Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

893/2001

Reglugerð um próf og löggildingu fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur.

1. gr.

Sá sem vill öðlast rétt til að vera dómtúlkur og skjalaþýðandi samkvæmt lögum um dómtúlka og skjalþýðendur nr. 148 20. desember 2000 skal, samkvæmt ákvæðum 3. gr. nefndra laga, sanna kunnáttu sína í tungu þeirri sem hann vill öðlast rétt til að túlka fyrir dómi og þýða skjöl úr og á með því að standast prófraun sem dómsmálaráðuneytið efnir til.

Með umsókn um að þreyta prófraun skal fylgja sakavottorð og yfirlýsing umsækjanda um að hann sé lögráða. Einnig skal fylgja yfirlit um nám og starfsferil.

2. gr.

Efna skal til prófraunar að jafnaði annað hvert ár. Prófraun til skjalaþýðingarréttinda er skrifleg og skiptist í tvo hluta, sameiginlegt próf í prófstofu og heimaverkefni. Fyrir þá sem óska eftir að öðlast réttindi sem dómtúlkar fer fram sérstök munnleg prófraun. Prófraun skal hagað sem hér segir:

I. Sameiginlegt próf í prófstofu.

Prófið fer fram undir eftirliti prófstjórnar. Haldin eru tvö fjögurra tíma skrifleg próf. Í öðru prófinu er þýtt úr erlenda málinu á íslensku en í hinu úr íslensku á erlenda málið. Textar í hvoru prófi skulu vera samtals 500 orð að jafnaði. Við próftökuna má nota orðabækur og önnur hjálpargögn sem prófstjórn samþykkir. Ekki er heimilt að nota tölvur eða ritvélar.

II. Heimaverkefni.

Prófið felst í því að próftaki fær tvo texta til þýðingar, annan á íslensku og hinn á hinu erlenda máli. Skal hvor texti vera um það bil 500 orð og valinn þannig að hann reyni á færni próftaka til að þýða erfiða texta á gott mál og til að leita fanga um lausn á þýðingarvanda sem skjalaþýðendur geta þurft að glíma við. Skal próftaki skila heimaverkefni innan viku frá móttöku þess.

III. Munnlegt próf í dómtúlkun.

Prófið fer fram að viðstaddri prófnefnd. Próftaki skal túlka talað mál úr íslensku á hið erlenda mál og úr því á íslensku. Próftími skal vera 20-30 mínútur. Verkefnin skulu vera á hljóð- eða myndbandi eða sambærilegum miðli og varða dæmigert réttarhald, svo sem vitnaleiðslu. Skal próftaki túlka verkefnið í stuttum lotum, eins og tíðkast við réttarhöld.

3. gr.

Prófstjórn skal efna til kynningar fyrir þá sem hyggjast þreyta próf og ber próftaka að sækja slíka kynningu. Skal þar leiðbeint um frágang skjala og kynnt lög og reglugerðir er snerta störf skjalaþýðenda.

4. gr.

Þeir sem óska eftir að þreyta prófraun skulu, er þeir leggja fram umsókn, greiða prófgjald sem dómsmálaráðherra ákveður að fengnum tillögum prófstjórnar. Skal gjaldið miðað við að það nægi til að mæta kostnaði við prófraunina í heild.

Gjaldið er óendurkræft þótt próftaki standist ekki prófið eða mæti ekki til prófs.

5. gr.

Dómsmálaráðherra skipar til 4 ára í senn þriggja manna prófstjórn til að sjá um framkvæmd prófs skv. 3. gr. og samræmingu starfa prófnefnda.

Dómsmálaráðherra skipar fyrir hvert próftímabil prófnefnd sem skal skipuð formanni og tveimur meðprófdómendum fyrir hvert það mál sem prófað er í. Skulu tveir þeirra vera löggiltir skjalaþýðendur í viðkomandi máli ef kostur er og einn sérfróður um íslenskt mál.

6. gr.

Prófdómendur skulu í sameiningu meta úrlausnir.

Við mat á úrlausnum á skriflegu prófi skal prófnefnd leggja áherslu á að þýðing sýni fullkominn skilning á frumtexta, málfar sé gott og að próftaki komi til skila stíl þess texta sem þýddur er.

Við mat á heimaverkefni er krafist réttrar þýðingar að mati prófnefndar, að málfar sé gott, stíll viðeigandi og frágangur vandaður, enda standist úrlausnin að öllu leyti kröfur sem gerðar eru til skjala sem hafa réttarlegt gildi.

Þegar prófnefnd hefur farið yfir úrlausnir og lagt mat sitt á þær, getur hún krafist þess að próftaki geri grein fyrir þeim munnlega.

Við mat á frammistöðu próftaka í munnlegu prófi í dómtúlkun skal prófnefnd einkum taka mið af nákvæmni, málfærni og glöggum skilningi próftaka.

Að mati loknu skal prófnefnd senda prófstjórn greinargerð um úrlausnir hvers próftaka, undirritaða af öllum prófnefndarmönnum, þar sem fram kemur mat á því hvort hún telji próftaka hafa kunnáttu og leikni til að öðlast löggildingu sem dómtúlkur og/eða skjalaþýðandi, bæði úr íslensku á hið erlenda mál og úr hinu erlenda máli á íslensku eða aðeins af hinu erlenda máli á íslensku eða öfugt. Mat prófnefndar er endanlegt.

Prófstjórn gefur út prófskírteini til þeirra sem staðist hafa próf þar sem fram kemur í hvaða máli og í hvaða þáttum prófs próftaki hefur staðist próf. Ráðherra veitir löggildingu að fenginni umsókn próftaka og greiðslu löggildingargjalds samkvæmt aukatekjulögum.

7. gr.

Nú er ekki kostur á prófdómendum í tungumáli sem sótt er um löggildingu í og má þá, ef sérstaklega stendur á, veita hana á grundvelli háskólaprófs og verulegrar reynslu í þýðingum, enda leggi umsækjandi fram fullnægjandi gögn þar um og prófstjórn mæli með því. Einnig er heimilt að veita löggildingu án prófs á grundvelli erlendrar löggildingar ef annað þeirra tungumála sem hún nær til er íslenska og prófstjórn mælir með því.

8. gr.

Heimilt er að veita löggildingu til starfa sem dómtúlkur fyrir heyrnarlausa. Þeir sem óska slíkrar löggildingar skulu sanna hæfni sína fyrir prófnefnd. Gilda ákvæði reglugerðar þessarar um slíkt próf eftir því sem við á.

9. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um dómtúlka og skjalþýðendur nr. 148 20. desember 2000 öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi numin reglugerð um sama efni nr. 26 16. janúar 1989.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 22. nóvember 2001.

Sólveig Pétursdóttir.

Björn Friðfinnsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.