Fjármálaráðuneyti

869/2004

Reglugerð um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. - Brottfallin

1. gr.
Markmið.

Markmið með þessari reglugerð er að greiða fyrir flutningum á sjó með því að kveða á um stöðlun formsatriða við skýrslugjöf.


2. gr.
Gildissvið.

Þessi reglugerð gildir um formsatriði við skýrslugjöf þegar skip kemur í og/eða lætur úr höfn í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eins og kveðið er á um í A-hluta I. viðauka, að því er varðar skipið, vistir þess, persónulega muni áhafnarinnar, áhafnarlista og farþegaskrá, ef um er að ræða skip sem er heimilt að hafa 12 farþega innanborðs eða færri.


3. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari og viðaukum við hana er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a) "IMO FAL-samningurinn": alþjóðasamningur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar frá 9. apríl 1965 um einföldun formsatriða í alþjóðlegum sjóflutningum sem samþykktur var á alþjóðaráðstefnu um einföldun ferða og flutninga á sjó;
b) "IMO FAL-eyðublöð": stöðluð fyrirmynd Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að einfölduðu eyðublaði af stærðinni A4 sem kveðið er á um í IMO FAL-samningnum;
c) "formsatriði við skýrslugjöf": upplýsingar sem skylt er að veita, ef ríki á Evrópska efnahagssvæðinu fer fram á slíkt, af ástæðum er varða stjórnsýslu og málsmeðferð þegar skip kemur í eða lætur úr höfn;
d) "skip" hafskip, hvaða gerðar sem er, sem er starfrækt í siglingum á sjó;
e) "skipsvistir": vörur til nota á skipinu, þ. m. t. neysluvörur, vörur ætlaðar til að selja farþegum og áhöfn, eldsneyti og smurolíur, aðrar en skipsbúnaður og varahlutir;
f) "skipsbúnaður": hlutir, aðrir en varahlutir í skipið, sem eru um borð í skipinu, ætlaðir til nota á því og hægt er að fjarlægja en eru ekki ætlaðir til neyslu, þ. m. t. fylgihlutir á borð við björgunarbáta, húsgögn, fatnað og því um líkt;
g) "varahlutir í skip": hlutir sem tengjast viðgerðum eða endurnýjun, ætlaðir til ísetningar í skipið sem þeir eru um borð í;
h) "persónulegir munir áhafnar": fatnaður, munir til daglegra nota og aðrir hlutir, þ. m. t. gjaldeyrir, í eigu áhafnar og er um borð í skipinu;
i) "skipverji": einstaklingur sem er ráðinn til skyldustarfa um borð meðan á sjóferð stendur í tengslum við rekstur eða viðhald skipsins og er skráður á áhafnarskrána.


4. gr.
Viðurkenning eyðublaða.

Formsatriði við skýrslugjöf, sem um getur í 2. gr., teljast uppfyllt ef veittar upplýsingar eru í samræmi við:

a) viðeigandi forskriftir eins og kveðið er á um í B- og C-hluta I. viðauka og
b) samsvarandi fyrirmyndir að eyðublöðum og kveðið er á um í II. viðauka að því er varðar gagnaflokka.


5. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 53. gr. tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, og c-lið 1. mgr. og 2. mgr. 54. gr. 96/2002 laga um útlendinga, nr. 96/2002, til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2002/6/EB frá 18. febrúar 2002 um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í aðildarríkjum bandalagsins, sem vísað er til í 56i í XIII. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 106/2002 frá 12. júlí 2002 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn. Tilskipunin hefur verið birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB nr. 67, dags. 9. mars 2002 (bls. 32).

Reglugerðin öðlast gildi 1. desember 2004.


Fjármálaráðuneytinu, 25. október 2004.

F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.
Lilja Sturludóttir.


I. VIÐAUKI

A- HLUTI
Skrá yfir formsatriði við skýrslugerð, sem um getur í 2. gr., að því er varðar skip sem koma í og/ eða láta úr höfn í aðildarríkjum bandalagsins.


1. IMO FAL-eyðublað nr. 1, almenn yfirlýsing.

Við komu og brottför skal almenna yfirlýsingin vera grunnskjalið þar sem fram koma upplýsingar sem ríki Evrópska efnahagssvæðisins krefjast og varða skipið.


2. IMO FAL-eyðublað nr. 3, yfirlýsing um skipsvistir.
Við komu og brottför skal yfirlýsing um skipsvistir vera grunnskjalið þar sem fram koma upplýsingar sem aðildarríkin krefjast og varða skipsvistir.


3. IMO FAL-eyðublað nr. 4, yfirlýsing um persónulega muni áhafnar.
Við komu og brottför skal yfirlýsing um persónulega muni áhafnar vera grunnskjalið þar sem fram koma upplýsingar sem ríki Evrópska efnahagssvæðisins krefjast og varða persónulega muni áhafnarinnar. Þess er ekki krafist þegar lagt er úr höfn.


4. IMO FAL-eyðublað nr. 5, áhafnarskrá.
Við komu og brottför skal áhafnarskrá vera grunnskjalið þar sem ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru veittar upplýsingar varðandi fjölda skipverja og samsetningu áhafnar. Ef yfirvöld fara fram á upplýsingar um áhöfn skips við brottför þess skal afrit af áhafnarskránni, sem framvísað var við komu, samþykkt við brottför, ef það hefur verið undirritað að nýju og áritað, til að sýna fram á allar breytingar sem hafa orðið á fjölda í áhöfn eða samsetningu áhafnar eða til að sýna fram á að engar slíkar breytingar hafi orðið.


5. IMO FAL-eyðublað nr. 6, farþegaskrá.
Að því er varðar skip sem er heimilt að hafa 12 farþega innanborðs, eða færri, skal farþegaskráin vera grunnskjalið þar sem ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eru veittar upplýsingar um farþega við komu og brottför skipsins.


B- HLUTI
Undirritunaraðilar.


1. IMO FAL-eyðublað nr. 1, almenn yfirlýsing.

Yfirvöld í aðildarríki skulu viðurkenna almenna yfirlýsingu sem er dagsett og undirrituð annaðhvort af skipstjóranum, umboðsmanni skipsins eða einhverjum öðrum einstaklingi, sem fengið hefur fullt umboð skipstjórans til þess, eða er staðfest á þann hátt sem viðkomandi yfirvald samþykkir.


2. IMO FAL- eyðublað nr. 3, yfirlýsing um skipsvistir.
Yfirvöld aðildarríkjanna skulu viðurkenna yfirlýsingu um skipsvistir sem er dagsett og undirrituð annaðhvort af skipstjóranum eða af öðrum yfirmanni á skipinu, sem fengið hefur fullt umboð skipstjórans til þess, og hefur persónulega vitneskju um birgðir skipsins, eða er staðfest á þann hátt sem viðkomandi yfirvald samþykkir.


3. IMO FAL- eyðublað nr. 4, yfirlýsing um persónulega muni áhafnar.
Yfirvöld skulu viðurkenna yfirlýsingu um persónulega muni áhafnar sem er dagsett og undirrituð annaðhvort af skipstjóranum eða af öðrum yfirmanni á skipinu, sem fengið hefur fullt umboð skipstjórans til þess, eða er staðfest á þann hátt sem viðkomandi yfirvald samþykkir. Yfirvöld geta einnig krafist þess að sérhver skipverji riti nafn sitt eða, ef hann er ófær um slíkt, setji merki sitt í yfirlýsinguna að því er varðar persónulega muni sína.


4. IMO FAL- eyðublað nr. 5, áhafnarskrá.
Yfirvöld skulu viðurkenna áhafnarskrá sem er dagsett og undirrituð annaðhvort af skipstjóranum eða öðrum yfirmanni á skipinu, sem fengið hefur fullt umboð skipstjórans til þess, eða er staðfest á þann hátt sem viðkomandi yfirvald samþykkir.


5. IMO FAL- eyðublað nr. 6, farþegaskrá.
Að því er varðar skip sem heimilt er að hafa 12 farþega innanborðs eða færri skulu yfirvöld viðurkenna farþegaskrá sem er dagsett og undirrituð annaðhvort af skipstjóranum, umboðsmanni skipsins eða einhverjum öðrum einstaklingi, sem fengið hefur fullt umboð skipstjórans til þess, eða er staðfest á þann hátt sem viðkomandi yfirvald samþykkir.



C- HLUTI
Tæknilegar forskriftir.


1. Snið IMO FAL-eyðublaðanna skal fylgja eins nákvæmlega og unnt er hlutföllunum sem sýnd eru í fyrirmyndunum sem birt eru í II. viðauka. Eyðublöðin skulu prentuð á stök blöð af stærðinni A4 (210 mm × 297 mm), með skammsniði. Að minnsta kosti einn þriðji af bakhlið eyðublaðanna skal nýtanlegur fyrir yfirvöld í opinberum tilgangi.

Að því er varðar viðurkenningu IMO FAL-eyðublaðanna skal það snið og útlit stöðluðu, einfölduðu eyðublaðanna, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin mælir með og gefur út og byggist á IMO FAL- samningnum, eins og hann var í gildi 1. maí 1997, talið jafngilt sniðinu í II. viðauka.


2. Yfirvöld skulu samþykkja upplýsingar sem miðlað er á allan læsilegan og skiljanlegan hátt, þ. m. t. eyðublöð sem fyllt eru út með bleki eða óafmáanlegum blýöntum eða gerð með sjálfvirkri gagnavinnslutækni.


3. Með fyrirvara um rafrænar aðferðir við gagnasendingar skal yfirvald, sem viðurkennir tilkynningu skips um gagnasendingu á rafrænu formi, viðurkenna sendingu slíkra upplýsinga þegar rafrænar aðferðir, sem uppfylla alþjóðlega staðla, eru notaðar við gagnavinnsluna eða sendingarnar, að því gefnu að sendingarnar séu læsilegar og skiljanlegar og innihaldi þær upplýsingar sem krafist er.

Yfirvöld geta í framhaldinu unnið gögn, sem þau hafa fengið, í hvaða formi sem þau telja heppilegast.


II. VIÐAUKI
Fyrirmyndir að IMO FAL-eyðublöðum sem um getur í 4. gr. og í I. viðauka.
(pdf-snið)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica