæddir að hross í nærliggjandi gerðum nái ekki saman.

8. gr.

Umsögn um vörslugildi og gæðamat mannvirkja.

Vörsluaðila búfjár og lands er heimilt að leita umsagnar héraðsráðunautar eða landsráðunautar um vörslugildi vörslulína og gæði viðkomandi mannvirkja. Komi upp ágreiningur er rétt að kveðja til einn eða fleiri ráðunauta til að gæðameta og úrskurða um vörslugildi viðkomandi vörslulínu. Heimilt er að kveðja til starfsins héraðsráðunaut utan viðkomandi búnaðarsambandssvæðis. Allan kostnað af slíkum störfum greiða deiluaðilar.

9. gr.

Ákvörðun lausagöngubanns og vörsluskyldu.

Sveitarstjórn ákvarðar um lausagöngubann og vörsluskyldu búfjár í viðkomandi sveitarfélagi, bæði í heimalöndum og afréttum, þar með talið í eignarlöndum einstaklinga, sveitarstjórna og opinberra aðila, s.s. í landgræðslugirðingu, skógræktargirðingu og á vegsvæði. Bann og önnur fyrirmæli skal auglýsa í Lögbirtingablaði enda sé kveðið á um þau í samþykkt um búfjárhald í sveitarfélaginu, sem staðfest hefur verið af landbúnaðarráðherra, sbr. lög nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum. Sveitarstjórn er rétt að tilgreina hvort um lausagöngubann sé að ræða eða kröfu um vörsluskyldu tiltekinnar búfjártegundar. Þá er sveitarstjórn rétt að ábyrgjast að vörslulínum sé rétt lýst og hafa umsjón með framkvæmd vörslunnar samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Sveitarstjórn er heimilt að banna notkun gaddavírs og háspenntra rafgirðinga í þéttbýli og þar sem umferð fólks er mikil.

10. gr.

Viðurlög.

Með brot út af ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið eftir 13. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum.

11. gr.

Gildissvið og lagastoð.

Reglugerð þessi birtist hér með til eftirbreytni öllum þeim er mál þetta varðar. Reglugerðin er sett með heimild í lögum nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum.

Landbúnaðarráðuneytinu, 24. janúar 2000.

Guðni Ágústsson.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica