Samgönguráðuneyti

168/1997

Reglugerð um skemmtibáta. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skemmtibáta með mestu lengd frá 2,5 m að 24 m, bæði fullsmíðaða og hálfsmíðaða, sem og búnað skemmtibáta sem tilgreindur er í II. viðauka.

Skemmtibátur er í reglugerð þessari hver sá bátur sem ætlaður er til skemmtisiglinga, óháð framdrifi bátsins.

2. gr.

Eftirtaldir bátar og tæki eru undanskilin ákvæðum þessarar reglugerðar:

a. Bátar sem eingöngu eru ætlaðir til æfinga og keppni, þar með taldir kappróðrarbátar.

b. Kanúar, kajakar, gondólar og hjólabátar.

c. Seglbretti.

d. Vélknúin brimbretti og önnur svipuð vélknúin farartæki.

e. Upprunalegir sögulegir bátar og eftirlíkingar báta sem hannaðir voru fyrir 1950 og eru smíðaðir úr sams konar efni og fyrirmyndin og svo flokkaðir hjá framleiðendum.

f. Bátar sem smíðaðir eru í tilraunarskyni að því tilskyldu að þeir verði ekki síðar settir á markað á Íslandi.

g. Bátar smíðaðir til eigin nota, að því tilskildu að þeir verði ekki settir á markað á Íslandi næstu fimm ár eftir að smíði líkur enda verði notkun takmörkuð með tilliti til ástands bátsins.

h. Bátar sem ætlaðir eru til atvinnustarfsemi, einkum þeir sem eru tilgreindir í tilskipun Evrópusambandsins nr. 82/716/EBE frá 4. október 1982 um tæknilegar kröfur vegna skipa á skipgengum vatnaleiðum, óháð farþegafjölda.

i. Kafbátar.

j. Svifbátar.

k. Skíðabátar.

3. gr.

Grunnkröfur.

Bátar sem vísað er til í 1. gr. skulu uppfylla kröfur um öryggi, heilsu, umhverfisvernd og neytendavernd sem kveðið er á um í I. viðauka.

4. gr.

Samþykki skemmtibáta.

Siglingastofnun Íslands annast eftirlit með skemmtibátum í samræmi við reglugerð þessa samkvæmt lögum nr. 35/1993 um eftirlit með skipum, með síðari breytingum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Hver skemmtibátur skal uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar og vera merktur með CE-merki því til staðfestingar. Sama gildir um hálfsmíðaða báta, enda liggi fyrir yfirlýsing samanber a-lið III. viðauka frá bátasmiðnum, fulltrúa hans, sem staðfestu hefur í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eða einstaklingi sem ábyrgur er fyrir markaðssetningu, þess efnis að bátarnir verði fullgerðir í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Búnaður skemmtibáta, samanber II. viðauka, skal einnig vera merktur með CE-merkinu til staðfestingar því að hann uppfylli ákvæði þessarar reglugerðar, enda liggi fyrir yfirlýsing þess efnis, samanber b-lið III. viðauka, frá framleiðanda, fulltrúa hans sem staðfestu hefur í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eða einstaklingi sem ábyrgur er fyrir markaðssetningu.

5. gr.

Öryggisákvæði.

Ef Siglingastofnun Íslands kemst að raun um að skemmtibátar eða búnaður þeirra sem um getur í II. viðauka, merktir með CE-merkinu sem um getur í IV. viðauka, rétt smíðaðir, útbúnir, viðhaldið og notaðir á fyrirhugaðan hátt, geti stofnað öryggi og heilsu manna í hættu og skaðað eignir eða umhverfið ber stofnuninni að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að innkalla þá af markaðinum eða banna eða takmarka markaðssetningu þeirra eða að þeir verði teknir í notkun.

6. gr.

Verklag við viðurkenningu.

Áður en smíði eða markaðssetning á skemmtibátum hefst, skal framleiðandinn eða fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skilgreina bátana samkvæmt eftirfarandi reglum um flokkun aðferða við viðurkenningu, A, B, C og D eins og um getur í 1. lið í I. viðauka.

1. Flokkar A og B

- Fyrir báta með mestu lengd minni en 12 m; innri framleiðslustýring og prófanir (aðferðareining Aa) sem um getur í VI. viðauka.

- Fyrir báta með mestu lengd frá 12 m til 24 m; EB-gerðarprófun (aðferðareining B) sem um getur í VII. viðauka ásamt aðferðareiningu C (samræmi við gerð) sem um getur í VIII. viðauka eða einhver af eftirfarandi aðferðareiningum: B + D, B + F eða G eða H.

2. Flokkur C

a. Fyrir báta með mestu lengd frá 2,5 m til 12 m:

- Þar sem fullnægt er ákvæðum í gr. 3.2 og 3.3 í I. viðauka; innri framleiðslustýring (aðferðareining A) sem um getur í V. viðauka.

- Þar sem ekki er fullnægt ákvæðum í gr. 3.2 og 3.3 í I. viðauka; innri framleiðslustýring ásamt prófunum (aðferðareining Aa) sem um getur í VI. viðauka.

b. Fyrir báta með mestu lengd frá 12 m til 24 m; EB-gerðarprófun (aðferðareining B) sem um getur í VII. viðauka ásamt aðferðareiningu C (samræmi við gerð) sem um getur í VIII. viðauka eða einhver af eftirfarandi aðferðareiningum: B + D, B + F, G eða H.

3. Flokkur D

Fyrir báta með mestu lengd frá 2,5 m til 24 m; innri framleiðslustýring (aðferðareining A) sem um getur í V. viðauka.

4. Fyrir búnað sem um getur í II. viðauka; ein af eftirfarandi aðferðareiningum: B + C, B + D, B + F eða G + H.

7. gr.

CE-merki.

Skemmtibátar og búnaður þeirra sem um getur í II. viðauka og álitið er að samræmist grunnkröfum sem um getur í 3. gr., skulu merktir með CE-merkinu þegar þeir eru settir á markað.

CE-merkið, eins og það er sýnt í IV. viðauka, skal fest á skemmtibáta eins og tilgreint er í lið 2.2 í I. viðauka og á þann búnað þeirra sem tilgreindur er í II. viðauka, og/eða á umbúðir þeirra á greinilegan, læsilegan og óafmáanlegan hátt.

CE-merkinu skal fylgja kenninúmer Siglingastofnunar Íslands.

Bannað er að festa á skemmtibáta merki eða áletranir sem geta valdið því að þriðji aðili fái villandi upplýsingar um þýðingu og útfærslu CE-merkisins. Heimilt er að festa öll önnur merki á skemmtibáta og framangreindan búnað þeirra, að því tilskildu að þau geri CE-merkið ekki ógreinilegra eða ólæsilegra.

8. gr.

Ef Siglingastofnun Íslands telur að CE-merki hafi verið fest á rangan hátt, er framleiðandinn eða fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skyldugur að ráða bót á merkingunni.

Ef ekki er farið eftir ábendingum um ranga merkingu, skal Siglingastofnun Íslands gera viðeigandi ráðstafanir til að takmarka eða banna markaðssetningu vörunnar sem í hlut á eða til að tryggja að hún verði afturkölluð af markaðinum, í samræmi við 5. gr.

9. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 35/1993 ásamt síðari breytingum og með hliðsjón af tilskipun 94/25/EB frá 16. júní 1994 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna um skemmtibáta, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 22. janúar 1997.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

I. VIÐAUKI

GRUNNÖRYGGISKRÖFUR UM HÖNNUN OG SMÍÐI SKEMMTIBÁTA

1. HÖNNUNARFLOKKAR FYRIR BÁTA

Hönnunarflokkur

Vindhraði

(á Beaufort-kvarða)

Marktæk ölduhæð

(H, 1/3 m)

A - Haffærir bátar

meiri en 8

hærri en 4

B - Grunnsævisbátar

8 eða minna

4 eða lægri

C - Strandbátar

6 eða minna

2 eða lægri

D - Bátar á vötnum og vatnaleiðum

4 eða minna

0,5 eða lægri

Skilgreiningar:

A. Haffærir bátar: Hannaðir fyrir lengri ferðir þar sem vindhraði getur mælst meiri en 8 vindstig (á Beaufort-kvarða<) og marktæk ölduhæð 4 m eða hærri og fyrir báta sem eru að mestu sjálfbjarga.

B. Grunnsævisbátar: Hannaðir fyrir ferðir á grunnsævi þar sem vindhraði getur mælst 8 vindstig eða minna og marktæk ölduhæð 4 m eða lægri.

C. Strandbátar: Hannaðir fyrir ferðir við strendur, á stórum flóum, í ármynni, vötnum og ám þar sem vindhraði getur mælst 6 vindstig eða minna og ölduhæð 2 m eða lægri.

D. Bátar á vötnum og vatnaleiðum: Hannaðir fyrir ferðir á litlum vötnum, ám og skurðum þar sem vindhraði getur mælst 4 vindstig eða minna og marktæk ölduhæð 0,5 m eða lægri.

Bátar í hverjum flokki skulu hannaðir og smíðaðir þannig að þeir standist þessar færibreytur að því er varðar stöðugleika, uppdrift og aðrar viðeigandi grunnkröfur sem taldar eru upp í I. viðauka og að þeir hafi góða stjórnhæfniseiginleika.

2. ALMENNAR KRÖFUR

Skemmtibátar og búnaður þeirra sem um getur í II. viðauka skulu samræmast grunnkröfunum sem gilda um þá.

2.1. Auðkenni á bol báta

Á bol allra báta skal vera kenninúmer ásamt eftirfarandi upplýsingum:

- flokkunarnúmer framleiðanda,

- framleiðsluland,

- sérstakt raðnúmer,

- framleiðsluár,

- árgerð.

Í viðeigandi samhæfðum stöðlum eru nákvæmar upplýsingar um þessar kröfur.

2.2. Auðkennisplata framleiðanda

Á sérhverjum báti skal vera varanlega fest plata, aðgreind frá kenninúmeri bolsins þar sem eftirfarandi upplýsingar eru tilgreindar:

- nafn framleiðanda,

- CE-merki (sjá IV. viðauka),

- bátahönnunarflokkur í samræmi við 1. lið,

- hámarksfarmur sem framleiðandi mælir með í samræmi við lið 3.6,

- fjöldi einstaklinga sem báturinn er hannaður fyrir á siglingu.

2.3. Vernd gegn því að fólk falli útbyrðis og búnaður til að ná fólki um borð aftur

Bátur skal í samræmi við hönnunarflokk vera þannig hannaður að lágmarkshætta sé á að fólk falli útbyrðis og að auðveldlega sé hægt að bjarga því um borð aftur.

2.4. Útsýni frá þeim stað þar sem stýrt er

Á vélknúnum bátum skal sá sem er við stjórnvölin, við eðlilega notkun (hraði og farmur), hafa gott útsýni til allra átta.

2.5. Handbók eiganda

Í hverjum báti skal vera handbók eiganda á einu eða fleiri opinberum bandalagstungumálum sem aðildarríkið, þar sem bátarnir eru markaðssettir, tekur ákvörðun um í samræmi við sáttmála Evrópubandalagsins. Í þessari handbók skal athyglinni sérstaklega beint að eld- og lekahættu og í henni skulu vera þær upplýsingar sem tilgreindar eru í liðum 2.2, 3.6 og 4 ásamt þyngd bátsins án farms í kílógrömmum.

3. STYRKUR OG KRÖFUR UM SMÍÐI

3.1. Smíði

Efnisval og efnissamsetning ásamt smíðinni skal tryggja að bátar séu vel traustir að öllu leyti. Sérstaka athygli skal veita hönnunarflokknum samkvæmt 1. lið og hámarksfarmi sem framleiðandi mælir með í samræmi við lið 3.6.

3.2. Stöðugleiki og fríborð

Báturinn skal vera nægilega stöðugur og hafa fríborð samkvæmt hönnunarflokknum í samræmi við 1. lið og bera þann hámarksfarm sem framleiðandi mælir með í samræmi við lið 3.6.

3.3. Uppdrift og flot

Báturinn skal þannig smíðaður að tryggt sé að hann hafi uppdriftseiginleika sem eru viðeigandi fyrir hönnunarflokkinn í samræmi við lið 1.1 og hámarksfarm sem framleiðandi mælir með í samræmi við lið 3.6. Allir fjölbola bátar sem eru íbúðarhæfir skulu þannig hannaðir að þeir hafi nægilega uppdrift til að geta flotið á hvolfi.

Bátar styttri en 6 m sem hafa tilhneigingu til að borðfyllast þegar þeir eru notaðir í þeirra hönnunarflokki skulu útbúnir með viðeigandi flotbúnaði þegar þannig aðstæður eru fyrir hendi.

3.4. Op á bol, þilfari og yfirbyggingu

Op á bol, þilfari og yfirbyggingu skulu ekki skerða styrk bátsins eða vatns- og vindheldni hans þegar þau eru lokuð.

Gluggar, kýraugu, hurðir og lestarlúgur skulu standast vatnsþrýsting sem þau verða fyrir vegna sérstakrar staðsetningar ásamt staðbundnum þunga einstaklinga sem ganga um þilfarið.

Búnaður, fyrir neðan sjólínu, í samræmi við hámarksfarm sem framleiðandi mælir með, hannaður þannig að hægt er að hleypa vatni inn eða út úr bolnum, skal hafa lokunarbúnað sem auðvelt er að komast að.

3.5. Borðfylling

Allir bátar skulu hannaðir þannig að lágmarkshætta sé á að þeir sökkvi.

Sérstaka athygli skal veita:

- stjórnklefum og brunnum sem eiga að hafa sjálfræsandi búnað eða einhvern annan búnað til að losa vatn úr bátnum,

- loftræstibúnaði,

- losun vatns með dælum eða öðrum búnaði.

3.6. Hámarksfarmur sem framleiðandi mælir með

Hámarksfarmur sem framleiðandi mælir með (í kílógrömmum), af eldsneyti, vatni, birgðum, ýmis konar búnaði og fólki, sem báturinn er hannaður fyrir, eins og tilgreint er á auðkennisplötu framleiðanda, skal ákvarðaður í samræmi við hönnunarflokkinn (1. liður), stöðugleika og fríborð (liður 3.2) og uppdrift og flot (liður 3.3).

3.7. Geymsla gúmmíbjörgunarbáta

Allir bátar í flokki A og B ásamt bátum í flokki C og D sem eru lengri en 6 m skulu hafa einn eða fleiri geymslustaði fyrir gúmmíbjörgunarbáta sem eru nógu stórir til að rúma þann fjölda fólks sem bátur er hannaður fyrir og sem framleiðandi mælir með.

3.8. Neyðarútgangar

Allir íbúðarhæfir fjölbola bátar sem eru lengri en 12 m skulu hafa neyðarútganga sem hægt er að nota ef bátnum hvolfir.

Allir íbúðarhæfir bátar skulu hafa neyðarútganga sem hægt er að nota ef eldur kemur upp.

3.9. Lega við akkeri, lega við bryggju og bátar í togi

Allir bátar, að teknu tilliti til hönnunarflokks þeirra og einkenna, skulu útbúnir með einum eða fleiri styrktum festipunktum eða öðrum búnaði fyrir akkeri, landfestar og dráttartaugar.

4. STJÓRNHÆFNISEIGINLEIKAR

Framleiðandinn skal tryggja að stjórnhæfniseiginleikar báta séu viðunandi fyrir kraftmestu vélina sem báturinn er hannaður og smíðaður fyrir. Í handbók eiganda skal gefið upp hámarksvélarafl fyrir allar vélar í skemmtibátum, í samræmi við samhæfðan staðal.

5. KRÖFUR UM UPPSETNINGU

5.1. Vélar og vélarrúm

5.1.1. Innanborðsvél

Öllum innanborðsvélum skal komið fyrir í rými sem er aðskilið íbúðarhluta þannig að eldhætta eða hætta á útbreiðslu elds og hætta af völdum eiturgufa, hita, hávaða eða titrings sé í lágmarki.

Vélarhlutar og aukahlutir sem hafa þarf reglulegt eftirlit og/eða umsjón með skulu vera aðgengilegir.

Einangrunarefni innan á vélarrúmi skal vera eldþolið.

5.1.2. Loftræsting

Í vélarrúmi skal vera loftræsting. Tryggilega skal gengið frá öllum loftopum þannig að vatn komist ekki inn í vélarrúmið.

5.1.3. Óvarðir vélarhlutar

Allir óvarðir vélarhlutar sem hreyfast eða eru heitir og geta valdið slysum á mönnum skulu varðir vel nema vélin sé með hlíf eða hún umlukin á einhvern hátt.

5.1.4. Gangsetning utanborðsvélar

Allir bátar með utanborðsvél skulu hafa búnað sem kemur í veg fyrir að vélin fari í gang þegar hún er í gír, nema:

a) þegar vélin framleiðir minni kyrrukný en 500 njúton (N);

b) þegar vélin er útbúin með eldsneytisgjafahemli sem takmarkar kný við 500 N þegar vélin er sett í gang.

5.2. Eldsneytiskerfi

5.2.1. Almennt

Búnaður og fyrirkomulag varðandi áfyllingu og loftræstingu eldsneytisgeymis og geymslu eldsneytis og eldsneytisbirgða skal þannig hannaður og úr garði gerður að sem minnst hætta sé á íkviknun og sprengingu.

5.2.2. Eldsneytisgeymar

Tryggilega skal gengið frá eldsneytisgeymum, leiðslum og slöngum og þær aðskildar eða varðar gegn öllum hitagjöfum. Efnið sem geymarnir eru smíðaðir úr og útfærsla þeirra skal vera í samræmi við rými þeirra og eldsneytisgerð. Allir geymar skulu hafa loftræstibúnað.

Fljótandi eldsneyti með lægra kveikjumark en 55°C skal geymt í geymum sem eru ekki hluti af bátsbolnum og eru:

a) einangraðir frá vélarrúminu og öllum öðrum kveikjugjöfum;

b) aðskildir íbúðarhlutum.

Geyma má fljótandi eldsneyti með hærra kveikjumark en 55°C í geymum sem eru hluti af bátsbolnum.

5.3. Rafmagnskerfið

Rafmagnskerfi skulu þannig hönnuð og úr garði gerð að bátur starfi rétt við eðlilega notkun og að sem minnst hætta sé á íkviknun og raflosti.

Allar straumrásir, nema straumrásir til að ræsa vélar, sem eru hlaðnar með rafhlöðum, skulu varðar gegn ofhleðslu og skammhlaupi.

Loftræsting skal vera til staðar til að koma í veg fyrir uppsöfnun lofttegunda frá rafhlöðum. Tryggilega skal gengið frá rafhlöðum og þær varðar gegn ágangi vatns.

5.4. Stýribúnaður

5.4.1. Almennt

Stýribúnaður skal þannig hannaður, smíðaður og uppsettur að yfirfærsla stýrisaðgerða sé vandkvæðalaus við allar fyrirsjáanlegar aðstæður.

5.4.2. Neyðarbúnaður

Seglbátar og vélbátar með einfaldri innanborðsvél og fjarstýrðum stýribúnaði skulu hafa neyðarbúnað sem gerir kleift að stýra bátnum á litlum hraða.

5.5. Gaskerfi

Gaskerfi til heimilisnota skal vera þeirrar gerðar sem notar gas í uppgufuðu

formi og skal þannig hannað og uppsett að ekki sé hætta á leka og sprengingu og auðvelt sé að athuga hvort um leka sé að ræða. Efni sem notað er og búnaður skulu henta þeirri gastegund sem notuð er til að standast ytra álag sem búast má við á siglingu.

Öll tæki skulu hafa búnað sem tryggir öruggan loga á öllum brennurum. Sérhvert tæki sem gengur fyrir gasi skal fá gas eftir sérgrein í dreifikerfinu og hafa sérstakan loka. Nægileg loftræsting skal vera til staðar til að koma í veg fyrir hættu af völdum leka og eldsneytis.

Allir bátar með varanlega uppsettu gaskerfi skulu útbúnir með rými til að geyma gaskúta. Rýmið skal aðskilið íbúðarhluta, aðeins aðgengilegt utan frá og með loftræstingu sem leiðir út undir bert loft til að gas sem sleppur út fari útbyrðis. Öll varanleg gaskerfi skulu prófuð eftir uppsetningu.

5.6. Eldvarnir

5.6.1. Almennt

Við val á búnaði sem settur er upp og innréttingu bátsins skal tekið tillit til eldhættu og útbreiðslu elds. Sérstaklega skal gæta að umhverfi tækja sem nota opinn eld, heitum svæðum eða vélum og hjálparhreyflum, olíu og eldsneytisyfirfalli, óvörðum olíu- og eldsneytisleiðslum og forðast skal að leggja rafmagnsleiðslur yfir heitum vélarhlutum.

5.6.2. Slökkvibúnaður

Bátar skulu útbúnir með slökkvibúnaði sem samsvarar eldhættunni. Bensínvélarrými skal varið með þannig slökkvikerfi að ekki sé þörf á að opna rýmið ef kviknar í. Ef hreyfanleg slökkvitæki eru sett upp skal þeim komið þannig fyrir að auðvelt sé að komast að þeim og eitt þeirra skal þannig staðsett að auðvelt sé að ná í það frá aðalstýristað bátsins.

5.7. Siglingaljós

Ef siglingaljósum er komið fyrir skulu þau vera í samræmi við Colreg-reglugerðina frá 1972 eða CEVNI-reglugerðina, eftir því sem við á.

5.8. Komið í veg fyrir losun

Bátar skulu þannig smíðaðir að ekki sé hætta á að mengunarefni (olía, eldsneyti o.s.frv.) verði losuð í sjóinn.

Bátar með salerni skulu annaðhvort hafa:

a) safngeyma; eða

b) útbúnað þar sem hægt er að hafa safngeyma tímabundið þegar báturinn fer um svæði þar sem losun mannaúrgangs er takmörkuð.

Þar að auki skulu öll rör fyrir mannaúrgang sem liggja gegnum bátsbolinn útbúin með tryggum lokunarbúnaði.

II. VIÐAUKI

BÚNAÐUR

1. Eldvarinn búnaður fyrir innan- og utanborðsvélar.

2. Búnaður til að verja utanborðsvélar ef þær eru gangsettar í gír.

3. Stýrishjól, stýrisvélbúnaður og kapaleiningar.

4. Eldsneytisgeymar og eldsneytisleiðslur.

5. Forsmíðaðar lúgur og kýraugu.

III. VIÐAUKI

YFIRLÝSING FRÁ BÁTASMIÐNUM EÐA VIÐURKENNDUM FULLTRÚA

HANS MEÐ STAÐFESTU Í BANDALAGINU OG ÞEIM SEM ER ÁBYRGUR FYRIR MARKAÐSSETNINGU

(2. og 3. mgr. 4. gr.)

a) Í yfirlýsingu frá bátasmiðnum eða viðurkenndum fulltrúa hans með staðfestu í bandalaginu, sem um getur í 2. mgr. 4. gr. (hálfsmíðaðir bátar), skal vera eftirfarandi:

- nafn og heimilisfang bátasmiðsins,

- nafn og heimilisfang fulltrúa bátasmiðsins með staðfestu í bandalaginu eða, eftir því sem við á, þess sem er ábyrgur fyrir markaðssetningu,

- lýsing á hálfsmíðaða bátnum,

- yfirlýsing um að aðrir aðilar sjái um að ljúka smíði hálfsmíðaða bátsins og að hann samræmist grunnkröfunum sem gilda um þetta smíðastig.

b) Í yfirlýsingu frá bátasmiðnum, viðurkenndum fulltrúa hans með staðfestu í bandalaginu eða þeim aðila sem er ábyrgur fyrir markaðssetningu sem um getur í 3. mgr. 4. gr. (búnaður) skal vera eftirfarandi:

- nafn og heimilisfang bátasmiðsins,

- nafn og heimilisfang fulltrúa bátasmiðsins með staðfestu í bandalaginu eða, eftir því sem við á, þess sem er ábyrgur fyrir markaðssetningu,

- lýsing á búnaðinum,

- yfirlýsing um að búnaðurinn samræmist viðeigandi grunnkröfum.

IV. VIÐAUKI

CE-MERKI

CE-samræmismerki skal samanstanda af upphafsstöfunum "CE" með eftirfarandi sniði:

Ef CE-merki er minnkað eða stækkað skal það gert þannig að hlutföllum framangreindrar teikningar sé haldið.

Hinir ýmsu hlutar CE-merkisins skulu vera sömu hæðar sem skal ekki vera undir 5 mm.

Á eftir CE-samræmismerki skal koma kenninúmer tilkynnts aðila, ef viðkomandi aðili tekur þátt í framleiðslueftirliti, og tveir öftustu tölustafirnir í árinu þegar CE-merkinu er komið fyrir.

VI. VIÐAUKI

INNRI FRAMLEIÐSLUSTÝRING

(aðferðareining A)

1. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu, sem rækir þær skyldur sem kveðið er á um í 2. lið, sér til þess og lýsir yfir að viðkomandi vörur fullnægi þeim kröfum tilskipunarinnar sem við þær eiga. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu skal setja CE-merkið á hvert vörueintak og gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu (sjá XV. viðauka).

2. Framleiðandinn skal útbúa þau tækniskjöl sem lýst er í 3. mgr., og hann eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu skal varðveita þau tiltæk til skoðunar fyrir viðeigandi yfirvöld í landinu í minnst 10 ár eftir að síðasta vörueintak hefur verið framleitt.

Hafi hvorki framleiðandinn né viðurkenndur fulltrúi hans staðfestu í bandalaginu hvílir sú skylda á þeim aðila sem setur vöruna á markað í bandalaginu að hafa tækniskjöl tiltæk.

3. Með tækniskjölunum skal vera hægt að meta samræmi varanna við kröfur tilskipunarinnar. Þau skulu, að svo miklu leyti sem máli skiptir fyrir slíkt mat, lýsa hönnun, framleiðslu og notkun vörunnar (sjá XIII. viðauka).

4. Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal geyma afrit af samræmisyfirlýsingunni með tækniskjölunum.

5. Framleiðandinn skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að við framleiðsluferli sé séð til þess að framleiddar vörur séu samkvæmt tækniskjölunum sem um getur í 2. lið og þeim kröfum tilskipunarinnar sem við þær eiga.

VII. VIÐAUKI

INNRI FRAMLEIÐSLUSTÝRING ÁSAMT PRÓFUNUM

(aðferðareining Aa, 1. kostur)

Þessi aðferðareining er sett saman úr aðferðareiningu A, eins og um getur í V. viðauka, og eftirfarandi viðbótarkröfum:

Framleiðandinn eða aðilar fyrir hans hönd skulu gera eina eða fleiri eftirfarandi prófanir á einum eða fleiri bátum sem eru dæmigerðir fyrir framleiðslu framleiðanda eða framkvæma samsvarandi útreikninga eða eftirlit:

- stöðugleikaprófun í samræmi við lið 3.2 í grunnkröfunum,

- prófun á uppdriftseiginleikum í samræmi við lið 3.3 í grunnkröfunum.

Eftirfarandi ákvæði gilda um báðar prófanir:

Prófanirnar, útreikningarnir eða eftirlitið skal framkvæmt á ábyrgð tilkynnts aðila sem framleiðandi velur. Meðan á framleiðslu stendur skal framleiðandi á ábyrgð tilkynnta aðilans setja kenninúmer hans á vöruna.

VII. VIÐAUKI

EB-GERÐARPRÓFUN

(aðferðareining B)

1. Tilkynntur aðili gengur úr skugga um og vottar að sýni sem er einkennandi fyrir viðkomandi framleiðslu, uppfylli þau ákvæði viðeigandi tilskipunar sem við það eiga.

2. Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu skal leggja inn umsókn um EB-gerðarprófun hjá tilkynntum aðila eftir vali framleiðandans.

Umsókn skal innihalda:

- nafn og heimilisfang framleiðandans og, ef viðurkenndur fulltrúi leggur inn umsóknina, einnig nafn hans og heimilisfang,

- skriflega yfirlýsingu um að sama umsókn hafi ekki verið lögð inn hjá öðrum tilkynntum aðila,

- tækniskjöl eins og lýst er í 3. lið.

Umsækjandi skal hafa tiltækt fyrir tilkynnta aðilann eintak sem er dæmigert fyrir þá framleiðslu sem um er að ræða, hér eftir nefnt ,,gerð"(*).

Tilkynnti aðilinn getur farið fram á að fá fleiri eintök sé þess þörf til að gera fyrirhugaðar prófanir.

3. Með tækniskjölunum skal vera hægt að meta samræmi vöru við kröfur tilskipunarinnar. Þau skulu, að svo miklu leyti sem þörf er á fyrir slíkt mat, lýsa hönnun, framleiðslu og notkun vörunnar (sjá XIII. viðauka).

4. Tilkynnti aðilinn skal:

4.1. rannsaka tækniskjölin, sannprófa að gerðin hafi verið framleidd í samræmi við tækniskjölin og ganga úr skugga um hvaða þættir hafa verið hannaðir samkvæmt viðeigandi ákvæðum staðlanna sem um getur í 5. gr., svo og hvaða búnaður hefur verið hannaður án þess að beita viðeigandi ákvæðum þessara staðla;

4.2. þegar stöðlunum sem um getur í 5. gr. hefur ekki verið beitt, gera eða láta gera viðeigandi athuganir og nauðsynlegar prófanir til að kanna hvort þær lausnir sem framleiðandi hefur valið uppfylla grunnkröfur tilskipunarinnar;

4.3. þegar framleiðandi hefur kosið að beita viðeigandi stöðlum, gera eða láta gera viðeigandi athuganir og nauðsynlegar prófanir til að kanna hvort þeim hefur í raun verið beitt;

4.4. semja við umsækjandann um hvar athuganir og nauðsynlegar prófanir skuli fara fram.

5. Uppfylli gerðin viðkomandi ákvæði þessarar tilskipunar skal tilkynnti aðilinn gefa út vottorð um EB-gerðarprófun til handa umsækjandanum. Vottorðið skal innihalda nafn og heimilisfang framleiðandans, niðurstöður athugunarinnar, skilyrði fyrir því að það sé í gildi og nauðsynlegar upplýsingar til að bera megi kennsl á þá gerð sem hlotið hefur samþykki.

Skrá yfir þau tækniskjöl sem við eiga skal vera viðauki við vottorðið og afrit geymt hjá tilkynnta aðilanum.

Ef framleiðanda er neitað um vottorð um gerðarprófun skal tilkynnti aðilinn gera ítarlega grein fyrir ástæðum fyrir neituninni.

6. Umsækjandi skal upplýsa tilkynnta aðilann, sem geymir tækniskjölin er varða EB-gerðarprófunarvottorðið, um allar breytingar á hinni samþykktu vöru sem þarfnast viðbótarsamþykkis þar sem slíkar breytingar geta haft áhrif á samræmi við grunnkröfur eða notkunarskilyrði sem mælt er fyrir um. Þetta viðbótarsamþykki er veitt sem viðbót við upphaflega EB-gerðarprófunarvottorðið.

7. Allir tilkynntir aðilar skulu senda öðrum tilkynntum aðilum viðeigandi upplýsingar um EB-gerðarprófunarvottorð og viðbætur við þau sem gefin hafa verið út eða afturkölluð.

8. Aðrir tilkynntir aðilar geta fengið afrit af EB-gerðarprófunarvottorðum og/eða viðbótum við þau. Viðaukarnir við vottorðin skulu vera tiltækir öðrum tilkynntum aðilum.

9. Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal geyma, auk tækniskjala, afrit af EB-gerðarprófunarvottorðinu og viðbótum við það í minnst 10 ár eftir að síðasta vörueintak hefur verið framleitt.

Hafi hvorki framleiðandinn né viðurkenndur fulltrúi hans staðfestu í bandalaginu, hvílir sú skylda á þeim aðila sem setur vöruna á markað í bandalaginu að hafa tækniskjöl tiltæk.

VIII. VIÐAUKI

SAMRÆMI VIÐ GERÐ

(aðferðareining C)

1. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu sér til þess og lýsir yfir að viðkomandi vörur séu í samræmi við gerðina sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og fullnægi þeim kröfum tilskipunarinnar sem við þær eiga. Framleiðandi skal setja CE-merkið á hvert vörueintak og gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu (sjá XV. viðauka).

2. Framleiðandinn skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að framleiðsluferli tryggi að framleiddar vörur séu í samræmi við þá gerð sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og þær kröfur tilskipunarinnar sem við þær eiga.

3. Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal geyma afrit af samræmisyfirlýsingunni í minnst 10 ár eftir að síðasta vörueintak hefur verið framleitt.

Hafi hvorki framleiðandinn né viðurkenndur fulltrúi hans staðfestu í bandalaginu, hvílir sú skylda á þeim aðila sem setur vöruna á markað í bandalaginu að hafa tækniskjöl tiltæk (sjá XIII. viðauka).

IX.VIÐAUKI

GÆÐATRYGGING FRAMLEIÐSLU

(aðferðareining D)

1. Framleiðandi, sem rækir þær skyldur sem lýst er í 2. lið, sér til þess og lýsir yfir að viðkomandi vörur séu í samræmi við gerðina sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og fullnægi þeim kröfum tilskipunarinnar sem við þær eiga. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu skal setja CE-merkið á hvert vörueintak og gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu (sjá XV. viðauka). CE-merkinu skal fylgja kenninúmer þess tilkynnta aðila sem ber ábyrgð á eftirliti eins og tilgreint er í 4. lið.

2. Framleiðandinn skal nota viðurkennt gæðakerfi við framleiðslu, lokaeftirlit og prófun á fullunninni vöru eins og tilgreint er í 3. lið og skal vera háður eftirliti eins og tilgreint er í 4. lið.

3. Gæðakerfi

3.1. Framleiðandinn skal leggja inn umsókn um mat á gæðakerfi sínu fyrir þær vörur sem um er að ræða hjá tilkynntum aðila eftir eigin vali.

Umsókn skal innihalda:

- allar upplýsingar sem máli skipta um þann vöruflokk sem um er að ræða,

- gögn um gæðakerfið,

- ef við á tækniskjöl um hina samþykktu gerð (sjá XIII. viðauka) og afrit af EB-gerðarprófunarvottorðinu.

3.2. Gæðakerfið á að tryggja að vörurnar séu í samræmi við þá gerð sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og viðeigandi kröfur þessarar tilskipunar.

Alla þá þætti, kröfur og ákvæði sem framleiðandi hefur tekið tillit til skal skjalfesta á kerfisbundinn og skipulegan hátt sem skriflegar reglur, aðferðir og leiðbeiningar. Þessi gögn um gæðakerfið verða að vera með þeim hætti að gæðaáætlanir, -skipulag, -handbækur og -skrár séu alltaf túlkaðar á sama hátt.

Gögnin skulu einkum innihalda fullnægjandi lýsingu á:

- gæðamarkmiðum og skipulagi, ábyrgð og valdi stjórnenda með tilliti til vörugæða,

- aðferðum við framleiðslu, gæðastýringu og gæðatryggingu og þeim ferlum og kerfisbundnu aðgerðum sem nota skal,

- þeim athugunum og prófunum sem gerðar verða fyrir, við og eftir framleiðslu, og hversu oft þær verða gerðar,

- gæðaskýrslum, svo sem skoðunarskýrslum og prófunargögnum, kvörðunargögnum, skýrslum um menntun og hæfi starfsfólksins o.s.frv.,

- hvernig fylgst er með því að tilskilin vörugæði hafi náðst, og að gæðakerfið sé skilvirkt.

3.3. Tilkynnti aðilinn skal meta gæðakerfið til þess að ákveða hvort það fullnægi kröfunum sem um getur í lið 3.2. Gert skal ráð fyrir samræmi við kröfurnar, ef í gæðakerfinu er beitt þeim samhæfða staðli sem við á.

Í úttektarhópnum skal að minnsta kosti vera einn maður sem hefur reynslu af mati við þá framleiðslutækni sem um er að ræða. Hluti af matsverkefninu skal vera matsheimsókn á framleiðslustað.

Ákvörðunin skal tilkynnt framleiðanda. Tilkynning skal innihalda niðurstöður athugunarinnar og rökstudda ákvörðun um mat.

3.4. Framleiðandinn skal skuldbinda sig til að rækja þær skyldur sem gæðakerfið, í þeirri mynd sem það hefur verið samþykkt, leggur honum á herðar og að viðhalda því svo að það sé fullnægjandi og skilvirkt.

Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal upplýsa þann tilkynnta aðila sem samþykkt hefur gæðakerfið um allar fyrirhugaðar breytingar á því.

Tilkynnti aðilinn skal meta þær breytingar sem lagðar eru til og ákveða hvort breytt gæðakerfi muni enn fullnægja kröfunum sem um getur í lið 3.2 eða hvort nýtt mat þurfi að fara fram.

Hann skal tilkynna framleiðandanum ákvörðun sína. Tilkynning skal innihalda niðurstöður athugunarinnar og rökstudda ákvörðun um mat.

4. Eftirlit á ábyrgð tilkynnta aðilans

4.1. Tilgangur eftirlits er að tryggja að framleiðandinn ræki þær skyldur sem viðurkennda gæðakerfið leggur honum á herðar.

4.2. Framleiðandinn skal veita tilkynnta aðilanum aðgang í eftirlitsskyni að framleiðslu-, eftirlits-, prófunar- og geymslustöðum og fá honum í hendur allar nauðsynlegar upplýsingar, einkum:

- gögn um gæðakerfið,

- gæðaskýrslur, svo sem skoðunarskýrslur og prófunargögn, kvörðunargögn, skýrslur um menntun og hæfi starfsfólksins o.s.frv.

4.3. Tilkynnti aðilinn skal með jöfnu millibili líta eftir því að framleiðandi viðhaldi gæðakerfinu og noti það og gefa framleiðanda úttektarskýrslu.

4.4. Að auki getur tilkynnti aðilinn komið óvænt í heimsókn til framleiðandans. Honum er þá heimilt að gera eða láta gera prófanir til að ganga úr skugga um að gæðakerfið vinni rétt, ef með þarf. Tilkynnti aðilinn skal gefa framleiðandanum skýrslu um heimsóknina og, hafi prófun farið fram, prófunarskýrslu.

5. Framleiðandinn skal í minnst 10 ár eftir að síðasta vörueintak hefur verið framleitt geyma og hafa tiltækt fyrir yfirvöld í landinu:

- skjölin sem um getur í öðrum undirlið í lið 3.1,

- gögn um þær breytingar sem um getur í annarri undirgrein í lið 3.4,

- þær ákvarðanir og skýrslur frá tilkynnta aðilanum sem um getur í síðustu undirgrein í liðum 3.4, 4.3 og 4.4.

6. Sérhver tilkynntur aðili skal veita öðrum tilkynntum aðilum þær upplýsingar sem máli skipta varðandi samþykki fyrir gæðakerfum, sem hafa verið veitt eða afturkölluð.

X. VIÐAUKI

SANNPRÓFUN VÖRU

(aðferðareining F)

1. Í þessari aðferðareiningu er því lýst hvernig framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu prófar og vottar að vörur sem falla undir ákvæði 3. liðar séu í samræmi við gerðina sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og fullnægi viðeigandi kröfum tilskipunarinnar.

2. Framleiðandinn skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að framleiðsluferli tryggi að framleiddar vörur séu í samræmi við gerðina sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og við þær kröfur tilskipunarinnar sem við þær eiga. Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu skal setja CE-merkið á hvert vörueintak og gefa út samræmisyfirlýsingu (sjá XV. viðauka).

3. Tilkynnti aðilinn skal gera viðeigandi athuganir og prófanir til þess að athuga samræmi vöru við kröfur tilskipunarinnar annaðhvort með því að athuga og prófa hvert vörueintak eins og tilgreint er í 4. lið eða með athugun og prófun á tölfræðilegum grundvelli eins og tilgreint er í 5. lið, eftir vali framleiðandans.

3.a Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal geyma afrit af samræmisyfirlýsingunni í minnst 10 ár eftir að síðasta vörueintak hefur verið framleitt.

4. Sannprófun með athugun og prófun á hverju vörueintaki

4.1. Hvert vörueintak skal sérstaklega athugað og prófanir sem við eiga, eins og mælt er fyrir um í viðeigandi staðli/stöðlum sem um getur í 5. gr. eða jafngildar prófanir, skulu gerðar til að sannreyna samræmi varanna við gerðina sem lýst er í EB-gerðarprófunarvottorðinu og viðeigandi kröfur tilskipunarinnar.

4.2. Tilkynnti aðilinn skal setja eða láta setja kenninúmer sitt á hvert samþykkt vörueintak og gefa út skriflegt samræmisvottorð með hliðsjón af þeim prófunum sem hafa verið gerðar.

4.3. Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal tryggja að hann geti útvegað samræmisvottorð tilkynnta aðilans ef óskað er eftir því.

5. Tölfræðileg sannprófun

5.1. Framleiðandinn skal leggja vörur sínar fram í einsleitum framleiðslueiningum og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að framleiðsluferli tryggi að allar framleiðslueiningar verði einsleitar.

5.2. Allar vörur skulu tiltækar til sannprófunar í einsleitum framleiðslueiningum. Slembiúrtak skal tekið úr hverri framleiðslueiningu. Vörueintök í úrtaki skulu athuguð hvert fyrir sig og viðeigandi prófanir, eins og mælt er fyrir um í viðeigandi staðli/stöðlum sem um getur í 5. gr., eða jafngildar prófanir gerðar til að tryggja samræmi við þær kröfur tilskipunarinnar sem við þau eiga og til að úrskurða hvort framleiðslueiningin sé samþykkt eða henni sé hafnað.

5.3. Við tölfræðimeðferðina skal nota eftirtalda þætti:

- tölfræðiaðferðina sem á að beita,

- framkvæmdareiginleika úrtaksáætlunar.

5.4. Þegar um samþykkta framleiðslueiningu er að ræða skal tilkynnti aðilinn setja eða láta setja kenninúmer sitt á hvert vörueintak og útbúa skriflegt samræmisvottorð með hliðsjón af þeim prófunum sem gerðar hafa verið. Öll vörueintök í framleiðslueiningunni má setja á markað nema þau sem ekki hafa reynst vera í samræmi.

Ef framleiðslueiningu er hafnað skal tilkynnti aðilinn eða þar til bær yfirvöld gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að framleiðslueiningin sé sett á markað. Ef algengt er að framleiðslueiningum sé hafnað getur tilkynnti aðilinn stöðvað tölfræðilega sannprófun tímabundið.

Framleiðandinn getur á ábyrgð tilkynnta aðilans sett kenninúmer hans á vöruna meðan á framleiðslu stendur.

5.5. Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal sjá til þess að hann geti útvegað samræmisvottorð tilkynnta aðilans ef óskað er.

XI. VIÐAUKI

EININGARSANNPRÓFUN

(aðferðareining G)

1. Í þessari aðferðareiningu er því lýst hvernig framleiðandi sér til þess og lýsir yfir að viðkomandi vörur sem fengið hafa vottorð eins og um getur í 2. lið fullnægi þeim kröfum tilskipunarinnar sem við þær eiga. Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu í bandalaginu skal setja CE-merkið á hvert vörueintak og gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu (sjá XV. viðauka).

2. Tilkynnti aðilinn skal athuga hvert einstakt vörueintak og gera viðeigandi prófanir eins og mælt er fyrir um í tilheyrandi staðli/stöðlum sem um getur í 5. gr., eða jafngildar prófanir til að tryggja samræmi við þær kröfur tilskipunarinnar sem við eiga. Tilkynnti aðilinn skal setja eða láta setja kenninúmer sitt á hvert samþykkt vörueintak og útbúa samræmisvottorð með hliðsjón af þeim prófunum sem gerðar hafa verið.

3. Markmið tækniskjalanna er að gera kleift að meta samræmi við kröfur tilskipunarinnar og skilja hönnun, framleiðslu og notkun vörunnar (sjá XIII. viðauka).

XII. VIÐAUKI

FULL GÆÐATRYGGING

(aðferðareining H)

1. Í þessari aðferðareiningu er því lýst hvernig framleiðandi sem rækir þær skyldur sem lýst er í 2. lið ábyrgist og lýsir yfir að viðkomandi vörur fullnægi þeim kröfum tilskipunarinnar sem við þær eiga. Framleiðandi skal setja CE-merkið á hvert vörueintak og gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu (sjá XV. viðauka). CE-merkinu skal fylgja kenninúmer þess tilkynnta aðila sem ber ábyrgð á eftirliti eins og tilgreint er í 4. lið.

2. Framleiðandinn skal nota viðurkennt gæðakerfi við hönnun, framleiðslu, lokaeftirlit og prófun eins og tilgreint er í 3. lið og skal vera háður eftirliti eins og tilgreint er í 4. lið.

3. Gæðakerfi

3.1. Framleiðandinn skal leggja inn umsókn um mat á gæðakerfi sínu hjá tilkynntum aðila.

Umsókn skal innihalda:

- allar upplýsingar sem máli skipta um þann vöruflokk sem um er að ræða,

- gögn um gæðakerfið.

3.2. Gæðakerfið á að tryggja að vörurnar séu í samræmi við þær kröfur tilskipunarinnar sem við þær eiga.

Alla þá þætti, kröfur og ákvæði sem framleiðandi hefur tekið tillit til skal skjalfesta á kerfisbundinn og skipulegan hátt sem skriflegar reglur, aðferðir og leiðbeiningar. Þessi gögn um gæðakerfið verða að vera með þeim hætti að gæðastefna og -aðferðir, svo sem gæðaáætlanir, -skipulag, -handbækur og -skrár séu alltaf túlkaðar á sama hátt.

Gögnin skulu einkum innihalda fullnægjandi lýsingu á:

- gæðamarkmiðum og skipulagi, ábyrgð og valdi stjórnenda með tilliti til gæða hönnunar og vöru,

- þeim tæknilegu hönnunarforskriftum, þar með töldum stöðlum, sem beita skal og, í þeim tilvikum sem stöðlunum sem um getur í 5. gr. verður ekki beitt að fullu, þeim aðferðum sem notaðar verða til að tryggja að þær grunnkröfur tilskipunarinnar sem eiga við vörurnar verði uppfylltar,

- þeirri tækni til stýringar og sannprófunar á hönnun og þeim aðferðum og kerfisbundnu aðgerðum sem beitt verður við hönnun varanna í þeim vöruflokki sem um ræðir,

- tilsvarandi aðferðum, ferlum og kerfisbundnum aðgerðum sem nota á við framleiðslu, gæðastýringu og gæðatryggingu,

- þeim athugunum og prófunum sem gerðar verða fyrir, við og eftir framleiðslu, og hversu oft þær verða gerðar,

- gæðaskýrslum, svo sem skoðunarskýrslum og prófunargögnum, kvörðunargögnum, skýrslum um menntun og hæfi starfsfólksins o.s.frv.,

- hvernig fylgst er með því að tilskilin hönnunar- og vörugæði hafi náðst, og að gæðakerfið sé skilvirkt.

3.3. Tilkynnti aðilinn skal meta gæðakerfið til þess að ákveða hvort það fullnægi kröfunum sem um getur í lið 3.2. Hann skal gera ráð fyrir samræmi við kröfurnar ef viðeigandi samhæfðum staðli (EN 29001) er beitt í gæðakerfinu.

Í úttektarhópnum skal að minnsta kosti vera einn maður með reynslu sem matsmaður við þá framleiðslutækni sem um er að ræða. Matið skal fela í sér heimsókn á athafnasvæði framleiðanda.

Ákvörðunin skal tilkynnt framleiðandanum. Tilkynning skal innihalda niðurstöður athugunarinnar og rökstudda ákvörðun um mat.

3.4. Framleiðandinn skal skuldbinda sig til að rækja þær skyldur sem gæðakerfið, í þeirri mynd sem það hefur verið samþykkt, leggur honum á herðar og að viðhalda því svo að það sé fullnægjandi og skilvirkt.

Framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans skal upplýsa þann tilkynnta aðila sem hefur viðurkennt gæðakerfið um allar fyrirhugaðar breytingar á því.

Tilkynnti aðilinn skal meta þær breytingar sem lagðar eru til og ákveða hvort breytt gæðakerfi muni enn fullnægja kröfunum sem um getur í lið 3.2 eða hvort nýtt mat þurfi að fara fram.

Hann skal tilkynna framleiðandanum ákvörðun sína. Tilkynning skal innihalda niðurstöður athugunarinnar og rökstudda ákvörðun um mat.

4. EB-eftirlit á ábyrgð tilkynnta aðilans

4.1. Tilgangur eftirlits er að tryggja að framleiðandinn ræki þær skyldur sem viðurkennda gæðakerfið leggur honum á herðar.

4.2. Framleiðandinn skal veita tilkynnta aðilanum aðgang í eftirlitsskyni að þeim stöðum þar sem fram fer framleiðsla, eftirlit og prófun, og einnig geymslustöðum og fá honum í hendur allar nauðsynlegar upplýsingar, einkum:

- gögn um gæðakerfið,

- gæðaskýrslur frá hönnunarhluta gæðakerfisins, svo sem niðurstöður greininga, útreikninga, prófana o.s.frv.,

- gæðaskýrslur frá framleiðsluhluta gæðakerfisins, svo sem skoðunarskýrslur og prófunargögn, kvörðunargögn, skýrslur um menntun og hæfi starfsfólksins o.s.frv.

4.3. Tilkynnti aðilinn skal með jöfnu millibili líta eftir því að framleiðandi viðhaldi gæðakerfinu og noti það og gefa framleiðandanum úttektarskýrslu.

4.4. Að auki getur tilkynnti aðilinn komið óvænt í heimsókn til framleiðandans. Honum er þá heimilt að gera eða láta gera prófanir til að ganga úr skugga um að gæðakerfið vinni rétt, ef með þarf. Tilkynnti aðilinn skal gefa framleiðandanum skýrslu um heimsóknina og, hafi prófun farið fram, prófunarskýrslu.

5. Framleiðandinn skal í minnst 10 ár eftir að síðasta vörueintak hefur verið framleitt geyma og hafa tiltækt fyrir yfirvöld í landinu:

- skjölin sem um getur í öðrum undirlið í lið 3.1,

- gögn um þær breytingar sem um getur í annarri undirgrein í lið 3.4,

- þær ákvarðanir og skýrslur frá tilkynnta aðilanum sem um getur í síðustu undirgrein í liðum 3.4, 4.3 og 4.4.

6. Sérhver tilkynntur aðili skal veita öðrum tilkynntum aðilum þær upplýsingar sem máli skipta varðandi samþykki fyrir gæðakerfum sem veitt hafa verið eða afturkölluð.

XIII. VIÐAUKI

TÆKNISKJÖL SEM FRAMLEIÐANDI LEGGUR FRAM

Í tækniskjölum sem um getur í V., VII., VIII., IX. og XI. viðauka skulu vera öll viðeigandi gögn eða aðferðir sem framleiðandi notar til að tryggja að bátar og búnaður þeirra samræmist grunnkröfunum sem eiga við um þá.

Tækniskjölin skulu gera kleift að meta samræmi við kröfur tilskipunarinnar og skilja hönnun, framleiðslu og notkun vörunnar.

Skjölin skulu innihalda, að svo miklu leyti sem máli skiptir fyrir matið:

- almenna lýsingu á gerðinni,

- heildarlýsingu á hönnun og framleiðsluteikningar og skýringarmyndir af búnaði, samsettum hlutum, straumrásum o.fl.,

- lýsingar og útskýringar sem nauðsynlegar eru til að skilja umræddar teikningar og skýringarmyndir og fyrir notkun vörunnar,

- skrá yfir staðla sem getið er um í 5. gr. og sem beitt er að fullu eða að hluta og lýsingu á þeim lausnum sem valdar hafa verið, til að fullnægja grunnkröfum tilskipunarinnar þar sem stöðlunum sem getið er um í 5. gr. hefur ekki verið beitt,

- niðurstöður hönnunarútreikninga og athugana sem gerðar hafa verið o.s.frv.,

- prófunarskýrslur eða útreikninga um stöðugleika í samræmi við lið 3.2 í grunnkröfunum og um uppdrift í samræmi við lið 3.3 í grunnkröfunum.

XIV. VIÐAUKI

LÁGMARKSSKILYRÐI SEM AÐILDARRÍKIN ÞURFA AÐ TAKA TILLIT

TIL ÞEGAR ÞAU TILNEFNA SKOÐUNARAÐILA

TIL AÐ FRAMKVÆMA SANNPRÓFUN

1. Stjórnandi eða starfsmenn skoðunaraðilans sem annast sannprófanir mega ekki vera hönnuðir, framleiðendur, söluaðilar eða vinna við samsetningu þeirra báta eða búnaðar þeirra sem þeir skoða né vera viðurkenndir fulltrúar neins þessara aðila. Þeir mega hvorki sjálfir né fyrir hönd annarra hafa bein afskipti af hönnun, smíði, markaðssetningu eða viðhaldi áðurnefndra vara. Þetta útilokar þó ekki möguleikann á gagnkvæmum upplýsingum um tæknileg atriði milli framleiðandans og skoðunaraðilans.

2. Skoðunaraðilinn og starfsmenn hans sem annast sannprófanir skulu gæta þess að þær séu unnar af tæknilegri færni og faglegri ráðvendni og vera óháðir öllum áhrifum og þrýstingi, einkum af efnahagslegum toga, sem gæti haft áhrif á mat þeirra eða niðurstöður skoðunar, sérstaklega frá einstaklingum eða hópum einstaklinga sem hafa hagsmuna að gæta í sambandi við niðurstöður prófana.

3. Skoðunaraðilinn skal hafa yfir að ráða starfskröftum og búnaði sem nauðsynlegur er til að inna af hendi þá tæknivinnu og stjórnunarstörf sem tengjast sannprófun; einnig skal vera fyrir hendi nauðsynlegur búnaður til að framkvæma sannprófanir sem heyra til undantekninga.

4. Starfsmenn sem annast skoðun skulu hafa:

- trausta tækni- og fagmenntun,

- viðunandi þekkingu á kröfum sem gerðar eru til prófana sem þeir framkvæma og nægilega reynslu af slíkum prófunum,

- kunnáttu í að gefa vottorð, greinargerðir og skýrslur sem skýra frá niðurstöðum prófananna.

5. Tryggja verður óhlutdrægni skoðunarmanna. Þóknun hvers og eins má hvorki byggjast á fjölda prófana né á niðurstöðum slíkra prófana.

6. Skoðunaraðilinn verður að hafa ábyrgðartryggingu, nema skoðunin sé á ábyrgð ríkisins á grundvelli landslaga eða framkvæmd á vegum aðildarríkisins.

7. Starfsmenn skoðunaraðilans eru bundnir þagnarskyldu um allt sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu (nema gagnvart lögbærum stjórnvöldum í ríkinu þar sem þeir starfa) í samræmi við þessa tilskipun og sértilskipanir eða þau ákvæði sem kunna að vera í landslögum.

XV. VIÐAUKI

SKRIFLEG SAMRÆMISYFIRLÝSING

1. Skrifleg yfirlýsing um samræmi við ákvæði tilskipunarinnar skal alltaf fylgja:

- skemmtibátum og vera hluti af handbók eiganda (liður 2.5, I. viðauki),

- búnaðinum sem um getur í II. viðauka.

2. Skriflega samræmisyfirlýsingin skal innihalda eftirfarandi4(1):

- nafn og heimilisfang framleiðanda eða viðurkennds fulltrúa hans með staðfestu í bandalaginu(2),

- lýsingu á skemmtibátnum(3) eða á búnaði hans(3),

- tilvísanir í viðeigandi samhæfða staðla sem eru notaðir eða tilvísanir í forskriftir sem samræmisyfirlýsing miðast við,

- eftir því sem við á, tilvísun í vottorð um EB-gerðarprófun sem gefið er út af tilkynntum aðila,

- eftir því sem við á, nafn og heimilisfang tilkynnta aðilans,

- auðkenni einstaklings sem hefur umboð til að undirrita fyrir hönd framleiðanda eða viðurkennds fulltrúa hans með staðfestu í bandalaginu.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica